Sunnudagskaffi og bókakynning í Þórbergssetri

Einn sólardag í sumar komu hjónin Þorvaldur Gylfason og Anna Karitas Bjarnadóttir færandi hendi í Þórbergssetur. Var mikill asi á þeim, en þau sögðust hafa í farteskinu mynd sem tengdamóðir Önnu gaf henni. Tengdamóðir hennar var Guðrún Vilmundardóttir, dóttir Vilmundar Jónssonar landlæknis sem bjó lengi á Ísafirði eða allt til ársins 1931.. Hann var Skaftfellingur í móðurætt og mikill vinur Þórbergs Þórðarsonar. Þórbergur heimsótti hann oft og dvaldi langdvölum hjá fjölskyldu hans vestur á Ísafirði. Myndin hefur verið tekin á einhverjum af ferðalögum þeirra fyrir vestan og þá sennilega fyrir 1930, en ekki er vitað nákvæmlega um tildrög þeirrar ferðar. Myndin hefur án efa verið afskaplega nýstárleg á þeim tíma, þrír flottir stælgæjar saman á ferðalagi á nýmóðins fararskjóta. Þórbergur er lengst til vinstri á myndinni, Vilmundur í miðjunni en ekki er vitað hver þessi einkennisklæddi bílstjóri er. Myndin verður innrömmuð og sett inn á sýninguna í Þórbergssetri við fyrsta tækifæri. Þórbergssetur þakkar þeim hjónum gjöfina og þann góða hug sem henni fylgir og hressilega heimsókn í Þórbergssetur sumarið 2022.
Fjölmennt Bridgemót var haldið í Þórbergssetri helgina 30.apríl - 1. maí. Það var mikil kátína og gleði að hittast aftur eftir tveggja ára covid hlé en spilaður var tvímenningur á 16 borðum alls. Margir nýir spilarar mættu og höfðu á orði að þeir myndu koma aftur að ári. Mótið hófst reyndar á föstudagskvöldið, þá var svokallað bjórmót, upphitun fyrir aðal spilamennskuna. Tvímenningskeppnin hófst svo kl 2 á laugardeginum og spilað var linnulaust fram eftir kvöldi. Tekið var þó hlé og etið spikfeitt hrossakjöt með öllu tilheyrandi við mikla ánægju veislugesta. Alltaf er besta kjötið í hverri hrossakjötsveislunni eftir aðra en þetta mun hafa verið 14. mótið sem haldið hefur verið. Síðan var spilað á sunnudeginum frá kl 10 - 15 en þá lágu úrslitin fyrir. Vinningshafar voru Eðvarð Hallgrímsson og Bjarni Guðmundsson og náðu þeir 57,3 % nýtingu í keppninni. Í öðru sæti voru Bernódus Kristinsson og Ingvaldur Gústafsson og í þriðja sæti Jón Halldór Guðmundsson og Einar H.Guðmundsson.Meðfylgjandi eru öll úrslit frá mótinu. Bridgemótið er haldið í minningu Torfa Steinþórssonar á Hala (1915 - 2001) . Uppáhaldsmatur hans var saltað og feitt hrossakjöt. Torfi var mikill veiðimaður og veiddi silung í Breiðabólsstaðarlóni öll sumur fram yfir áttrætt. Það átti því líka vel við að hafa stórt bleikjuhlaðborð í hádeginu á hátíðisdaginn 1. maí og fóru því vonandi allir saddir og sælir heim eftir að njóta samveru í einstakri veðurblíðu í sveit sólar, - Suðursveit.
Úrslit mótsins er að finna hér.
Á Skriðuklaustri er hefð fyrir að hafa dagskrá á konudaginn sem að þessu sinni var sunnudagurinn 20. febrúar. Þórbergssetri var boðið að kynna þar verkefnið um búsetuminjar í Suðursveit. Vegna covid tókst ekki að mæta á staðinn en tæknin var notuð og erindið flutt i fjarfundi með beinu streymi. Tókst þetta með ágætum þó að væri hálf einmanalegt fyrir fyrirlesara að rýna í skjáinn í stofunni heima á Hala þá tókst að koma efninu vel til skila.