Skip to main content

Í minningu Önnu Þóru Steinþórsdóttur frá Hala

1Anna Þóra Steinþórsdóttir frá Hala í Suðursveit lést 12. mars síðastliðinn á 104, aldursári. Foreldrar hennar voru Steinþór Þórðarson ( 1892 - 1981) bóndi og Steinunn Guðmundsdóttir( 1888 - 1981) húsfreyja á Hala í Suðursveit. Þóra var jarðsungin frá Laugarneskirkju 22. mars. Útförinni var streymt og komu nokkrir ættingjar Þóru saman í Þórbergssetri til að vera viðstaddir útförin. Meðal gesta var Ingibjörg Zophoníasardóttir mágkona hennar á 98. aldursári, gift Torfa Steinþórssyni bróður Þóru, en hann lést árið 2001 þá 86 ára að aldri. Það var hátíðleg stund í Þórbergssetri þennan jarðarfarardag, mynd var varpað á stórt tjald í sýningarsal setursins og hljóðgæði í útsendingu voru góð. Steinþór faðir Þóru og Torfa var bróðir Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar og bjó alla tíð á Hala. Þóra ólst upp á Hala til fullorðinsára, en bjó síðan alla ævi í Reykjavík. Hér er birt minningargrein sem Steinunn Torfadóttir bróðurdóttir Þóru skrifaði um föðursystur sína og lýsir vel sterkum ættartengslum og tengingum Þóru ,,frænku" við ættingjana heima í Suðursveit.. Blessuð sé minning Önnu Þóru Steinþórsdóttur .

Lesa meira

Jólakveðja frá Þórbergssetri

DSC01663A.jpgÞórbergssetur hefur verið lokað síðan 1. nóvember vegna áhrifa frá Covid 19 faraldrinum. Það má því segja að nú verði mikil friðarins jól á Halabæjunum og fáir á ferli miða við undanfarin ár. Náttúran skartar samt áfram sínu fegursta á milli þess sem hún ögrar okkur mannfólkinu með sínum ógnarkrafti. Í gærkvöldi dönsuðu norðurljósin hér yfir og lýstu upp allan himininn í ótal litbrigðum og meira að segja Öræfajökull glansaði í náttmyrkrinu. ,,Lífið er alltaf að verða öðruvísi og öðruvísi" og ekki um annað að gera en að taka því af æðruleysi,en jafnframt með von um að brátt víki heimsfaraldur fyrir vísindunum og aftur verði iðandi mannlíf í sveit og bæ.
 
Töluverð starfsemi  hefur verið í gangi síðustu mánuði sem aðallega beinist að rannsóknum og fræðistörfum ýmis konar, Þórbergssetur vinnur nú að verkefni um forn býli og skráningu búsetuminja í landslagi í samstarfi við Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Eftirfarandi grein  birtist í Jólablaði Eystrahorns, þar sem vakin er athygli á þessu skemmtilega en jafnframt krefjandi verkefni. Fyrirhugað er að opna sérstakan vef um verkefnið á vordögum og seta upp sýningu og er undirbúningur í fullum gangi. 
 
Óvíst er á þessari stundu hvenær Þórbergssetur opnar fyrir gesti og gangandi á ný, en vonandi þó sem fyrst. Við sendum hugheilar jólakveðjur og þakkir til allra velunnara Þórbergsseturs um allan heim. Framundan eru krefjandi verkefni í framhaldi af ótrúlegum aðstæðum og breyttri heimsmynd, Þá skiptir miklu að við byggjum á okkar arfleifð sem þjóð og hugum að þeim verðmætum sem felast í sögum fortíðar og menningararfleifð. Þannig tókst okkur sem þjóð að lifa af, -  með nægjusemi, samtakamætti og þrautseigju héldum við áfram. Nú höfum við ótal vopn í höndum,, þökk sé tækni og vísindum og ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði strax og tekist hefur að stöðva þá óværu er herjar á heimsbyggðin., Vonandi tekst okkur þá um leið að víkja af braut óhófs og sóunar þannig að jörðin okkar verði áfram byggileg komandi kynslóðum.
 
Bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kveðjum frá Þórbergssetri

Þórbergur og austurlensk fræði

Ritið Kápa 022020 BÚt er komið 2. tölublað af tímariti Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, Ritið og er það í vefútgáfu.Þar er meðal efnis greinar sem eru afrakstur af málþingi í Þórbergssetri í október 2018 og öflugs rannsóknarstarfs innan Háskóla Íslands undir forystu Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur. Fjallað er um verk Þórbergs Þórðarsonar og tengsl þeirra við þekkingu hans á austurlenskum fræðum, sem hann aðhylltist mjög snemma á rithöfundaferli sínum.

Í heftinu er stefnt saman umfjöllun um bókmenntir frá því snemma á 20. öld og samtímaverkum. Það er fyrri hlutinn sem er helgaður Þórbergi Þórðarsyni og er í ritstjórn gestaritstjóranna Benedikts Hjartarsonar og Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur en þar birtast þrjár ritrýndar greinar auk tveggja þýðinga. Fyrstu tvær greinarnar eru um dulspekina í skrifum Þórbergs en undir hana heyra þau þrjú svið sem rithöfundurinn tilgreinir jafnan sérstaklega í verkum sínum: guðspeki, spíritismi og indversk speki, einkum yoga. Stefán Ágústsson fjallar um náttúrutrú og dulspeki í bókinni Steinarnir tala en Álfdís Þorleifsdóttir beinir sjónum sínum að Íslenzkum aðli og ræðir verkið ekki síst í ljósi skrifa Krishnamurtis og hugmyndarinnar um „blekkinguna“ eða maya. Aðalsteinn Eyþórsson og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir skrifa hinsvegar um málvísindi og táknfræði Þórbergs en þau varpa ljósi á margbrotin tengsl skrifa hans við vísindakenningar samtímans. Þá tilheyra þessum hluta þemans tvær þýðingar, önnur þeirra er þýðing Jóns Bjarna Atlasonar á bókarkafla eftir Jakob von Uexküll, sem var einn af brautryðjendum svokallaðrar líftáknfræði, en hin er þýðing Kristjáns Eiríkssonar á bréfi eftir Eúgeno Lanti, sem þýtt er úr esperanto og veitir forvitnilega innsýn í mikla umrótatíma í sögu alþjóðamálsins.

Seinni hlutinn er í ritstjórn Guðrúnar Steinþórsdóttur og Sigrúnar Margrétar Guðmundsdóttur, en þar eru nýleg verk þriggja íslenskra höfunda til umfjöllunar auk þess sem samtímabókaútgáfa á Norðurlöndum er greind. Það má kallast skemmtilegt að enn í dag þykja verk Þórbergs Þórðarsonar nýstárleg í heimi fræðasamfélags íslenskra bókmennta Eftirtektarvert er að höfundur sem kvaddi sér hljóðs á öðrum tug tuttugustu aldarinnar skuli enn vera að birtast okkur með svo nútímalega og fræðilega nálgun, og tali til okkar í tæknivæddri og upplýstri veröld nútímans, m.a. um hugrækt og ,,lífslindirnar innra með okkur". Bergljót Soffía Kristjánsdóttir á þakkir skilið fyrir að skyggnast um í hugarheimi verka Þórbergs og opna þannig á nýja og forvitnilega rannsóknarvídd á verkum hans, sem að reyndar varð nokkuð augljós þegar að verkin voru loks krufin út frá ,,ljósinu í austri".og sjónum okkar beint í þá átt.

Tónleikar á Ólafsmessu 29. júlí Í Kálfafellsstaðarkirkju.

sungiðHinir árlegu sumartónleikar Þórbergsseturs og Kálfafellsstaðarkirkju voru haldnir á Ólafsmessu að kvöldi 29. júli að vanda. Það voru Skaftefllingar þær Þórdís Sævarsdóttir frá Rauðabergi á Mýrum og dóttir hennar Tara Mobee sem skemmtu gestum með fallegum söng.

Tara Mobee er ung og upprennandi söngkona og lagahöfundur og þykir vænt um hornfirskar rætur sínar. Tara er menntuð frá Tónlistarskólanum í Kópavogi, auk fjölda söng- og tónlistarverkefna, m.a. Í upptökutækni og raftónlist. Tara vakti snemma athygli fyrir tón- og lagasmíðar sínar og hefur gefið út eigin lög frá 16 ára aldri. Tara tók þátt í Eurovision 2019 með laginu ,,Betri án þín“ og átti þar góðu gengi að fagna auk þess sem hún hefur gefið út eigin lög á íslandi, verið í toppsætum íslenska vinsældarlistans og er í erlendu tónlistarsamstarfi í Sviss og Bandaríkjunum.

 

meira sungiðÞórdís Sævarsdóttir söngkona, kórstjóri og verkefnastjóri er menntuð frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, FÍH, Complete Vocal Technique og Tónskóla þjóðkirkjunnar auk þess að vera MA í Menningarstjórnun. Þórdís hefur starfað sem sóló-söngkona samhliða öðrum verkefnum, sungið með fjölda sönghópa, haldið tónleika, tekið að sér bakraddasöng á geislaplötum og verið viðburða- og verkefnastjóri á sviði lista, fræðslu og menningar.

Vignir Þór Stefánsson píanóleikari er menntaður tónmenntakennari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og með mastersgráðu í djasspíanóleik frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Haag í Hollandi.

 

lesiðHann hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi og leikið sem píanó - og hljómborðsleikari með söngvurum, sönghópum og kórum og hljómsveitum af öllum stærðum og gerðum. Hann hefur komið fram á geislaplötum og í sjónvarpi og leikið á hljómborð í fjölmörgum söngleikjum sem sýndir hafa verið í stærstu leikhúsum.

Að tónleikum loknum fóru gestir að Völvuleiðinu neðan við Hellakletta og rifjuðu upp hina fornu sögu um völvuna á Kálfafellsstað og völvuleiðið.

Fréttir af sumrinu og opnunartími í vetur

steinar og Þórbergur,,Lífið er alltaf að verða öðruvísi og öðruvísi", segir Þórbergur á einum stað. Það á sannarlega við árið 2020, þegar heimsfaraldur geisar og Íslendingar eins og aðrar þjóðir þurfa að takast á við nýjan veruleika. Þórbergssetur lokaði í fyrsta skipti síðan árið 2006  frá 20. mars til 1. júní. Starfsmenn Þórbergssetur nýttu kraftana í svokallað ,,eyðibýlaverkefni" sem að er skráning á fornum búsetuminjum í landslagi í Suðursveit. Verkefnið er unnið í samvinnu við Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Sigríður Guðný Björgvinsdóttir landfræðingur átti veg og vanda að faglegri vinnu við mælingar og skráningu í samvinnu við Önnu Soffíu Ingólfsdóttur fornleifafræðinema.Margt afar merkilegt og fróðlegt kom í ljós og verður skilað inn nánari skýrslu um verkefnið að lokinni lokaskráningu og uppsetningu. Sækja á um styrk í menningarsjóð Suðurlands til að koma verkefninu í það form að hægt sé að kynna það almenningi á sýningum og í rafrænu formi á netinu. Halda á áfram í vetur og næsta sumar og taka þá fyrir fornar rústir á Mýrum.

Eftir fádæma rólegan júní  fór að lifna yfir gestakomum í Þórbergssetur í júlí  og mjög gaman var að taka á móti fjölda Íslendinga sem ekki höfðu komið áður í Þórbergssetur eða voru að rifja upp fyrri heimsóknir. Í júlí og ágúst komu um 16000 gestir í Þórbergssetur að njóta veitinga eða fara inn á sýninguna.Það er vitanlega mikil fækkun frá fyrri árum og engir hádegishópar lögðu leið sína á staðinn eins og áður. Í lok ágúst varð mjög rólegt á ný og nú er ákveðið að loka í 3 mánuði í vetur frá 1. nóvember til 1. febrúar. Einnig hefur daglegur opnunartími verið styttur og er nú bara opið frá klukkan 12 - 16 alla daga vikunnar.   Æskilegt er að hópar hafi samband með fyrirvara ef þeir hyggja á heimsókn eða veitingar í október.

Lesa meira

Þórbergssetur opið á ný

Þórbergssetur opnaði aftur 1. júní eftir að hafa verið lokað frá 20. mars síðast liðnum út af covid 19 veirunni . Þetta er í fyrsta skipti sem setrið lokar allt frá því starfsemi byrjaði þar árið 2006, aðeins tekið reyndar jólafrí í tvo daga sum árin.Starfsemin hefur þó alls ekki legið niðri og hefur tíminn verið notaður til að sinna ýmsum verkefnum svo og viðhaldi á húsi og húsmunum. Innan Þórbergsseturs er nú unnið að skráningu eyðibýla í Austur Skaftafellssýslu í samvinnu við Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Háskólasetrið á Höfn og er verkefnið byrjað í Suðursveit. Vonir standa til að fá til starfa tvo háskólanema í gegnum Nýsköpunarsjóð stúdenta til að sinna verkefninu í sumar.
Garðarnir tveir og tóftin á milli þeirra og bárujárnshúsiðFerðast verður  um til að leita  gamalla tófta og reynt að finna hvaða hlutverki þær gegndu og satt að segja hefur margt merkilegt komið í ljós strax núna á fyrstu vikum verkefnisins. Meðal annars var kannað fornbýli í Skarðahrauni sem áður hafði fundist og verður að teljast mjög merkileg rúst, þar sem ekki var vitað um byggð þar áður. Einnig hafa fundist margar hringlaga hlaðnar tóftir  úr torfi og eða steinum svokallaðar fjárborgir en í heimildum má finna m.a. hjá Sveini Pálssyni að fjárhús hafi ekki verið byggð í héraðinu fyrr en komið var fram á 19. öld, fé og sauðfé haft í fjárskjólum eða byrgjum. Í ritgerð Þorvalds Thoroddsen í Andvara segir t.d. að árið 1837 hafi ekkert fjárhús verið í Stafafellssókn, menn notuðu byrgi eða byggðu fyrir hellisskúta. Í Fornuborgum í landi Kálfafells eru geysimiklar tóftir og fjárbyrgi hlaðin, greinilega sem skjól fyrir sauðfé, en lítið sem ekkert um þær vitað.
Niðurstöður og samantekt úr þessu verkefni verður svo birt á Þórbergsvefnum. Gísli Sverrir Árnason sagnfræðingur hefur verið að vinna sem fræðimaður við Þórbergssetur fyrstu mánuði ársins og er að safna efnivið í bók um þau Eymund Jónsson í Dilksnesi og Halldóru Stefánsdóttur. Segja má að starfsemi Þórbergsseturs hafi því tekið stefnubreytingu á þessu ári og sjónum beint að því að safna ýmsum fróðleik um nánasta umhverfi. Er það mjög í anda Þórbergs Þórðarsonar og sannarlega gert af virðingu við hans mikla starf í skráningu sagna af svæðinu.

Burstabæir Þorsteins Magnússonar frá Lækjarhúsum í Borgarhöfn

Margrét Torfadóttir frá Hala kom með að gjöf í Þórbergssetur síðast liðið sumar, -  fallegt handverk ættað úr Suðursveit . Þar eru komnir tveir haganlega smíðaðir bóndabæir sem eru handverk Þorsteins Magnússonar frá Lækjarhúsum í Borgarhöfn.
 
Þorsteinn var fæddur árið 7. júní 1899 í Borgarhöfn í Suðursveit. Foreldrar hans voru Magnús Sigurðsson og kona hans Ragnheiður Sigurðardóttir. Hann ólst upp hjá föðursystur sinni Guðrúnu Sigurðardóttur og fylgdi henni á milli bæja þar sem hún var vinnukona, en dvaldi þó lengst með henni  á heimili Jóns bróður Guðrúnar í Borgarhöfn. Þorsteinn var trúlofaður Helgu Sigfúsdóttur  frá Leiti en fengu þau ekki að eigast og hún  gefin öðrum. Hann flytur til Reykjavíkur árið 1926 og býr þar til æviloka 1976. Var hann smiður góður og vann lengst af við smíðar og viðgerðir m.a. á Kleppsspítalanum í Reykjavík. 
 
Suðursveitin var Þorsteini ævinlega kær og áttu mörg heimili í Suðursveit falleg líkön af bæjum og kirkjum gerð af honum. Þorsteinn lenti í Sæbjargarslysinu  4. maí árið 1920. Þá var róið á opnum skipum, -  eins og bátarnir voru kallaðir,-  til fiskjar frá Bjarnahraunssandi, sem að var aðalútróðrastaður sveitarinnar. Skipið fékk á sig stórsjó í lendingu, svo það steyptist fram yfir sig og flestir lentu í sjónum. Þar bjargaðist Þorsteinn, vaðbundnir menn í landi komu honum til hjálpar,  en hann var þá aðeins 21 árs gamall. Faðir hans Magnús Sigurðsson drukknaði þarna í flæðamálinu svo og Stefán Gíslason vinnumaður á Kálfafellsstað. Ingólfur Guðmundsson vinnumaður þá á Kálfafellsstað lenti undir bátnum og fótbrotnaði illa og bar þess aldrei bætur alla sína ævi. Var þetta eina alvarlega sjóslysið í Suðursveit á tuttugustu öldinni þó að ekki hafi verið auðvelt að sækja sjóinn frá hafnlausri strönd, þar sem óbrotin úthafsaldan gekk á land. Matbjörg fólksins var sjórinn, en varlega var farið og ekki róið til fiskjar nema þegar sjóveður var gott og hagstætt veðurútlit.
 Burstabæir

 

Líkönin af burstabæjunum eru með þremur og fjórum burstum.  Á þakið er límt viðarkurl og á framhliðina er límdur grófgerður sandur og litlir steinar. Inn í bæjunum eru ljósaperur sem lýsa þá upp Annað líkanið er gert í mars 1968 vegna þáttanna um Krumma, frægrar persónu úr Stundinni okkar í sjónvarpinu. sem Rannveig Guðmundsdóttir stjórnaði, en Þorsteinn var mikill aðdáandi Krumma.  Gaman er að eiga þessa fallegu bóndabæi  í Þórbergsstri til minningar um mætan hagleiksmann, sem átti uppruna sinn í Suðursveit og færum við Margréti miklar þakkir fyrir.

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 141
Gestir þennan mánuð: ... 5254
Gestir á þessu ári: ... 23277