Skip to main content

Gaman saman í Þórbergssetri

Bókmenntahátíð auglýsing 1Bókmenntahátíð í Þórbergssetri var vel sótt og einkar skemmtileg samverustund. Hátíðin var í beinni útsendingu og er nú að finna á YOUTube rás Þórbergsseturs.
 

Lesa meira

Bókmenntahátíð Þórbergsseturs sem verður haldin í Þórbergssetri sunnudaginn 27. mars kl 13:30


Guðmundur Andri ThorssonGestir á hátíðinni eru Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur sem rifjar upp minningar úr barnæsku frá kynnum sínum af Þórbergi Þórðarsyni og skreytir þær með skáldlegu ívafi eins og honum er einum lagið. Með honum í för eru félagar hans frá hinum fornu Spöðum, - Aðalgeir Arason og Eyjólfur Guðmundsson og ætla þeir að skemmta okkur með söng og sprelli. Aðalgeir Arason er fæddur í Suðurhúsum í Borgarhöfn, en einnig ættaður frá Fagurhólsmýri í Öræfum og er því Skaftfellingur í húð og hár.

solveig pEinnig kemur í heimsókn Sólveig Pálsdóttir rithöfundur og barnabarn Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Hún kynnir bók sína Klettaborgina sem segir frá dvöl hennar í Hraunkoti í Lóni á sjöunda áratug síðustu aldar, en hún kom þar fyrst fimm ára gömul og dvaldi öll sumur til 12 ára aldurs. Í bókinni eru einstakar lýsingar horfins sveitasamfélags í Skaftafellssýslu sem hún ,,spinnur einkar fallega, í vel meitluðum glettnum og viðfelldnum texta " Einstakar og næmar mannlýsingar eru aðalsmerki þessarar bókar og auðvelt er að sjá fyrir sér 
heimilisfólkið í Hraunkoti og fleiri Skaftfellinga birtast ljóslifandi í hugskotinu við lestur bókarinnar.
 
Dagskráin verður send út í streymi.
 
Allir eru þó velkomnir í heimsókn í Þórbergssetur þennan dag,. Á það ekki hvað síst við Skaftfellinga allt frá Eystrahorni í austri til Skeiðarársands í vestri. Gaman verður að tengja við þjóðlíf liðinnar aldar með gestum okkar og hittast á ný eftir langt samkomuhlé í Þórbergssetri. Hægt er að fá gistingu í Suðursveit fyrir lengra að komna og nota helgina til dvalar, skemmtunar og vonandi útiveru í sveitum Austur Skaftafellssýslu.

Samstarf Skriðuklausturs og Þórbergsseturs - Málþing um menningararfinn á Skriðuklaustri

Á Skriðuklaustri er hefð fyrir að hafa dagskrá á konudaginn sem að þessu sinni var sunnudagurinn 20. febrúar. Þórbergssetri var boðið að kynna þar verkefnið um búsetuminjar í Suðursveit. Vegna covid tókst ekki að mæta á staðinn en tæknin var notuð og erindið flutt i fjarfundi með beinu streymi. Tókst þetta með ágætum þó að væri hálf einmanalegt fyrir fyrirlesara að rýna í skjáinn í stofunni heima á Hala þá tókst að koma efninu vel til skila. 

Erindi fluttu Skúli Björn Gunnarsson sem fjallaði um eignir klaustursins á Skriðu og rafrænt fjölluðu Þorbjörg og Fjölnir á Hala um fornar rústir í Suðursveit og  uppgötvanir  á því sviði síðustu tvö árin.  Verkefnið búsetuminjar  er samstarfsverkefni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Þórbergsseturs og verður framhaldið á næstu árum. Heimasíða verkefnisins er www.busetuminjar.is og þar er komið inn efni um mörg eyðibýli í Suðursveit. Fyrirhugað er að safna þar inn meira efni og fróðleik á næstu mánuðum. Dagskrána frá Skriðuklaustri er hægt að sjá á youtube rás Skriðuklausturs.

Um áramót

Steinninn á hlaðinuStarfsárið 2021 var viðburðarríkt í Þórbergssetri þó að opnunartími væri styttri yfir árið eða aðeins sjö mánuðir vegna Covid heimsfaraldurs. Í sumar var fjölmenni í Þórbergssetri flesta daga og oft glatt á hjalla. Í stað hefðbundinna viðburða utan ferðamannatímanns var unnið að ýmsum verkefnum sem tengdust skráningu menningarminja. M.a. styrkti Þórbergssetur fræðastörf og söfnun merkra heimilda um sögu héraðsins og tók þátt í samstarfsverkefni um skráningu fornra rústa í Sveitarfélaginu Hornafirði með Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Unnið er að endurnýjun Þórbergsvefsins og safnað inn á hann nýju efni, en einnig var sett í loftið ný vefsíða www. busetuminjar.is. Ósk okkar er að á komandi ári losnum við undan erfiðum aðstæðum sem fylgt hafa heimsfaraldri og hægt verði að taka upp þráðinn á ný hvað varðar ýmsa menningarviðburði og hefðbundna starfsemi.
En ,,steinarnir tala" enn í Suðursveit, og haldið verður áfram veginn.  Þórbergssetur óskar því gestum og velunnurum sínum gleðilegs nýárs og farsældar á komandi ári. Við sendum kærar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á árinu sem er að líða, þær veglegu gjafir sem borist hafa og þann góða hug sem þeim fylgir. Von okkar stendur til þess að með vorinu megi vænta ,,betri tíðar með blóm í haga" og lífið muni brátt færast í eðlilegt horf um víða veröld. Gleðilegt nýár.

Myndspjöld um eyðibýli í Suðursveit

sýning_1.jpgÞann 29. júlí síðastliðinn var sett upp myndasýning um eyðibýli í Suðursveit í Þórbergssetri. Sýningin er afrakstur samvinnuverkefnis Þórbergsseturs og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar um skráningu og rannsóknir á eyðibýlum og fornum mannvistarleifum.og var flutt frá Menningarmiðstöð Hornafjarðar þar sem hún hafði verið uppi síðan í júni 2021.  Ummerki um horfna byggð frá liðnum öldum má víða greina í landslagi og eru þar ýmsar tegundir jarðlægra minja svo sem tóftir bæjarhúsa sem eru vitnisburður um búsetu og mannlíf frá liðnum öldum. Hönnuður sýningarinnar er Tim Junge grafískur hönnuður og Sigríður Guðný Björgvinsdóttir yfirmaður rannsóknarsviðs Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar sá um kort og textagerð. Einnig hefur verið opnuð vefsíða www.busetuminjar.is þar sem frekari fróðleik má finna um verkefnið. Fyrirhugað er að fara um allt sveitarfélagið Hornafjörð og mæla upp og skrá þær minjar sem finnast á yfirborði, en einnig að leita sögunnar sem fylgir hverjum stað eins og kostur er.  Einnig hefur verið opnum síðan fornar tóftir og búsetuminjar á feisbókinni til að vekja áhuga fólks á að tilkynna og birta myndir af minjum sem það þekkir til. Ljóst er að framundan er margra ára vinna við verkefnið en þegar er lokið að mestu að skrá og mæla upp minjar í Suðursveit og vesturhluta Mýra. Ætla má að í sveitarfélaginu sé amk 100 þekkt eyðibýli og svo merki um mannvist  sem sýnir forna búskaparhætti, garðar og hleðslur, fjárborgir og sauðahús, réttir og naust svo eitthvað sé nefnt. Sjá nánar www.busetuminjar.is og Facbook síðu verkefnisins.

 

Gjafir og góður hugur

teppið_hennar_Margrétar.jpgÞað hefur verið líflegt í Þórbergssetri í sumar, fjöldi fólks þegið veitingar og heimsótt safnið. Gjafir hafa verið að berast á síðustu árum sem nú prýða sýninguna og aðstandendur Þórbergsseturs þakka þann hlýja hug sem þeim gjöfum fylgir. Þórbergssetur er því lifandi safn byggt utan um andlegan arf og minjar, en um leið birtist þar veröld horfins tíma þar sem hægt er að rekja sig eftir sögu íslensku þjóðarinnar í gegnum æviskeið Þórbergs Þórðarsonar og konu hans Margrétar Jónsdóttur. Margrét var mikil hannyrðakona og fyrir nokkru barst að gjöf veggteppi sem Margrét saumaði, mikið listaverk sem nú hefur verið sett upp á auða vegginn í þjóðsögustofunni. Gefendur veggteppisins eru hjónin Petrína Ásgeirsdóttir frænka Margrétar og maður hennar Pétur Jóhannesson. 

Margrét Jónsdóttir var mikill listunnandi, fagurkeri og listakona og er teppið fína sannarlega gott vitni um þá hæfileika hennar en er  um leið sýnishorn af handverki kvenna frá þessum tíma. Margrét safnaði líka málverkum eftir fræga íslenska listmálara og áttu þau hjón fallegt safn málverka sem þau gáfu síðan Listasafni alþýðu. 

Fleiri munir hafa verið að berast sem gjafir síðustu tvö árin. Þar á meðal er  ljósakrónan úr stofu þeirra hjóna sem Herdís Petrína Pálsdóttir gaf, kínverskir listmunir og margt fleira. Gestir Þórbergsseturs geta líka sest núna við háborð í ,,plusseraða" stóla þegar þeir snæða og er þá boðið að setjast við borðstofuborð þeirra hjóna  sem gefið var af  Jóni Hjartarsyni leikara og Ragnheiði Tryggvadóttur frá Rithöfundasambandi Íslands. 

Allar þessar gjafir sem nú eru komnar heim á Hala fá á sinn hátt ævarandi líf og merkingu á þeim stað sem Þórbergi var kærastur og gera sýninguna fjölbreyttari og svipmeiri með hverju árinu. Fyrir það eru aðstandendur Þórbergssetur afar þakklátir og finna nú enn betur hvaða skyldur Þórbergssetur ber til framtíðar um varðveislu og framsetningu muna á sýningunni.Hraðar þjóðfélagsbreytingar kalla á að við gleymum ekki upprunanum heldur lítum til fortíðar og gerum minningar liðins tíma sýnilegar næstu kynslóðum.

Fornar rústir og búsetuminjar í Suðursveit

sýning 3Þann 18. júní síðastliðin var opnuð sýning í Menningarmiðstöð Hornafjarðar í tengslum við samvinnuverkefni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Þórbergsseturs um skráningu eyðibýla og menningarminja í landslagi. Unnið hefur verið að verkefninu í rúmt ár og sama dag var opnuð vefsíðan www.busetuminjar.is þar sem eru þegar komnar inn upplýsingar um 15 eyðibýli í Suðursveit. Segja má að verkefnið sé á byrjunarreit og fyrirhugað er að setja meira efni inn á vefinn á næstu mánuðum.  Vonandi verður verkefnið hvatnig til annarra að kynna sér betur sögu fyrri kynslóða og flytja þekkingu á milli kynslóða með tækni nútímans. Þannig getum við ef til vill treyst vitund okkar sem þjóðar á tímum hraðra þjóðfélagsbreytinga og heiðrað þær kynslóðir er byggðu þetta land og bjuggu við erfið kjör á öldum áður. Ummerki um horfna byggð og búskaparhætti má víða finna í landslagi. Þar liggja handaverk liðinna kynslóða sem minnisvarðar í landslagi og gaman er að una sér við að ,,hlusta á nið aldanna" í grónum tóftarbrotum,  Verkefnið er samstarfsverkefni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Þórbergsseturs. Að verkefninu í heild komu Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður Þórbergsseturs, Fjölnir Torfason bóndi Hala, Sigríður Guðný Björgvinsdóttur yfirmaður rannsóknarsviðs Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar, Tim Junge grafískur hönnuður og Heiðar Sigurðsson hönnuður vefsíðu, Anna Soffía Ingólfsdóttir fornleifafræðinemi og Kristinn Heiðar Fjölnisson ljósmyndari.

Lesa meira

Í minningu Önnu Þóru Steinþórsdóttur frá Hala

1Anna Þóra Steinþórsdóttir frá Hala í Suðursveit lést 12. mars síðastliðinn á 104, aldursári. Foreldrar hennar voru Steinþór Þórðarson ( 1892 - 1981) bóndi og Steinunn Guðmundsdóttir( 1888 - 1981) húsfreyja á Hala í Suðursveit. Þóra var jarðsungin frá Laugarneskirkju 22. mars. Útförinni var streymt og komu nokkrir ættingjar Þóru saman í Þórbergssetri til að vera viðstaddir útförin. Meðal gesta var Ingibjörg Zophoníasardóttir mágkona hennar á 98. aldursári, gift Torfa Steinþórssyni bróður Þóru, en hann lést árið 2001 þá 86 ára að aldri. Það var hátíðleg stund í Þórbergssetri þennan jarðarfarardag, mynd var varpað á stórt tjald í sýningarsal setursins og hljóðgæði í útsendingu voru góð. Steinþór faðir Þóru og Torfa var bróðir Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar og bjó alla tíð á Hala. Þóra ólst upp á Hala til fullorðinsára, en bjó síðan alla ævi í Reykjavík. Hér er birt minningargrein sem Steinunn Torfadóttir bróðurdóttir Þóru skrifaði um föðursystur sína og lýsir vel sterkum ættartengslum og tengingum Þóru ,,frænku" við ættingjana heima í Suðursveit.. Blessuð sé minning Önnu Þóru Steinþórsdóttur .

Lesa meira

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 89
Gestir þennan mánuð: ... 8962
Gestir á þessu ári: ... 17002