Skip to main content

Ólafsvaka í Kálfafellsstaðarkirkju 2022

tónleikar 1Tónleikar á Ólafsvöku í Kálfafellsstaðarkirkju  29. júlí 2022   voru fjölsóttir þetta árið enda heimsfrægt tónlistarfólk mætt á staðinn. Það voru þau Eyþór Gunnarsson og  Ellen Kristjánsdóttir, systurnar Sigga og Beta og bróðir þeirra Eyþór, en þau systkinin höfðu gert garðinn frægan í  Eurovisionkeppni vorsins 2022. Kálfafellsstaðarkirkja er einstaklega hentug til tónleikahalds og samstarf við kirkjuna um þennan einstæða atburð ár hvert ánægjulegt. Um leið er rifjuð upp sagan um dýrlinginn Ólaf helga en kirkjan var helguð honum í kaþólskum sið. Líkneski af Ólafi helga var gefið  í kirkjuna laust eftir aldamótin 1700 til að hrinda fornum álögum sem völva lagði á staðinn í frumkristni. Því miður rigndi hressilega þetta árið svo ekki var hægt að heimsækja leiði völvunnar undir Hellaklettum en viðburðurinn hefur einnig þann tilgang að halda á lífi fornum sögum og vitneskju um þær minjar í landslagi sem enn eru greinilegar og tengjast þessum forna ákvæði um örlög völvunnar á Kálfafellsstað.
Stórkostlegan flutning fjölskyldunnar á sálminum forna Heyr himnasmiður má heyra hér: https://www.youtube.com/watch?v=xJZKSwsYUeA

Sunnudagskaffi og bókakynning í Þórbergssetri

GaribaldiÞað var fámennt en góðmennt á bókakynningu skáldsins Garibalda í Þórbergssetri á miðju sumri.  Garibaldi las þar úr bók sinni ,,Drauminn dvelur" . Boðið var upp á kaffiveitingar að sveitasvið á eftir og spjallað saman. Garðar dvaldi þessa viku á Sléttaleiti sem að er hús í eigu Rithöfundasambands Íslands. Nágrannar Þórbergsseturs í skáldastétt sem búa á Sléttaleiti tímabundið koma því oft við í Þórbergssetri. Segja má að umhverfi Sléttaleitis sé kyngimagnað og hefur án efa haft áhrif á einhverja höfunda sem þar hafa dvalið við ritstörf undanfarin ár. 
 
Garibaldi er skáldanafn Garðars Baldvinssonar. Hann er fæddur 1954 og hefur starfað sem rithöfundur frá árinu 1982, en hann endurfæddist til nýs lífs eftir sviplegt fráfall tveggja bræðra sinna vorið 1980 og fór þá að elta drauma sína um menntun og ritstörf. Garibaldi fjallar í bókinni um æsku sína á afar nýstárlegan hátt. Textinn er að mestu frá sjónarhóli lítils drengs sem horfir á og heyrir það sem gerist fyrir augum hans. Einnig lesum við um hugsanir þessa drengs eins og þær koma fram í huga hans. Þessi aðferð kann að vera einsdæmi í íslenskum bókmenntum og jafnvel þótt víðar væri leitað. Inn á milli eru fáeinir kaflar þar sem fullorðni maðurinn fjallar um tiltekin mál eins og heimsókn barnaverndarnefndar. Einnig skrifar fullorðni maðurinn nokkur bréf til litla drengsins, móður sinnar og að lokum til föður síns. Þessi bréf varpa sjaldgæfu ljósi á upplifun og reynslu lítils barns. sjá nánar https://garibaldi.is

Skemmtileg heimsókn

Þórbergur á ferðalagiEinn sólardag í sumar komu hjónin Þorvaldur Gylfason og Anna Karitas Bjarnadóttir færandi hendi í Þórbergssetur. Var mikill asi á þeim, en þau sögðust hafa í farteskinu mynd sem tengdamóðir Önnu gaf henni. Tengdamóðir hennar var Guðrún Vilmundardóttir, dóttir Vilmundar Jónssonar landlæknis sem bjó lengi á Ísafirði eða allt til ársins 1931.. Hann var Skaftfellingur í móðurætt og mikill vinur Þórbergs Þórðarsonar. Þórbergur heimsótti hann oft og dvaldi langdvölum hjá fjölskyldu hans vestur á Ísafirði. Myndin hefur verið tekin á einhverjum af ferðalögum þeirra fyrir vestan og þá sennilega fyrir 1930, en ekki er vitað nákvæmlega um tildrög þeirrar ferðar. Myndin hefur án efa verið afskaplega nýstárleg á þeim tíma, þrír flottir stælgæjar saman á ferðalagi á nýmóðins fararskjóta. Þórbergur er lengst til vinstri á myndinni, Vilmundur í miðjunni en ekki er vitað hver þessi einkennisklæddi bílstjóri er.  Myndin verður innrömmuð og sett inn á sýninguna í Þórbergssetri við fyrsta tækifæri. Þórbergssetur þakkar þeim hjónum gjöfina og þann góða hug sem henni fylgir og hressilega heimsókn í Þórbergssetur sumarið 2022.

Eymundur og Halldóra - kynning á rannsóknarverkefni

Eumundur og HalldóraÞann 19. maí var haldin kynning í Nýheimum á verkefni sem Gísli Sverrir Árnason vinnur að á vegum Þórbergsseturs og einkaaðila um ævi og störf hjónanna frá Dilksnesi, Eymundar Jónssonar og Halldóru Stefánsdóttur. Nokkrir ættingjar og áhugafólk voru mætt og einnig var fyrirlesturinn sendur út um allan heim til að kynna fyrir afkomendum þeirra hjóna hvar verkefnið er statt og hvernig vinnu við það hefur verið háttað. Saga þeirra Eymundar og Halldóru  er jafnframt saga Skaftfellinga á 19. öld sem spannar vítt svið allt frá kotbúskap fátæks fólks í örbirgð og erfiðleikum til þess tíma  þegar fólk  fór að leita betra lífs og hafði von um tryggari lífsafkomu. Saga þeirra hjóna blandast sögu Skaftfellinga er fóru til Vesturheims og varpar um leið ljósi á hvernig vaknaði framfarahugur meðal þjóðarinnar í byrjun 20. aldarinnar og ýmsar tækniframfarir leiddu til betra mannlífs og bættra samgangna. 
  
Kynninguna má nálgast á You Tube síðu Þórbergsseturs  https://www.youtube.com/watch?v=SeI9jtHXpTI

Bridgemót í Þórbergssetri

20220501 151141Fjölmennt Bridgemót var haldið í Þórbergssetri helgina 30.apríl - 1. maí. Það var mikil kátína og gleði að hittast aftur eftir tveggja ára covid hlé en spilaður var tvímenningur á 16 borðum alls. Margir nýir spilarar mættu og höfðu á orði að þeir myndu koma aftur að ári.  Mótið hófst reyndar á föstudagskvöldið, þá var svokallað bjórmót, upphitun fyrir aðal spilamennskuna. Tvímenningskeppnin hófst svo kl 2 á laugardeginum og spilað var linnulaust fram eftir kvöldi. Tekið var þó hlé og etið spikfeitt hrossakjöt með öllu tilheyrandi við mikla ánægju veislugesta. Alltaf er besta kjötið í hverri hrossakjötsveislunni eftir aðra en þetta mun hafa verið 14. mótið sem haldið hefur verið. Síðan var spilað á sunnudeginum frá kl 10 - 15 en þá lágu úrslitin fyrir. Vinningshafar voru Eðvarð Hallgrímsson og Bjarni Guðmundsson og náðu þeir 57,3 % nýtingu í keppninni. Í öðru sæti voru Bernódus Kristinsson og Ingvaldur Gústafsson og í þriðja sæti Jón Halldór Guðmundsson og Einar H.Guðmundsson.Meðfylgjandi eru öll úrslit frá mótinu. Bridgemótið er haldið í minningu Torfa Steinþórssonar á Hala (1915 - 2001) . Uppáhaldsmatur hans var saltað og feitt hrossakjöt. Torfi var mikill veiðimaður og veiddi silung í Breiðabólsstaðarlóni öll sumur fram yfir áttrætt. Það átti því líka vel við að hafa stórt bleikjuhlaðborð í hádeginu á hátíðisdaginn 1. maí og fóru því vonandi allir saddir og sælir heim eftir að njóta samveru í einstakri veðurblíðu í sveit sólar, -  Suðursveit.

Úrslit mótsins er að finna hér.

20220430 13400820220501 10572120220501 10581120220430 133936

Gaman saman í Þórbergssetri

Bókmenntahátíð auglýsing 1Bókmenntahátíð í Þórbergssetri var vel sótt og einkar skemmtileg samverustund. Hátíðin var í beinni útsendingu og er nú að finna á YOUTube rás Þórbergsseturs.
 

Lesa meira

Bókmenntahátíð Þórbergsseturs sem verður haldin í Þórbergssetri sunnudaginn 27. mars kl 13:30


Guðmundur Andri ThorssonGestir á hátíðinni eru Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur sem rifjar upp minningar úr barnæsku frá kynnum sínum af Þórbergi Þórðarsyni og skreytir þær með skáldlegu ívafi eins og honum er einum lagið. Með honum í för eru félagar hans frá hinum fornu Spöðum, - Aðalgeir Arason og Eyjólfur Guðmundsson og ætla þeir að skemmta okkur með söng og sprelli. Aðalgeir Arason er fæddur í Suðurhúsum í Borgarhöfn, en einnig ættaður frá Fagurhólsmýri í Öræfum og er því Skaftfellingur í húð og hár.

solveig pEinnig kemur í heimsókn Sólveig Pálsdóttir rithöfundur og barnabarn Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Hún kynnir bók sína Klettaborgina sem segir frá dvöl hennar í Hraunkoti í Lóni á sjöunda áratug síðustu aldar, en hún kom þar fyrst fimm ára gömul og dvaldi öll sumur til 12 ára aldurs. Í bókinni eru einstakar lýsingar horfins sveitasamfélags í Skaftafellssýslu sem hún ,,spinnur einkar fallega, í vel meitluðum glettnum og viðfelldnum texta " Einstakar og næmar mannlýsingar eru aðalsmerki þessarar bókar og auðvelt er að sjá fyrir sér 
heimilisfólkið í Hraunkoti og fleiri Skaftfellinga birtast ljóslifandi í hugskotinu við lestur bókarinnar.
 
Dagskráin verður send út í streymi.
 
Allir eru þó velkomnir í heimsókn í Þórbergssetur þennan dag,. Á það ekki hvað síst við Skaftfellinga allt frá Eystrahorni í austri til Skeiðarársands í vestri. Gaman verður að tengja við þjóðlíf liðinnar aldar með gestum okkar og hittast á ný eftir langt samkomuhlé í Þórbergssetri. Hægt er að fá gistingu í Suðursveit fyrir lengra að komna og nota helgina til dvalar, skemmtunar og vonandi útiveru í sveitum Austur Skaftafellssýslu.

Samstarf Skriðuklausturs og Þórbergsseturs - Málþing um menningararfinn á Skriðuklaustri

Á Skriðuklaustri er hefð fyrir að hafa dagskrá á konudaginn sem að þessu sinni var sunnudagurinn 20. febrúar. Þórbergssetri var boðið að kynna þar verkefnið um búsetuminjar í Suðursveit. Vegna covid tókst ekki að mæta á staðinn en tæknin var notuð og erindið flutt i fjarfundi með beinu streymi. Tókst þetta með ágætum þó að væri hálf einmanalegt fyrir fyrirlesara að rýna í skjáinn í stofunni heima á Hala þá tókst að koma efninu vel til skila. 

Erindi fluttu Skúli Björn Gunnarsson sem fjallaði um eignir klaustursins á Skriðu og rafrænt fjölluðu Þorbjörg og Fjölnir á Hala um fornar rústir í Suðursveit og  uppgötvanir  á því sviði síðustu tvö árin.  Verkefnið búsetuminjar  er samstarfsverkefni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Þórbergsseturs og verður framhaldið á næstu árum. Heimasíða verkefnisins er www.busetuminjar.is og þar er komið inn efni um mörg eyðibýli í Suðursveit. Fyrirhugað er að safna þar inn meira efni og fróðleik á næstu mánuðum. Dagskrána frá Skriðuklaustri er hægt að sjá á youtube rás Skriðuklausturs.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 139
Gestir þennan mánuð: ... 4520
Gestir á þessu ári: ... 22543