Skip to main content

Að loknu ári 2018

Starfsskýrsla Þórbergsseturs fyrir starfsárið 2018

Þá hefur árið 2018 kvatt, það stöðvar víst enginn tímans þunga nið, en um hver áramót lítur maður gjarnan yfir farinn veg. Starfsárið var ánægjulegt í Þórbergssetri og margt  komst í verk á árinu 2018,  fastir liðir samkvæmt framkvæmdaáætlun, en einnig fjölmörg önnur verkefni, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í framkvæmdaáætlun um áramót. Ræðst það af því að ýmsir ófyrirsjánlegir og óvæntir viðburðir komu til okkar  og einnig tókst að ráða tvo starfsmenn sem gátu sinnt sérverkefnum í meira mæli en áður.   Aðalstarfsemi Þórbergsseturs er móttaka ferðamanna.  Gestakomur í  Þórbergssetur samkvæmt teljara við aðaldyr eru 156.133 og því um verulega fækkun gesta frá síðasta ári 2017, en þá voru gestakomur 187.620. Mun rólegra var yfir sumarmánuðina og áberandi er að stórum  hádegishópum hefur fækkað og því miður líka föstum hópum með sérstaka móttöku sem heimsótt höfðu safnið  undanfarin ár frá ferðaskrifstofum. Aftur á móti heimsóttu margir Íslendingar safnið, umferðin var jöfn og staðurinn alls ekki ofsetinn af ferðamönnum, líkt og í hádeginu tvö síðastliðin sumur.

Ráðist var í viðhald á húsnæði og sýningu. Gert var við leka í þaki, skipt var út gömlum úreltum ljósum á sýningunni og hefur hún nú fengið allt annað yfirbragð með nýmóðins ledljósalýsingu. Fyrirtækið Luxor sá um endurhönnun á ljósum og einnig voru sett upp varanleg útiljós sem lýsa nú fallega upp bókavegginn á norðurhlið hússins. Einnig voru öll hljóðkerfi á sýningunni endurnýjuð. Jón Egill Bergþórsson kvikmyndagerðarmaður réð sig til starfa við Þórbergssetur og var hann aðaldriffjöðrin í að koma þessum endurbótum á, en til verksins var ráðinn sérmenntaður ljósahönnuður.

Til að nýta krafta Jóns sem best var ráðist í ýmsar aðrar endurbætur og viðbætur á sýningunni. Fyrir hans atbeina tókst að fá  hluta af leikgerð Ofvitans  til sýnis á skjá inn á sýningunni og var textinn þýddur yfir á ensku. Textar og myndir af bókakápum Þórbergs prýða nú veggi og sett var upp sýningarborð í horninu við Hringbraut með öllum munum úr eigu Þórbergs ásamt gjöfum sem hafa verið að berast að undanförnu. Stytturnar 46 talsins, gjöf frá Lillu Heggu eru nú loksins komnar á sinn stað efst í bókaskápnum og bókasafninu hans Þórbergs var raðað skipulega upp í bókahillurnar hans, sem komnar voru inn á Hringbrautina fyrir nokkru síðan. Einnig var settur upp sýningarskápur í Bergshúsi með handritum og ýmsum bókum er tengjast verkum Þórbergs frá því árabili og síðar. Hluti af bóksafninu er síðan upp á lofti í sýndarstofu Þórbergs ásamt þeim húsgögnum úr búi þeirra hjóna sem ekki er nægt rými fyrir á Hringbrautinni.

Einn starfsmaður var á launum hjá Þórbergssetri auk forstöðumanns við móttöku gesta frá 1. janúar – 1. apríl . Siðan voru tveir starfsmenn  starfandi með forstöðumanni frá 1. maí við gestamóttöku og sérstök verkefni. Auk Jóns Egils starfaði Stefán Ágústson íslenskufræðingur á Þórbergssetri og sinnti hann ýmsum fræðastörfum jafnframt leiðsögn á safninu. Flokkaði hann bókasafn Þórbergs, aðstoðaði við endurbætur og uppfærði og skráði fréttir á heimasíðu Þórbergssetur, jafnóðum og staðið var í þessum miklu framkvæmdum. Um þessar mundir er verið að uppfæra heimasíðu Þórbergsseturs í nýrra form til að auðveldara sé að setja inn meira efni, kvikmyndir og annað sem þegar er tilbúið til birtingar.

Í gildi er samstarfssamningur við Rithöfundasamband Íslands um aðgang að fræðaíbúð á Sléttaleiti til leigu fyrir fræðimenn á vegum setursins frá 1. september – 1. Júní. Íbúðin hefur ekki verið mikið nýtt, ljósmyndarar og fræðimenn hafa þó  dvalið þar á vegum Þórbergsseturs og unnið að verkefnum sem tengjast Suðursveit. Michael Kienitz, bandarískur ljósmyndari dvaldi þar í vetur, hann er nú að vinna að mynd sem tengist söguferð Þórbergs hér um svæðið, og verður forvitnilegt að sjá afrakstur þess verkefnis. Verður það síðan tengt hljóðleiðsagnarappinu sem Þórbergssetur á með leiðsögn um safnið á 9 tungumálum.

Jón Egill Bergþórsson er búin að gera afar skemmtilegt kynningarmyndband um Þórbergssetur sem er inn á Þórbergsvefnum. Einnig er hann búin að gera um 30. mín viðtalsþátt við Helgu Jónu Ásbjarnardóttur ,, Lillu Heggu“ þar sem hún segir frá munum úr búi Þórbergs og Margrétar sem hún hefur gefið safninu, svo og öðrum skemmtilegum atburðum og einstökum minningum um þau heiðurshjón Sobeggi afa og Mömmugöggu. Einnig eru til upptökur frá tónleikum í Kálfafellsstaðarkirkju og hugmyndir eru uppi um að taka upp meira efni tengt þeim. Má þar nefna sögu völvunnar á Kálfafellsstað og heimsókn að völvuleiðinu, sem er greinilegt í nágrenni staðarins.

Ráðist var í að gefa út á hljóðbók minningar Steinþórs á Hala ,,Nú, nú, óskráð saga“ í samvinnu við fyrirtækið Hljóðbók og Gísla Helgason. Þórbergssetur styrkti útgáfuna og keypti 300 eintök til endursölu hér á staðnum.

Glacier Adventures afþreyingarfyrirtæki sem hefur haft móttöku og bækistöð að hluta í Þórbergssetri flutti sig um set í annað húsnæði á haustdögum og hefur það áhrif á fækkun gesta hér síðari hluta árs, -  en minnkar  um leið álag á annatímum í Þórbergssetri

Fjárhagslega stendur Þórbergssetur vel, en grundvöllurinn fyrir rekstri þess eru þær 10 milljónir sem koma af fjárlögum hvers árs og er viðurkenning fyrir því menningarstarfi sem fer fram. Samningur við mennta- og menningarráðuneyti er útrunninn og hefur ekki verið undirritaður nýr samningur. Hann mun þó vera í farvatninu og verður vonandi frágenginn í byrjun árs 2019. Ekkert bendir til annars en Þórbergssetur fái áfram rekstrarfé á fjárlögum til að standa undir því öfluga menningarstarfi sem þar fer fram.

Markmið  Þórbergsseturs er að vera öðruvísi safn þar sem fjöldi ferðamanna nýtur fræðslu um merkan rithöfund svo og sögu og náttúru svæðisins, - þannig markar Þórbergssetur sér sérstöðu meðal safna á Íslandi.  Þær miklu endurbætur sem ráðist var í árinu 2018 svo og bráðaviðgerðir á húsnæði styrkja mjög innviði staðarins og möguleika á að taka vel á móti innlendum sem erlendum gestum, - sem koma til að fræðast um staðhætti og mannlíf ásamt því að njóta stórkostlegrar náttúrufegurðar allt um kring.

Helstu viðburðir og verkefni á árinu 2018 voru  efirfarandi:          

  • Í janúar 2018 komu 34 hádegishópar eða sérhópar í mat í Þórbergssetri og 11 ljósmyndahópar sem dvöldu 1 – 3 daga í senn. Gestakomur voru mun færri en á síðasta ári eða 9877 á móti 13923 árið áður. Janúar var því rólegur hér heima fyrir og ekki margt fréttnæmt. Í febrúar voru líka færri gestakomur alls 13.405 en þó nóg að gera margir hádegishópar eða 55 talsins og mikið líf allt um kring. Sama má segja um mars þá var mikil fækkun í gestakomum fór niður í 13.919  gestakomur, - fækkun um 5000 gesti, - enda hættu íshellaferðir snemma í mánuðinum vegna þess hve hlýtt var í veðri og hve óöruggir íshellarnir voru og fækkun var í hádegishópum aðein 35 hópar komu í mat. Segja má að þau húsakynni og aðstaða sem er í dag dugi nú fyrir þá aðsókn sem er og hægt er að taka mun betur á móti gestum í þeirri aðstöðu sem við höfum þegar aðsókn minnkar eins og raun ber vitni.
  • Hin árlega Bókmenntahátíð Þórbergsseturs var 11. mars, aðalgestir hátíðarinnar voru Gísli Pálsson mannfræðingur, Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir skjalavörður og Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona. Aðaldagskráin fjallaði um steina og að morgni 11. mars þegar minnst var 130 ára afmæli Þórbergs hrapaði stór steinn úr fjallinu og staðnæmdist á miðjum þjóðveginum nokkuð fyrir austan Hala á milli Markaleitis og Sléttaleitis. Steinninn er nú komin á hlaðið fyrir utan Þórbergssetur og prýðir staðinn mikið. Talar hann þar til gesta Þórbergsseturs með röddu Þórbergs, brúðkaupssagan góða upphafið af  Steinarnir tala mun hljóma þar um ókomin ár. Var þetta magnaður viðburður og voru gestir agndofa undir lestri Ragnheiðar Steindórsdóttur úr verkum Þórbergs sem fékk algerlega nýja merkingu eftir atburði dagsins. Á hátíðinni var settur upp minningarskjöldur um Jón Þórisson hönnuð sýningar og byggingar Þórbergsseturs en hann lést í janúarmánuði árið 2016.

Dagskrá var eftirfarandi:

13:30 Setning, 130 ára afmæli Þórbergs Þórðarsonar

13:40 Fæðing Þórbergs; upplestur; Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona

13:55 Söngur;Jónína Aradóttir frá Hofi í Öræfum syngur Þórbergslög við gítarundirspil

14:00 ,,Steinarnir tala," loksins: Þórbergur á mannöld ; Gísli Pálsson mannfræðingur

14:30 Steinarnir tala, Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona

14:45 Um ofurnæma steina, lífræna hugarheima, skringilegar skáldsögur ; Oddný Eir Ævarsdóttir

            rithöfundur

14:20 Söngur; Jónína Aradóttir frá Hofi í Öræfum syngur Þórbergslög við gítarundirspil

15;25 Kirkjuferð og ýmsar sérkennilegar skynjanir Ragnheiður Steindórsdóttir upplestur

15:40 Prestar í Austur-Skaftafellssýslu fjalla um leiðir til viðreisnar landinu árið 1771; Jóhanna Þ.

           Guðmundsdóttir, sagnfræðingur

16:10 Vatnadagurinn mikli; Ragnheiður Steindórsdóttir upplestur

16:10 Kaffiveitingar, spjall og söngur, Jónína Aradóttir frá Hofi í Öræfum syngur við gítarundirspil

  • Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Þórbergssetri á 130. afmælisdegi Þórbergs Þórðarsonar 12. mars. Keppendur voru alls 10 frá Grunnskóla Hornafjarðar og Djúpavogsskóla. Fjöldi fólks kom í heimsókn þennan dag til að hlusta á fallegan upplestur bæði foreldrar, kennarar og nemendur
  • Í apríl komu 9951 gestir í Þórbergssetur lítið færri en árið áður. Hin árlega bridgehátíð og hrossakjötsveisla var haldin í apríl og var fjölsótt. Alls spiluðu 58 bridgespilarar víðs vegar af á landinu linnulaust alla helgina og gæddu sér á  dæmigerðum sveitamat þess á milli, hangikjöti, hrossakjöti og Halableikju. Alls 12 hádegishópar heimsóttu Þórbergssetur í aprílmánuði og aðalfundur Ríkis Vatnajökuls var haldinn í Þórbergssetri 26. apríl.
  • Í maímánuði komu 11.670 gestir í Þórbergssetur rúmum 2000 manns færra en árið áður og 27  sérhópar í hádegismat.  Nemendur Leiðsöguskóla Íslands komu í sína árlegu heimsókn í Þórbergssetur, gistu á Hala og sá Þórbergssetur um sérstaka dagskrá fyrir þá og kynningu á staðnum.  Mun færri  og minni kökuhópar frá Iceland Travel með sérstakaka móttöku á safnið komu í maí og næstu mánuði ef borið er saman við síðustu ár.
  • Í júni var hafist handa við ýmsar endurbætur í Þórbergssetri. Jóhannes Guðbjartsson smiður kom og lagfærði lekann í þakinu við vestri bogann og klæddi að innan, einnig lokaði hann betur af norðurvegg í fjósbaðstofunni niðri. Á þær fjalir voru síðan settar tivitnanir úr verkum Þórbergs. Í lok júnímánaðar kom Alfreð Sturla Böðvarsson og lauk við uppsetningu nýrra ljósa inn á sýningunni, svo og lýsingu á bókavegg utan dyra. Lokað var inn á sýningu í vikutíma og þá fann maður vel hvað staðurinn missir mikið þegar ekki er hægt að beina fólki þar inn og tala um Þórberg og verk hans þegar tekið er á móti gestum og gangandi. Einnig var skipt um öll hljóðkerfi á sýningunni og ýmsar smærri lagfæringar voru gerðar. Hafist var handa við að uppfæra betur vef Þórbergsseturs. Starfsmenn Locatify komu einnig að yfirfara hljóðleiðsögn og lestur Soffíar Auðar var settur inn á íslenska hluta hljóðleiðsagnarinnar. Í júní komu 15250 gestir á móti 18742 árið áður og mun færri og fámennari hádegishópar alls 46 talsins á móti um 90 hópum árið áður. Endurspeglar þetta fyrst og fremst fækkun hópferða almennt í ferðaþjónustu á Íslandi sem sennilega stafar af breyttum ferðamáta fólks svo og hærra og óhagstæðara gengi. Michael Kienitz ljósmyndari dvaldi á staðnum og tók myndir á gönguleiðum hér í kring. Vonandi tekst að nýta þær til að ljúka við app og ratleik hér í umhverfinu á árinu 2019.
  • Steinninn góði sem hrapaði 11. mars á hátíðisdegi í Þórbergssetri fyrr á árinu var fluttur frá Markaleiti hér heim á hlað 20. júní og þar mun hann standa um ókomin ár. Það voru starfsmenn Mikaels ehf sem hífðu hann upp með stórum krana og fluttu hér heima í hlað. Gunnar Gunnlaugsson húsasmíðameistari eigandi Mikaels gaf Þórbergssetri vinnuna við að flytja steininn á staðinn. Kom hann í heimsókn í lok ársins, en þá var steinninn farinn að tala með röddu Þórbergs, og þótti honum hafa vel til tekist.
  • Eins og áður voru júlí og ágúst annasömustu mánuðir ársins og þrátt fyrir fækkun í gestakomum var mikið að gera alla daga og gestakomur í Þórbergssetur 600 – 800  á dag. Fjölmargir hádegishópar voru í hádegsimat,  gestakomur í júlí voru alls 18.071 um það bil 3000 manns færra en árið áður og  52 hádegishópar og í ágúst voru 19139 gestakomur eilítið færri en árið áður  og 58 sérhópar og  hádegishópar í mat og heimsókn á safnið.
  • Í byrjun júlí var leiksýning Iðnó af  Ofvitanum sett upp á skjá inn á sýningunni við hlið Bergshúss, einnig var ýmsum gögnum komið fyrir í sýningarskáp í Bergshúsi og stór sýningarskápur settur upp í horninu við Hringbrautina með munum úr eigu Þórbergs. Stytturnar hennar Lillu Heggu eru nú komnar á sinn stað í efstu bókahillunni á Hringbrautinni. Í lok júlí kom Helga Jóna, sjálf Lilla Hegga í heimsókn færandi hendi með kínverska tebollasettið hennar Mömmugöggu og var því komið haganlega fyrir í sýningarskáp inn á Hringbrautinni. Jón Egill Bergþórsson tók upp viðtal við Lillu Heggu þar sem hún sagði frá styttunum og ýmsar aðrar sögur af Sobeggi afa og Mömmugöggu. Fyrirhugað er að viðtalið verði síðan sett upp á skjá við Hringbrautina þannig að gestir sýningarinnar geti þar séð hina raunverulegu Lillu Heggu og heyrt hana segja frá samskiptum sínum við þau hjónin.
  • Heiðurshjónin Jakob Yngvason og Guðrún Kvaran færðu Þórbergssetri veglega gjöf með munum úr eigu Jakobs Jóhannessonar Smára, afa Jakobs. Þar var um að ræða handskrifaða ljóðabók sem ber heitið Heilir skósólar og hins vegar ljóð sem Þórbergur hafði sent vini sínum á póstkortum í tilefni jóla og áramóta. Auk þess færði Guðrún safninu grein sína Söfnun Þórbergs Þórðarsonar úr mæltu máli, sem birtist í tímaritinu Íslenskt mál og almenn málfræði, árið 2006.
  • Hinir árlegu tónleikar voru í samstarfi við Kálfafellsstaðarkirkju 29. ágúst á Ólafsmessu. Svavar Knútur tónlistamaður var með einstaklega skemmtilega tónleika og sögustund í Kálfafellsstaðarkirkju og voru þeir vel sóttir af öllum aldurshópum. Ekki viðraði til heimsóknar að Völvuleiðinu að þessu sinni, þar sem töluvert rigndi, en Fjölnir Torfason sagð sögu völvunnar með mikilli kyngi frá altarinu í Kálfafellstaðarkirkju. Segja má að mörg hundruð ára gamla saga hafi notið sín vel, þó að ekki tækist að ganga á fund völvunnar að leiði hennar að þessu sinni.
  • Þórbergssetur gekkst fyrir að gefa út hljóðdisk með frásögum Steinþórs á Hala og kom hann út fyrir ættarmót niðja Steinþórs og Steinunnar sem haldið var á Hala helgina 11. – 12. ágúst. Gaman er að geta nú hlustað á frásögur Steinþórs með hans eigin röddu og tengja þannig enn betur saman liðna tíð og starfsemi Þórbergssetur.
  • Anna Sigurðardóttir kom með gjöf frá Skaftfellingafélaginu í Reykjavík, það er innrammað skrautskrifað heiðursskjal þar sem Þórbergur Þórðarson hafði verið kjörinn heiðursfélagi Skaftfellingafélagsins á sextugsafmæli sínu 12. mars 1959.  Var skjalið fært Þórbergssetri að gjöf og því hefur verið fundinn staður við útganginn á  sýningunni, þar sem gengið er út úr íbúðinni á Hringbraut 45
  • Í september var hafist handa við að endurnýja vefsíðu Þórbergsseturs og tókst að ljúka þeirri vinnu í lok október. Haustmánuðir voru annasamir, norðurljósin og fallegt haustveður hefur nú ekki minna aðdrátarafl en bjartir sumardagar. Í september voru 15.738 gestakomur, í október 12.502 og nóvember 9.139, enn heldur færri gestakomur en á síðasta ári, þó að viðskipti þessa mánuði hafi reyndar aukist í heildina miða við fyrra ár og ljósmyndahópar héldu áfram að koma sem aldrei fyrr. 
  • Málþing eða haustþing Þórbergssetur var haldið laugardaginn 27. október og bar yfirskriftina ,, Hér lötra allir troðnar slóðir. Hér leggur enginn nýja vegi.“ Bergljót Soffía Kristjánsdóttir prófessor kom með hóp frá Háskóla Íslands og fjallað var um nýja sýn á verk Þórbergs, þar á meðal rannsóknar og nemendaverkefni síðast liðinna ára, þar sem margt forvitnilegt bar á góma. Dagskráin var öll tekin upp og er til varðveitt í Þórbergssetri

Dagskráin var eftirfarandi:

11:00 Málþingið sett

11:20  ,,Hvað hafði Mahatma Thorbergananda Thordarcharaka á móti skáldskap?: Skyggnst inn í leyndardóma iðraholsins. "Benedikt Hjartarson prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Háskóla Íslands

11: 50 Umræður

12:10 Hádegishlé

13:00 Bókin um blekkinguna - Um maya í Íslenskum aðli; 

           Álfdís Þorleifsdóttir íslenskufræðingur og Skaftfellingur, ættuð frá Hólum í Hornafirði

13:30  Frumsamin Esperantoverk Þórbergs og þýðingar. Kristján Eiríksson esperantisti með meiru

14:00 Umræður
14:10 ,,Hvílík eilífð er ævi steinsins"; dulspeki í verki Þórbergs Þórðarsonar, - Steinarnir tala

            Stefán Ágústsson mastersnemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands

14:40 Af litlu viti og smáskorinni þekkinguum mál- og táknfræðinginn Þórberg Þórðarson

          Bergljót Soffía Kristjánsdóttir prófessor við Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands

15:20 Umræður

15:30 Kaffihlé

16:00 Dagskrá heimamanna;

         ,,Viðtal við Lilluheggu: ,,Tebollastellið frá Kína og fleiri sögurUpptaka Jóns Egils Bergþórssonar frá því í júlí 2018

          Heimsókn á safnið undir leiðsögn heimamanna, sagt frá ýmsum nýjungum, vaka í gömlu baðstofunni á Hala við birtuna frá olíulampanum og  bjóð á Hringbrautinni

  • Rólegt var framan af desember, en mikið að gera yfir jól og áramót. Gestakomur í desember voru aðeins 7472 enda var lokað í 4 daga yfir jólin og verulegur samdráttur í hádegishópum sem fyrr.

Eftir mikið framkvæmdaár var ákveðið að hafa lágmarksstarfsemi  í nóvember og desember. Þorbjörg forstöðumaður tók sér frí í nóvember, lengsta samfellda frí  síðan hún tók við starfi forstöðumanns í Þórbergssetri árið 2008. Starfsmenn gistiheimilisins á Hala sinntu gestamóttöku á safninu og enginn auka starfsmaður var á launum frá 1. nóvember til 15. desember.

Þrátt fyrir færri gestakomur í Þórbergssetur á árinu 2018 gekk starfsemin vel og rekstrarforsendur og staða fjármála er góð. Í lok ársins 2018 er efst í huga okkar sem störfum í Þórbergssetri þakklæti til þeirra fjölmörgu sem hafa sýnt uppbyggingu og starfsemi Þórbergsseturs áhuga og velvild með gjöfum og heimsóknum og sýnir það svo ekki verður um villst hversu ríkan sess Þórbergur Þórðarson og verk hans eiga í þjóðarvitundinni, -  og hve mikilvæg þau eru til að tengja saman og varðveita frásagnarmáta og orðsnilld liðinna alda inn í tæknivædda fjölmiðlaveröld nútímans. Myndmálið hefur tekið yfir hluta af listrænum frásagnarmáta og því mikilvægt að halda til haga þeim menningarverðmætum er felast í orðsins list, þannig að íslensk tunga lifi áfram svo lengi sem Ísland verður í byggð, oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.

Að loknu ári 2017

 

Starfsskýrsla Þórbergsseturs fyrir starfsárið 2017

Árið 2017 er liðið í aldanna skaut. Á margan hátt var árið gjöfult, veðurfar gott, - og mannlífið á Hala einkenndist af miklum straumi ferðamanna alls staðar að úr heiminum. Sjá má í gistiskýrslum á Hala að markaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu nær nú orðið í auknum mæli til alls heimsins, Asíubúum og Bandaríkjamönnum fjölgar mjög, en einnig kemur fólk frá Suður Ameríku, frá Afríku, og frá ýmsum fjarlægum löndum, sem ekki hafa áður verið merkt inn á skýrslurnar. Gestakomur á teljara við aðaldyr Þórbergssetur voru þó færri eða 187.620 árið 2017 á móti 191.681 á árinu 2016. Munar þar mestu að færri gestir komu á háönn yfir sumartímann og mátti vel greina það í rólegri dögum en áður. Engu að síður var árið gott ferðaár og mikið um að vera í Þórbergssetri alla daga. Mikil aukning var í janúar en þó mest í marsmánuði og ræðst það af góðu veðurfari sem hefur óneitanlega mikil áhrif á ferðamannastraum yfir veturinn. Fleiri erlendir ferðamenn nýta sér nú aðgang að sýningu Þórbergsseturs eftir að hljóðleiðsögn með 9 tungumálum er til staðar og mælist það sérstaklega vel fyrir.

Lesa meira

Að loknu ári 2016

Árið 2016 var viðburðarríkt svo sem sjá má í starfsskýrslu Þórbergsseturs sem birt er hér á síðunni. Fjöldi ferðamanna heimsóttu Þórbergssetur og nú geta þeir fengið hljóðleiðsögn um safnið á 9 tungumálum. Þrátt fyrir miklar annir tókst að halda úti metnaðarfullri menningardagskrá, og erlendir gestir  njóta þjóðlegra veitinga og skoða sig um á staðnum.

Starfsskýrsla Þórbergsseturs fyrir starfsárið 2016

Að loknu ári 2016 er margs að minnast. Árið 2016 er tíunda heila starfsár Þórbergsseturs, en það var opnað formlega 1. júli 2006. Þess var minnst með ýmsum hætti sem kemur fram hér í starfsskýrslunni. Mikill fjöldi ferðamanna sótti staðinn á árinu og samfelld aukning kom fram á teljara við útidyr alla mánuði ársins. Hlutfallslega mest er aukningin yfir vetrarmánuðina, en alls voru 191.681 gestakomur yfir árið á móti 160.069 á árinu 2015. Hátoppur vetrarferðamennskunnar er í febrúar með 15.720 gestakomur og mars með 16.761 gestakomur, en sumarmánuðina júli og ágúst eru gestakomur 24.293 og 23.326. Rólegust var umferðin í janúar og apríl á síðasta ári eða 10.537 og 10.632 gestakomur og meira segja í desember voru fleiri gestakomur eða 12.637 þó að lokað væri í þrjá daga á gistiheimilinu á Hala yfir jólin og þar af leiðandi færri á ferðinni þá daga.

Lesa meira

Að loknu ári 2015

Starfsskýrsla Þórbergssetur fyrir árið 2015

Að loknu ári 2015 kemur berlega í ljós hversu margbreytileg starfsemi fer fram innan Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit. Aukinn ferðamannastraumur, aukin veitingasala og minjagripasala gefur nú þær aukatekjur sem skipta mestu máli og tryggja í raun fjárhagslegan rekstur Þórbergsseturs, sem viðbót við framlag ríkisins ár hvert. Þórbergssetur fær 10% af brúttórekstri veitinga- bóka – og minjagripasölunnar í sinn hlut. Árið 2015 var mikil aukning erlendra ferðamanna og umfang og sala veitinga og minjagripa jókst verulega frá fyrra ári eða um allt að 60%. Aðsókn Íslendinga hefur dregist saman hlutfallslega en æ fleiri erlendir ferðamenn koma í heimsókn á Hala, njóta þar heimafenginna veitinga , skoða sig um á sýningum og njóta einstaks umhverfis. Jafnframt þessu hefur Þórbergssetri tekist að halda uppi öflugri menningarstarfsemi og árlegir viðburðir hafa fest sig enn betur í sessi.

Lesa meira

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 86
Gestir þennan mánuð: ... 4605
Gestir á þessu ári: ... 22629