Að loknu sumri 2012
Árið 2012 hefur verið viðburðarríkt ár í Þórbergssetri eins og oft áður. Gestakomur voru tíðar og aukin aðsókn að safninu enda ekki eldgos eða önnur náttúruvá sem hafði áhrif á umferð ferðamanna eins og næstu tvö ár á undan. Ekki hefur tekist að koma tölu á þá gesti sem koma í Þórbergssetur eða hversu margar gestakomur eru, en áætlað er að það muni vera a.m.k. um 22.000 gestakomur á ári. Umferð yfir vetrartímann hefur aukist, þar munar mestu um erlenda ferðamenn sem heimsækja Skaftafellssýslur, gista og njóta veitinga á Hala, en fræðast um leið um umhverfi og náttúru, Þórberg Þórðarson og verk hans. Ljósmyndarar dvelja oft í 4 – 5 daga og reyna að fanga litbrigði náttúrunnar á nóttu sem degi og fagna mest norðurljósum og stjörnubjörtum nóttum. Starfsemi ársins 2012 einkennist því af móttöku erlendra ferðamanna í auknu mæli, bæði einstaklinga og hópa og fræðslu til þeirra. Þannig haslar Þórbergssetur sér völl sem ferðamannastaður sem leggur áherslu á fræðandi ferðaþjónustu og persónulega þjónustu með menningarlegu ívafi auk þess sem borið er á borð fyrir gesti matur og veitingar frá Hala eða úr heimahéraði.