Skip to main content

Ráðstefna í Háskóla Íslands og málþing í Þórbergssetri

Þann 12. mars næstkomandi eru liðin 120 ár frá fæðingu Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar frá Hala í Suðursveit. Háskóli Íslands, Þórbergssetur og Háskólasetrið á Hornafirði standa fyrir málþingum  í  tilefni þessara tímamóta.  Helgina 8. - 9. mars verður málþing og samkoma á vegum Háskóla Íslands þar sem fjöldi fyrirlesara og listamanna koma fram. Miðvikudaginn 12. mars verður síðan dagskrá í Þórbergssetri frá klukkan 10 um morguninn  og fram eftir degi. Mikill fjöldi fyrirlesara tekur þátt í afmælisþingunum á báðum stöðum. Þar má nefna m.a. Viðar Hreinsson bókmenntafræðing sem ætlar að fjalla um Suðursveitarbækur Þórbergs.  Bækurnar Bréf til Láru og  Steinarnir tala,-  hin fyrsta í ritröðinni um Suðursveit, -  verða gefnar út að nýju með formála eftir Soffíu Auði Birgisdóttur bókmenntafræðing Á þingunum verður fjallað um hin ýmsu verk Meistara Þórbergs svo sem Ævisögu Árna Þórarinssonar, Sálminn um blómið og ritgerðir Þórbergs.  Án efa kemur fram ný sýn á þessi sígildu verk höfundarins og verður forvitnilegt að kynnast nýjum viðhorfum til verka skáldsins.

Í bland við fræðilega umfjöllun verður flutt skemmtiefni og  farið í stuttar gönguferðir.  Í Reykjavík verður gengið í fylgd Péturs Gunnarssonar á milli gömlu húsanna í miðbænum og vesturbænum þar sem Þórbergur bjó. Á Hala verða bæjarrústir Steins afa skoðaðar,  en einnig  verður gengið upp að Steinum, minnisvarðanum um þá bræðurna frá Hala. Þar verður staldrað við á miðju sögusviðinu og lesið  upp úr bókinni Steinarnir tala. Vonir standa til að hægt verði að fá landsfræga leikara til að lesa upp úr verkum skáldsins og skemmta málþingsgestum.

Háskóli Íslands hyggst síðan gefa út í sérstöku riti alla þá fyrirlestra sem fluttir verða á afmælisþingunum. Dagskrá afmælisþinganna verður auglýst betur þegar nær dregur. Hægt er að sækja hluta dagskrárinnar, það er fólk getur komið og farið og sótt þá fyrirlestra sem hver og einn vill hvort sem er í Reykjavík eða á Þórbergssetri.

Málþing í Þórbergssetri

Þann 13. og 14. október verður haldið málþing um Þórberg Þórðarson að Þórbergssetri á Hala í Suðursveit. Málþingið er haldið í tilefni af opnun Þórbergsseturs í sumar og auk fjölbreytilegra fyrirlestra verður boðið upp á göngu- og landkynningarferðir um sögusvið Suðursveitarbóka Þórbergs. Málþingið er öllum opið og skráning fer fram hjá Soffíu Auði Birgisdóttur, starfsmanni Háskólaseturs á Höfn, í síma 4708042 og 8482003 eða í tölvupósti: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Þátttökugjald er 3.500 kr. og innifalið í verðinu er kaffi og kvöldverður á föstudag, hádegisverður á laugardag og aðgangur að sýningu á Þórbergssetri. Nauðsynlegt er að koma með hlý útiföt og regnföt, því ,,stundum” rignir í Suðursveit. Ef fólk vill lengja dvölina, og nota sunnudaginn til frekari útiveru og söguferða þá eru merktar gönguleiðir í nágrenni Hala og að Klukkugili í Papbýlisfjalli. Hægt er að panta gistingu á Hala í síma 8672900, á Gerði í síma 8460641, í Lækjarhúsum í síma 4781517 , á Smyrlabjörgum í síma 4781074 og á Skálafelli í síma 8945454.

Dagskrá málþings Þórbergsseturs 13. og 14. október 2006

Föstudagur 13. október
14:00 Þorbjörg Arnórsdóttir setur þingið.
14:15 Erindi. Skáldið á Skriðuklaustri og ofvitinn úr Suðursveit – einn óábyrgur samanburður. Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur.
15:00 Erindi. Kvöldlestur í sveitasímann. Um Þórberg Þórðarson og Halldór Laxnes í sveitasögum Jóns Kalmans Stefánssonar. Ingi Björn Guðnason bókmenntafræðingur.
15:30 Erindi. „Hvernig ferðu að því að muna þetta allt?“ Um Þórberg Þórðarson og minnistækni. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur.
16:00 Kaffihlé.
16:20 Erindi. ,,Að hlusta á nið aldanna.” Náttúruskynjun Þórbergs. ( Myndasýning) Undirbúningur fyrir ferð að eyðibýlinu Felli í Suðursveit. Þorbjörg Arnórsdóttir.
16:40 Landkynningarferð að eyðibýlinu Felli, að lesa saman munnmælasögur, fornleifar, bókmenntir og umhverfi. Leiðsögn Fjölnir Torfason.

19:00 Kvöldverður: (silungur og rabarbaragrautur með rjóma). Dinnertónlist, séra Einar G. Jónsson.
20:30 Upplestur: Strand Serenu 1906 á Steinafjöru. Frásaga eftir Steinþór Þórðarson.
21:00 Opnað inn á sýningu á Þórbergssetri.

Laugardagur 14. október
10:00 Erindi. „Þórbergur Þórðarson hefur engan stíl“? Kristján Eiríksson íslenskufræðingur.
10:30 Müllersæfingar. Valdimar Örnólfsson íþróttakennari
11:00 Erindi. Bréfbátaöld í Suðursveit og Bréfbátarigning Gyrðis. Fríða Proppé.
11:30 Erindi. Bara stílisti og sérvitringur? Um Þórberg í skugganum. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir rithöfundur.
12:00 Hádegisverður: (Kjötsúpa og rúgbrauð með kæfu).
13:15 Erindi. Hverjir voru fyrstu íbúar Suðursveitar? Fjölnir Torfason fjallar um gamlar munnmælasögur um Papbýli ( myndasýning).
13:45 Ferðalag í Papbýli hið forna undir leiðsögn heimamanna.
17:00 Talað við steina. Þingslit við Prestastól, stein undir austurhlíðum Steinafjalls.

Málþing og krossinn hann Þórbergs

Þórbergssetur stóð fyrir tveimur málþingum, hið fyrra var haldið að Hrollaugsstöðum í Suðursveit 29. og 30 maí 2003 og hið seinna í Norræna húsinu 12. mars 2004. Yfir 100 manns sóttu hvort málþing og alls staðar var gerður góður rómur að verkefninu.

gamallkrossnyrkrossÍ júlí 2004 var merkt gönguleið að Klukkugili í Papbýlisfjalli/ Staðarfjalli og reistur kross til minningar um yfirsetu ungra manna á Breiðabólsstaðarbæjum yfir hagalömbum í byrjun 20 aldar. Þar voru minjar af trékrossi sem Þórbergur Þórðarson hafði tálgað úr birkigrein árið 1904. Leiðin sem þeir fóru með lömbin var stikuð og sett upp átta söguskilti ásamt varanlegum krossi en leifar krossins sem Þórbergur tálgaði teknar til varðveislu í fyrirhuguðu Þórbergssetri til að bjarga þeim frá frekari skemmdum. Leiðin liggur um afar fallegt umhverfi að Klukkugili, sem er 380 metra djúpt gljúfur og er nú orðin vinsæl gönguleið.

Málþing um meistara Þórberg

Um hundrað manns sóttu málþing um meistara Þórberg á Hrollaugsstöðum á uppstigningardag. Mikil veðurblíða heilsaði gestum þegar málþingið var sett við minnisvarða þeirra Halabræðra. Síðan var haldið í Hrollaugsstaði og þar hófst dagskráin með undirritun samstarfssamnings um Þórbergssetur. Samstarfsaðilar eru Heimspekideild Háskóla Íslands, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar, Þjóðminjasafn, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn, Rithöfundasamband Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Örnefnastofnun Íslands. Auk þess er Menningarmiðstöð Hornafjarðar stofnaðili. Stofnskrá Þórbergsseturs verður opin í eitt ár og geta velunnarar skrásett sig án nokkurra kvaða, en lágmarksupphæð er krónur 10.000. Síðari daginn tók fjöldi fólks þátt í söguferð með Þórbergi þar sem gengið var um heimaslóð Þórbergs og m.a. farið upp á Helghól og inn í Kvennaskála þar sem heilsað var upp á Kvennaskálasteininn. Ritsmíðar Þórbergs vörðuðu leiðina. Að lokum var farið í Papbýli hið forna og skoðaðar 1000 ára minjar horfinnar byggðar, sem fannst fyrir nokkrum árum. Á næstu vikum mun hluti af erindum málþingsins birtast inn á vefnum undir liðnum málþing
 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 129
Gestir þennan mánuð: ... 4648
Gestir á þessu ári: ... 22672