Skip to main content

Þórbergur Þórðarson 1888 – 1974

Í Suðursveit

torbergur-203x300Þórbergur Þórðarson var einn af merkustu rithöfundum 20. aldarinnar. Hann fæddist og ólst upp  á Hala í Suðursveit, sem á þeim tíma var býli í einni afskekktustu byggð á Íslandi.

Landfræðileg einangrun  Suður-sveitar, markaðist af kolmórauðum jökulfljótum beggja vegna, og að baki byggðar voru risavaxnir fjallgarðar og víðáttumiklar jökulbreiður, en brimsandar og hafnleysur við sjávarsíðuna.

Í þessari veröld, sem var lokuð frá  umheiminum, einkenndist hörð lífsbarátta fólksins af átökum við voldug náttúruöflin.

Án efa hafa þau átök verið ögrandi fyrir vitsmunaþroska fólksins, kallaði á mikla hagsýni, nákvæmni, verklagni og glöggskyggni. Einu táknin frá annarri veröld  voru franskar skútur sem sigldu upp að ströndinni á vorin og það voru þær sem seiddu ungan drenginn á vit ævintýranna.

Þórbergur Þórðarson hleypti heim-draganum 18 ára gamall,  fátækur af efn-um, en með í farteskinu þann andlega arf sem hann fékk frá forfeðrum sínum og formæðrum. Í fjósbaðstofunni á Hala naut hann bókmenntauppeldis, þar sem  Íslendingasögurnar og fleiri bókmenntir voru lesnar á síðkvöldum, hann lærði utan að fjölda ljóða og sagnahefðin var rík. Skemmtilegustu stundir lífsins voru þegar Oddný á Gerði, gömul kona af næsta bæ kom í heimsókn og sagði sögur frá löngu liðinni tíð.

Nokkur ár í æviferli meistara Þórbergs

1888 – 1906    Í Suðursveit
1906 – 1909    Skítkokkur á skútu
1909 – 1913    Nám , lauk ekki prófum
1912               Nótt, ljóð birt  í  Ísafold
1913 – 1918    Las bókmenntir og heimspeki  við Háskóla Íslands. Fékk ekki að ljúka prófi
1916               Hóf orðasöfnun
1918               Kynnti sér guðspeki /yoga
1918 – 1925    Vann við kennslustörf
1924               Bréf til Láru útg
1924               Eignast dótturina Guðbjörgu  með ástkonu
1925               Helgar líf sitt Esperanto
1932               Giftir sig Margréti Jónsdóttur
1921 – 1940    Ferðast mikið um Evrópu
1938               Íslenskur aðall útg
1940               Ofvitinn útg.
1941               Edda / ljóð Þórbergs
1945 – 1950    Ævisaga Árna Þórarinskom út
1954              Sálmurinn um blómið  útg.
1956 – 1958   Suðursveitarbækur útg.
1967              Baltikaferðin fræga
1974              Heiðursdoktor við Háskóla Íslands


12. mars 1974   Andast á Vífilstöðum

 

Hér eru aðeins talin helstu ritverk Þórbergs, en hann skrifaði einnig fjölda ritgerða og frásagna um ýmis efni. Þórbergur skrifaði einnig á  alþjóðamálinu, esperantó.


Frægur á einni nóttu

Þórbergur  varð frægur ,, á einni nóttu” þegar Bréf til Láru kom út árið 1924 Segja má að sú bók hafi valdið straumhvörfum í íslenskum bókmenntum í byrjun 20. aldarinnar. Bréf til Láru varð feikilega umdeild bók, en þar birtist hvöss ádeila á peningahyggju samtímans, á kirkjuna og á hverskonar ranglæti í samfélaginu. Í bókinni birtist einnig taumlaust og stundum djarft ímyndunarafl höfundar, einstök stílfimi og auðugur orðaforði ásamt hárfínni kímni. Bókin varð til þess að honum var vikið frá kennslustörfum

Bækurnar Íslenskur aðall og Ofvitinn eru skáldævisögur, þar sem Þórbergur fjallar um líf sitt  á árunum 1909 – 1914 og eru þær jafnframt merkilegar samtímaheimildir um lifnaðarhætti fólks í Reykjavík á þessum tíma. Þar er þó sannleikurinn víða færður í æðra veldi til að þjóna hagsmunum og uppbyggingu skemmtilegrar sögu, og Þórbergur hendir óspart gaman að sjálfum sér á annars erfiðum tímum fátæktar og örbirgðar.

Þórbergur er talinn hafa haft hvað mesta þekkingu samtímamanna sinna á orðaforða og stílbrigðum íslensks máls og hafa búið yfir undraverðri færni í ritun á íslenska tungu.
Hann fékk því virðingarheitið,
Meistari, Þórbergur .

Einstök bókmenntaverk

Alþjóðasinninn Þórbergur skynjaði snemma á lífsleiðinni þá auðlegð sem felst í sérkennum í náttúrufari og menningu íslenskrar þjóðar. Hann lagði áherslu á að varðveita og skrá sögu og lifnaðarhætti alþýðunnar til að forða þekkingu frá glötun.

Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar og bækurnar Í Suðursveit ásamt fjölda frásagna og skráninga þjóðsagna bera vott um þennan áhuga Þórbergs. Þessi bókmenntaverk eru einstök í íslenskri bókmenntasögu. Lestur þeirra er líkt og ferðalag til fortíðar þar sem birtast raunsannar þjóðlífslýsingar horfinnar veraldar og raunverulegar persónur tala til lesandans. Atburðir hversdagsins verða að spennandi ævintýrum, örnefni, þjóðsögur og gamlar munnmælasögur skapa magnaða umgjörð og gamla fólkið lifir áfram með þjóðinni í gegnum stórbrotnar mannlífslýsingar.
Þar rís list Þórbergs hæst, hvernig honum tekst að glæða fróðleik lífi.

Sálmurinn um blómið er sagan þar sem gamlinginn, Þórbergur, lifir sig inn í líf barnsins og leiðir smátt og smátt litla stúlku, Lillu Heggu. í sannleikann um veröldina í kring. Þar kemur fram sterkur boðskapur um jöfnuð og frið, heilbrigt líferni, umfjöllun um þjóðtrú og áhersla á verndun menningarverðmæta. En þar er einnig fjallað um leiki og átök barna, gleði og sorgir í lífi fólksins, og sveitina hans Þórbergs, Suðursveit.
Sálmurinn um blómið er bók fyrir börn á öllum aldri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ...
Gestir þennan mánuð: ...
Gestir á þessu ári: ...