Skip to main content

Halldór og Þórbergur 14-3-2002

Pétur Gunnarsson skrifar:

"Hvað hefst Þórbergur að - og hvernig farið þið að komast fyrir báðir í ekki stærri bæ en höfuðborginni við Kollafjörð?" spyr Kristján Albertsson í bréfitil Halldórs 14. janúar 1930.(1)

Góð spurning. Báðir höfðu þeir lagt af stað árið 1919, Þórbergur með greininni Ljós úr austri sem birtist í Eimreiðinni og boðar ekki aðeins upphafið á ferli hans sem lausamálshöfundur, heldur einnig blábyrjun á boðun jóga á Íslandi. Halldór með Barni náttúrunnar. Þórbergur var þrítugur íslenskukennari, Halldór 17 ára unglingur.


Halldór og Þórbergur, Þórbergur og Halldór - mikið sem þessir tveir eru ólíkir, að minnsta kosti eins og þeir birtast sameiginlegum kunningja þeirra,
Kristjáni Albertssyni. Hann getur ekki orða bundist yfir sjálfumgleðinni í Halldóri og vekur máls á því að hann stýri montnasta penna á Íslandi. Halldór er þá 22 ára. Sami Kristján lýsir óframfærni Þórbergs í dagbók sinni frá 1914 (Þórbergur þá 27 ára):

"Honum er gefið lítið þrek til að hrista af sér vonleysi og sorgir. Ráðlaus er hann alltaf, aðrir þurfa að marg-eggja hann á að gera allt sem honum er
best, hann er svo ragur við allt."(2)

Reyndar hafði hann umpólast í skoðun á Þórbergi aðeins tveimur mánuðum síðar:

"Hann er skarpgáfaðurmaður, ef til vill sá vitrasti sem ég hef hitt…"(3)

Og enn tók skoðun hans hamskiptum við útkomuBréfs til Láru, svo reyndar olli vinslitum - en það er önnur saga.


***

Hvernig á að skynja byltingu Bréfsins nú, löngu eftir að hraunið er kólnað og blánar af berjum hvert ár. Sjálfsagt jafn vonlítið og greina frá áhrifum sem bítlalög höfðu á frumheyrendur þeirra, nú þegar þau eru fyrir löngu orðin að lyftumúsík og vekjaraklukkustefjum. En Halldór þreyttist aldrei á að þakka Þórbergi fyrir Bréfið,

"þakka honum fyrir hvað hann braut margar hömlur og opnaði margar gáttir fyrir okkur sem á eftir komum, fyrir hvað hann gerði okkur hinum marga hluti tilkvæma, leyfilega og sjálfsagða sem áður voru forboðnir og óhugsanlegir; leingi fannst mér margt sem ég gerði vera endurhljómur og stæling þess sem hann hafði gert á undan, og svipaða sögu munu segja ýmsir fleiri í hópi okkar sem einusinni voru kallaðir hinir ýngri höfundar og sakaðir um klám og guðlast og ég veit ekki hver ósköpin."


***

Hvað er talið að megi líða langt á milli bóka hjá rithöfundi? Helst þyrfti hann að vera með bók á ári til að falla ekki í gleymsku og dá. Annað hvert ár
er lágmark. Frá Bréfi til Láru til næsta bókmenntaverks frá hendi Þórbergs líða heil 14 ár. Hinn 35 ára kolbítur var orðinn 49 ára þegar honum þóknaðist næst að láta frá sér heyra. Sofnaði hann aftur ofan í öskustóna? Mönnum ber ekki saman um ástæðurnar, sumir segja að hann hafi verið svo upptekinn við að fylgja eftir hugsjónum sínum (guðspeki, sósíalisma og esperantó) að hann hafi ekki mátt vera að því að leggjast til sunds í
jólabókaflóðinu. Aðrir benda á að hann hafi ekki verið kominn með Mömmugöggu til að annast dyravörslu og hotta á hann við ritstörfin.
Sjálfur tilgreinir Þórbergur metnaðarleysið sem ástæðu:

"Ég ætlaði mér aldrei að verða neitt."

En er það nú alveg víst? Ekki skortir hann metnað í bréfum og dagbókum fyrstu misserin eftir útkomu Bréfsins. Hann talar um 4-5 skáldsögur sem
bíði ólmar eftir pennastönginni 
Hvað dvaldi orminn langa? Ætli þurfi mikið meira en svipast um á árabilinu 25-40 til að sjá ástæðuna. Vefarinn mikli, Salka Valka, Bjartur í
Sumarhúsum, Ljósvíkingurinn… Hvaða höfundur hefði ekki komist í andnauð á meðan því hamfarahlaupi stóð?


***

En nú nær Þórbergur vopnum sínum á ný með Íslenskum aðli(1938) og Ofvitanum(1940-41). Og það er til marks um hve Halldór hafði gersamlega skipt um himin og jörð í íslenskum bókmenntum að Ofvitinn gæti hæglega verið bróðir Ólafs Kárasonar. (Menn beri t. a.m. saman þegar Ólafur Kárason ætlar að fyrifara sér í Höll sumarlandsins 1938 og þegar Þórbergur leikur sama leikinn í seinna bindi Ofvitans 1941). 

Bæði Aðlinum og Ofvitanum var tekið tveimur höndum af aðdáendum Þórbergs, sem reyndar voru einnig aðdáendur Halldórs, þeir reru svo að segja á sömu mið, báðir róttækir vinstrimenn, lesendahópurinn sá sami, útgefandinn sá sami, einkavinirnir þeir sömu: Erlendur í Unuhúsi, Kristinn E. Andrésson…
Var skrítið þótt þeir sem kunna betur við að hafa hasar í mannlífinu færu fljótlega að efna til mannjafnaðar milli skáldanna. Halldór og Þórbergur,
Þórbergur og Halldór. Í vitund manna voru þeir löngum eins og samvaxnir tvíburar sem ekki yrðu aðskildir án þess að öðrum yrði fargað.
En skáldunum sjálfum, hvað fannst þeim hvoru um annað? Þá á ég ekki við hátíðarræður á tyllidögum (báðir fluttu hvor öðrum afmælisávörp), heldur það sem þeim bjó í hug.
Er eitthvað sem gefur þennan eljuríg til kynna?
Allir vissu hvað klukkan sló þegar Þórbergur tók sig til og skrifaði einn lengsta ritdóm Íslandssögunnar (33 þéttprentaðar síður í heildarverkinu)um Hornstrendingabók Þorleifs Bjarnasonar. Þórbergur fer þar mikinn og hefur allt á hornum sér um lausatök í bókmenntum síðustu ára, en dæmin sem hann tilfærir eru nánast öll eins og skopstæling á Halldóri Laxness:

"… Kisa situr á bæjarkampinum, stolt í reisn sinni, og virðir fyrir sér nýútsprunginn skarifífil, fjarrænan í draumi sínum í hvítum þokum vorsins, ofar mannlífi og  tjáningu. Kompleksína Kyndraums starir fjarrænu augnaráði í innhverfri dulúð á sólbitna elskendur fjarlægðarinnar þartil það er einsog líkami hennar leysist upp og hverfi útí víðerni dagsins. Dag einn um miðaftansbil sitja þau tvö uppí hlíðinni og horfa með dul í augum á tvö hvít ský útí fjarrænum víðernum loftsins. Og það var tungl og lambær í haga. Og svo líður upp af þeim með fjarræna tjáningu í augum, og þau leysast alveg upp og sameinast hvítum gufum fjarvíddanna, ofar goðsögn
og tjáningu annars heims." (4)

Í bréfi til Stefáns Einarssonar, bókmenntafræðings, hnykkir hann enn á í útmálun á stílgöllum Halldórs:

"Hann hrifsar til sín orð og orðasambönd héðan og þaðan og stillir þessu út í ritverkum sínum. En þessir útstillingar standa venjulega ekki í neinu lífrænu samhengi við umhverfi sitt og hreppa stundum þær meðferðir, að vera notaðir í skökkum merkingum, hvorttveggja vegna þess, að þeir eru rapseri, sammenskrab, en ekki lifandi gróður, sem dafnað hefir innra með höfundinum og samlagazt sálarlífi hans eins og mælt mál. Hann skrifar íslenzku eins og útlendingur, sem hefur lært málið á bók."(5)

Aftur tók Þórbergur til við lítt dulbúna ádeilu á Halldór í Sálminum um blómið sem út kom í tveimur bindum 1954 og 1955. Þórbergi var alla tíð legið á hálsi fyrir að skrifa ekki skáldsögur, og þótt kalla megi Aðalinn og Ofvitann skáldævisögur (heiti sem annar Bergur fann upp hálfri öld síðar), er næsti áratugur á eftir nær allur undirlagður af dulrænum frásögnum og þjóðfræðaefni.
Sálmurinn um blómið er í bland einskonar málsvörn og réttlæting Þórbergs fyrir aðferð sinni. Sem hann stillir upp andspænis aðferð skáldsagnahöfundarins:

"Sobbeggi afi ætlar ekki að fara að útskýra það fyrir ykkur, krakkar, eins og skáldin eru vön að gera í skáldsögunum sínum, af hverju litla manneskjan svaraði svona. Sobbeggi afi er ekki að skrifa skáldlegt listaverk. Hann er að skrifa sanna sögu af lítilli stúlku sem var að byrja að hugsa eins og heimurinn."(6)

Og gleymir ekki orðaleppunum úr safni Halldórs:

"Litla manneskjan leit svolítið skrýtilega á Sobbeggi afa. Skáldin myndu segja að það hefði verið óskýrgreint augnatillit."(7)

Húmorinn er þó ævinlega yfir og allt um kring:

"Líffæraverkfallið hans Sobbeggi afa var búið þennan daginn. Öll líffærin hans voru aftur byrjuð  að gera eitthvað nema eitt. En hann Sobbeggi afi
segir ekki hvaða líffæri það var því að hann er ekki að skrifa ástarróman." (8)


***

Seinna bindi Sálmsins kom út árið sem Halldór fékk Nóbelinn. Um líkt leyti er líkast því að Þórbergur hverfi alfarið inn í sína einkaveröld:
Suðursveitabækurnar eru viðfangsefni hans það sem eftir lifir ævinnar.
Má ekki segja að hann leysist úr viðjum? Hann gefur sig á vald áum sínum og æsku og horfir á þá veröld leysast upp og hverfa um leið og hann bjargar því sem bjargað verður. Halldór er víðsfjarri.
Þegar Þórbergur hafði lokið við Rökkuróperuna (1958) var hlutverki hans í raun lokið. Hann stóð nú á sjötugu og í tilefni af þeim tímamótum varð til
samtalsbók þeirra Matthíasar Johannesen: Í Kompaníi við allífið, einstæð heimild um Þórberg og metfé í íslenskum bókmenntum. Það er fróðlegt að bera hana saman við hliðstætt kver sem Halldór og Matthías
höfðu samvinnu um á sjötugsári Halldórs: Skeggræður gegnum tíðina.
Það virðast engin takmörk fyrir því sem getur borið á góma í samtölum Matthíasar og Þórbergs: kynlíf, framhaldslíf, dægurþras, eilífðarmál, hátt
og lágt, hátíðleiki í bland við fíflalæti og öfugt… Kompaníið er karneval. Skeggræðurnar í samanburði settlegar, Halldór er fjarlægur, brynjaður,
briljant. Þórbergur aftur á móti opinskár og afvopnandi einlægur. Halldór er viðkvæmur fyrir persónu sinni, Þórbergi er tíðrætt um afnám
persónuleikans:


"Hann er hnútarnir í sálarlífinu. Þegar menn hafa leyst hnútana, ljóma þeir eins og fagurt ljós… Þá er persónuleikinn dauður að eilífu og menn eru
komnir í kompaní við allífið…"(9)

Halldór sem brá sér í allra kvikynda líki í skáldverkunum, hvarf á bak við gervi sitt þegar hann kom fram í eigin nafni. Þórbergi sem var gersamlega
fyrirmunað að hnoða saman skáldsagnapersónu, hann fór léttilega úr einu gervinu í annað í daglega lífinu.
Meðal annarra orða: hvenær hefði Halldór látið Osvald Knudsen kvikmynda sig nakinn niður í fjöru að gera Mullersæfingar? Aftur á móti hafði hann látið gera sér sundlaug og stillti sér gjarnan upp í forgrunni í nýjum og nýjum jakkafötum. Þórbergur aftur á móti var alla tíð með lífið í lúkunum að
Margrét myndi henda "jakkanum" sem hann kunni best við sig í, en var skipað að klæða sig úr ef komu gestir og harðbannað að láta sjá sig í á
almannafæri.
Eða segjum glæsikerrur Halldórs sem voru hans annað vörumerki.
Í Kompaníinu berst talið að bílum:

- Þú hefur aldrei keyrt bíl, Þórbergur?
- Nei.
- Hvers vegna?
- Mig hefur aldrei langað til að eiga bíl. Einu sinni heyrði ég sögu af manni, sem hafði gert hitt með kvenmanni inni í bíl, stoppandi á Miklubraut, mitt í umferðinni. Þá langaði mig svolítið að eignast bíl. Síðan ekki söguna meir.(10)


***

Árið 1963 gefur Halldór út Skáldatíma með frægu uppgjöri sínu við Sovétríkin. Sennilega gera menn sér ekki lengur grein fyrir hvílíkt reiðarslag bókin var fyrir samherja Halldórs í pólitíkinni. Eftirskjálftanna var enn að gæta áratug síðar í Enginn er eyland, Kristins E. Andréssonar.
En Þórbergur beið ekki svo lengi, hann sest niður að bragði og skrifar og birtir í Tímariti máls og menningar grein sem bar heitið: "Rangsnúin
mannúð" - 30 þéttprentaðar síður í bók. Þessi allsherjarárás á Halldór hefur einn skurðpunkt: Erlend í Unuhúsi, eða öllu heldur umfjöllun Halldórs um þennan gúrú þeirra Þórbergs í Skáldatíma.
Við sem vorum ýmist hugarfóstur Guðs eða fóstur í móðurkviði þegar Erlendur lést og höfum gert okkur mynd af honum eftir vitnisburði samtímamanna, sitjum uppi með Jesú Krist, svo lygilega er hann líkur fyrirmyndinni eins og hún er dregin upp á Biblíumyndum, með sitt síða jarpa  hár og skegg - á tímum þegar hársídd takmarkaðist við efri brún eyrnanna. Annað sem hann virðist hafa átt sameiginlegt með Kristi er að kynhvöt hans hneigðist ekki í neina átt, heldur bjó innra með honum og gerði hann að því skiptiborði sem hann var hverjum sem að garði bar.
Þegar Halldór endurskapar Erlend í Skáldatíma er hann löngu orðinn að goðsögn. Og vitað eða óafvitað ljær Halldór honum þá drætti sem er honum
sjálfum syndaaflausn og réttlæting eins og lessið stóð þá stundina. Erlendur opinberast sem austræn goðvera, taóisti, utan og ofan við breyskleika mannanna, ópólitískur og afskiptalaus.
Þetta lætur Þórbergur ekki viðgangast:

"… þegar ég las kapítula Halldórs í Skáldatíma um Erlend og móður hans, rann mér svo í skap, að ég gat ekki haldið aftur af mér. Þar óð uppi svo mart, er gerði mér gramt í geði sem gömlum stórvini Unuhúss og kunningja sannleikans: ónákvæmni, ósannsögli, leiðinleg tilgerð og ankannaháttur, að því litla ógleymdu, að Erlendur er gerður í aðra röndina að flóni, honum lýst sem pólitíku viðrini og allt að því glæpamanni og við hann skilið minni og leiðinlegri mann en hann var (…)
Þetta er að sönnu ekki gert í því skyni vísvitandi að minnka Erlend og afflytja… Hér eru að verki annars konar vankantar höfundarins, sem hann virðist varla vera sér vitandi eða ekki vilja viðurkenna fyrir sjálfum sér, kannski óviðráðanlegir…"

Þarna einmitt reka þeir saman hornin: Þórbergur, ástmögur sannleikans, með alla sína ástríðufullu nákvæmni og Halldór með ofnæmi sitt fyrir veruleikanum og áráttubundnu þörf til að skálda.


***

Sama ár og Þórbergur las honum pistilinn gaf Halldór út Sjöstafakverið, safn sjö smásagna. Næstsíðastasagan í bókinni ber heitið Jón í Brauðhúsum (en svo nefndi einn af liðsmönnum Unuhúss Jesús frá Nasaret).
Tveir lærisveinar hittast áratug eftir að meistari þeirra hefur verið tekinn af lífi og þeir settir út af sakramentinu. Þeir taka tal saman um fyrri tíma og þar kemur að meistarann ber á góma. Þá kemur í ljós að þeir eru ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut: þegar annan rekur minni til að augu
hans hafi verið blá segir hinn að þau hafi verið brún, hárið rauða var orðið svart í minni hins… Og ekki bara hin líkamlegu einkenni, einnig sjálf
breytni meistarans verður þeim að ásteytingarsteini.
Þetta var Halldóri líkt. En því miður ekki lokasvar. Í Íslendíngaspjalli sem kom út þremur árum síðar og var hugsað sem einskonar appendix við
Skáldatíma hyggst hann gjalda Þórbergi rauðan belg fyrir gráan. Hann dregur hann sundur og saman í háði fyrir píslarvættið í Ofvitanum og því næst fer hann á loft með kutann og nú er engu líkara en hann ætli í eitt skipti fyrir öll að skilja á milli Síamstvíburanna:

 

"Í íslensku blaði má helst ekki nefna nafn þolanlegs rithöfundar nema hann sé spyrtur við eitthvert safn af mönnum sem verður að vernda sérstaklega af því þeir gánga lausir til reynslu…"(11)


***

Og samt, að Þórbergi látnum kaus Halldór að kalla minningarorðin: "Við  Þórbergur".

"… Við héldum áfram að vera vinir í fjarska eftir fall Unuhúss, og á þá vináttu brá ekki skugga þó hann væri sá maður sem mér hefur fundist einna óskiljanlegast saman settur allra sem ég hef kynst; og honum áreiðanlega sýnst hið sama um mig…" segir þar. (12)

Halldór og Þórbergur, Þórbergur og Halldór. Við skulum vona að þeir séu einhvers staðar á astralplaninu að bera saman bækur sínar.
Halldór:

"Ég er alveg trylltur í mátt! Ísland gæti aldrei svalað að hálfu þeirri ambition sem ég er fullur af. Það er ekki til fyrir mér nema tvær andstæður: annað hvort að sigra svo eftirminnilega að ég eigi alls kostar við heiminn eða þá að fara gersamlega í hundana. Og þótt ég fari í  hundana þá skal ég úr þeim aftur! Það er ekki til í mér neitt sem heitir að gefast upp."(13)

Þórbergur:

"En ég var þannig saman settur af náttúrunnar hendi, að ég gat aldrei hrapað nema niður að ákveðnu marki. Þegar fallið var komið að þeim punkti, risu æfinlega upp í mér innri kraftar, sem hófu mig, líkt og fjöður slyppi af haki, aftur á móti brattanum og undantekningarlaust ívið hærra upp á við en viðleitni mín til fullkomnara lífs hafði nokkurn tíma lyft mér áður (…) Nei, það var eitt, sem aldrei hefði getað hent mig. Ég hefði aldrei getað "farið íhundana".(14)

 

(1) HandritadeildLandsbókasafns
(2) Margs er að minnast, Jakob F. Ásgeirsson skráði.
(3) Sama, s.41.

(4) Birtist upphaflega í tímaritinu Helgafelli árið 1944.

(5) Bréfiðer skrifaðárið1953enbirtistfyrst í Helgarpóstinum, 28.ágúst 1981.
(6) Sálmurinn umblómið,2.útg. s. 112.
(7) Sálmurinn umblómi,2. útg. s. 134.

(8) Sama, s. 379.

(9) Í kompaníi við allífið,s.52.
(10) Sama, s.208.

(11)Íslendíngaspjall, s. 119.
(12) Seiseijú, mikilósköp, s. 56.
(13) Halldórí bréfi til unnustu sinnar, 1927, sbr. Peter Hallberg, Hús skáldsins I, s. 36
(14) Ofvitinn(1975), s.341-342.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 146
Gestir þennan mánuð: ... 9018
Gestir á þessu ári: ... 17058