Skip to main content

Góðir tímar

Sveinbjörn Pálsson skrifar:

Þórbergur Þórðarson er fæddur á Hala í Suðursveit þann 12. mars árið 1888 og lést 1974. Foreldrar Þórbergs voru þau Anna Benediktsdóttir og Þórður Steinsson. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum og vandist þar öllum algengum sveitastörfum. Hali er ekki langt frá sjónum og hafði Þórbergur unun af því að horfa á frönsku skipin sigla framhjá. Hann fæddist í einni af afskekktustu sveitum landsins. Hann varð strax mikill grúskari og var litinn hornauga af sveitungum sínum vegna forvitni sinnar, gáfna og áhuga á öllum sköpuðum hlutum.

Þórbergi líkaði það reyndar ekkert illa og gerði sem mest hann gat til að hæðast að sjálfum sér og öllu í kringum sig. Hann reyndi að snúa út úr öllu sem hann gat og lét þetta ekki fara í taugarnar á sér. Hann vildi ekki fara troðnar slóðir og vildi vita alla skapaða hluti. Það virðist heldur ekkert hafa truflað hann í upplýsingaöflun sinni því hann vann störfin í sveitinni bæði sumur og vetur, annað en Halldór Laxness gerði forðum daga. Þess má einnig geta að haft var eftir Þórbergi á hans yngri árum að hann ætlaði sér aldrei að verða neitt.
Þórbergur þurfti alltaf að vita allar lengdir og breiddir og stikaði allt út eða mældi eftir einhverjum aðferðum. Hann þurfti að koma röð og reglu á þessa óreiðu í heiminum. Hann óx ekkert upp úr þessum mælingum og var alltaf með sína hluti á hreinu. Og meira en hálfri öld síðar en Bergur litli á Hala hóf mælingar í Suðursveit sat hann í flugvél á leið til Kína og hafði kompás spenntan um úlnliðinn og hæðarmæli í kjöltunni.
Hann fór 16 ára til Reykjavíkur, komst þar í vist á skútu og var á henni í 3 ár. Þórbergur gefur svo út sína fyrstu bók árið 1924, en það var bókin Bréf til Láru. Sú bók var mjög umdeild og var eins og hann hefði kastað sprengju inn í samfélagið. Eftir að hann gaf út þá bók vissi hver einasti maður að Þórbergur var ekki með öllum mjalla. Frá Bréfi til Láru til næsta bókmenntaverks frá hendi Þórbergs líða heil 14 ár en þá gaf hann út bókina Íslenskur aðall. Hún fjallar um líf Þórbergs í Reykjavík og á Akureyri og sumir telja að þessi bók eigi einungis að vera kafli í Ofvitanum sem kom út árið 1940-1941. Ofvitinn er raunsætt verk og fjallar um tímann 1909-1913.  Það er tíminn frá því hann fór af skútunni og þar til hann kom fyrst í Unuhús, en það er hús Erlends Guðmundssonar staðsett í Reykjavík þar sem flækingar og listamenn gátu fengið húsaskjól.
Á árunum 1954-1955 gefur Þórbergur svo út Sálminn um blómið en það er bók um Þórberg í Reykjavík og um litla stelpu sem bjó í sömu blokk og hann. Þórbergur skrifar skoplegar myndir af sér þegar hann liggur á gólfinu með barninu og lítur jafnvel enn barnalegar út en barnið.
Þórbergur gefur svo út Steinarnir tala (1956), Um lönd og lýði (1957), Rökkuróperuna (1958) og Fjórðu bók (1975). Þetta eru allt sögur úr sveitinni heima og fjalla þess vegna um æskuminningar Þórbergs. Þarna lýsir Þórbergur sér og fjölskyldu sinni og segir frá því sem gerðist í sveitinni. Seinna komu þessar fjórar bækur út í einu bindi sem nefnist Í Suðursveit. Bókin Rökkuróperan fjallar um hann og krakkana í sveitinni. Hann fjallar um leikina sem þau léku sér í og það má sjá á þeim lýsingum að leikirnir líkjast ansi mikið lífi fullorðinna. Þau herma eftir störfum fullorðinna og hafa mjög gaman af. Þórbergur byrjar á því að lýsa yngri árum sínum þegar hann var að leika sér með leggi og völur en bókin endar þegar krakkarnir eru búnir að ímynda sér samfélag og eru farnir að dæma fólk fyrir glæpi o.s. frv. Þá sést bersýnilega hvað þau þroskast á fáum árum úr því að leika sér á stofuborðinu með leggi til þess að búa til samfélag og stjórna því eftir bestu getu. Ég segi fyrir minn hlut að það kom mér á óvart þegar ég las bókina hvað krakkarnir vissu mikið í félags- og dómsmálum.
Flestar bækur Þórbergs eru að einhverjum hluta sjálfsævisögur, allar eru þær byggðar á sannsögulegum atburðum og persónur bókanna eru undantekningalaust raunverulegar.
Þórbegur var mikill áhugamaður um tungumálið esperantó. Hann var einn af frumherjum sem innleiddu málið í landið og bjó til kennslubækur sem notaðar eru enn þann dag í dag. Hann var formaður Esperantofélags Íslands nokkur ár á árunum 1931-1938 og haustið og veturinn 1936 hélt hann um 50 fyrirlestra á esperanto víðsvegar um Svíþjóð.
Sagan segir frá litlum dreng í Suðursveit. Hann heitir Þórbergur og býr á Hala með foreldrum sínum. Sagan er um strákinn og krakkana sem eiga heima á bæjunum í kring. Þeir leika sér í hinum ýmsu leikjum og finna sér margt til dundurs. Þeir leika sér í leikjum og leika sér með hluti til að líkja eftir störfum fullorðna fólksins. Þórbergur er sækinn í félagskap en einnig vill hann lesa sér til um hina og þessa hluti. Þórbergur er hálf- hjartaveill en reynir af mestum mætti að fara í leiki með krökkunum og hlaupa um hagana. Leikir krakkanna eru árstíðarskiptir því ekki er hægt að leika sér mikið úti með leggi og völur þegar vetur er úti, líkt og ekki er hægt að fara á skauta að sumri til. Þessi saga fjallar um krakkana og leikina. Þá er verið að segja frá leikjunum og hvernig krakkarnir hafi skemmt sér. Ekki er mikið spáð í einstaka persónur heldur eru allir teknir jafnt. Sagan spannar yfir nokkra ára tímabil og hafa leikir krakkanna þróast mikið í lok sögunnar miðað við þá fyrstu.
Þórbergur byrjar að segja frá því þegar hann lék sér með leggi og völur heima í baðstofu. Hann ímyndaði sér búskap og sá um fé sitt eins og best var á kosið. Hann ímyndaði sér árstíðirnar og stundaði þau störf sem þurfti að gera, eins og þá réttir og fleira. Á veturna fengu hann og vinir hans að vera með búskapinn í baðstofunni en á sumri létu þeir lömbin leika sér í haganum. Svona hermdu börnin eftir verkum fullorðna fólksins allt árið um kring. Þau notuðu kjúkur og völur sem sauðfé á veturna en horn á sumrin. Voru þá stóru kjúkurnar ærnar en þær litlu voru lömbin. Það voru aldrei svo margir hrútar á bæjum þannig að tvær stærstu völurnar voru hrútar og hinar voru sauðir. Sama uppröðun gilti um nautskjúkur.
Hafa ekki allir heyrt þessa sögu? Mamma og pabbi eða afi og amma léku sér með völur þegar þau voru lítil. Það var alltaf jafn skemmtilegt og. Þau skilja ekki hvað krakkarnir þurfi svona mikið af dóti í dag. Það er tvennt til í þessu. Krakkarnir hafa væntanlega verið hugmyndaríkari á árum áður því ekki var til það mikið af peningum að hægt væri að hlaupa út í búð og kaupa sér dót þegar mann langaði til. Svo er fortíðin kannski bara svona góð í hugum fólks og þetta hafi ekkert verið svona skemmtilegt eins og látið er. Fjarlægðin gerir jú fjöllin blá. En hvað um það; Þórbergur lék sér með völur og leggi og við sjáum að hann hermir eftir störfum fullorðna fólksins því hann réttar og heyjar gerir allt sem góðum bónda sæmir. Hann var það lítill á þessum tíma að hann fékk ekki að slá og rétta og þess vegna gerir hann það bara sjálfur með sínum búfénaði inn í baðstofu. Ég held að margir leikir hafi einmitt orðið til vegna þess að mega ekki, eða þá hafa ekki burði í það að taka þátt í ýmsum störfum. Þetta er allt eitthvað sem krakkarnir hafa séð annað fólk gera og þykir það flott.
Þórður faðir Þórbergs smíðaði oft trékarla handa Bergi og hafði Bergur mikla unun af því að leika sér með karlana og mynda stóra heri. Voru karlarnir látnir vinna hin ýmsu störf. Þeir voru látnir reka fé, vinna við skip og heyja svo fátt eitt sé nefnt. Svo komu strákarnir saman með herina sína og fóru í stríð. Þessir bardagar voru vissulega háðir í baðstofunni. Fyrir flestum strákum er pabbi þeirra hálfgerður guð og læra strákar mikið af feðrum sínum. Þess vegna skipti ekki svo miklu þó þessir trékallar hefðu hvorki hendur né fætur því þeir voru eftir pabba. Seinna eignaðist Þórbergur tréhesta og karla sem gátu setið á hestunum. Hann átti reyndar aldrei það mikið af riddaraliði að hægt væri að fara í stríð með þá. Seinna lærði Þórbergur að nota hnífinn og fór að tálga sína eigin karla. Þeir voru ekki jafn flottir og hinir en hann var heppinn að pabbi hans var ólatur við að smíða handa honum karla.
Ef við skoðum hvað strákar leika sér með í dag þá held ég það sé hægt að telja þá á fingrum annarar handar þá sem eiga ekki eitthvert líki af „Action Man”. Þeir eru auðvitað ekkert annað háþróuð útgáfa af tréköllunum sem Þórbergur lék sér með. Karlarnir eru notaðir á sama hátt og Þórbergur gerði. Þeir eru látnir vinna þau störf sem til falla en fara í stríð þess á milli.
Hvaðan fékk Þórbergur þessa hugmynd að leika sér með herkalla? Hann hefur væntanlega fengið einhverja hugmynd um heri í gegnum fréttir og sögusagnir. Hann hefur heyrt af stríðinu sem hefur geisað í heiminum þar sem saman kom hópur manns og réðust á hvorn annan. Þetta voru stórir og sterkir karlar sem voru í hóp og börðust við aðra hópa. Væntanlega hefur Þórbergur heyrt eitthvað um þá frægu kappa eins og Gunnar á Hlíðarenda sem voru stórir og sterkir hræddust ekki neitt sem þeir tóku sér fyrir hendur. Seinna í bókinni er kominn vetur og þá fara krakkarnir út og búa sér til snjókarla. Þetta voru litlir snjókarlar líkt og trékarlarnir hans Þórbergs. Þeir gegndu sama hlutverki og trékarlarnir og var oft mikil harka þegar þeir voru látnir berjast. Þórberg langaði samt að skara framúr og búa sér til stærri karl sem myndi ekki falla saman eins og skot. Hann fór snemma út einn morguninn og smíðaði sér stóran snjókarl. Hann fann einhverstaðar blikkplötur og notaði það sem brynju á karlinn. Setti svo snjó yfir brynjuna svo hún sæist ekki. Þegar krakkarnir komu svo seinna um daginn urðu þau ekki hrifin og kölluðu þetta svindl. Á þessu má sjá að Þórbergur var á undan sinni samtíð. Hann var oft búin að spá í hlutunum og framkvæma þá áður en hinum krökkunum duttu þeir í hug. Á þessu má einnig sjá ofurmannadýrkun ungra drengja. Það er einhver stór sem ekki er hægt að fella, samanber “Superman”
Krakkarnir vildu líkjast fólki í hegðun og atferli. Þetta sjáum við enn þann dag í dag. Við förum í göngutúr að sumri til í einhverjum smábænum á Íslandi og sjáum mörg börn að leik. Við sjáum stelpur sem halda á dúkku eða keyra um með dúkkuvagna til að líkja eftir mömmu eða frænku sem þær sáu með barn í vagni. Tóku eftir hvernig þær báru sig að og reyna að haga sér svipað. Á sama hátt sjáum við stráka með bíla og vörubíla keyrandi í polla og skurði. Strákarnir fara þar sem er ógróin jörð og moka sér brautir til að fara í torfærukeppni. Þeir flytja ýmsan varning á pöllum bílanna og eru þá að líkja eftir stóru vörubílunum með sandinn á pallinum sem geysast eftir vegunum. Þeir nota skóflur eða litlar leikfangagröfu til að líkja eftir vinnutækjunum. Þeir búa sér til einskonar eftirlíkingu af stóru vinnusvæði fullorðna fólksins.
Í fyrstu lék Þórbergur sér með lítil pappírsskip sem sigldu eftir borðinu í baðstofunni. Ekki leið á löngu þar til hann vildi smíða sér trébáta í líkingu við frönsku skonnorturnar sem sigldu framhjá Hala á degi hverjum. Faðir hans kenndi honum nöfnin á skipategundunum og allt sem við kom bátum. Þórður hafði farið um borð í svona skip og fræddi son sinn um bátana og siglingaraðferðir þeirra. Þórbergur talar um að faðir hans hafi séð kompásinn og barómetið og auðvitað vildi Þórbergur fá að sjá þetta líka en hann var of ungur. Þórbergur var mikill grúskari og pældi í öllu milli himins og jarðar. Þess vegna var það þegar hann sá skipin fara úr höfn að hann gat ímyndað sér hvað barómet sjómanna væri að segja þeim.
Þórður smíðaði mörg skip handa Þórbergi og hafði hann þau í kálgarðinum. Hann ímyndaði sér að þau væru á út á hafi. Hann horfði á þau tímunum saman og breytti seglum og fleira til að það glampaði á þau. Ég gæti haldið að á þessum árum sé Þórbergur um 6-7 ára gamall. Hann er nýbyrjaður að nota hníf og reynir að búa sér til skip úr trékubbum. Þessi smíðakunnátta þróaðist svo með árunum og seinna meir smíðaði hann sér bæði stærri og flóknari skip. Í fyrstu léku strákarnir með skipin sín á pollunum sem mynduðust á túninu á veturna. Síðar færðu þeir sig á stærri polla og ímynduðu sér að skipin sem urðu alltaf flóknari og betri í smíðum sigldu milli landa eins og Frakklands og Íslands. Þeir voru með Hornafjörðinn á hreinu og ímynduðu sér skipin koma fyrir Hornið og leggja að bryggju á Höfn. Ég held að það séu fáir krakkar í dag sem fá að halda á hníf sex ára gamlir. Þeir einfaldlega mega ekki prófa. Börn eru orðin svo ósjálfbjarga. Það þarf að mata þetta í orðsins fyllstu merkingu ofan í þau. Ef það stendur ekki í sjónvarpinu eða utan á „Coco Puffs“ pakkanum þá á það sér ekki stað.
Þegar frost fór úr jörðu hurfu stöðuvötnin sem krakkarnir léku sér á. Þau létu það ekki á sig fá og bjuggu til stíflu í einn læk rétt hjá og þá var komið annað stöðuvatn. Ég býst við því að Þórbergur hafi átt hugmyndina að stíflunni. Það hafði verið Þórbergi mikill draumur að láta bátana sína sigla á lóninu fyrir framan Breiðabólstað og krakkarnir gerðu það eitt sinn að fara niður eftir með bát sem Þórbergur hafði smíðað sér og létu hann sigla á lóninu. Það var mjög hættulegt og ekki leið á löngu þangað til þeir voru sóttir aftur og skammaðir.
Þórbergur er mikill grúskari og er alltaf að finna upp á einhverju nýju til að gera. Hann var litinn hornauga í sveitinni vegna þess að hann vissi mikið og langaði til að vita meira. Hann fór kannski öðruvísi að hlutunum en aðrir krakkar en reddaði þessu alltaf á sinn hátt. Hann var jú mjög sérstakur. Við lifum í svo stöðluðu umhverfi að við erum að verða búin að útrýma þessum furðufuglum og mönnum sem sjá hlutina í öðru ljósi en hinir. Það er eitthvað sem er síður en svo til bóta. Þessir menn eru fremstir í flokki í öllum nýjungum á tæknisviði því þeim dettur einhver vitleysan í hug sem er ekki svo galinn þegar nánar er athugað.
Þrátt fyrir lestrargræðgi Þórbergs og áhuga á ýmsum hlutum dró hann sig ekkert út úr leikjum og félagsskap, heldur þvert á móti skemmti hann sér aldrei betur en í hópleikjum með krökkum úr sveitinni. Hann var hjartveill en reyndi sem mest hann gat að vera með. Það var farið í stórfiskaleik, blindingjaleik og saltabrauðsleik svo eitthvað sé nefnt. Það var  einnig mikið fjör að þykjast vera á hestbaki og hlaupaum með prik á milli fótanna. Þórbergur var oftast sá sem safnaði krökkunum saman. Þessir leikir þekkjast enn í dag, um það bil öld síðar. Ég skil það þannig að þessi Saltabrauðsleikur líkist einna helst leiknum „fallin spýta“ og svo var stórfiskaleikurinn í megindráttum eins og hann er í dag. Í rökkrinu fannst Þórbergi skemmtilegast að leika sér. Hann varð var við eitthvað sem hinir tóku ekki eftir. Það sem hann heyrði kallaði hann rökkuróperuna.
Á veturna renndu krakkarni sér á sleða eftir svellinu og niður brekkurnar. Það fékk samt ekkert á þau þó þau færu nokkrar byltur, það var bara hoppað aftur á sleðann og rennt af stað. Þessar sleðaferðir minna mann einna helst á snjóþotuferðirnar sem maður fór á „Esso hólinn“ heima. Ef það kom einhver með stóra vörubílaslöngu fengu allir að sitja í. Það var oft mikill hamagangur og læti en alltaf var þetta jafn gaman.
Krakkarnir renndu sér á leggjum á svellinu. Þetta var bundið neðan á fæturna og svo var bara að skella sér á svellið. Þórbergur hefur oft mjög gaman af því að gera grín að sjálfum sér og kallar sig ofvitann. En hann talar um það i kaldhæðni að það hafi nú verið frétt til næsta bæjar þegar ofvitinn eignaðist skauta, hvað þá að einhver léti sér detta það í hug að hann gæti notað þá. En Þórbergur æfðist á skautana og var ekki lengi að ná góðum árangri. Hann fór út á kvöldin að skauta og kom seint heim. Var hann þá yfirleitt skammaður fyrir leika sér í rökkrinu. Hann skautaði þá á lóninu fyrir framan bæinn og ímyndaði sér að hann vær skip sem væri að fara milli landa, líkt og hann gerði með trébátana áður fyrr. Hann er virkilega forvitinn og vill vita eitthvað meira um huldufólkið og skessurnar en er alltaf örlítið hræddur.
Það er alveg greinilegt að Þórbergur var vel að sér í mörgu. Þegar hann var að leika sér á lóninu á skautum sigldi hann á milli landa eins og áður hefur komið fram horfði hann á ímyndaðan kompás og fór milli landa. Bæði hefur hann kunnað eitthvað fyrir sér í landafræði og svo hefur hann kunnað eitthvað á kompás. Það eru ekki margir krakkar sem þú  getur rétt kompás og beðið þau um að segja þér hvernig þau noti hann.
Það sem var mest spennandi var kríueggjastuldur og skessuleikir. Að stela frá kríunnu er eitthvað sem krakkarnir ólust upp við. Krakkarnir voru ekki vandræðum með það að bjarga sér og bjuggu til leik þar sem þau léku bæði bónda og kríu. Það var ekki minni spenna í leiknum og oft mun skemmtilegra. Sama gilti um skessuleikinn. Huldufólk og skessur eru eitthvað sem engum er vel við, þó það sé aldrei talað um það á þann hátt. Þess vegna var mikil spenna hvort skessan náði þér eða hvort þú gast komið þér í skjól og bjargað lífinu. Þetta voru þeir æslafullu leikir sem eru oft skemmtilegir en geta farið út í öfga ef ekki er vel að gáð. Einkum var gaman að leika þennan leik í rökkrinu. Það setti annan svip á þetta allt saman.
Í síðasta kafla bókarinnar eru krakkarnir í Suðursveit búnir að búa sér til lítið samfélag. Sumir eru yfimenn og aðrir eru þegnar sem þurfa að fara eftir settum lögum og reglum. Það voru verslanir og fleira sem sæmir góðu byggðarlagi. Það kom fyrir að einhverjir fóru ekki eftir settum lögum og þá þurfti að dæma þá. Fræin innan úr peningagrasi voru notuð sem peningar en það var alltof algeng mynt. Þess vegna var skipt yfir í leirbrot og svo seinna yfir í koparmynt sem var slegin. Samfélagið þróaðist með tímanum. Á þessu sjáum við best þá breytingu sem hefur orðið á krökkunum síðan þau voru að leika sér með völur út í haga. Krakkarnir hafa tileinkað sér verslunarhætti og réttarkerfið. Reyna að gera samfélag sitt betra með því að dæma fólk sem fer ekki eftir settum reglum og nota oft “sömu” viðurlög (í smækkaðri mynd) og gilda í samfélaginu á Íslandi. Það kom mér mjög á óvart þegar ég las textann hvað krakkarnir voru vel að sér í þessum málum. Það eru ekki allir krakkar á þessum aldri, hvað þá krakkar nú til dags sem hugsa út í ríkismálin Þau sjá um að ekki verði gjaldmiðillinn úreltur og grípa til sinna ráða með því að skipta um gjalmiðil. Þessi leikur blés lífi í tilveruna í sveitnni og gerði dagana virðburaríka og næturnar bjartar af tilhlökkun. Þetta var samt ekki eintóm gleði því oft þurfti að setjast niður og hugsa til fullnustu hvernig stjórna ætti ríkinu.
Í ritgerðinni skoða ég leiki krakkanna í Suðursveit og velti athuga hvaða fyrirmyndir börnin hafa. Þau hafa einstakan frumleika og gera sér leiki úr flestu sem til fellur. Þau herma eftir störfum fullorðna fólksins, og leikir þeirra þroskast í samræmi við aldur. Ég skoða hvernig persóna Þórbergur er og hvernig hann er ólíkur öðrum, bæði hugmyndir hans og hegðun. Ég hef tekið eftir því að Þórbergur var á undan sinni samtíð og mun þroskaðri en krakkar á hans aldri. Má því þakka að hann var duglegur við lestur og tileinkaði sér fljótt alla hluti, þrátt fyrir hann hafi tekið þátt í félagslífinu af fullu kappi.

Heimildir:
1. Galdur og Menningarmistöð Hornafjarðar. 2002, 6. nóvember. „ Þórbergur Þórðarson á vefnum.” Vefslóð: http://www.thorbergur.is
2. Stefán Einarsson. 1961. Íslensk bókmenntasaga 874-1960. Prentsmiðjan Oddi, Reykjavík. bls 389-393

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 118
Gestir þennan mánuð: ... 8655
Gestir á þessu ári: ... 16695