Skip to main content

Steinarnir tala

Þorbjörg Arnórsdóttir skrifar:

Þórbergur segir í bók sinni Steinarnir tala:

En það sat fast í mér, frá því ég mundi eftir mér, að allt væri lifandi og með vissu viti……. Það var eins og þetta væri meðfædd þekking í mér…Mér var vel við hana í björtu. Hún gerði svo líflegt í kringum mig og svo mikið í öllu. En í myrkri, þegar ég var einn, þá var mér illa við hana."

Það er þessi meðfædda þekking sem einkennir allar náttúrulýsingar Þórbergs. Klettarnir og steinarnir í nánasta umhverfi lifnuðu við og voru fullir af stórbrotnu lífi.

Ég skildi ekki hvers konar líf það var, en ég fann, að það var líf og það var svo magni þrungið að það dró úr mér mátt, þegar ég horfði upp til þeirra."

Gerðistanginn

Gerðistanginn var óhugnalegt listaverk, eftir að ég kom auga á hann. Hann var frampartur af hauskúpu af manni með auðum augnatóttum, spauglaus og þungbúinn í framan."
Þórbergur Þórðarson; Í Suðursveit bls. 128

Fosstorfutindur er hæsti tindur í klettunum.

Það hefði alveg breytt áliti fólksins á bölvuðum halanum, ef hann hefði heitað Halatindur." Þegar maður var út á fjöru teygði Fosstorfutindur úr sér. Nú var Fosstorfutindur orðinn miklu hærri og upphafinn af hátíðlegum hreinleika og heiðarlegheitum. Nú fannst mér hann líkur föður mínum, þegar hann var búinn að þvo sér í framan og greiða á sér skeggið, áður en hann fór á niðurjöfnunarfund upp að Kálfafellsstað."
Þórbergur Þórðarson; Í Suðursveit bls 130 - 131

Kvennaskálatindur

Ævintýralegasta kennileitið í klettunum var Kvennaskálatindurinn……… Upp úr honum bar við himin tvo stróka, sem stutt var á milli. Þeir voru upp úr kambinum eins og þumalfingur og litlifingur, sem haldið er beinum upp í krepptri hendi. Þeir líktust líka reistum eyrum á íslenskum hundi, sem misst hefur helminginn ofan af vinstra eyranu í ástarævintýri".
Þórbergur Þórðarson; Í Suðursveit bls. 131

Gerðistindur

Þegar hrapaði úr Gerðistindi, kom alltaf rigning seinna um daginn eða næsta dag. Það hafði aldrei brugðist eins lengi og elstu menn mundu".
Þórbergur Þórðarson; Í Suðursveit bls. 45

 

Einn dag í góðu veðri gekk ég eftir föður mínum neðan túnið frá hengingarhesthúsinu og horfði upp til fjallsins og spurði: Getur maður náð með stöng upp í loftið, ef maður stendur á Gerðistindi?" Nei, svaraði faðir minn. Ég hefði ekki trúað honum, ef hann hefði ekki verið svona stór, gamall og vitur. En allt í einu tók ég eftir því , hvað buxurnar hans hreyfðust spaugilega í rassinn, þarna sem hann gekk á undan mér. Ég fór að skríkja í lágahljóðum og efast um, hvort mér væri óhætt að trúa manni sem væri svona sprenghlægilegur þarna aftan fyrir".
Þórbergur Þórðarson; Í Suðursveit bls 36

Fellsfjall

Þvers fyrir vestrinu stóð Fellsfjall, tæplega klukkutímagang frá bænum……. Þetta var hátt fjall og hreinlegt í laginu, og það var ákaflega fagurt. Það var eins og það hefði verið búið til af miklum byggingameistara, sem hafði hugsað það vandlega út, áður en hann byrjaði að hlaða það…… Það var listaverk, sem hinn ónefndi meistari hafði sett svona á þennan stað handa fólkinu til að horfa á, svo að það yrði andlegra í sér".
Þórbergur Þórðarson; Í Suðursveit bls.163

Helghóll

Að sitja upp á Helghól í fallegu veðri og horfa til vesturs,-það var hápunkturinn í fegurð lífsins. Og Helghóll var líka tveir heimar. Þar voru huldufólksbyggðir….Og við Helghól hafði ýmislegt komið fyrir, sem gaf til kynna, að þar væru fleiri á stjái en jarðlífsverur."

Breiðabólsstaðarklettar

Á rákum og syllum og klettanefjum voru hér og þar einhverjir uppistandarar, sem líktust strýtum snókum og snögum………..Hver uppistandari hafði skugga, sem færðist til, eftir því sem sólinni miðaði áfram til vesturs. Þetta gaf þeim lifandi svip. Og áður en minnst varði, sá ég að klettarnir moruðu af þessu hljóða, yfirlætislausa lífi. Þeir voru ekki lengur klettar. Þeir voru risavaxið listasafn. Mikið var þetta skrítið. Skyldi enginn hafa séð þetta á undan mér? Ég sá greinilega, af hverju þau voru…….En ég sá að þetta var tígulegur Arabahöfðingi á hesti og stefndi í vestur………Fyrir ofan hann var stúlka, sem sat réttum beinum á háum palli. …..En ég sá annað brjóstið á henni. Það var stinnt og stórt. En ég fékk samt enga náttúru af að horfa á það. Fyrir ofan stúlkuna stóð löng og gömul kerling í síðri mussu……Og þarna sat gamall og feitur köttur fyrir austan og neðan Arabahöfðingjann. Fyrir neðan köttinn stóð prestur í hempu og með kraga…………."
Þórbergur Þórðarson Í Suðursveit bls. 128

Hvað var Fellshella á kortinu?

Nokkrum áratugum seinna heyrði ég af tilviljun, að sneiðin af framhlið fjallsins, sem var fyrir framan gjána, héti Fellshella…..Og þessi hella var ekkert smávegis hellublað……….Þetta var smiðshöggið á meistaraverkinu, meitilsporið, sem gaf Fellsfjalli frumlegri svip en önnur fjöll höfðu."
Þórbergur Þórðarson; Í Suðursveit bls. 167

Í Kvennaskála er gamall góðkunningi Þórbergs

Hann sat þar álútur á hlýlegum grasbala og snöri andlitinu niður að götunni. Hann var eins og gömul margfróð kona, sem situr á fótunum á sér og er að segja sögur af lífinu. Það skildi enginn hvað hann var að segja…..Hann hafði setið þarna á þessum bala í þessum sömu stellingum síðan Oddný gamla á Gerði mundi fyrst eftir, og hún var orðin áttræð. Spor þessa mikla líkama ofan úr fjallinu hafði gróandi jarðarinnar afmáð, sennilega fyrir ævalöngu. Þessi steinn var nafnlaus eins og höfundur Njálu. Hann var bara kallaður stóri steinninn í Kvennaskála."
Þórbergur Þórðarson; Í Suðursveit bls 178

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 4381
Gestir á þessu ári: ... 22404