Skip to main content

Þórbergur og esperanto

Baldur Ragnarsson skrifar:

Í umfjöllun um ævi og störf Þórbergs Þórðarsonar hefur mér (og fleirum sem vel þekkja til) fundist mjög á það vanta að minnst sé með verðugum hætti hins mikla starfs hans í þágu hins hlutlausa alþjóðamáls dr. Zamenhofs, esperanto. Sú staðreynd blasir þó við að um nær tveggja áratuga skeið vann Þórbergur markvisst að kynningu á alþjóðamálinu með kennslu og samningu kennslubóka, blaðagreina og ýtarlegs kynningarrits um málið (Alþjóðamál og málleysur,1933). Hann var einn helsti hvatamaður að stofnun esperantofélags í Reykjavík.

Þórbergur lærði að sjálfsögðu esperanto til hlítar og kennslubók hans í málfræði esperantos ber vitni umþann skýrleika sem einkennir öll skrif hans um málfræðileg efni. Nokkrar ritgerðir Þórbergs voru frumsamdar á esperanto og fyrst birtar í erlendum esperantotímaritum (Heimspeki eymdarinnar, Bréf til jafnaðarmanns, Þrjú þúsund þrjú hundruð og níu dagar úr lífi mínu, Bréf til nazista). Hann þýddi einnig nokkrar íslenskar þjóðsögur á alþjóðamálið og stóð mjög í bréfaskriftum við erlenda esperantista. Um árabil vann Þórbergur ásamt fleirum (þar á meðal Vilmundi Jónssyni landlækni) að söfnun til íslensk-esperantiskrar orðabókar; er það seðlasafn nú um stundir í umsjá Íslenska esperantosambandsins þar sem unnið hefur verið að könnun þess og tölvusetningu.
Þessi þögn eða áhugaleysi á þessum mikilvæga þætti í lífsstarfi Þórbergs Þórðarsonar á sér vafalaust ýmsar skýringar. Flestum sem eitthvað þekkja til Þórbergs mun þó trúlega kunnugt um esperantoáhuga hans, einkum fólki af eldri kynslóðinni. Samt er það svo, að yfirleitt virðast menn líta á þann eldmóð sem einkenndi starf hans í þágu alþjóðamálsins sem hálfbroslegt uppátæki sem hefði svo sem mátt vænta af slíkum sérvitringi sem Þórbergi. Stefán Einarsson, sem er sá eini sem fjallað hefur að marki um esperantotímabilið í lífi Þórbergs (Þórbergur Þórðarsson fimmtugur, bls.54 -61), getur t.d. ekki stillt sig um að harma „að Þórbergur skyldi fara að grufla út í jafn-ópraktísk og óskemmtileg vísindi og esperanto-mál og bókmenntir.“Fordómar og vanþekking hafa átt sinn þátt í því að nær engir hafa lagt það á sig að kynna sér esperanto í því skyni að öðlast skilning á esperantoáhuga Þórbergs og því síður til að geta lesið það sem hann hefur skrifað á esperanto.
Nú má að sjálfsögðu segja að það standi næst samherjum Þórbergs í hugsjónabaráttunni fyrir hlutlausu alþjóðamáli að kanna og kynna störf hans á þeim vettvangi. Og það hefur vissulega verður gertmeð ýmsum hætti. Tvisvar hefur Íslenska esperantosambandið efnt til sérstaks Þórbergsdags þar sem m.a. hafa verið kynnt skrif Þórbergs á alþjóðamálinu. Kristján Eiríksson, sem nú starfar við Stofnun Árna Magnússonar, hefur lært esperanto, m.a. til að geta kannað handrit Þórbergs á því máli og erhann um þau allra manna fróðastur. Í bókmenntatímariti esperantosambandsins, La Tradukisto, hafa verið birtar þýðingar á skrifum Þórbergs í íslenskri þýðingu. Í bókinni Eseoj memore al Ivo Lapenna(ritgerðasafni til minningar um Ivo Lapenna, merkan esperantista, sem prentað var í Danmörku 2001), er löng ritgerð um Þórberg eftir Baldur Ragnarsson, þar sem sérstaklega er fjallað um Þórberg sem esperantista.
Ég tel að nauðsynlegt sé að halda minningu Þórbergs sem esperantista og esperantohöfundar meira á lofti en verið hefur. Afstaða hans til esperantos hélst óbreytt þótt þátttaka hans í esperantostarfi minnkaði með árunum sökum anna við ritstörf á móðurmálinu. Það varð mér ljóst er ég talaði við Þórberg á esperanto eina dagstund löngu eftir að hann var að mestu hættur að sinna esperantostörfum að marki. Í samtalsbókinni Í kompaníi við allífið(1959) minnist Þórbergur alloft á esperanto og þar kemur fram að hann stendur þá enn í bréfaskriftum á esperanto. Og óvíða kemur afstaða hans til hins hlutlausa alþjóðamáls jafn beinskeytt í ljós og í eftirfarandi orðum (bls. 30): „Zamenhof er einn mesti maður, sem lifað hefur á þessari jörð. Honum tókst fyrstum manna að búa til tungumál, sem allar þjóðir gætu sameinazt um, ef svolítið af viti væri í hausnum á þeim. Í Esperanto eru engir málslegameirimáttar né minnimáttar. En þrælslundin er svo mikil í heiminum, að menn vilja heldur babla minnimáttar ensku við Englendinga, heldur en standa á málalegum jafnréttisgrundvelli með Esperanto frammi fyrir Englendingum og öðrum þjóðum. Það er engin reisn til í þessu dóti, ekkertannað en montgola og hinn parturinn er skriðdýrið.“ Og vel fer á því að orðið var við vilja Þórbergs um legstein sinn, sem hann birti í Eddu sinni 1941, að á hann var klappað stef það á esperanto sem hann orti til minningar um sjálfan sig.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 4520
Gestir á þessu ári: ... 22543