Skip to main content

Í kompaníi við Þórberg og Matthías

Sverrir Árnason skrifar:

„Bonvolu eniri!"

     Upphafsorð bókarinnar - Þórbergur býður gesti sína velkomna á esperantó. Þórbergur og esperantó. Þórbergur og hugsjónin um betri heim þar sem tungumálið átti að gegna lykilhlutverki sameiningar í veröld þar sem allir áttu að vera jafnir - allir áttu að hafa jafnan rétt, allir áttu að eiga allt saman. Veröld laus við stigveldi.  Þetta minnir svolítið á það sem Ástráður Eysteinsson talaði um í fyrirlestri sínum um hugmyndir Þórbergs að gefa árlega út bók þar sem hann kæmi hinum margvíslegu hugðarefnum sínum á framfæri - bók sem væri á láréttu plani þar sem flokkunin flæðir út um allt og hægt að skauta á milli að vild, bók sem hafnar stigveldi því stigveldið gengur út á að það sem sé efst sé mikilvægast en annað sé mismunandi mikið undirskipað.

Slík bók átti að veita honum frelsi til þess að tjá sig um hvaðeina sem honum lægi á hjarta. Það frelsi myndi skáldsöguformið aldrei veita honum, það var allt of þröngt form fyrir slíkan andans mann eins og Þórberg Þórðarson. Þannig kom esperantó inn í líf Þórbergs. Hann sá það í esperantó sem hann var að leita að. Það var hugsjónin um samfélag ‘á láréttu plani' - samfélag sem byggði á réttlæti og sannleika.

Þórbergur er að heilsa þeim Ragnari í Smára og Matthíasi Johannessen sem sækja skáldið heim, haustið 1958, í þeim erindagjörðum að fá Þórberg til að samþykkja að Matthías taki við hann samtalsbók. Bók sem átti síðan að koma út í tilefni af sjötugsafmæli skáldsins, þann 12. mars 1959.

****

 Okkur þótti vænlegra, að Ragnar hýrgaði skáldið með litlu koníaks-tári, áður en gengið væri til viðtals. Við vissum að viðtalarinn gat verið kenjóttur (Í kompaníi við Þórberg;11).[2]

 

Þórbergur kenjóttur?! Þórbergur er í það minnsta þekktur fyrir að hafa skoðanir og það ekki endilega allra. En orðið „kenjóttur" kallar fram neikvæð viðbrögð . Íslensk orðabók skýrir ekki inntak orðsins heldur vísar á orðin „keipóttur" og „duttlungarfullur". Ég fletti upp orðinu „keipóttur" og það vísar á orðin „duttlungafullur" og „kenjóttur". Ég fletti upp orðinu „duttlungafullur" og það vísar á orðið „dyntóttur". Hvaða hvað!? Þetta er að verða eins og leita upplýsinga á opinberri stofnun þar sem hver vísar á annan! Ég fletti upp „dyntóttur" og fæ upp tvö orð: „duttlungafullur" (kannast við það!) og svo „mislyndur". Jæja, ég er einhverju nær. Ekki svo að ég hafi ekki ekki haft hugmyndir um hvaða merkingu orðið „kenjóttur" hafði. Kannski spurning um óþarfa nákvæmni!? En til að koma skipinu í höfn þá fletti ég upp orðinu „mislyndur".  Fæ annars vegar upp orðin „duttlungafullur" og „keipóttur" og hins vegar orðin „önuglyndur" og „uppstökkur". Ég læt þetta duga. En hverju er ég nær? Maður sem þekkti ekki persónuna Þórberg. Og þekki hana ekki af bókum og viðtölum sem önuglynda og uppstökka. Jæja, hann var ekki alltaf blíður á manninn í Bréfinu. Til að mynda þegar hann var í pólitíska hamnum. En hann var ekki kenjóttur þar, né heldur dyntóttur, duttlungafullur eða keipóttur. Nei - hann var reiður. Hann var að gera atlögu að óréttlæti og viðteknum ósannindum. Hann hafði málstaðinn með sér og hafði því fullan rétt á því að vera reiður!

     Áfram með merkingarfræðina. Þar sem „duttlungafullur" og „keipóttur" voru sett saman annars vegar og „önuglyndur" og „uppstökkur" hins vegar, vel ég að sjálfsögðu fyrri flokkinn en - nota bene; án þess að gangast endilega undir það. Þó ég geri ráð fyrir að Ragnar og Matthías hafi þekkt Þórberg betur en ég mun nokkurn tíma geta þekkt hann, finnst mér orðið „kenjóttur" einhvern veginn illa valið og ekki gefa sanngjarna mynd af skáldinu. Er ekki full auðvelt að kalla mann kenjóttan sem fer ekki alltaf að vilja manns heldur - ávallt - að eigin vilja. Og Þórbergur var sannarlega maður með margar skoðanir sem gátu vel kallast sérkennilegar. En þær voru hans og þær skoðanir sem hann hafði voru jafnan vel ígrundaðar. Jafnvel ‘monstrólógía' hans. Þórbergur gaf öllu séns. Hann var að leita að þekkingu á öllum sviðum veruleikans og hans svið veruleikans var einfaldlega víðfeðmara en hins almenna borgara. Þar sem hann var ekki ‘venjulegur' maður þótti hann undarlegur maður. Og einhverjum þótti hann „kenjóttur". Ég verð að viðurkenna að mig langi til að trúa því að það sem Þórbergur sagði og gerði hafi yfirleitt verið vel ígrundað. Og mér finnst verk hans endurspegla það. En ég verð einnig að viðurkenna að ég veit ekki hvernig maðurinn var, svona almennt, í daglegri umgengni.

     Með þessar ‘játningar' læt ég þessa umræðu um hvort Þórbergur hafi verið kenjóttur eða ekki, nægja. Ég er enn á fyrstu síðu bókarinnar og ef svo fer sem fram horfir endar þessi ritsmíð með að vera töluvert lengri en viðtalsbók Matthíasar við skáldið. En það má ekki verða því Bergljót hafði hugsað sér að hafa það þokkalega náðugt í rannsóknarleyfi sínu. Ég sest því um stund í skuggann og brýni hnífinn fyrir væntanleg átök við áðurnefnda viðtalsbók.

****

 Enn á fyrstu síðu!

 

Ragnar settist í stól skáldsins og sagði: - Kannski maður geti orðið gáfaður hér. Svo hrökk hann allt í einu upp úr stólnum. Það var eins og tilraunin hefði mistekizt (11).

Ragnar gefur skáldinu ómeðvitað ótvírætt kompliment, en eins og lýsing Matthíasar er á tiltækinu þá var eins og gáfur Ragnars væru ekki upp á marga fiska. Hann hreinlega hrökklast úr stólnum. Þetta minnir mig á orðtakið að ‘það verði hver að vera maður fyrir sinn hatt' - og getur það ekki allt eins átt við um stóla? Ragnar virtist að minnsta kosti ekki vera maður fyrir stól Þórbergs. Kannski var hann ekki nógu beinn í baki? Þegar Þórbergur sest í stólinn segir hann:

Maður á að sitja teinréttur í stólnum. Heilagur andi kemur aldrei yfir álútan mann. Það er auðvirðilegt að biðjast fyrir á hnjánum (11!).

Auðmýkt er ekki aðalmerki Þórbergs. Að minnsta kosti ekki fyrir hvers kyns boðvaldi. Og þó sannleikurinn hafi ávallt verið honum heilagur þá var óþarfi að fallast á hnén fyrir honum. Betra að taka á móti honum beinn í baki. Og einhvern veginn þegar ég hugsa um sannleikann þá hugsa ég mér hann beinan í baki. Það hugsa ég að Þórbergur hafi líka gert. Við Þórbergur hugsum okkur sannleikann beinan í baki.

 ****

 Þórbergur gengst undir að eiga við Matthías samtöl sem færð verði til bókar. Meðganga samtalsbókarinnar hefst 17. nóvember - fæðingarár mitt. Hálfum mánuði fyrir fæðingu mína. Ég leita í bókinni að því hvort þeir hafi eitthvað rætt saman fyrsta desember. Nei, ekkert. Þeir ræða saman 29. nóvember og 3. desember. Egó mitt verður fyrir vonbrigðum en svo skammast ég mín. Uppgötva að mig hafi langað til að upphefja mig með einhverju sem tengdist mér ekki á nokkurn hátt. Ekki þórbergst að gera það. Uhmm. Jæja. Hvað gerir maður ekki á dimmum og drungalegum janúardögum. Ég ætla að skreppa upp og fá mér expresso og kleinu. Kem að vörmu.

*

 Aftur að Allífinu. Blaðsíðu þrettán. Annars byrjar bókin á blaðsíðu ellefu og ég er varla búinn með tvær blaðsíður í henni (blaðsíða 12 er aðeins fimm línur + eitt orð í þeirri sjöttu). Og ég er að rubba upp fjórðu blaðsíðunni. Ef þessu heldur fram verður ‘ritgerðin' mín aldrei undir fimm hundruð síðum. Og þá held ég að fari nú lítið fyrir rannsóknarleyfi Bergljótar. Eða vorönninni hjá mér. Hmm?! Ég sest aftur um stund í skuggann og brýni hnífinn af meiri skerpu en fyrr. Einbeittur. Vilji er allt sem þarf!

*

Þórbergur og Matthías ræða um tilkomu Bréfs til Láru. Matthías spyr hvort hann hafi ekki verið hræddur við að birta Bréfið.

- Nei, mér datt aldrei í hug nein hræðsla. Ég var sannfærður um, að sannleikurinn væri opinberaður í bréfinu. Það geta verið einhver smáatriði, sem ég hef farið rangt með. En í höfuðatriðum fjallar bréfið um sannleikann (13).

Sannleikurinn aftur. Sannleikurinn eins og hann birtist Þórbergi. Ég er sannfærður um að ætlun Þórbergs hafi, meðal annars, verið að rétta af nokkrar meinlegar villur sem blöstu við honum í íslensku samfélagi í upphafi 20. aldar. Til að mynda þeim ranghugmyndum sem bændur landsins voru haldnir um sjálfa sig (og var ‘dyggilega' haldið að þeim) sem og um gildi þeirra í samfélaginu:

Í sumum kaupstöðum landsins eru menn, sem liggja á því lúalagi að ljúga því að veslings bændunum, að þeir séu svo ósköp „heilbrigðir", menntaðir, gáfaðir, víðsýnir, höfðinglyndir og andlega vakandi. Þeir séu kjarni þjóðarinnar. Þeir eigi að ráða lögum og lofum í landinu o.s.frv. Sumir flónskast út í þetta af blindum þjóðrembingi. Aðrir sníkja sér pólitískt fylgi bænda með því. Og eftirræturnar tyggja þetta svo upp eftir hinum í einskærri einfeldni eða fáfræði. Afleiðingarnar eru auðsæjar. Bændur trúa því í einfeldni sinni, að þeir séu meiri og fullkomnari en þeir eru. Þetta hindrar þá í andlegum framförum (Bréf til Láru;119).

„Vinur er sá er til vamms segir", segir fornt máltæki. Og Þórbergur segir, áður en hann varpar ofangreindum athugasemdum fram: „Af því að mér þykir vænt um bændur, óska ég einskis annars en þeim fari fram" (118). Það er heldur ekki snefil af meinfýsi að finna í þessum texta. Það er allt satt. Við þekkjum söguna. Þröngsýni bænda stóð lengi vel íslensku samfélagi fyrir þrifum. Þá skorti víðsýni og framfarahugsun. Þeir hugsuðu aðeins um sinn eigin rann og töldu allt annað líferni en sveitalífið vera manninum böl. Það var samt ekki en fyrr með sjávarfanginu sem íslenskt samfélag fór að rísa upp úr aldagamalli forneskju. Þá fóru að koma á land verðmæti sem áttu meðal annars þátt í gefa fleirum en búendum kost á að giftast og eignast börn. Og eignast eigið persónulega heimili. Að ekki sé talað um allt hitt. En það er auðvelt að dæma. Það er ekki ólíklegt að ég (ef ég þekki mig rétt) hefði verið einn af þessum gömlu staðföstu bóndum ef ég hefði verið uppi í upphafi aldarinnar; ég hefði elskað rollurnar mínar, kýrnar mínar, grasið mitt og hlöðuna, kaffið og tóbakið og svolítið einnig dropann, og kannski börnin (ef þau voru dugandi) og svo konuna einnig ofurlítið. En svo fer vinnufólkið frá mér í einhver spillingabæli niður við sjó þar sem enginn er til að hafa hemil á líferni þeirra. Bara sukk og svínarí, lausaleikur og dönsk áhrif í þokkabót. Ég myndi eflaust sjá fyrir mér íslenskt samfélag vera að fara til fjandans. Upplausn og ringulreið myndi ríkja í sveitunum þegar enginn er til að hugsa um skepnurnar og slá grasið. Staðfastur ég, sem var landi mínu trúr. Blessuð sé minning mín!

     En ekki Þórbergur. Að einhverju leyti kannski vegna þess að hann var ‘svo heppinn' að vera ekki hneigður til bústarfa. Það hlýtur að hafa átt þátt í að gefa honum möguleika á að standa örlítið til hliðar og horfa á sveitalífið rannsakandi augum. Einnig á lífið á mölinni þar sem hann var heldur ekki óvéfengjanlega ofinn í það. Og gagnrýnum augum - í jákvæðum skilningi þess orðs. Þeim sem á hinn bóginn þykir aðeins vænt um sjálfa sig, sleikja rassa til þess að afla sér fylgis og hinir einföldu apa upp fullyrðingar þeirra af því að þeir halda að þær séu sannar. Óafvitandi (eða hvað?) eru þeir í leiðinni að sleikja rassa rassasleikjaranna. En Þórbergur vildi segja bændum sannleikann:

Ég vil segja bændum sannleikann, afdráttarlausan sannleikann og ekkert annað en sannleikann. Ég vil sýna þeim fulla hreinskilni. Ég vil leiða þeim fyrir sjónir, hvernig þeir eru, svo að þeim sé það ljóst, eftir hverju þeim ber að keppa. Og ég segi við bændur: Þið standið yfirleitt á heldur lágu menningarstigi. Sjóndeildarhringur ykkar er þröngur og lágt til lofts í hugmyndaheimi ykkar. Þið hafið flestir hugann rígbundinn við kotin ykkar og veraldlega smámuni. En andlegir straumar hrífa lítið hjörtu ykkar. [...] Og ykkur hefur farist skammarlega við flesta fátæklinga, sem hafa reynt að halda alþýðumenningu ykkar upp úr skítnum. Þótt þið trúið kannski á guð og sækið kirkju ykkar á helgum, þá hugsið þið eins og enginn guð sé til. Þið eru efnishyggjumenn  í húð og hár (Bréf til Láru;119).

Í næstu efnisgrein dregur hann agnarlítið úr án þess þó að meintar ‘sakargiftir' falli niður. Hann segist skilja að bændunum sé ekki sjálfrátt um þetta því aðstæður valdi ‘að nokkru' leyti andleysi þeirra:

Baráttan við örbirgð og fáfræði veldur hvataskiptum í lífi ykkar. Þið verðið andlausir nurlarar. Og takmark lífsins verður nurl og sparnaður (Bréf til Láru;119).

Þórbergur vill hins vegar meina að nú séu nýir tímar og það eigi bændur að nýta sér, sjálfum sér og öllum landslýð til hagsbóta. Og hann gefur þeim mörg ‘góð' ráð í þeim efnum. Meðal annars eiga þeir að hætta að lesa Tímann og svo eiga þeir að vera sósíalistar: „Allir sósíalistar eru samvinnumenn. [...]. En einu tryggu samvinnumennirnir eru sósíalistar, af því að þeir sækja fram að andlegri hugsjón" (122). Og svo framvegis. Þórbergur Þórðarson landbúnaðarráðherra. Eða ráðherra landbúnaðar og menntamála. Það hljómar einhvern veginn vel. Þórbergur hafði sjálfur engra hagsmuna að gæta í sveitinni og því fremur hljóma orð hans hinum tæra hljómi sannleikans. Hann vildi bændum landsins vel og sannaði það með orðum sínum. Beinn í baki!

****

Þeir félagar halda áfram spjallinu um Bréfið (blaðsíða 14):

- Og svo varðstu frægur.

- Já, illræmdur. Það héldu margir að ég væri geggjaður.

- Gerðirðu beinlínis tilraun til að hneyksla menn með bókinni?

- Onei. Ég hafði svolítið gaman af að ganga fram af fólki á einstöku stað, en það er lítið um það, aðeins á einstaka stað. En þetta er yfirleitt allt satt.

 - En þegar þú varðst óléttur?

- Ég er nú hræddur um það. Svo frumlegur er ég ekki, að mér gæti dottið í hug að ljúga þeirri sögu. Það voru kýr og meri fyrir austan, sem urðu óléttar á yfirnáttúrulegan hátt. En ég held ég hafi ekki heyrt það fyrr en nokkrum áratugum seinna.

- Og sagan um hrökkálinn?

- Hún er sannur draumur (14-15).

Þetta er eitthvað sem mig langaði til að hafa með í ritgerðinni. Annars vegar til að minna mig á að óléttukaflinn hafi ekki verið skáldskapur (ég trúi honum!) og hins vegar túlkun Þórbergs á því hvers eðlis sagan um hrökkálinn hafi verið. Abupp!

     - Og þó! Þetta má aðeins teygja meðan enn er nægt pláss fyrir hendi því það má tengja því sem Þórbergur segir um þessi mál í Bréfinu:

Í vitund minni er ekki mikill munur á hugmynd og ytri reynslu. Ég get lifað upp langa röð af hugsuðum atburðum eins og bjargfastan veruleika. Ég sé sýnir, heyri heyrnir og þreifa á. Ég finn áhrifin læsast um líkama minn, ýmist þrungin af himneskum unaði, ýmist mögnuð helvítis kvölum. Hugmyndaheimurinn er mér jafnvel sýnilegri er hinn sýnilegi heimur (84).

Þegar þetta rifjast upp, í tengslum við samtal þeirra Matthíasar, blasir við hvers eðlis upplifanir Þórbergs voru. Þær voru sannar fyrir honum meðan hann upplifði þær - allt eins og þeir sem ‘segjast' hafa séð drauga, raunverulega ‘sáu' þá. Það er ekki hægt að hafna upplifun sinni, jafnvel þó hún fái ekki vísindalega staðfestu. Þess vegna trúði Þórbergur því að skrímsli væru til, jafnvel þó að tilvist þeirra hafi ekki fengið vísindalega staðfestingu. Hann var maður sem hafði upplifað margt í gegnum hið ríka ímyndunarafl sitt og næmi og því skildi hann mætavel sjónarmið þeirra sem sögðust hafa upplifað eitthvað sem almennt þótti fjarstæða. Abupp!

****

 Þegar Þórbergur segir frá því í Bréfinu er hann settist niður í skógarrunn og skeit, sýndi hann fram á að hann var rómantískur á sannan hátt! Það var líka sönn saga, segir Þórbergur. „Aldrei komast menn í nánari snertingu við náttúruna", segir hann Matthíasi. Alveg eins og hann sagði í Bréfinu. Þetta vitum við sem höfum líka gert þetta, þó við höfum kannski ekki haft tilhneigingu til að birta það á prenti. Enda var líka búið að því og óþarfi að apa það eftir. Þórbergur gengur að skrifborði sínu og nær í kort til þess að sýna Matthíasi hvar hann hafði skitið. Enginn kúkur á kortinu til að sanna atferlið en það sást hins vegar á kortinu að það var skógur þarna. Og Þórbergur staðhæfði að þarna hefði hann skitið! Hann segist hafa vitað að þetta myndi hneyksla marga en honum fannst samt einkennilegt hvað það var gert mikið veður út af þessu: „Og pólitískir andstæðingar mínir bentu á svonalagað til að ófrægja bókina. Þeir töluðu um þetta, eins og það væri aðalatriðið í bókinni" (16), segir skáldið og virtist ekki par ánægður. Skiljanlega, miðað við allt hitt hnossgætið sem þar var að finna.

****

 Hvatinn að skrifum hjá Þórbergi?

- En hví kallaðirðu kverið Hálfa skósóla?

- Jú, ég hafði ort eitt og eitt kvæði frá því ég var innan við tvítugt. Sumir höfðu gaman af þeim og báðu mig af gefa sér þau uppskrifuð. Ég lét þá hafa svolítið safn og fékk 2 krónur fyrir. Það var jafnmikið og hálfir skósólar kostuðu þá. Já, það má eiginlega segja, að peningaleysið hafi rekið mig út á rithöfundarbrautina. Sennilega hefur þetta alltaf verið bisness hjá mér að einhverju leyti. Ef ég hefði verið ríkur, mundi ég sennilega hafa skrifað allt annað en ég hef gert. Þá hefði ég lagt mig eftir dulrænum efnum (19).

Vinir Þórbergs hvöttu hann til að gefa út Bréfið. Vinir hans báðu um að fá hjá honum uppskrifuð ljóð. Fyrir það fékk hann einhverjar krónur. Þórbergur var beðinn um að flytja erindi um Stefán frá Hvítadal í útvarpið og upp úr því spratt Íslenzkur aðall. Svo kom Ofvitinn. Veit ekki til þess að nokkur hafi beðið hann um að skrifa þá bók. Síðar kom Ragnar í Smára og bað Þórberg um að skrifa um Árna prófast. En þegar Þórbergur skrifaði Ofvitann var hann giftur Margréti og ‘óábyrgir' aðilar hafa fleygt því að hún hafi ‘rekið Þórberg eins og fyrirtæki'. Ekki ætla ég að taka undir það. En ég ætla heldur ekki að vísa því alfarið á bug. Margrét var enginn kotkerling. Það var reisn yfir henni, hún var skörungr eins og það heitir á góðu Íslendingasagnamáli. Slíkar konur eru stoltar konur sem er annt um heiður sinn og velferð. Og þeim er ekki hent að eiga vesalmenni fyrir eiginmenn. Þó að Þórbergur hafi þótt sérkennilegur var hann ekki vesalmenni. Enginn sem leitar sannleikans er vesalmenni. Þórbergur leitaði sannleikans. Og hann var mesti stílsnillingur íslenskra bókmennta. Og Þórbergur var giftur Margréti.

****

 Baráttan um sannleikann (??):

- En Stalín?

- Það er langt á milli hans [Hitlers] og Stalíns, get ég sagt þér. Hitler heldur áfram með sitt stríð hinumegin, en Stalín var friðarsinni, uppbyggingamaður mikill, þótt honum yrðu skyssur á. Hann var efalaust einn af merkustu mönnum mannkynssögunnar. Churchill á ekki orð í ævisögu sinni til að lýsa hrifningu sinni á Stalín. Hitler og hann voru alólíkar manngerðir. Svo segja menn, að Krústjoff hafi ráðizt á hann á 20. flokksþinginu. Ég hef aldrei séð þá ræðu. Þegar Stefán Pétursson spurði Sigurð Guðnason, hvort hann hefði ekki lesið „Ræðu Krústjovs", lét Sigurður sér fátt um finnast og sagðist ekki búast við að geta lært mikið af ræðu, sem John Foster Dulles hefði samið, Stefán Pétursson þýtt og Áki Jakobsson gefið út. Sigurður er merkilegur maður, og vel greindur. Það eru leiftur í honum eins og séníi. En ég var að tala um lífið eftir dauðann (19-20).

 

John Foster Dulles? Hver er hann? Eða var? Nú er gott að hafa Google.  Ég slæ inn nafnið hann og upp koma „um það bil" 360.000 niðurstöður! Efst kemur „John Foster Dulles: Secretary of State". Skoðum það nánar:[3] Var major í bandaríska hernum, þingmaður og utanríkisráðherra. Dó úr krabba 1959. „For six years John Foster Dulles dominated both the making and the conduct of United States foreign policy". Það var og! Dulles var á þessu tímabili nánasti aðstoðarmaður Eisenhowers forseta. Þá var hann mjög umdeildur („highly controversial Secretary of State") en fær lof fyrir sannfæringarkraft sinn og samningatækni, hann var einnig afspyrnuduglegur að ferðast um heiminn. Hvað gera menn ekki fyrir sannleikann! Samkvæmt því sem fram kemur á þessari síðu var J. F. Dulles greinilega trúr sannfæringu sinni og lifði samkvæmt því. Sennilega eiga þeir Þórbergur það sameiginlegt að hafa báðir verið trúir ‘sannleikanum'. En kannski fólst starf Dulles einkum í því að ‘verja' sannleikann. Eða „sannleikann". Þann hagsmunatengda og var því ekki sá sannleikur sem Þórbergur gaf sig út fyrir að vera stöðugt að leita að, en sá sannleikur takmarkast aðeins af sjálfum sér. Þar skilur á milli þeirra og skiljanlega trúir Þórbergur engu af því sem mögulega gæti komið frá þeim manni. Ekki frekar en hann hefði trúað nokkru af því sem þeir félagar Bush, Cheney og Rumsfeld (eða á ég að segja Cheney, Rumsfeld og málpípa þeirra, Bush) hafa látið frá sér fara á okkar tímum og gera það ekki síst í nafni trúarinnar. Í nafni Krists. ... . Guð minn góður! Miklar eru byrðar þínar!

     Ég held áfram leitinni og allt of margir með nafnið Stefán Pétursson koma upp en Áki mun hafa verið sósíalisti og var til að mynda ráðherra, ásamt Brynjólfi Bjarnasynir, í „nýsköpunarstjórn"  Ólafs Thors 1944-1947. Jæja, það gildir einu hvaða bakgrunn þeir höfðu, Þórbergur valdi einfaldlega að trúa ekki því sem Krústjoff sagði um Stalín og ógnarstjórn hans. Að minnsta kosti valdi hann að trúa því ekki opinberlega. En kannski birtist þessi ‘barátta um sannleikann' (eins og ein góð manneskja sem ég þekki, komst að orði) einmitt einna skýrast í viðbrögðum manna við ræðu Krústjovs. Vinstri menn höfðu, að marggefnu tilefni, það fyrir reglu að trúa engu sem birtist í Mogganum, og hægri menn, sennilega einnig af marggefnu tilefni, höfðu það fyrir reglu að trúa engu sem birtist í Þjóðviljanum. Ein birtingarmynd þessarar baráttu var nefnilega það að ‘hagræða sannleikanum' og það var meðal annars réttlætt með því að ‘hitt blaðið' laug alltaf svo miklu. Þannig gat þessi ‘regla' afbakað vitsmunalega umræðu um það sem var raunverulega að gerast í heiminum. En þegar áfallið mikla kemur með ræðu Krústjovs neita ‘ýmsir' að horfast í augu við þann sannleika sem þar kemur fram og fela sig í raun á bak við ‘regluna'! Það er engum vafa undirorpið að það sem Krústjoff sagði í ræðu sinni hafi verið satt og rétt. En afhjúpunin var hrikalegt áfall fyrir þá sem trúðu því að draumaríki þeirra væri að rísa í Sovétríkjunum og að boðskapurinn myndi breiðast þaðan um allar jarðir. En það var öðru nær. Margir hreinlega grétu af harmi. Hvað nú? Hvað með hugsjónina um jafnrétti og bræðralag? Þetta voru sannarlega erfiðir tímar. Afhjúpunin var þess eðlis að það var í raun ekki hægt að afneita henni. Samt gerðu það margir. Þetta var of stórt áfall fyrir þá. Aðrir stóðu upp og viðurkenndu að þetta hefði verið þeim áfall. En mér finnst það í meira lagi brogað að ‘maður sannleikans' hefði valið að fela sig á bak við ‘regluna' í stað þess að grafast fyrir um það hvað var rétt í þessu og hvað ekki. Mér finnst það ekki ‘þórbergst' að láta þar við sitja. Maðurinn sem með Bréfinu lagði sig í líma við að leiða mönnum í ljós villu sína svo þeim væri ljóst ‘eftir hverju þeim bæri að keppa'! Að hverju keppti Þórbergur eftir þetta? Trúði hann því í raun að ræða Krústjovs hafi verið blekking? Eða hvað?

     Í síðasta fyrirlestri haustannar á námskeiðinu hélt Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir athyglisvert erindi um Þórberg. Það hafði vakið furðu margra hvers vegna Þórbergur hafi aldrei endurskoðað afstöðu sína gagnvart Stalín vegna þeirra voðaverka sem hann stóð fyrir í eigin landi í valdatíð sinni. Í fyrirlestrinum vitnaði Þórunn Hrefna í grein sem Þórbergur birti í Tímariti Máls og menningar frá árinu 1964 og bar heitið „Rangsnúin mannúð". Í greininni veitist Þórbergur einkum að að túlkun Halldórs Laxness á Erlendi í Unuhúsi í Skáldatíma Halldórs, en sendir honum einnig sneiðar vegna hinna síðbornu pólitísku játninga hans þar sem hann gengst við því að Stalín hafi ekki verið sá mikli fánaberi hins kommúníska þjóðskipulags sem hann hann og skoðanabræður hans höfðu svo lengi haldið fram, jafnvel löngu eftir umrædda ræðu Krústjoffs. Þá telur Þórbergur að Halldór hafi ekkert þurft að skammast sín fyrir félagsskapinn í réttarhöldunum í Moskvu árið 1838 þar sem fjöldi meintra samsærismanna var dæmdur til dauða. Þórbergur taldi ekkert benda til þess að sakborningarnir hafa verið saklausir dæmdir, „að einum undanskildum"[4], skv. vitnisburði Krústjoffs. Hann réttlætir málaferlin meðal annars með því að vitna í það sem Erlendur á að hafa haldið fram um þessi mál:

Í þjóðskipulagi, sem er ennþá í byltingarástandi og stefnir að sósíalisma, verða valdhafarnir að gera fleira en þeim og öðrum gott þykir, til þess að vinna bug á skemmdaröflunum og geta leitt sósíalismann til sigurs. Þarna hugsaði Erlendur eins og kommúnisti (TMM 2. 1964: 171).

Þá vísar Þórbergur í bréf sem sendiherra Bandaríkjanna í Moskvu, Joseph E. Davies að nafni, sendi til dóttur sinnar og birti síðar í bók sinni Mission to Moscow. Davies þessi, sem var lögfræðingur að mennt og „merkur maður" að mati Þórbergs, var viðstaddur réttarhöldin og lýsti þeim meðal annars svo umræddu bréfi:

Allir eðlisþættir mannlegrar náttúru, persónuleg metorðagirnd í versta ham, koma í ljós í þessum réttarhöldum. Þau sýna aðallínur samsærisins, er var mjög nærri því að varpa þessari ríksstjórn frá völdum (TMM 2. 1964:171).

Davies dregur ekki í efa sekt sakborninganna, ekki frekar en „diplómatar allra landa, sem á réttarhöldin hlustuðu, að tveimur undanskildum" (TMM 2. 1964:171), en ekki er ljóst hvers lenskir þessir tveir voru.

     Þórbergur segir í greininni að umfjöllunin um Stalín eftir lát hans hafi verið „þvílíkur tröllamokstur af einhliða níði og fordæmingum" ( TMM 2. 1964:171) en að í rauninni hafi aldrei verið gerð tilraun til þess að grafast fyrir um það hvað væri satt í uppjóstrunum Krústjoffs. Sjálfur skilur Þórbergur Stalín svo að hann hafi verið oddvita mikillar uppbyggingar í Rússlandi, „er skildi við sitt áður frumstæða og fátæka land sem annað mesta iðnaðarveldi heims", hann hafi verið „óþreytandi í boðskap friðsamlegrar sambúðar ríkja og samninga í stað valdbeitingar" og að þess megi sjá mörg dæmi í ræðum hans og ritum (TMM 2. 1964:172).

     Þórbergur átelur Halldór harðlega fyrir áðurnefndar játningar og spyr hverjum komi þessar játningar við „núorðið":

Hvernig fær hann sig til að gera sig svo lítinn karl að kasta sér flötum fyrir gamla stjórnmálaandstæðinga sína og hatursmenn, með þá aumu játningu, að hann hafi á blómaskeiði ævinnar verið heimskt trúfífl, sem legið hafi bjargarlaust undir rússneskum lygaáróðri? Og hví að vera að skemmta þessum spaugurum með svona vesaldómi og láta þá glotta að öllu saman og fyrirlíta sig undir niðri? Hví ekki heldur að gráta syndabyrðir sínar í leyndum? (TMM 2; 1964:178).

Síðusta setningin virðist vera síðbúin ráðlegging til þessa fornvinar síns, eða fjandvinar, eins og Pétur Gunnarsson komst að orði.En setningin stendur svolítið í mér. Getur verið að setningin Hví ekki að gráta syndabyrðir sínar í leyndum? hafi í raun verið það sem Þórbergur taldi að Halldór hefði átt að gera? Var Þórbergur ekki að segja það sem hann sjálfur hafði valið að gera? Og getur ástæðan hafa verið sú að hann óttaðist að verða fyrir háði stjórnmálaandstæðinga sinna og hatursmanna? Hann hafi viljað forðast það að „skemmta þessum spaugurum með svona vesaldómi og láta þá glotta að öllu saman og fyrirlíta sig undir niðri?"?? Valdi hann, af tveimur vondum kostum, verri kostinn? Maður sannleikans? Hafði hann ekki sömu möguleika og ‘allir hinir' til þess að minnsta kosti komast nær því sem raunverulega átti sér stað í valdatíð Stalíns? Valdi hann að gera það ekki eða gerði hann það en opinberaði það ekki?

     Í minni orðabók er opinber afstaða Þórbergs fjarri lagi að vera ‘þórbergsk'.  Meira að segja verulega óskynsamleg. Þórbergur hefði ekkert þurft að afneita hugsjónum sósíalismans þó einn helsti fánaberi hans á þessum tímum hefði brugðist. Það er í það minnsta of ódýrt að túlka voðaverk hans sem ‘skyssur'. En vissulega hefur það verið sárt að þurfa að gangast við þessum upplýsingum. En þeir sem höfðu manndóm í sér að gera það, gerðu það. Þar á meðal Halldór Laxness, sem raunar hafði vitað það lengi að ekki var allt með felldu (svo vægt sé til orða tekið) með stjórnunarhætti Stalíns. Þórbergur afneitaði hins vegar þessum upplýsingum. Beinn í baki?? Hvað með sannleikann Þórbergur? Hvað með okkur, Þórbergur?

****

- Hvernig kunnirðu við þig í Bergshúsi?

- Ég átti þar unaðslega tíma. Þar kynntist ég elskunni minni.

- Þú elskaðir hana mikið?

- Heldurðu kannski, að Íslenzkur aðall sé lygareyfari? En svo deyfðist ástin smám saman. Og það var bezt, að það fór eins og það fór, ég var ófær til hjónabands á þeim árum. Ef ég hefði gift mig, þá hefði ég orðið að þræla eins og skepna í síld og eyrarvinnu. Þetta var óþolandi sárt, meðan á því stóð (22).

 

Fátækt Þórbergs ber þarna óbeint á góma. Og hve það hefur verið ömurlegt að vera ástfanginn af fallegri og vel gefinni stúlku en hafa ekkert að bjóða henni upp á. Þórbergur var ekki tilbúinn að fórna sjálfum sér á altari ástarinnar. Og svo var altso spurning hvort ómenntaður (eða hálf-sjálfmenntaður) eyrarkarl var eitthvað sem ungri frambærilegri konu þótti fýsilegur kostur. Hvað veit ég? En þó að ástin sé óútreiknanleg þá reiknaði Þórbergur þetta svona út á sínum tíma. Og því sté hann ekki það skref sem freistaði hann hvað mest. En þó hann hafi aldrei stigið skrefið gaf hann samt möguleikann aldrei alveg frá sér. Vonaðist hann eftir kraftaverki? Að hún myndi stíga skrefið og játa honum ást sína? Já, annað hvort hún eða þá að það kæmi „af sjálfu sér" (Ofvitinn; 227) . Og hann bætir síðan við: „En mig henti aldrei sú skyssa að segja þetta svo hátt að hún heyrði það" (227). Þórbergur var ástfanginn og réði ekkert við það en taldi sig ekki eiga neina möguleika á að höndla þessa ást. Hún var honum andleg kvöl, þessi ást „sem var alltaf jafn-óklikkuð af fingraförum" (226). En hún hefur um leið verið honum andleg næring. Þverstæðan felst í því að ástin lokkar fram fallegar hugsanir í höfðinu á þeim ástfangna. Það er gott að vera ástfanginn. Ástin lyftir andanum á hærra og dýrðlegra plan og fær hinn ástfangna til að dreyma um „dýrðlegasta lífsróman heimsins" (226), eins og Þórbergur orðar það. Þórbergur komst hins vegar aldrei lengra en að „inngangi" þessa lífsrómans (226). Þegar ‘elskan' hans kveður hann í Íslenzkum aðli án þess að hann nái að koma út úr sér neinu orði af viti, hvað þá að fá að upplifa þá skilnaðarstund sem hann hafði málað upp fyrir sér: „hjartnæma, innfjálga, með hátíðlegum handayfirlagningum, þrungna af klökkum fyrirheitum um sárþjáða endurfundi", en stóð þess í stað eftir sem negldur við gólfið og „kókti eins og afglapi á lokaða hurðina" (11), þá var eins og honum væri ljóst að hann væri búinn að missa hana.

     Þegar Matthías spyr Þórberg síðar í bókinni út í sjálfsmorðshugleiðingar hans í Ofvitanum, og Þórbergur segir honum að það hafi verið út af peningavandræðum en ekki af ástarsorg, innir hann Þórberg að því hvort það hafi þá ekki verið auðveldara að ná sér í nýja elsku heldur en peninga. Þórbergur svarar þá „með þunga": „Maður sem elskar af öllu hjarta, fær aldrei nýja elsku" (Í kompaníi við Þórberg: 230). Þó að Þórbergur hafi séð á eftir ‘elskunni' sinni án þess að hafa fengið að upplifa tilfinningaþrungna, og tímabundna, kveðjustund hélt hann lífi í þessari ást sinni í mörg ár, kannski vegna þess að hugmyndin ein um ástina veitti honum von um betra líf. Sumarið 1918, tæpum sex árum síðar, þegar hann kemur af Vestfjörðum úr fyrsta orðasöfnunarleiðangri sínum, valdi hann að fara landveg suður í von um að hitta ‘elskuna' sína í Hrútafirði. Hún var þá ekki enn dáin, ástin: „Þá var ég orðinn forframaðri en áður í kvennamálum, svo eitthvað hefði getað gerzt" (22), segir hann Matthíasi. En hann hitti hana ekki þar. Í ferðadagbók Þórbergs sem hann skrifaði um þennan orðasöfnunarleiðangur sinn, minnist hann á þessa fyrrum ‘elsku' sína. En hann er þá greinilega búinn að komast að því að hún er farin úr Hrútafirðinum:

 

Hún var há vexti, rjóð í kinnum og holdug, náttúrufrík og með dökk og eldsnör augu. Hún var skarpgáfuð og fjandi fyndin, geðstór og handnett. Hún setti mig svo rækilega af standinum, að eg gerði ekkert annað en horfa á hana og handleika hana í tvo vetur. Síðan fór hún hingað norður alfarin. En eg grét í tvö ár á eftir. Nú er hún á gistihúsi á Akureyri, 28 ára gömul (Mitt rómantíska æði; 29).

 

Horfa á hana „og" handleika!? Þessa ást sem var alltaf „jafn-óklikkuð af fingraförum". Nú veit ég ekki fyrir víst hvernig ég á að skilja meistarann. Kannski fara þarna saman hugarheimur hans og ytri reynsla; að hann hafi upplifað sig fara höndum um ‘elskuna' sína en í veruleikanum hafi það aldrei átt sér stað. Það er að minnsta kosti nokkuð víst að hann hafi aldrei fari höndum um hana á þann hátt sem hann óskaði mest. Og áður en árið 1918 var úti var komin ný og brennheit ást inn í líf Þórbergs. Það var Sóla. Á hana minnist Þórbergur aldrei við Matthías. Né heldur dóttur þeirra, Guðbjörgu. Þegar Matthías spurði Þórberg síðar að því hvort hann ætti einhver leyndarmál, svarar Þórbergur:

 

- Jú-jú, ég á mörg leyndarmál.

- Áttu nokkurt leyndarmál í sambandi við ástina?

Þórbergur virti fyrir sér hnúana á vinstri hendi. Svo spurði hann án þess að líta upp: - Af hverju stafar þessi bóla hérna? (112).

****

    Matthías spyr Þórberg um skáldskap hans.

- Sumir vilja halda því fram, að þetta sé ekki skáldskapur hjá mér. En skiptir það miklu máli? - „Bækur eru annaðhvort skemmtilega eða leiðinlega skrifaðar. Það er allt og sumt," sagði Oscar Wilde. Ég hef ekki skapað persónur. Ég hef lyft fólki upp á hærra svið og tekizt oftast að segja þannig frá á meira eða minna skáldlegan hátt. Það er minn skáldskapur (23-24).

 

Við erum hér komin inn á vanda bókmenntakanónunnar. En einnig um leið hins almenna lesanda. Í hvaða flokk falla bækurnar Bréf til Láru, Íslenzkur aðall og Ofvitinn? Eða nánar tiltekið: Í hvaða flokk féllu þær þegar þær komu út á sínum tíma? Sú spurning var ekki síst áleitin vegna þess við hvaða bækur átti að bera þær saman. Það var ekki hægt að bera þær saman við bækur Halldórs Laxness vegna þess að þær voru ekki ótvíræðar skáldsögur. Þórbergur Þórðarson sem persóna í hans eigin bókum gat ekki verið ótvíræður skáldskapur. Ekki heldur þær persónur sem hann nafngreinir í bókunum. En frásagnir hans voru ekki heldur ótvíræður sannleikur. Hvað var þá satt og hvað ekki? Fyrir Þórberg skipti það engu máli. Hann segir einfaldlega frá því sem hann hefur reynt og upplifað á „meira eða minna skáldlegan hátt". Segir hann. Það er hans skáldskapur. Skoðum skilgreiningu Þórbergs á skáldskap sínum aðeins nánar:

 

Mínar bækur eru yfirleitt sannar frásagnir, hafnar dálítið upp í æðra veldi að sínu leyti eins og Gunnarshólmi Jónasar Hallgrímssonar, sem er sönn saga sögð á skáldlegu máli. En Íslendingar eru svo þunnir í skáldskaparmati, að þeir halda að ekkert sé skáldskapur nema maður „skapi" persónur, og sköpunin er venjulega ekki frumlegri en svo, að höfundarnir taka persónur, sem þeir hafa þekkt í lífinu eða haft sagnir af, og hnoða upp úr þeim bókmanneskjur (111-112).

 *

 Þórbergur heldur áfram að tala um skáldskap sinn - en kannski ofurlítið um skáldskap ‘einhverra annarra' í leiðinni:

 

Ég er ein helzta persónan í öllum mínum „skáldsögum". Af því halda sumir, að ég sé mjög egósentrískur. Jú, sjáðu til, egósentrískur maður minnist yfirleitt ekki á sjálfan sig. Hann er helgidómur, - leyndardómur, sem ekki má sýna neinum lifandi manni inn í (24).

 

Hvers vegna tekur Þórbergur svona sterkt til orða? Að egósentrískur maður sé helgidómur sem ekki megi sýna neinum lifandi manni inn í? Er Þórbergur ekki að senda þarna kollega sínum í rithöfundarstétt netta sneið. Hver skyldi það vera? Ég ætla að varpa fram fjórum möguleikum að réttu svari (ath. að þó að krossað sé við fleiri en einn valkost fæst samt sem áður aðeins eitt rétt svar):

 

  • A. ( ) Halldór Laxness
  • B. ( ) Halldór K. Laxness
  • C. ( ) Halldór Kiljan Laxness
  • D. ( ) Halldór Guðjónsson frá Laxnesi

 

Ég man að í spjalli Matthíasar við okkur nemendur í námskeiðinu sagði hann að Þórbergur hefði verið jafnopinn í Allífinu og Laxness hefði verið lokaður í viðtalsbók sinni við hann, bókinni Skeggræður gegnum tíðina. Halldór hefði verið ‘elegant og brynjaður' minnir mig að hann hafi sagt. Þórbergur og Halldór. Halldór og Þórbergur. Losna ekki hvor við annan meðan þeir eru á lífi. Jafnvel þó fólk hafi glímt við skilgreiningarvandann á verkum Þórbergs var samt sem áður sífellt verið að þrátta um hvor þeirra væri betri rithöfundur. Þó varla lengur en til 1955. Þá var kominn alþjóðlegur yfirburðastimpill á verk Halldórs með Nóbelnum.

     Matthías og Þórbergur halda áfram að ræða um skáldskap. Nú um stíl. Þórbergur segir frá því hvernig hann endurskrifar textann, aftur og aftur og aftur. Og umskrifar jafnvel heilu kaflana ef hann sér hlutina í nýju ljósi. Allt þar til hann er orðinn ánægður. Þá verður stíllinn og verkið að mynda eina heild. Stíllinn í Íslenzkum aðli og Ofvitanum sé til að mynda ekki eins einfaldur og stíllinn í Sálminum um blómið og Steinunum. Í Sálminum varð stíllinn ekki aðeins að vera einfaldur heldur einnig einlægur og laus við tilgerð. Það lá í eðli verksins. Og stílæfingar Þórbergs hafa gert það að verkum að honum „finnst bókmál orðið óþolandi" (26). Segir meistarinn sem hefur stundað stílæfingar í um hálfa öld.

*

 Á hvað trúir Þórbergur Þórðarson? Eða hvað telur hann sig vita um lífið - um eðli þess - sem og um dauðann og hvað taki við að honum loknum?

 

Dauðinn er ekkert annað en fuglsblundur. Svo blasir við manni astralheimurinn. Þetta á raunar ekkert skylt við trú hjá mér. Þetta eru niðurstöður af reynslu manna, fræðilegum lestri og miklum umþenkingum. Ef einhver gæti sýnt mér fram á, að þær heimildir, sem ég byggi á, væru ósannar eða sönnuðu ekkert, mundi ég ganga frá sannfæringu minni um líf eftir dauðann. Þarna er munurinn á trú og skoðun (28).

 

Þórbergur segir engu skipta þó hægt sé að sanna fyrir trúmanninum að það sem hann trúi á sé endaleysa, hann gangi aldrei frá sannfæringu sinni. Sjálfur segir Þórbergur skoðanir sínar einkum byggðar á rökum spíritisma, indversku heimspekinnar og guðspekinnar. Og þó að ekki hafi tekist að sanna guðspekikerfið fullkomlega þá tali höfuðatriðin í því:

 

... til skynseminnar af slíkum þunga, að það er ekki hægt að hlaupa frá þeim öðruvísi en að drepa fyrst í sér skynsemina. Spíritisminn hefur fjölda margar sannanir fyrir framhaldslífi (28).

 

Auðvitað! Þær koma hins vegar ekki fram í samtali þeirra. Hins vegar kemur síðar fram í samtali þeirra hvers eðlis þetta framhaldlíf er. Þar kemur fram lögmálið um orsök og afleiðingu. Vitanlega!

****

 Kristnin og kommúnisminn.

 

Mannkynssagan gengur í bylgjum. Hún endurtekur sig, en aldrei eins. Ég álít, að sú bylgja, sem hét kristindómur á sínum tíma, heiti kommúnismi á okkar máli. Og það sé sama fólkið sem stendur að honum og stóð áður að kristindóminum.  Þú veizt, að meginkenning kommúnismans er sú sama og aðalinntak kristindómsins: jafnrétti og bræðralag allra manna og þjóða. Þetta er kenningin (29).

 

Það er sannarlega margt til í þessu. En er ekki eðlissvipur með örlögum kristninnar og komúnismans? Kirkjan drap kristindóminn undir sig og kepptist um aldir við að færa þegnana í fjötra til þess að geta stjórnað þeim að eigin þótta. Og sjálf var kirkjan vettvangur valdabaráttu þeirra sem þar ‘þjónuðu'. Alveg eins var farið með kommúnismann. Í ‘draumaríkinu' Sovét, varð birtingarmynd valdabaráttunnar raunar grimmilegri, ef ekki hreint ‘djöfullegri' en nokkurn óraði fyrir. Hugsjónir brautryðjenda, eins og Krists og Marx, drukknuðu eiginlega í sjálfu manneðlinu; þ.e.: maðurinn er aldrei sjálfum sér nógur og telur sig því ávallt þurfa að berjast fyrir því að auka við umfang sitt, auka við eignir sínar, auka áhrif sín og valdsvið. Annars vegar til að verða mikill og hins vegar til þess að verja mikilleika sinn. En hverja telur Þórbergur ástæðuna fyrir því að kommúnistar hafi ekki getað framkvæmt kenningar kommúnismans í verki?:

 

Ástæðan til þess er sú, að þeir eru ekki komnir svo langt að þeir búi við kommúnistíska þjóðfélagshætti og eiga í stöðugu stríði við þá sem svara til heiðingjanna gömlu, kapitalistanna (29-30).

 

Þetta var fallega sagt! Og endurspeglar trú Þórbergs á gildi kommúnismans. Kommúnistarnir þurfa fyrst að berjast við birtingarmynd ‘hins illa', þ.e. heiðingjana, kapitalistana, til þess að geta komið draumaríkinu í framkvæmd. Látum vera að leggja dóm á hver raunveruleg birtingarmynd hins illa er, en spyrjum á móti: Getur ekki verið að baráttan hafi verið hið illa í manninum almennt? Og það sem kalli fram þetta illa í manninum sé fyrst og fremst hin endalausa (?) barátta mannanna á milli um völd og áhrif? Skiptir þá litlu hvort vettvangurinn heitir kirkja, kapitalismi eða kommúnismi? (KKK?!) Skýringu Þórbergs á ástæðu þess að kommúnískir þjóðfélagshættir hafi ekki náð að festa sig í sessi má að minnsta kosti draga (stórlega) í efa. Þórbergur hefur þó fulla trú á að kommúnisminn muni sigra á endanum. Hvers vegna?:

 

Hann er vísindalegt kerfi sem grípur beint inn í hagsmuni hvers einasta manns, og fjöldinn mun sannfærast um það með tíð og tíma, hverjir hagsmunir hans eru, þegar sósíalistísku löndin verða komin fram úr kapitalísku löndunum og geta boðið sínu fólki upp á allsnægtir veraldargæða. Kommúnisminn er frumkristnin. Hún hefur með kenningum Marx verið flutt af hæðum niður á jörðina (29-30).

 

Frábær kenning! Eða tilgáta. Eða hvað? Setningin: „grípur inn í hagsmuni hvers einasta manns" kemur af einhverjum orsökum illa við mig. En ekki er að efa að Þórbergur meini vel með því. Við eigum hins vegar svo afskaplega erfitt með að vera góð. Kannski vegna þess að það þarf alltaf ‘einhver annar' að ganga á hagsmuni manns. Og þá ekki í jákvæðum skilningi, að okkar mati. Og auðvitað verður maður að bregðast við því. Og svo framvegis ...

****

Í viðtali þeirra félaga kemur það oft fyrir að Þórbergur stýri umræðunni. Mig grunar að Matthíasi hafi ekki fallið það illa. Ef Þórbergur hefur frumkvæði að því að segja eitthvað þá hangir ávallt eitthvað gott á spýtunni. Til að mynda þetta:

 

En nú skulum við byrja. Já, við vorum ekki búnir með eilífðarmálin. Endurholdgunin er eftir. Ég er sannfærður um, að hún er staðreynd. Línur lífsins eru ekki beinar. Þær eru sporöskjulagaðar. Við höfum verið mörgum sinnum á þessari jörð, og flestir eiga eftir að vera hér mörgum sinnum. [Endurholdgunin er] veruleikinn mikli, og sannleikanum skal maður fylgja, hvort sem hann er ljúfur eða leiður, því hans lögum verðum við að hlíta fyrr og síðar. [...] Að því leyti sem við þekkjum lögmál tilverunnar, þá tekur hún skoðanir okkar ekki til greina (34).

 

Endurholdgun og sannleikurinn eru eitt að mati Þórbergs. Vegna þess að endurholdgun er sannleikur. En hver skyldi vera leiðin til sannleikans? Og hverjar eru helstu hindranirnar? Í greininni „Innheimar" sem birt er í bókinni Mitt rómantíska æði, og er í raun fyrirlestur frá árinu 1920, færir Þórbergur rök fyrir því að skilningarvitin séu hindranir á leið okkar til sannleikans vegna þess að þau leiða okkur sífellt í nýja og nýja blekkingu. Við höfum gert skynfæri okkar að  „rannsakandi vitsmunaöflum og trúum því einu sem augað sér, eyrað heyrir og tilfinningin þreifar á" (Mitt rómantíska æði;39).  Þórbergur segir hins vegar að skilningarvitin fjötra sálina: „Maðurinn leitar þar ánægju og hamingju, sem þar er ekki að finna" (47). En ef við getum ekki beitt skilningarvitum okkar til þess að öðlast skilning á ‘sannleikanum', hvar á okkur þá að bera niður? Þórbergur hefur svar við því:

 

Eina leiðin til þess að afhjúpa blekkinguna, til þess að öðlast þekkingu, er að leita út fyrir tíma, rúm og orsök. Það getum vér að eins með því að vekja með oss andlega hæfileika, sem eru óháðir tíma og rúmi og hafa orsök sína í sjálfum sér (Mitt rómantíska æði;46).

 

Innhverf íhugun er því svarið. Aðferðir gömlu jógameistaranna eru málið. Leiðin að sannleikanum er í gegnum jóga. Sjálfur nýtti Þórbergur sér „dularöfl náttúrunnar í þágu líkamlegs heilbrigðis" (55) og bætti að eigin sögn töluvert heilsu sína með því að stunda reglulega jógaæfingar. Í formála bókarinnar „Yoga", sem Þórbergur þýddi árið 1919 ásamt Ingimar Jónssyni, er lýsing á því út á hvað jóga gengur. Þar segir meðal annars að jóga opni „oss leið að heimsskoðun, sem heita má óþekt almenningi hér á landi". Þá segir að jóga skiptist í fimm höfðuþætti þar sem hver grein lúti að „þroskun ákveðinna eðlisþátta persónuleikans" (55). Þessir fimm höfuðþættir jóga eru eftirfarandi:

 

(i) Hatha Yoga er fræðin um hin skynrænu náttúruöfl og kennir oss hagnýtingu þeirra í þágu líkamlegrar fullkomnunar;

(ii) Raja Yoga er fræðin um lífsaflið og sálarlífið og kennir oss að ná valdi á því.

(iii) Gnana Yoga er fræðin um þann eðlisþátt tilverunnar, er samsvarar skynseminni, og kennir oss, hvernig vér getum komist til þekkingar á honum með aðstoð samsvarandi eðlisþáttum í sjálfum oss. Það er því Yoga „skynsemistrúarmannsins", þess sem leitar sannleikans eftir vegum hugsunarinnar.

(iv) Bhakti Yoga er fræðin um þann eðlisþátt tilverunnar er samsvarar tilfinningalífinu, og kennir oss, hvernig vér getum komist til þekkingar á honum með aðstoð samsvarandi eðlisþáttar í sjálfum oss. Það er því Yoga tilfinningamannsins, þess, sem leitar sannleikans eftir leiðum tilfinninganna, trúarinnar.

(v) Karma Yoga er fræðin um þann eðlisþátt tilverunnar, er samsvarar viljanum eða athöfninni, og kennir oss, hvernig vér getum komist til þekkingar á honum með aðstoð samsvarandi eðlisþáttar í sjálfum oss. Það er þess vegna Yoga athafnamannsins, þess, sem leitar sannleikans eftir leiðum athafna og framkvæmda (55-56).

 

En hvernig má þetta leiða okkur til sannleikans? Jú, það mun vera einfalt svar við því:

 

En af því að tilveran er órjúfanleg heild og þessar mismunandi rannsóknaraðferðir hljóti að grípa að meira eða minna leyti hver inn í aðra í framkvæmd, leiða þær allar til sömu þekkingarinnar að lokum (56).

 

Og þá vaknar spurningin um hvers eðlis þessi þekking sé. Í formálanum segir að jóga sé raunvísindi, engu síður en raunvísindi Vesturlanda, og að þessi raunvísindi séu „reist á órækri þekkingu á lögum hins yfirskilvitlega viðhorfs tilverunnar (56):

 

Það er skynjun og þekking hins yfirskilvitlega á hinu yfirskilvitlega, þekking, sem stenzt alla reynslu og gagnrýni og hver meðalmaður er fær um að ávinna sér að einhverju leyti, ef hann vill að eins losa sjálfan sig úr netum blekkingarinnar og fylgja leiðum Yoga. Þessar leiðir hafa verið farnar af fjölda manna og leitt þá alla að sömu niðurstöðunni (56).

 

Jóga á að hjálpa okkur við að átta okkur á því að sá hugsunarháttur sem leiði af sér eigingirni og illindi sé vanþekkingarástand. Og þar sem allir jarðarbúar séu „geislar sama ljóssins" (58) ættum við að gera okkur grein fyrir að okkur sé í raun enginn hagur í að gera öðrum mein.

 

*

 

Þegar Matthías biður Þórberg um að segja sér ástarsögu (!) býður Þórbergur honum þess í stað að tala við hann um ástina. Það sem Þórbergur hafði fram að færa um ástina var sennilega ekki það sem Matthías vonaðist eftir en rímar að nokkru við það sem jógafræðin boða; þ.e. að allir jarðarbúar eigi að lifa í sátt og samlyndi. Eftirfarandi skilgreining Þórbergs á ástinni er þó í léttari kantinum en ekki er að efa að full alvara búi að baki:

 

[Ástin] byrjar með því, að maðurinn elskar aðeins sjálfan sig. Svo fer hann að elska einhverja eina veru aðra, svo Frjálsa þjóð, svo þjóðirnar í Atlantshafsbandalaginu. Og svo allar þjóðir, meira að segja Rússa. Alls lífs (35).

 

„Meira að segja Rússa", var sennilega lunkin sneið til Matthíasar og þeirra Morgunblaðsmanna. En Þórbergur segir að gera verði greinarmun á ástinni og „elsku eða kærleika". Ástin sé „innilegt vináttuþel, sem kemur og fer" en upp úr ástinni vaxi elskan. Elskan er ekki eitthvað sem maðurinn sé að strefa eftir heldur „er hún orðin innihald hans" og því beri hann í brjósti „kærleika til allra manna. Allra þjóða. Alls lífs, " því þá er kærleikurinn orðinn að eiginleika sem maðurinn býr yfir. Ástin er hins vegar sprottin af þörfinni til að sameina sig gegn óvininum og síðar mun þessi sameining grípa um sig og víkka „unz svo er komið, að maðurinn elskar óvini sína líka" (35).

****

 Í kompaníi við allífið?

    Þórbergur segir frá því er hann var eitt sinn á heilsuverndargöngu, í júlí 1916, tveimur árum áður en hann fór að lesa sér um „hin svokölluðu andleg fræði" (83. Hann var þá búinn að fara í sjó og gera Müllersæfingar og var á leið heim. Honum leið vel, svo vel að honum fannst ekkert vera að sér. „Hefurðu veitt því athygli hvað sjaldan það kemur fyrir, að ekkert sé að manni? " spyr hann Matthías, og lýsir í kjölfarið þessari reynslu sinni:

 

Ég var alsæll. Þá gerðist einhver breyting í mér, þannig löguð, að mér fannst allt verða að engu, nema það eilífa. Mótsetningar lífsins hurfu algerlega og það var eins og ég rynni saman við einhverja eilífa og fullkomna heild. Enginn kvíði. Engar áhyggjur. Enginn ótti, ekki einu sinni við dauðann, jafnvel enginn dauði. En þetta ástand hefur varla staðið lengur en 2-3 mínútur. Þá var ég aftur orðinn sá venjulegi Þórbergur (83).

 

Þórbergur hafði verið afskaplega hrifinn af kveðskap Einars Benediktssonar allt fram undir 1913 þegar hann ‘losnaði undan honum' eins og hann orðaði það og tengdi annarri endurfæðingu sinni. Ákveðinn hluti kvæða Einars fjallar um heim handan hins sýnilega, um tengslin milli mannsins og hins guðlega í náttúrunni. Einar hafði meðal annars lýst persónulegri dulreynslu í textabrotinu „Gullský" og einnig samskonar reynslu frá því hann var ungur drengur í kvæðinu „Skógarilmur". Í „Skógarilmi" segir Guðmundur Finnbogason Einar vera að lýsa bernskureynslu sinni af „beinu skynsambandi við alheiminn"[5] en þeirri reynslu er lýst með ítarlegri hætti í „Gullskýi". Þar segir frá manni sem liggur úti í náttúrunni, með hendur undir höfði og finnur að náttúran er öll þrungin af elsku. Í báðum þessum tilvikum, þ.e. hjá Einari og Þórbergi, er um að ræða einhvers konar ‘sambandstilfinningu við allífið' og segir Þórbergur þessa upplifun hafa skilið eftir sig „skilning á tilverunni, sem aldrei hefur fjarað úr mér síðan". Ég held við könnumst öll við það að eitthvert sinn fáum við allt í einu nýja sýn á tilveruna; á fólk í kringum okkur, á málefni og já - kannski á lífið. Við köllum þetta þroska. En þetta verður ekki nema við séum dugleg við að velta fyrir okkur hlutum, já málefnum - og leggjum okkur fram við að skoða hlutina í víðu samhengi. Og þegar þetta hefur fært okkur aukinn þroska þá eigum við það til að líta til baka og furða okkur á þeirri heimsku sem við höfðum áður aðhyllst. Fyllumst jafnvel vandlætingu gagnvart þeim sem enn hafa sömu skoðanir og við höfðum áður. Fyllumst hroka gagnvart heimsku annarra, sem var eitt sinn okkar heimska. Og enn síðar, ef vel gengur, dauðskömmumst við okkur fyrir þann hroka sem við sýndum fólki sem hafði eitt sinn skoðanir sambærilegar okkar ‘gömlu' skoðunum. Jæja, þá miðar þó eitthvað í rétta átt, vænti ég. Þó að mér hafi farið sitthvað fram á umliðnum árum kannast ég samt ekki við að hafa verið ‘snortinn' á þann hátt og þeir ‘félagar', Einar Ben. og Þórbergur. En kannski ég hafi eitt sinn fengið einhvers konar ‘aðkenningu' af slíkri reynslu?! Fyrir um tveimur á hálfu ári var ég á gangi í fjörunni í Hornvík á Hornströndum. Það hafði rignt svo mikið um nóttina að ég svaf varla fyrir hávaða! Ég var í litla gamla polyestertjaldinu mínu og það á ekki vanda til að taka blíðlega á móti regndropum. Ég sofnaði loks, eftir að hafa troðið bréfi í eyrun. Það varð lítið úr göngu daginn eftir vegna slæms skyggnis. Það var blindaþoka. Ég tók þó staf minn (sjórekinn og náttúrulegur stafur sem ég fann tveimur árum fyrr í Hlöðuvík) og rölti eftir fjörunni. Einn með sjálfum mér. Eða hvað? Er ég hafði gengið um stund fór um mig vellíðunarhrollur. Ég lýsti þessari tilfinningu seinna svo að mér hefði liðið eins og ég væri heima hjá mér. Heima hvað? Heima hvar? Ja - bara heima. Eins og ég ætti heima þarna. Og mér leið eins og ekkert væri að mér. Eins og Þórbergi! Þó kannast ég ekki við að þetta hafi skilið eftir sig djúpan skilning á tilverunni eins og hjá meistaranum. En það er kannski það sem skilur að ‘meistara' og ‘verkamann' eins og mig. Ég ætla nú samt ekki að gefa það upp á bátinn að verða eitthvert sinn ‘snortinn' á þann hátt og þeir meistarar, Einar Ben. og Þórbergur Þórðarson. Ekki þó til þess að krækja mér í meistaranafnbót. En að öðlast djúpan skilning á tilverunni, hvað svo sem það mun fela í sér, hlýtur að vera eftirsóknarvert í sjálfu sér. En kannski verð ég bara að verða gamall maður til þess - þegar samanlögð lífsreynsla mín hefur fært mér þennan djúpa skilning á tilverunni. Hver veit? Hvað sem því líður þá hlakka ég til.

****

 Lögmálið um orsakir og afleiðingar:

     Þórbergur segist ekki vera hræddur við veikindi, þegar Matthías spyr hann um það. Og hann segist heldur ekki vera „nærri eins hræddur við að deyja og áður" (96). Það er að líkindum vegna þess að hann hefur öðlast ákveðinn skilning á lífinu og því sem er handan þess. Og Þórbergur hagar lífi sínu í samræmi við það. Lífið handan þessa er í rökréttu samhengi við lífshætti hvers og eins, segir Þórbergur:

 

Það liggur hver, eins og hann hefur um sig búið, bæði hér og hinumegin. Ég hef aldrei trúað á fyrirgefning synda. Mér finnst það bjánalegt. Og lítilmannlegt. Ég held, að hver maður verði að mæta þeim draugum, sem hann hefur sjálfur vakið upp, og hann verði sjálfur að kveða þá niður. Það er siðlaust að fyrirgefa syndir. Og það er vitlaust. Það er að rjúfa náttúrulögmálin (96).

 

Auðvitað! Og það eru engin aflátsbréf sem geta bjargað manni frá því. Gamla (og góða) biblíukenningin að „svo sem maðurinn sáir, svo muni hann og uppskera" á ekki bara við þetta líf. Ég veit ekki hvernig ‘þeir' hugsuðu þetta upphaflega en ég sé það í nýju ljósi í samhengi við það sem Þórbergur segir hér að ofan. Eitt sinn sagði mágur minn mér að hann hefði náð sér í prik hjá Guði því hann hefði boðið fötluðum manni á rokktónleika, kynnt hann síðan fyrir aðalrokkstjörnunni sem síðan hefði áritað geisladisk fyrir hann. Mágur minn er að vinna hjá rútufyrirtæki og er meðal annars í því að keyra fatlaða - til og frá. Hann er mikill grallari, sannur rokkari, og svo auðvitað drengur góður. Ég skaut því þá að honum hvort hann hefði gert þetta fyrir hinn fatlaða til þess að ná sér í prik eða hvort áðurnefnt prik hefði komið í kjölfarið. Hik kom á pilt og konan hans (systir mín) glotti við. Jahá, þú meinar það, sagði piltur, og hló sjálfur að. Ég veit hins vegar hver var hvatinn að því að bjóða hinum fatlaða, sem og annað sem hann hefur gert og ég held að hann þurfi ekki að kvíða þeim tímum sem bíða hans „hinumegin". En hvort sem ‘hinumeginheimar' eru til eða ekki, þá skiptir það ekki nokkru máli. Ef breytnin er vegna ótta við að verða refsað ‘síðar meir', bíður okkar glíma við hæfi, en ef breytnin er góð í sjálfu sér ættum við að eiga ‘himneska' daga í vændum - í besta skilningi þess orðs. Annars veit ég minnst um þetta en kenningin er í sjálfu sér ‘fjandi' góð. Og rökleg út frá hugmyndum almennt um orsakir og afleiðingar.

****

 Þórbergur, sósíalisminn og framtíðarríkið.

 

Ég er sannfærður um, að okkar heimur á dýrlega framtíð fyrir höndum, svo framarlega sem friður helzt. Ég er algerlega sannfærður um, að sósíalisminn fer yfir allan heiminn á næstu áratugum. Þá munu þjóðirnar lifa í sáttum hver við aðra, af því undirstaða ósátta þjóða á milli er numin burtu. Og síðar mun þessi þróun ná hámarki í því, að á jörðinni verður aðeins eitt ríki og löndin verða eins konar hreppar eða sýslur eða fylki í því ríki. Og þá er kominn grundvöllur fyrir alþjóðlegu hjálparmáli, einföldu, auðlærðu, og allar þjóðir fá sömu aðstöðu til að tjá sig fyrir mannheimi. Auðvitað halda þjóðirnar áfram að tala sitt eigið tungumál heima fyrir. Móðurmálið og alheimsmálið verða þær tungur, sem öllum mun gert skylt að læra til hlítar. Sú þróun er þó sennileg og máski óumflýjanleg, að þjóðtungurnar hverfi og eitt mál verði talað um allan heim. En sá tími er óralangt fram undan.

- Hvernig verður þessu ríki stjórnað?

- Um það hreyfi ég ekki neinum áætlunum. Sá vandi leysist á sínum tíma.  .. (274).

 

Þórbergur talar um dýrlega framtíð „svo framarlega sem friður helzt". Það er kannski ekki nema vona að hann setji þennan fyrirvara á þar sem á fyrri hluta aldarinnar geisuðu tvær styrjaldir sem skóku gervalla heimsbyggðina. Og svo öll þau ‘smástríð' sem sífellt geisa hér og þar í heiminum. En ef friður helst þá segist Þórbergur „algerlega sannfærður um" að sósíalisminn muni færa mannkyninu „dýrlega framtíð" - og svo framvegis. Þetta er í sjálfu sér falleg hugsun - falleg hugsjón - og í sjálfu sér engin ástæða til annars en að halda áfram að trúa á hana þótt hugsjónin hafi orðið fyrir ‘áfalli' með afhjúpunum Krústjovs. Þetta er þróun sem taka mun sinn tíma og á endanum mun sá tími koma að „undirstaða ósátta þjóða á milli" verði numinn á burtu. Og þá komum við aftur að alþjóðlegu hjálparmáli, væntanlega esperantó, sem allir muni nýta sér í samskiptum milli þjóða. Og þannig áfram.

     Hver vill ekki frið? Hver vill ekki að allar þjóðir lifi í fullkominni sátt sín á milli? Það væri hægt að svara þessu eins og afglapi og segja að auðvitað vilji allir frið og sátt þjóða á milli. En þegar öflugasta ríki heims fer út í stríð vegna olíu, fyrst og fremst, vegna hagsmuna sem snerta þá, meir og meir í komandi framtíð, þá er augljóst að það verður erfitt að koma á friði í veröldinni. Þegar þjóð sem hefur alla burði til þess að fara fremst í flokki þeirra sem vilja stuðla að friði í veröldinni sáir í stað þess fræjum haturs út um allar jarðir með utanríkisstefnu sinni. Það er engum vafa undirorpið að hryðjuverkahópar samtímans eru afsprengi þessara fræja. Ekki nokkur vafi! Bandarísk utanríkisstefna hefur óbeint fóstrað hugmyndafræði þessara hópa. Það liggur í því, að þeir fara í hugmyndafræði sinni eins langt frá öllu því sem þeir hata mest og lenda því á hinum enda stikunnar (þetta er jú sama stikan) í mannhatri og mannfyrirlitningu. Bush og bin Laden er sami þursinn - þeir eru hinn tvíhöfða þurs heimsku og mannfyrirlitingar. Og báðir vinna þeir verk sín í nafni trúarinnar. Nema hvað!

     Það er langt í það að friður verði eitthvað sem við getum kallað ‘viðvarandi ástand' á þessari jörð okkar. Og nokkuð ólíklegt að það verði sósíalisminn sem muni í fjarlægri framtíð færa mannkyninu dýrðlega tíma. Þó veit maður aldrei. Það má hins vegar aldrei hætta að trúa á að friður og sátt muni eitthverju sinni ríkja milli allra þjóða. En kannski erum við á vitlausri leið. Að einhvers staðar höfum við ‘tekið vitlausa beygju' og erum því á leið til glötunar. Kannski mun Guð einfaldlega segja: - „Game over - nú tökum eina ísöld og byrjum svo aftur." Við eru raunveruleikasjónvarp Guðs. Tilraunaeldhús hans. Tilraun með manneðlið. Tilraun með það hvernig þarfir líkamans og hugarins fara að því að splundra hinu guðlega í sálinni. Eitthvað sem öllum er gefið. Öllum! Þetta litla brotabrotabrot af veraldarmannhafinu sem vinnur sigur á þörfunum fær síðan vist í ríki Guðs og sæti í fremsta bekk þegar næsta sería af raunveruleikasjónvarpi hans hefst. Guð sé oss næstur! Maður segir nú ekki annað!

     Hvar skyldi Þórbergur vera? Ekki veit ég það og ekki ætla ég að leita hans. En Þórbergur var breyskur maður eins og við hin en hann var ekki heimskur maður. Hann var vel gefinn maður. Hann leitaði sannleikans. Sjálfur sagðist hann vera „svarinn fjandmaður allra hugmynda, sem eru ósannar" (Í kompaníi við Þórberg;107). Þórbergur leitaði sannleikans í guðspekinni. Hann leitaði hans í sósíalismanum. Hann leitaði hans í hugmyndaheimi esperantista. Hann var sannur í þessari leit sinni því hann sóttist aldrei eftir upphefð eða virðingu í sjálfu sér. Hann fór þess vegna meðvitað í hina áttina. Kannski til þess að gera á sinn hátt at í þeim sem voru uppteknir af því að hlaða á sig virðingum. Þórbergur var. Hann var það sem hann var! Um leið og hann hefði orðið eitthvað hefði það þýtt að fólk hefði þurft að umgangast hann í samhengi við það sem hann var orðinn. Eins og ‘sumir', sem voru orðnir virtir, dáðir og ... verðlaunaðir. Ég held að eitt af því sem Þórbergur hafi fyrirlitið mest hafi verið tilgerð. Tilgerð var uppgerð og uppgerð var eitthvað sem menn gerðu sér upp og það sem menn gerðu sér upp var ósatt í sjálfu sér. Og Þórbegur var svarinn fjandmaður þess. 

* * * *

 Lokaorðin. Þórbergur talar einkar hlýlega við Matthías. Segir meðal annars:

 

- Og sú varð raunin á, að mér líkaði svo sérkennilega vel við þig, að ég get ekki hugsað mér neinn annan mann, sem ég hefði lagt út í að eiga svona löng samtöl við. Koma þín hefur að vísu ekki læknað í mér nein gigtarköst, enda hafa þau ekki verið mikil, en ég hef samt alltaf hlakkað til þeirra kvölda, þegar ég átti von á þér, og sú tilhlökkun hefur ekkert dofnað við nánari viðkynningu. Þú ert bara með bezt verkandi mönnum sem ég hef þekkt. Og þú ert alltaf nýr, eins og Árni prófastur sagði um Passíusálmana. Þú máist ekkert við viðkynningu. Það er fágætur mannkostur (280).

 

Þegar við tölum um aðra, erum við að lýsa sjálfum okkur um leið. Og þegar við tölum við aðra, gerum við það líka, en á annan hátt. Ofangreind orð lýsa Þórbergi - einkar vel. Þórbergur og Matthías höfðu verið að leika viðtalsskák sem nú var á enda. Í þeirri skák varð að gæta sín á því að leika ekki af sér. Matthías varð að vinna trúnað Þórbergs og ekki síður Margrétar, ef úr átti að verða marktæk og góð samtalsbók. Matthías lék sitt hlutverk afar vel og Þórbergur var eins og hann átti að sér að vera. Hann var eins og við þekkjum hann af bókum hans. Laus við tilgerð en fyndinn, alvarlegur og einlægur eftir því hvað um var rætt.

 

Ragnar í Smára á hrós skilið fyrir að velja Matthías í verkið. Og Matthías á hrós fyrir að ‘verka svona vel', bæði á Þórberg og Margréti. Matthías er vel gefinn og vel gerður maður. Hann var alltaf sem nýr og það er fágætur kostur. Alveg eins og Þórbergur verkar á mig. Alltaf nýr. Hvers vegna? Jú, vegna þess að hann var svo ‘original' í sér - hann var svo áberandi sjálfmótaður, en lítið mótaður af samfélaginu. Það var ekkert hefðbundið við Þórberg. Aldrei. Enda var fyrsta atlaga hans á rithöfundasviðinu atlaga að hinu hefðbundna. Atlaga að viðteknum hugmyndum sem voru byggðar á hagsmunum afmarkaðra hópa. Ekki almennings. Þetta var í augum Þórbergs atlaga að heimsku - heimsku sem takmarkast hvorki af tíma né rúmi. Þórbergur leitaði sannleikans. Sannleikurinn takmarkast aðeins af sjálfum sér. Þess vegna er hann sannur.

 

Takk fyrir kompaníið, félagar!

DIO PAFAS. HOMO TRAFAS

 

 

 

 

Heimildir:

  1. Matthías Johannessen. 1989. Í kompaníi við Þórberg. Almenna bókafélagið. Reykjavík.
  2. Þórbergur Þórðarson. 1964. „Rangsnúin mannúð". TMM  2: 147-178.
  3. Þórbergur Þórðarson. 1982. Ofvitinn. Mál og menning. Reykjavík.
  4. Þórbergur Þórðarson. 1982. Bréf til Láru. Mál og menning. Reykjavík.
  5. Þórbergur Þórðarson. 1984. Íslenzkur aðall. Mál og menning. Reykjavík.                   
  6. Þórbergur Þórðarson. 1987. Mitt rómantíska æði. Helgi M. Sigurðsson bjó til prentunar. Mál og menning. Reykjavík

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


[1] Málstofa um Þórberg Þórðarson við Háskóla Íslands, haustið 2005. MA - verkefni í íslenskum bókmenntum. Ritgerðarheiti: Í kompaníi við Þórberg og Matthías: Lagt út af viðtalspunktum Matthíasar við Þórberg í bókinni Í kompaníi við allífið. Verkefni unnið af Sverri Árnasyni.

 

[2] Hér eftir eru allar inndregnar tilvitnanir úr þessari bók nema annað sé tiltekið.

[3] Vefsíðan er: (http://arlingtoncemetary.net/jfdulles.htm.

[4] Mál og menning 2, 1964: 171.

[5] Guðmundur Finnbogason. 1945 Einar Benediktsson: Ljóðmæli I. Formáli; 36

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 116
Gestir þennan mánuð: ... 8989
Gestir á þessu ári: ... 17029