Skip to main content

Þankar um Þórberg

Einar Bragi skrifar:

Erindi flutt á Höfn í Hornafirði þegar Skaftfellingar minntust aldarafmæli Þórbergs Þórðarsonar 12.mars 1989. Haldið var upp á afmælið einu ári of seint eins og reyndar öll merkisafmæli Þórbergs. Þórbergur var fæddur 12. mars 1888 og er sá fæðingardagur skráður í kirkjubók Kálfafellsstaðarkirkju. Síðar urðu þau mistök að fæðingarár Þórbergs var talið vera 1889 , en ekki er vitað með vissu hvernig eða hvenær Þórbergur yngdist um eitt ár eða hvað olli þeim undarlega misskilningi.
Þankar um Þórberg
Erindi Einars Braga flutt á Höfn í Hornafirði 12.mars 1989

Mér er enn í glöggu minni þegar ég sá Þórberg Þórðarson fyrst og þó aðeins tilsýndar. Ég var þá tólf ára hestastrákur hjá Gísla Jónssyni í Suðurhúsum í Borgarhöfn og unnustu hans Regínu Stefánsdóttur. Gísli hafði Miðhúsapartinn úr Kálfafelli á leigu og við vorum þar syðra þennan dag, sennilega við heyskap, því ég man að við vorum fjögur saman útá túni í fegursta veðri. Í Upphúsunum á Kálfafelli bjuggu Benedikt bróðir Þórbergs og Ingunn Þórðardóttir. Allt í einu komu þau Upphúsahjón útúr bæ sínum ásamt karlmanni og konu á miðjum aldri og rölta með hægð upp brekkurnar masandi á göngunni, eflaust með stefnu á einhverja sjónarhæð þar sem vel sæi yfir. Aðkomukonan var með hvíta sponnu. Ég starði undrandi á þessa hersingu, því spássérutúrar á miðjum virkum degi um hásláttinn tíðkuðust ekki í henni Suðursveit á þeim dögum. Hér hlaut tigna gesti að hafa borið að garði. Þau sem með mér voru hafa eflaust lesið forvitni úr svip mínum, því eitthvert þeirra sagði: ,, Þetta er hann Bergur á Hala, hann er víst nýlega búinn að ná sér í konu". Ég hafði heyrt Þórberg Þórðarson nefndan heima hjá mér, vissi að hann var rauður eins og við og hafði gert borgarana snarvitlausa með bréfi til einhverrar Láru. Það var því engin furða þótt ég dáði slíkan garp og væri uppveðraður yfir að standa innan sömu girðingar og hann.
Það hlýtur að hafa verið missiri síðar að faðir minn kom eitt sinn utanúr bæ seint á degi með spánnýja bók í hendi. Hún var í rauðri kápu og hét Pistilinn skrifaði…Það var fyrsta bók sem ég sá eftir Þórberg Þórðarson. Pabbi settist við eldhúsborðið og byrjaði að lesa upphátt fyrir móður mína bréfið til Kristínar Guðmundsdóttur þar sem Þórbergur lýsir för sinni í baðhús í Stokkhólmi. Hann hló svo hjartanlega að tárin runnu niðreftir vöngunum og varð hvað eftir annað að gera hlé á lestrinum til að jafna sig, svo hann gæti haldið áfram.
Frá þessum fyrstu ónánu kynnum af Þórbergi og verkum hans er nú liðinn hálfur sjötti áratugur. Ég get ýkjulaust sagt að allan þann tíma hafi hann verið andlegur förunautur minn hvert fótmál þótt kunningsskapur okkar stæði ekki nema í 30 ár.
Vegna aldarafmælis Þórbergs hefur nafn hans verið á allra vörum að undanförnu, margt aðdáunarorð fallið að verðugu um höfundaverk hans mikið og gott og sumir látið í ljós undrun yfir að svo stórbrotinn rithöfundur skyldi yfirleitt getað sprottið úr þeim karga jarðvegi sem íslenskt bændasamfélag var á ofanverðri 19. öld og hinni tuttugustu öndverðri. Ég get ekki láð þeim sem grípa til þeirrar skýringar að maðurinn hafi einfaldlega verið séní: hlotið í vöggugjöf svo ríka málkennd, magnaða stílgáfu og auðugt ímyndunarafl að ekkert hefði getað hindrað að hann yrði aldahvarfamaður í íslenskum bókmenntum.
Sjálfgert er að enginn vinnur bókmenntalegt stórvirki á borð við það sem Þórbergur afrekaði sé honum ekki gefin hin andlega spektin, og kynfylgjuna vil ég alls ekki vanmeta. Gaman er að veita því athygli að Auðbjörg gamla á Brunnum var langamma þeirra beggja Þórbergs og Svavars Guðnasonar listmálara, sömuleiðis formóðir kunnra leikara eins og Arnars Jónssonar, Helgu systur hans og Emils Guðmundssonar sem lék Þórberg ungan í leikgerð Ofvitans, einnig hins ágæta myndlistarmanns Halldórs Ásgeirssonar. Af sömu ætt og Auðbjörg er líka Tryggvi Ólafsson listmálari þótt ekki sé hann afkomandi hennar. Fyrri maður hennar og langafi Þórbergs Einar Eiríksson var barnabarn Þórdísar systur Jóns Eiríkssonar konferensráðs frá Skálafelli og þremenningur við Svein föðurafa Einars skálds Benediktssonar. Allir þeir sem ég nú hef nefnt eru skyldir Þórbergi í móðurætt mömmu hans, en í föðurætt Önnu á Hala hafa einnig komið fram góðar listgáfur. Nægir að nefna að þeir eru þremenningar á þá hlið Þórbergur og Jón Þorleifsson listmálari, en Sigurður Pálsson skáld og Þórbergur að þriðja og fjórða. Það er því enginn hörgull á listamönnum í frændgarði Þórbergs og augljóst að þetta er ættgengur fjandi.
Ég neita því vitanlega ekki að til séu séní. En ég tel hæpið í meira lagi að leita skýringa á mannlegum afrekum í snilligáfu einni nema í örfáum undantekningartilfellum, því ósköpin öll af venjulegri heilbrigðri skynsemi, þekkingarþrá, þrautseigju og atorku þurfa að vera henni samfara eigi hún ekki að vera séníinu sjálfu til armæðu einnar og engum til gleði og gagns. Um Þórberg Þórðarson get ég vitnað að hann var í allri framgöngu einhver eðlilegasti og látlausasti maður sem ég hef kynnst, en þar með er ekki sagt hann hafi verið venjulegur eða hversdagslegur, og vel má vera að hann hafi auk margs annars verið séní þótt ég efist um það. Hann var vel af guði gerður, og meðal hins besta ef ekki hið besta sem honum var gefið var óslökkvandi þrá eftir að fullkomna þá hæfileika og mannkosti sem með honum bjuggu frá upphafi. Þessi sterka fullkomnunarþrá var aðalhvati allrar viðleitni hans og nægir mér að minnsta kosti sem skýring á þeim mikla árangri sem hann náði í ritlist.
Sem skáld var Þórbergur seinþroska. Hann hefur skrifað firnin öll um barnæsku sína og unglingsár, en þar segir fátt af skáldskapartilraunum.Ætli megi ekki treysta því sem hann segir sjálfur að náttúra hans til kvenna og ljóðagerðar hafi kviknað samtímis og ekki fyrr en hann var kominn á 19. ár. Í Endurfæðingarkrónikunni stendur við árið 1906: ,, Fæ allt í einu, sitjandi á rauðmáluðu kofforti í suðausturherberginu í húsinu nr. 9 við Vitastíg, náttúru til kvenna. Missi stærðfræði-, mælinga-, teikni-, smíða-, og uppfyndinga-gáfu og fer að yrkja". Yrkisefnin voru ekki stórbrotin: fyrsta kvæðið skammarbragur, næsta eftirmæli. Þremur árum síðar eða tuttugu og eins árs gamall yrkir hann þessi erindi:
Undir hlíðum háum
hafði ég skjól í æsku
Þar sem brekkur blíðar
breiða skrúð mót sólu
þar sem lækir léttir
líða að ránar falli
og jökultindar tærir
teygjast móti sólu.


Lék þar flest í lyndi
ljómaði gleði í sinni
lífið hugði ég leiki
liggja um sólskinsreiti
Allt varð þá að yndi
ógnir lífs ei þekkti
Svona leist mér lífið
líða myndi að kveldi.

Þetta er ekki ósnotur kveðskapur. Samt held ég enginn teldi auðsætt að hér væri séní á ferð, jafnvel þótt að yngri maður hefði ort. Þess vegna læt ég séní-kenninguna lönd og leið, en kýs fremur að líta á fullkomnunarþrána og hvaða árangri hún skilaði Þórbergi Þórðarsyni.

Hver sem haldinn er sterkri löngun til að menntast fer líkt að og ræktunarmaður sem færir út jaðar akurlendis síns með ári hverju. Menningarleit hans hefst jafnaðarlega
,, í túninu heima" færir smám saman út kvíarnar til grannbæja og síðan allrar sveitarinnar, heldur áfram að helga sér lönd í næstu byggðum allt að sýslumörkum, og enn víkkar þekkingarsviðið uns það nær til landsins alls og þjóðarinnar sem það byggir; þá fer að hilla uppi önnur lönd hvert af öðru allt til fjarstu endimarka jarðar, yfir þeim hvelfist himingeimur með óteljandi sólkerfum og hvað er svo utan og ofan við þetta allt: kannski einhvers konar alheimur og allíf með algóðan guð á efsta tróni og alillan djöful í neðsta víti? Því getur enginn svarað. En sá sem er með þeim ósköpum fæddur að vilja vita allt og skilja stendur eigi að síður þolgóður við hinar luktu dyr, heldur áfram til aldurtiladags að leita svara við óræðum gátum og getur ekki annað.
Þessi ferill er sérstaklega auðrakinn hjá Þórbergi Þórðarsyni vegna þess að öll meginverk hans eru samfellt heimildasafn um veraldar- og hugsunarsögu hans sjálfs. Þórbergur fer úr Suðursveit 18 ára gamall og hefur þá auðvitað hlotið grunnmótun sína. Hann tekur bernskustöðvarnar með sér og sleppir aldrei af þeim hendi né þær af honum, svo hann má uppfrá því heita Suðursveitungurinn síleitandi í heiminum. Á efri árum hverfur hann aftur til upprunans og rekur líf sitt til róta af glöggskyggni og kunnáttusemi háþroskaðs rithöfundar. Hann skrifar fjórar merkisbækur um heimabyggð sína og uppvaxtarár, síðar útgefnar í einu bindi undir nafninu Í Suðursveit. Má óhætt fullyrða að enginn íslenskur maður hafi goldið sveit sinni fósturlaunin af annarri eins rausn og Þórbergur í þeirri bók.
Í þessu mikla verki má glöggt sjá að hann hefur lifað mjög auðugu lífi í uppvexti og haft í heimanfylgju firn af fróðleik um lönd og lýði, og það sem mest var um vert fyrir hann sem rithöfund: dýrlegt tungutak sem hann átti eftir að fága til slíkrar fullkomnunar að fáir hafa ritað fegurra íslenskt mál. Að stofni til var það numið að móðurkné, á því er enginn vafi. Það sanna bræður hans sem hvorugur gekk menntaveginn: Steinþór varð þjóðfrægur af frásgnalist sinni, og þeim sem heyrðu Benedikt á Kálfafelli flytja blaðalaust stutta snerpulega ræðu líður það seint úr minni.
Bergur á Hala var ekki búmannsefni. Hann var haldinn útþrá: ,,Tvennt var mér sérstaklega ástríðuefni á æskuárunum, úthafið himinblátt og frönsk fiskiskip undir fannhvítum voðum. Þessi skínandi náttúruundur lokkuðu mig til Reykjavíkur", segir hann. ,,Æskudraumar mínir rættust. Ég komst á skútu. En nú bar hafið ekki lengur bláma himinsins, og seglin voru barkarlituð,,,Ég kom öreigi á skútu og fór þaðan beiningarmaður. Ég gat aldrei litið í bók nema Kvennafræðarann,,,Þó get ég verið guði þakklátur. Nálægðin grá og dapurleg gaf mé bláa fjarlægð, fulla af glæsilegu lífi…Síðan hafa barist í mér tvö andstæð meginöfl, annars vegar vísindaleg smásmygli, hins vegar rómantískt hugmyndaflug. En örbirgðin hefir meinað mér að þroska hvort tveggja"
Það var 1906 sem Þórbergur fór úr Suðursveit, og skútuárin urðu þrjú. Nú söðlar hann um og hefur skólagöngu kominn á þrítugsaldur. Þá flyst hann af sýslustiginu yfir á landssviðið. Skólagangan varð reyndar einhver skrykkjóttasta og skrautlegasta sem um getur í sögu íslensks gáfumanns: fyrst einn vetur í kvöldskóla, þá einn í Kennaraskólanum, því næst þrír í Menntaskólanum í Reykjavík sem enda með falli á gagnfræðaprófi. Þá víkur hann sér beina leið í Háskóla Íslands:,,Hver taug í líkama mínum verður heltekin af íslenskum fræðum. Allar aðrar víðáttur heimsins hverfa. Horfi á Björn M. Ólsen í fjögur ár eins og hundtík á húsbónda sinn"segir hann..Björn var fyrsti prófessorinn í íslenskum fræðum við hinn unga háskóla vorn og Þórbergur meðal fyrstu nemenda í greininni. Eftir fimm vetra nám sótti hann um heimild til að þreyta próf. En hin virðulega stofnun gat ekki axlað þá ábyrgð að útskrifa mann sem hafði ekki lokið stúdentsprófi og meira að segja fallið á gagnfræðaprófi. Aftur á móti kjöri Háskóli Íslands hann heiðursdoktor árið sem hann dó. Ég er hræddur um að Þórbergur hafi þá verið orðinn of veikur til að geta notið verðskuldaðrar skemmtunar af þessum grínagtuga lokaþætti í skiptum hans og Háskólans. En hafi honum orðið að trú sinni um framhaldslífið má fullvíst telja að hann hafi brosað í kampinn handan frá Sumarlandinu þegar honum var farið að líða ögn betur og varð litið á doktorsskjalið.
En það var fleira en skólagangan sem setti mark sitt á Þórberg milli tvítugs og þrítugs og sumt miklu afdrifaríkara fyrir hann sem skáld og rithöfund. Þetta eru árin í Bergshúsi í hópi glaðra æskufélaga sem síðar urðu aðalpersónur í skáldverkum hans. Þar verður hann ástfanginn í fyrsta sinn, og þótt enginn viti né muni nokkurn tíma fá að vita hvort ást hans var endurgoldin á fullnægjandi hátt eða ekki hafði þessi reynsla djúp áhrif á skáldið í honum. Á þessum tíma verður hann heimagangur í Unuhúsi og kemst þar í sálufélag við ýmsa sem síðar urðu þjóðkunnir listamenn og spekingar. Öll þessi ár er hann í miðri hringiðu íslenskra þjóðmála sem þá eru að breytast úr einhliða sjálfstæðisbaráttu við Dani í innlend stéttaátök með stofnun Alþýðusambands, Alþýðu- og Framsóknarflokks. Þórbergur fylgist með af brennandi áhuga og er snemma róttækur. Síðast en ekki síst eru þetta ár þotlausrar meðvitaðrar þjálfunar hans í ritlist. Í fyrstu lífsreglum sem hann setti sér líklega um 1911 hljóðar 2. boðoð þannig:,, Eyða öllum tómstundum til þess að lesa og skrifa. Lesa með eftirtekt, rita með snild"
Ljóðagerð Þórbergs varð aldrei mikill að vöxtum, eitthvað um hálft hundrað kvæða auk smáka, og furðulengi orti hann mjög undir áhrifum annarra skálda. En við árið 1914- þegar hann er sem sagt 26 ára - segir í Endurfæðingarkrónikunni:,,Losast á einni nóttu, undan þeim póetíska svindlara, Einari Benediktssyni. Engill einfaldleikans stígur niður í mig. Púki fútúrismans ber að dyrum…" Eitt besta dæmið um hverju engill einfaldleikans blés honum í brjóst er ljóðið, Ég er aumingi(1915):,,framsetningin næstum barnsleg einföld og tónninn hreinn. Og með tveim síðustu línunum bjargar höfundurinn sjálfum sér og kvæðinu frá slepjulegum aumingjaskap", segir hann sjálfur réttilega:

Ég er mikið mæðugrey
má því sáran gráta-
af því forðum ungri mey
unni ég fram úr máta

Aldrei sé ég aftur þá
sem unni'eg í bernskuhögum.
Bakvið fjöllin blá og há
bíður hún öllum dögum

Ef ég kæmist eitthvert sinn
yfir í fjallasalinn
svifi ég til þín, svanni minn
með sólskin niðrí dalinn.

En ef ég kemst nú ekki fet
elskulega Stína
eg skal eta eins og ket
endurminning þína.

Greinilega hefur púki fútúrismans átt sinn þátt í tveimur síðustu ljóðlínunum, en fútúrisma Þórbergs var stefnt gegn ,, þessum steinrunnu hugsunarvenjum og þrauttuggnu orðum og orðatiltækjum, sem sitja eins og hlandsteinn á hverri blaðsíðu í hverri bók, í hverri blaðagrein, í hverju kvæði", segir hann á einum stað.
Eftir að Þórbergur féll frá hafa komið út tvær bækur eftir hann með efni frá skólaárunum, Ólíkar persónur og Ljóri sálar minnar. Þetta er að sumu leyti átakanleg lesning um ungan mann í sárustu andlegri og veraldlegri neyð, en varpar jafnframt ljósi á þróun rithöfundarins Þórbergs Þórðarsonar. Af þessum bókum má meðal annars sjá að hálfþrítugur eða þar um bil hefur hann eignast sinn húmoríska tón og náð vissum tilþrifum í stíl sem sterklega benda til þess sem síðar varð að meistaratökum á ritun óbundins máls.
Þegar hann kveður Háskólann þrítugur að aldri vorið 1918 er hann orðinn einn menntaðasti íslenskufræðingur þjóðarinnar, virtur brautryðjandi í söfnun orða úr íslenska alþýðumáli og ötull þjóðsagnasafnari. Síðar bætti hann miklu við söfn sín. Áður en hann skrifaði Bréf til Láru var hann búinn að safna 20.000 orðum úr alþýðumáli, og höfðu ekki aðrir gert betur. Sagnir hans sem síðar birtust í Gráskinnu, að viðbættum Viðfjarðarundrunum, Indriða miðli og Lifnaðarháttum í Reykjavík á síðari helmingi 19. aldar, munu endast honum til ævarandi frægðar sem þjóðsagnaritari og þjóðháttarfræðingur í fremstu röð.
Þó að Þórbergur væri nú kominn á fertugsaldur var enn margt á huldu um hvað úr honum ætlaði að verða. Kannski voru mestar horfur á að hann yrði vandaður fræðaþulur sem vegna prófleysis kæmist þó ekki að við einu vísindastofnun landsins, heldur koðnaði niður hægt og hægt í lýjandi og staglsamri unglingakennslu. Hann hafði ekki enn gefið út neina bók í óbundnu máli, en tvo litla ljóðapésa undir dulnefni, og litu víst flestir fremur á þá sem skemmtilega vitleysu en fyrirboða markverðra nýmæla í ljóðabókmenntum landsmanna. Ég tel vafamál og reyndar harla ótrúlegt að Þórbergur hafi sjálfur verið farinn að líta á það sem köllun sína eða hugsanlegan möguleika að gerast atvinnurithöfundur, enda ekkert skáld á þeim tíma sem aflað gat sér lífsviðurværis með því einu að skrifa á íslensku. Dæmi voru um framgjörn ung skáldmenni sem rutt höfðu sér braut sem rithöfundar á dönsku, en slíkt hefur fráleitt freistað Þórbergs Þórðarsonar. Og ekki bætti úr skák að þessi opna sál var alltaf að verða fyrir nýjum og nýjum umturnandi opinberunum.
Við árið 1917 segir í Endurfæðingarkrónikunni:,,Hlunkast í októbermánuði…með vígahnattarhraða niður í ómælishöf guðspeki, yógaheimspeki og spíritisma, svo að allt annað gleymist. Fæ nýja útsýn yfir gervalla tilveruna. Kýli á andlegum æfingum. Beini mínu blikki til meistara í Tíbet. Finn alheimsorkuna fossa genum hverja taug. Gerist heilagur maður".
Sem betur fór var heilagleikinn ekki skotheldari en það að snemma vetrar 1918 varð hann dauðástfanginn af Sólu og mun hafa notið þeirra ásta af sál og líkama á annað ár þótt í meinum væru.

En þá kom trúfífl sunnan með sjó
og sagði:Gættu þín
því höggormar og fjandafans
þig fífla góða mín

Hún fann það brátt, hin föla mær
að fjandinn bjó í mér
Með heimskum leirhaus lagðist hún
og lifði guði og sér.

Þar fór það og var þó ekki úti ævintýri, en það er önnur saga. Hinn 23. nóvember 1921 er getið í Endurfæðingarkróniku að skáld vort hafi fengið ,,voðalegt pólitískt sjokk, sem þó ekki gat orðið endurfæðing" Orsök þessa sjokks var Suðurgötuslagurinn svonefndi þegar hvítliðar ruddust inn á heimili verkalýðsforingjans Ólafs Friðrikssonar, tóku rússneskan fósturson hans með valdi og fluttu nauðugan úr landi. Uppfrá því var Þórbergur afdráttarlaus eldheitur sósíalisti og alþjóðasinni. Fyrr á sama ári hafði hann farið í fyrsta sinn til útlanda, sótt alþjóðlegt guðspekiþing í París og komið við í London. Þetta varð upphaf mikilla ferðalaga um önnur lönd og teygðu sig alla leið til Kína áður yfir lauk.
Árið 1922 gefur Þórbergur út Hvíta hrafna. Bókin sætti tíðindum, svo mjög stakk hún í stúf við yrkingar annarra ljóðasmiða á þeirri tíð. Á Þórberg sjálfan hefur það án efa haft heilsusamaleg áhrif að vera búinn að gefa út bók undir eigin nafni. Það er reynsla allra höfunda. Og nokkuð er það að við árið 1923 segir í Endurfæðingarkróniku:,,Verð útsetinn, þar sem krossast Austurstræti og Aðalstræti fyrir ótuktaráráttu til ritstarfa, en var þó ekki endurfæðing. Stekk heim, hátta og byrja Bréf til Láru".
Þetta var örlagaríkt stökk og ekki fyrir Þórberg einan, heldur íslenskar bókmenntir 20. aldar. Árið eftir kom Bréf til Láru út. Um þetta fræga verk hefur svo margt verið ritað og rætt að ég nenni ómögulega að tyggja það upp, en nefni rétt fyrir siðasakir að þannig hafði aldrei verið skrifað á íslensku fyrr og eftir útkomu Bréfsins var ekki hægt að skrifa eins og áður þótti fullboðlegt.
Þórbergur var reyndar orðinn rígfullorðinn maður(36ára) og átti að baki margra ára stranga þjálfun í rósemi hugans með öndunaræfingum, hugleiðslu og hvers kyns tilfæringum. Engu að síður hlýtur útkoma Bréfs til Láru að hafa komið miklu róti á allan hans andlega búskap. Hann varð þjóðfrægur á einni nóttu: miðdepill heiftúðugra deilna sem náðu frá ystu nesjum til innstu dala á Íslandi. Aðdáendur hylltu hann eins og handboltahetju sem lengi hefur mátt bíða óþekkt og vanmetin á varamannabekk, en er um síðir kölluð inná völlinn og skorar þá hvert markið af öðru föstu skoti. Andskotar hans aftur á móti ruku á hann allir í senn eins og grimmir hundar og gjömmuðu: útaf með þrjótinn
Satt að segja getur rithöfundur ekki óskað sér ótvíræðari staðfestingar á að hann eigi erindi í leikinn. Samt virtist Þórbergi ekkert kappsmál í bráð að fylgja þessum stórsigri eftir. Kannski hafði hann einfaldlega ekki frið til þess fyrir eilífum endurfæðingarofsóknum. Strax á næsta ári (1925) gerist nefnilega þetta: ,,Endurfæðist hægt og kurteislega með hálftíma lestri á dag inn í Esperanto….Í júlímánuði 1926 er þessi endurfæðing búin að ganga svo frá mér, að ég fyrirlít allt annað en Esperanto og esperantobókmenntir í næstu 6 ár. Las Esperanto 10 til 20 klukkutíma á sólarhring. Varð að lesa á kamrinum, hvað þá heldur þar, sem betri var lyktin".

Engan þarf að undra þótt alþjóðasinnanum Þórbergi Þórðarsyni sem upptendraður var af hugsjón um bræðralag allra manna þætti nokkuð við liggja að endurvekja þá skipan sem ríkti fyrir daga Babel-turnsins þegar ,,öll jörðin hafði eitt tungumál og einn og sömu orð" eins og segir í 1. Mósebók. Hann gekk gunnreifur til liðs við þá sem leiðrétta vildu misgjörð drottins þegar hann ruglaði tungumál mannanna, svo enginn skildi framar annars mál. Og það var aldrei neitt hálfkák á því sem Þórbergur tók sér fyrir hendur. Hann samdi múrsteinsdoðrantinn Alþjóðamál og málleysur, margar kennslubækur í Esperanto, varði miklum tíma árum saman í kennslu alþjóðamálsins, og í handritadeild Landsbókasafnsins er geymdur gildur sjóður verka í ljóðum og lausu máli sem hann frumsamdi á Esperanto og enginn hefur kannað enn til hlítar.
Það liðu níu ár frá útkomu Bréfs til Láru án umtalsverðra bókmenntalegra tíðinda af Þórbergi Þórðarsyni. Við árið 1933 segir í Endurfæðingarkrónikunni: ,,Endurfæðist skýrt og skorinort til ritstarfa". Reyndar hafði endurfæðingin byrjað vorið áður, ,,en svo virtist ekkert ætla að verða úr henni, uns hún reif sig gegnum mig með skakandi ofsa í nóvembermánuði 1933", segir hann. Þá hefur bókin hans Pistilinn skrifaði…verið í burðarliðnum; eftirmálinn dagsettur 12 . desember 1933.
Vert er að veita því athygli að skýr og skorinorð endurfæðing Þórbergs til ritstarfa hefst sama ár og hann kvænist Margréti Jónsdóttur. Sigfús Daðason segir í umræðuþætti í útvarpinu á dögunum að Margrét hafi rekið Þórberg eins og fyrirtæki. Þessi ummæli komu illa við mig. Margrét hefur á yngri árum verið lagleg og lífmikil kona sem heillaði Þórberg. Hún var bæði hrifin og stolt af honum og átti mikinn metnað fyrir hans hönd. Hún var vargur dugleg og án efa gleggri á fjármál en maður hennar, enda hægt við að jafnast. Vel má vera að hún hafi verið umboðsmaður höfundarins gagnvart útgefendum, um það veit ég ekki neitt. En ætli honum hafi þá ekki komið vel að eiga hauk í horni sem annaðist veraldarvafstrið? Og hafi viðskiptavit Margrétar fengið því áorkað að Þórbergur gat gefið sig allan að ritstöfum frá upphafi hjúskapar þeirra til loka starfsævi sinnar megum við vera henni ævinlega þakklátir Íslendingar.
Enn líða fimm ár frá útkomu Pistilsins og Þórbergur orðinn fimmtugur. Þá taka eftirminnlega að sannast orð Markúsar Varrós, þau sem séra Hallgrímur vitnar til í formála Passíusálmanna:,,Það verður dýrast, sem lengi hefir geymt verið, og gefur tvöfaldan ávöxt, í hentugan tíma fram borið".Árið 1938 sendi Þórbergur frá sér Íslenskan aðal, 1940 - 41 Ofvitann í tveimur bindum, 1945 - 50 Ævisögu séra Árna Þórarinssonar í sex bindum, 1954 - 55 Sálminn um blómið í tveim bindum, 1956 - 58 þrjár bækur um lífið í Suðursveit og skrifaði hina fjórðu þótt hún væri ekki prentuð fyrr en síðar. Þessar fimmtán bækur sem Þórbergur ritaði milli fimmtugs og sjötugs verða ávallt ásamt Bréfi til Láru taldar hátindarnir á skáldferli hans og meðal öndvegisrita íslenskra bókmennta á 20.öld.
Sumir tregðast við að telja þessar bækur til skáldverka vegna þess að Þórbergur hefur oftast að uppistöðu og ívafi atburði úr lífi sínu eða annarra nafngreindra samtíðarmanna. Þetta eru léttvæg rök. Það er ekki efnið og enn síður nöfn sögupersóna sem hér skipta sköpum, heldur efnistökin, hugarflugið, myndvísin, málsnilldin, stíllinn. Rýrði það skáldskapargildi Njálu þótt sannaðist kenning Barða Guðmundssonar að Þorvarður Þórarinsson hefði skrifað söguna um samtímamenn sína og atburði sem hann var sjálfur þátttakandi í á 13. öld? Eða þá hitt: að staðfesting fengist á því sem lengi var trúað og sumir hallast að enn í dag, að flestar sögupersónur Njálu hafi verið uppi á söguöld og atburðir gerst með líkum hætti og greinir frá í bókinni ? Vitanlega væri Njála jafn stórbrotið skáldverk fyrir það.
Sjálfur lét Þórbergur sér fátt um bókmenntalegar skilgreiningar finnast, hnýtti óspart í skáldsögur, lét jafnvel að því liggja að allur skáldskapur væri helber hégómi. En í þessu sem ýmsu fleiru var hann ólíkindatól eins og lengi hefur við skáldin loðað. Enginn bókmenntalegur orðhengilsháttur fær breytt þeirri staðreynd að Þórbergur Þórðarson var einn frumlegasti ljóðasmiður sinnar samtíðar og meðal listfengustu skálda í lausu máli sem Ísland hefur alið.

Ég óska Austur-Skaftfellingum til hamingju með afmælisbarnið og Suðurveitungum sér í lagi. Sú byggð er rík sem fóstrað hefur sinn á hvorum sveitarenda þvílíka stólpa sem Þórberg Þórðarson á Hala og Jón Eiríksson frá Skálafelli.
Ég þakka þeim sem efndu til þessarar myndarlegu afmælishátíðar. Hún lýsir skilningi á að lifandi byggðarstefna fæðist heima og birtist meðal annars í að rækja minningu sinna bestu manna, svo fordæmi þeirra geymist eftirkomendum til eggjunar.
Sé Þórbergur sjálfur á sveimi hér vildi ég mega ávarpa hann með þeim orðum sem Jónas mælti fyrrum til herra Páls Gaimard: ,,Ísland skal lengi muna þig".

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ...
Gestir þennan mánuð: ...
Gestir á þessu ári: ...