Skip to main content

Sléttaleiti - nú í eyði - örnefni

Stefán Einarsson skrifar:

Heimildarmaður:  Steinþór Þórðarson

Á átjándu öld byggðist Sléttaleiti frá Steinum, sem þá fóru í eyði vegna ágangs Steinavatna(1). En nú er Sléttaleiti enn í eyði.
Sléttaleiti skilst mér rétt ei heiti;
betur færi, að Brattahlíð
bærinn nefndist sína tíð.


Ort í Suðursveit. Oddný á Gerði orti Formannavísur um Suðursveitunga, og líka var til bragur um bændur í sveitinni.
Vísa um Benedikt á Hala:
Hala byggir hann,
þótt ríði mikið blindfullur á Báleygs kvon.
Benedikt er Þorleifsson.

Steinn hafði hákallshjall á Ullarhrauni. Oddnýjarsynir ortu um hann, er hann saknaði hákalls úr hjallinum:
Steinn þegar að stígur á fætur,
stekkur hann on í hjallinn og grætur,
„Æ,mig vantar einn hnakkaliminn,
horfinn er sá upp í himininn.“

Skötubörð og háfa-ljón fjögur,
heyrast margar þjófanna sögur,
andskotinn mér á hlaupið gerði,
aldrei bættur skaðinn sá verði.

Vestast í landareigninni stendur bærinn með engin örnefni í túni. Vestan við bæ rétt við þjóðveginn er Stóristeinn(2).  Markaleiti(3) skiptist á milli Breiðabólsstaðar og Sléttaleitis. Norðan við baðstofu á Sléttaleiti er stór steinn ónefndur. Hefur baðstofan verið reist í skjóli hans til að verja hana steinkasti úr fjallinu. Brekkan er annars stráð björgum, en þau eru ekki nándar nærri eins þétt sett og á Steinum. Þess vegna hefur bærinn fengið nafnið í
samanburði við Steina. Ýmsir, sem á Sléttaleiti hafa verið, þykjast hafa heyrt einkennilegt dump í þessum steini, ekki ólíkt og að mör væri barinn með steinsleggju.
Austan við bæ á Sléttaleiti er Djúpagróf(4). Austan við hana hæð, sem heitir Hvarf(5), austan við Hvarfið Hellistorfa(6). Austan við Hellistorfu er Steinahæð (7). Þar er talið, að huldufólk sé. Því til sönnunar má geta, að vestast í þeirri hæð er lá(gu)r klettur alveg við götuna. Eitt sinn þegar Oddný á Gerði var þarna á ferð, sagðist hún hafa heyrt strokkhljóð í klettinum. Nú hafa vegagerðarmenn sprengt klettinn og ekki vitað, að komið hafi að sök.
Austan við Steinahæð stóð bærinn Steinar. Þar var mikið stórgrýti í brekku, og heitir einn steinn Jóhannesarbjarg(8). Undir einum steini þar ól kona barn, Sigurð Ingimundarson, bónda á Kvískerjum. Það var, þegar Steinabæ tók af.  Steinalækur(9) rann við eldhússveggí Steinum. Þar gekk silungur í lækinn.
Um byggðina í Steinum orti ábúandinn, sem fór þaðan, Ingimundur að nafni:

(Sálmalag.)
Enginn í Steinum aukir kofa
eða byggir upp heygarðinn,
því fjallið reiðist fyrir ofan
færandi niður stríðsherinn
eða Kaldaá(10)(Kaldakvísl)(11)umturnar
öllu því, sem að lagfært var.

Um þessa vísu, sagði Oddný á Gerði, að sagt hefði verið: „Það þótti óþarfi af honum Ingimundi að vera að yrkja þetta, hann væri bara að kalla meiri hefnd yfir sig með því.“
Framan við bæinn í Steinum var Steinabali(12). Norðaustur af balanum var Steinaaur(13). Austan við hann tóku við Eyjarnar(14) eða Steinaeyjar(15), land út við Lónið(16), affallann, sem áin hafði ekki grandað. Affalli er vaðall eða lón, sem myndast af fjöru og föstu landi annars vegar. Austast á Eyjum er Borgarland(17)(af fjárborg), þýfð mýri. Nyrzt í því landi er þurr bakki, sem heitir Borgarlandsbakki(18). Austan við Borgarlandið fellur Kaldakvísl, annað hvort öll eða hluti af henni. Hefur hún á seinni árum veitt þessu landi mikinn ágang. Austan við Köldukvísl eru Hólmarnir(19) eða Kúhólmar(20). Austastur þeirra er Markhólmi(21), sem skilur lönd Sléttaleitis og Kálfafells. Vestasti og efsti hólminn hét Margrétarhólmi(22), nú horfinn.
(Þá er maður kominn upp að Kálfafelli.) Norðan við Borgarlandsbakka eru Móarnir(23). Rétt utan við veginn vestan Köldukvíslar eru Syðri-Moldargrandar(24). Austan við gamla Steinabæinn er Hlíðin(25);austan við hana fram á Aurunum er drangur, nokkrar mannhæðir, sem heitir Prestsstóll(26)(ranglega Presthóll á kortum). Norðaustur af Prestsstól og í framhaldi af Hlíðinni er Mosaklettur (27). Þar á huldufólk heima(engin saga). Austan við Mosaklett er rétt, sem heitir Gleypa(28) vegna stærðar. Sagt er, að Þorvarður hinn ríki, sem bjó í Steinum, hafi átt hana fulla af fé, út á Götukletta(29) Yztukletta (29a) (leiðr1971 SÞ) Hefir það verið stór hópur. Fyrir ofan Gleypu gengur klettatangi heitir Klifatangi (34) (leiðr1971 SÞ) norður úr fjallinu og norðaustur í aurinn. Í þessum tanga eru mörg klif, hvert með sínu nafni. Efst þeirra í tanganum er Sauðaklif(30), þá Kúaklif(31), Tíkarklif(32) og neðst Kaplaklif(33). Austast á Klifatanga(34) er Skothússklettur(35), sem dregur nafn af skothúsi, er byggt var til að liggja fyrir tófu í. Varðan á Skothúskletti er miðmark á fjörumörkum Vindáss- og Sléttaleitisfjöru(36), beina línu af fjörunni séð, þegar hún berí þriðja foss í Rauðá(37) í Staðarfjalli(38) að neðan. Hálfan reka af Vindássfjöru(39) eiga Breiðabólstaðarbæir og Kálfafellsstaður hálfan. Vindásfjara er austur af Sléttaleitisfjöru (= Steinafjöru(40)). Á sandinum milli Klifatanga og Staðarfjalls eru Innri Móar (41). Þegar upp á Klifatanga kemur, tekur við Steinadalur(42).
(Frá Breiðabólsstað er farið inn í Steinadal, Staðarfjall, Hvannadal(43), inn með austan í Staðarfjalli inn í Vatnsdal(44). Farið er út á (Breiðamerkur(45))Sand(45a), út í Öræfi, út á Fjöru(46) fyrir framan lónið, út á sjó, út á Lón. Farið upp í kletta upp yfir (Steina(47) Sand(47a), Kálfafell, Kálfafellsstað eða -þorp, sem á við byggðina alla á þeim bæjum. Kálafell var algengur framburður í Suðursveit og ekki bundinn við Sigurð á K. Menn úr Miðþorpsbyggð(=Kálfafell með sínum hjá leigum) koma ofan yfir(Steina-)Sand og fara upp yfir Sand. Farið er austur að Borgarhöfn, austur að Smyrlabjörgum, en upp að Skálafelli, austasta bæ sveitarinnar, síðan austur á Mýrar-Höfn, síðan upp í Lón. (Upp á Papós) (Upp á Höfn). (leiðr 1971 SÞ)
Fremsti hluti Steinadals heita Klifin(48). Framarlega á Klifunum upp undir fjallsrótinni er Stórsteinabotn(49). Skammt neðar og litlu innar á dalnum er Stórhóll(50). Innan við hann er Fagurhóll(51). Innan við hann er Barnaskógur(52), skógarítak, sem Reynivellir áttu. Innan við hann er Barnaskógslækur(53). Innan við hann tekur við Fellsmýri(54), skógarítak, sem Fell átti (suður að Felli inn að Reynivöllum, frá Reynivöllum suður að Felli). Milli Barnaskógs og Fellsmýrar er Selmýrin(55);þar var haft í seli frá Steinum, og sjást greinileg merki þess enn í húsarústum. Innanvið Fellsmýri er Vindás(56). Á honum eiga skógarítök Kálfafellsstaður það langt norður, að sjór hyrfi, en Breiðabólsstaðabæir eftir það. Sagt er, að kirkja hafi verið á Vindási, enda er til Vindásfjara og þessi skógur. Eignir Vindásskirkju, sem annars er ókunn, virðast hafa lagzt til Breiðabólsstaðar og Kálfafellsstaðar. Sagnir eru um, að kirkja hafi verið á Breiðabólsstað.
Framan eða norðan í Vindás er grasi gróin rák, sem heitir Vindássból(57). Sagt er, að stúlka frá Steinum hafi komizt þar í kast við tvo hálsótta hrúta ókennda. Sagt er, að hún hafi verið lengi dags að reyna að koma hrútunum úr bólinu. En svo fóru leikar, að hún varð að gefast upp og hverfa frá þeim. Enginn kannaðist við þessa hrúta. Ótrú lá á því, að slegnir væri blettir á Steinadal. Þó freistaðist bóndi til þess, er þar bjó, að slá þar fáa bagga. Hann bjó á Sléttaleiti frá 1910-35. Um haustið lærbrotnaði folald, sem hann átti, og þótti það með eindæmum, og ungfé hrundi niður hjá honum úr bráðafári. Endaði með því, að báðir hrútar hans lágu dauðir hvor gegnt öðrum bundnir í hús á nýársdagsmorgun.
Innan við Vindás er klettur lágur, skógi vaxinn, einstakur, og heitir Uppsalaskógshnaus(58), enda skógarítak frá Uppsölum. Neðsta klettabelti fyrir ofan Uppsalaskógshnaus heitir Votabjarg(59), vott og svart af vatni. Innan við Uppsalaskógshnaus og Votabjarg heitir Kinnin(60). Neðst í Kinninni er hellir við aurinn, sem heitir Kinnarhellir(61). Ofan við Kinn og norður að Klukkugili(62) eru Kinnarhnausar(63). Um Kinnina rennur Kinnarlækur(64).
Ofan við Stórsteinabotn og inn eftir eru Kúahjallar(65). Ofan við Kúahjalla er Neðridalur(66), ofan við hann Efridalur(67). Ofan við hann er Fagridalur(68), smákvos. Inn af Neðradal efst eru Sauðatorfur(69). Innan við Efradal er gil, sem gengur nokkuð langt upp í fjallið og heita Gjágil(70). Innan við Fagradal eru Fagradalsrákar(71). Innan við Gjágil heitir Dalbotnafjall(72). Fremstiklettur þess og efsti heitir Efrikollur(73), næsti klettur neðan við Neðrikollur(74). Yfir af Dalbotnafjalli neðst eru tveir klettar með stuttu millibili, sem heita Efra-(75)og Neðra-Greni(76). Fyrir innan Kinnarhnausa er Fremra Meingil(77). Er það gil, sem gengur frá venjulegri fjárgötu úr Hvannadal ofan í Klukkugil. Þar skammt fyrir innan er Innra-Meingil(78). Milli Meingilja er Meingilsstafur(79), sem gengur ofan í Klukkugil. Innan við Meingil innra tekur við Brattabrekka(80), í daglegu tali kölluð Brekkan(81). Hún er slétt að ofan, gróin eða grýtt, en snarbrött á þá hlið, sem veit ofan í Hvannadal. Hæsti kletturinn upp á Brekkunni heitir Brekkuhnaus(82). Niður af honum ofan í Klukkugil við ána eru Steinkutorfur(83)(engin sögn). Þegar niður kemur Brekkuna, tekur Hvannadalur við. Þar fellur foss niður rétt innan við Brekkuna, sem heitir Hangandifoss(84). Framrennsli í Hangandafossi kemur úr Hangandifossbotni(85). Þetta er ein buna, sem fossar eins og hún hangi framan í berginu. Fremst í Hvannadal sunnan megin ár heita Höfðar(86). Innan við þá kemur Þverá(87), innan við hana Klifatorfur(88). Innan við þær er Klifá(89).
Er þá komið að klettum í Sléttaleitislandi. Vestasti Sléttaleitisklettur austan við Markagil eystra(90) heitir Stigasvelti(91). Þar voru tvær kindur í svelti fyrir svo sem þrjátíu árum, sem ekki heppnaðist að ná. Tóku menn þá það ráð að taka stiga með sér og reyna að komast upp til þeirra að neðan. Tókst það með því að reisa stigann klett af kletti, sem voru lágir, en þó ókleifir. Þannig komust menn að kindunum. Skriðan, sem gengur lengst upp í kletta austan við Markagil eystra heitir Langaskriða(92). Vestan við hana efst er Einhy(r)ndarsvelti(93). Vestan og neðan við Einhyrndarsvelti er einkennileg klettabrík, sem kölluð er Heilrifað og gat(94);þar er gat í klettinn og rifa. Ofan við það og í grennd eru Morsu(ka)mbar(95), (Morsa, ær). Uppi á brún uppi á upp af (leiðr 1971 SÞ) Lönguskriðu er breið grasigróin rák og löng, sem heita Kápustaðir(96)(Kápa, ær). Neðan og austan við þá eru Arnartindsbásar efri(97) og neðri(98). Yfir Efri-Arnartindsbásum gnæfir Efri-Arnartindur(99), en þeim neðri Neðri-Arnartindur(100). Austur af Arnartindi efra lengra austur í fjallsbrúninni er Borgusvelti(101), hét áður Þykkflekkssvelti(102). Vilborg hét vinnukona(Borga)í Suðursveit, er átti á þá, er þarna fór í svelti og dagaði uppi. Upp af Borgusvelti vestan til er Ísafoldarsvelti(103). Ærin hét Ísafold, sem í það fór fyrst. Úr Lönguskriðu efst liggur rák, sem má komast alla leið austur á Steinadal og heitir Göngurák(104) eða Efstivegur Göngurákar(105). Neðsti kletturinn beint upp af Sléttaleitisbænum heitir Göngurákarhjalli (106). Þar er mönnum fært upp, og er þá komið á Neðstaveg Göngurákar(107);nær sú rák austur í Djúpu-Grófargil(108). Með því að halda upp eftir því gili lítinn spöl er komið á Efstaveg Göngurákar. Milli Efsta og Neðsta vegs Göngurákar liggur enn rák, sem heitir Miðvegur Göngurákar(109) og liggur vestur eftir klettunum vestur undir Skriðu(110).  Hjallagil(111)heitir gilið í klettunum upp af Sléttaleitisbænum. Austan við það er Djúpugrófargil. Efsta rákin austan Djúpagrófargils heitir Rauðarák(112). Neðan við Efstaveg í Hjallagili vestan megin er Hjallasvelti(113), en í nöfinni milli Djúpugrófargils og Hjallagils neðan Miðvegs er Viðjungssvelti(114). Þegar bóndi úr Suðursveit gekk í sveltið ásamt fleirum að ná þaðan kind, sagði hann, að í því hefði verið einhvers konar viðjungur, og átti þar við smáskógarkjarr. Eftir það var sveltið kallað Viðjungssvelti, en hann Viðjungur. Bóndinn hét Sigurður og var frá Kálfafelli.
Í Djúpagrófargili miðja vega eru svelti, sem heita Augun(115). Áður er sagt, að Neðstivegur Göngurákar endi í Djúpugrófargili, en framhald hennar er þaðan að Bíldubásargili(116) og var kallaður Bíldubásarvegur(117). Austan við Bíldubásargil eru Bíldubásar, víðáttumikið og velgróið klettasvæði. Austan við Bíldubása er Dimmuskora(119). Fyrir ofan Efstaveg Göngurákar nokkuð austan við Djúpugrófargil upp undir Nöf(120) er svelti, sem heitir Hrútsskot(121)(sagnalaust). Þar dagar oft fé uppi, en nú fer fé þangað ekki, vegna þess að úr því hefur hrapað.
Neðan við Göngurák á þessum slóðum er Hrútasvelti(122). Neðan við Neðstaveg Göngurákar og austan við Djúpugrófargil eru Steinarákar(123) og niður í Skriðu og austur að Kleifatanga(124).  Nafir(125) er fjallseggin kölluð, sem gengur upp milli Steinadals og klettanna alla leið upp að Gerðistindi(126). Sagt er um þá menn, er smala Steinadal efra og fara upp úr Stórsteinabotni upp Kúahjalla upp í Efradal upp að Gerðistindi, að þeir fari upp Nafir.

Stafrófsskrá örnefna:

Arnartindsbásar efri 97
Arnartindsbásar neðri 98
Arnartindur, Efri- 99
Arnartindur, Neðri- 100
Augu 115  
Barnaskógslækur 53
Barnaskógur 52
Bíldubásar 118
Bíldubásargil 116
Bíldubásarvegur 117
Borgarland 17
Borgarlandsbakki 18
Borgusvelti 101, sbr. 102
Brattabrekka 80, sbr. 81
Breiðamerkursandur 45, sbr. 45a  
Brekka 81, sbr. 80
Brekkuhnaus 82
Dalbotnafjall 72
Dimmaskora 119
Djúpagróf 4
Djúpugrófargil 108
Efra-Greni 75
Efri-Arnartindsbásar 97
Efri-Arnartindur 99
Efridalur 67
Efrikollur 73
Efstivegur Göngurákar 105  
Einhy(r)ndarsvelti 93
Eyjar14, sbr. 15
Eystra-Markagil 90
Fagradalsrákar 71
Fagridalur 68
Fagurhóll 51
Fellsmýri 54
Fremra-Meingil 77
Gerðistindur 126
Gjágil 70
Gleypa 28
Greni, Efra- 75
Greni, Neðra- 76
Göngurák 104, sbr.105,107,109
Göngurákarhjalli 106
Götuklettar 29, sbr. 29a
Hangandifoss 84
Hangandifossbotn 85
Heilrifað og gat 94
Hellistorfa 6
Hjallagil 111
Hjallasvelti 113
Hlíð 25
Hólmar 19, sbr. 20
Hrútasvelti 122
Hrútsskot 121
Hvannadalur 43
Hvarf 5
Höfðar86
Innra-Meingil 78
Innri-Móar 41
Ísafoldarsvelti 103
Jóhannesarbjarg 8
Kaldaá10, sbr. 11
Kaldakvísl11, sbr. 10
Kaplaklif 33
Kápustaðir 96
Kinn 60
Kinnarhellir 61
Kinnarhnausar 63
Kinnarlækur 64
Kleifatangi 124
Klif 48
Klifatangi 34  
Klifatorfur 88  
Klifá 89  
Klukkugil 62  
Kúahjallar 65  
Kúaklif31  
Kúhólmar 20, sbr. 19  
Langaskriða 92  
Lón 16  
Margrétarhólmi 22  
Markagil eystra 90  
Markaleiti 3  
Markhólmi 21  
Meingil, Fremra- 77  
Meingil, Innra-78  
Meingilsstafur 79  
MiðvegurGöngurákar 109  
Moldargrandar, Syðri- 24  
Morsu(ka)mbar 95  
Mosaklettur 27  
Móar 23  
Móar, Innrí- 41  
Nafir 125  
Neðra-Greni 76  
Neðri-Arnartindsbásar 98  
Neðri-Arnartindur 100  
Neðridalur 66  
Neðrikollur 74  
NeðstivegurGöngurákar 107  
Nöf 120  
Prestsstóll 26  
Rauðarák 112
Rauðá 37
Sandur 45a, sbr. 45
Sandur 47a, sbr. 47
Sauðaklif 30
Sauðatorfur 69
Selmýri 55
Skothúsklettur 35
Skriða 110
Sléttaleitisfjara 36, sbr. 40
Staðarfjall 38
Steinaaur 13
Steinabali 12
Steinadalur 42
Steinaeyjar15, sbr. 14
Steinafjara40, sbr. 36
Steinahæð 7
Steinalækur 9
Steinarákar 123
Steinasandur 47, sbr. 47a
Steinavötn 1
Steinkutorfur 83
Stigasvelti 91
Stórhóll 50
Stóristeinn 2
Stórsteinabotn 49
Syðri-Moldargrandar 24
Tíkarklif 32
Uppsalaskógshnaus 58
Vatnsdalur 44
Viðjungssvelti 114
Vindás 56
Vindásból 57
Vindásfjara 39
Votabjarg 59
Yztuklettar 29a, sbr. 29
Þverá 87
Þykkflekkssvelti 102, sbr. 101

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 316
Gestir þennan mánuð: ... 8853
Gestir á þessu ári: ... 16893