Skip to main content

Staðarfjall - örnefni

Stefán Einarsson prófessor:

Staðarfjall tilheyrir Breiðabólstað og heitir því í rauninni Breiðabólstaðarfjall(1). Þórbergur álítur það vera Papýlisfjall(2), svo og E.Ó.S.
Í því og á Steinadal eru aðalskógarleifar í Suðursveit. Í þeims kógi við fjallsrætur halda Suðursveitungar samkomur. Norðvestur af Vatnsdal(3) eru tveir tindar á egginni vestan Brókarjökuls(4), sem heita Karl(5) og Kerling(6), sjást af Steinasandi(7).
Vatnsdalur er norðvestan af Staðarfjalli. Hann dregur nafn af því, að þegar skriðjöklar gengu lengst fram fyrir síðustu aldamót,gekk lág jökultunga fyrir op dalsins að sunnan, svo að ekki varð frárennsli úr honum.

Olli það því, að vatn safnaðist í dalinn. Þegar vatnsþunginn var orðinn mikill á jökulinn, lyfti það honum upp og hljóp undir. Þessi hlaup orsökuðu stórvatn um Steinasand og Kálfafellsstaðarengjar. Urðu af því mikil landspjöll. Þegar jöklar fóru að bráðna, hvarf þessi jökull, og hefur ekki komið hlaup úr honum síðan. Hlaupin voru kölluð Vatnsdalshlaup. Framan við Vatnsdal kemur Miðfell(8) inn með austan. Sunnan í Miðfelli er Rjúpnahryggur(9). Framan við Miðfell er Hólmkvarði(10) (afmyndaður hólmur?). Þetta er allstór slétta með nokkrum gróðri. Framan við Hólmkvarða Staðarfjallsmegin eru Brunaskriður(11). Fremstur er þar Bruni(12) – allt gróðurlaust. Framan við Brunaskriður eru Nautastígsstafir(13)(röðlar milli gilja). Framan við þá er Nautastígsgil (14), kallað Nautastígur(15). Gengur það neðan frá aur og upp undir egg. Þarna voru fyrr á öld naut rekin upp til sumarhaga í Hvannadal(16). Fyrir framan Nautastíg er Nesið(17), klettarani, sem gengur fram í aurinn. Framan við Nesið er gróin lægð, kölluð Neslág(18). Stutt fyrir framan Nesið er Steinbogagil innra(19), stutt framanvið það Steinbogagil fremra (20). Milli þeirra er Stafur(21). Nokkru fyrir framan Steinbogagil fremra, en bæði eru ófær mönnum, enda vafasamt um steinbogana sjálfa, er Gjágil(22). Gengur það frá aur upp í mitt fjall. Við op þess að ofan er Neðri-Gjábotn(24). Ofan við uppi í Egginni er Efri-Gjábotn(23). Framan við Gjágil og Gjábotna taka við Kelduklettar(25).
Innan við Gjágil norðan megin niður við aurinn er skógarkjarr og heitir Gjáskógur(26). Neðan við Keldukletta við rætur fjallsins er Fiskikelda(27), í daglegu tali kölluð Kelda(28). Fyrr á árum, þegar Steinavötn féllu hóflega mikið þarna að, var þar mikil silungsveiði. Tært bergvatn er í Keldunni, nema þegar hún gruggast af jökulvatni úr Steinavötnum. Framan við Keldukletta er Miðbotnsgil(29). Framan við það Miðbotn(30) hátt í fjalli. Framan við hann er ónefnd skora eða gil. Framan við þá skoru er Fremstibotn(31) ofarlega í fjalli og upp á fjallsbrún. Neðan við Fremstabotn er Hrútahjalli(32), en vestur úr Fremstabotni og vestur í Rauðá(a)rbotn(33) er Lambaskarð(34). Neðan við Hrútahjalla eru Hrútahjallarákar(35). Framan við Hrútahjalla og Fremstabotn er Staðarfjallsskora(36). Gengur hún frá Egg(37) niður fyrir kletta. Neðan við Hrútahjallarákar innst er Innri-Grenishvammur(38), en framan við hann Fremri-Grenishvammur(39).  Grenishvammshryggur(40) heitir hæðin milli Grenishvamms og Dýhvamms(41). Dýhvammur er framan við Grenishvammshrygg. Vestan við Dýhvamm byrja Staðarfjallsbrekkur(42). Austarlega í þeim neðarlega er Hvítiflötur(43), skóglaus torfa, sjaldan fagurgrænn. Litlu vestar er Borgarsteinn(44) á þeim brekkur byrja að rísa (?). Við þann stein var fjárborg.  Staðarfjallsbrekkur eru allar skógi vaxnar. Staðarfjallsmóar(45) eru fram af Staðarfjalli að austan, en Steinavötn(46) eru nú sem óðast að ganga á þá. Yfir  miðjum Staðarfjallsbrekkum gnæfir Staðarfjallstindur(47). Vestan við miðjar Staðarfjallsbrekkur gengur skriða lengst upp í fjallið, mjó, þegar dregur að sjálfu fjallinu, og heitir Merkiskora(48). Austan við þá skoru á Kálfafellsstaður skógarítak, sem nær að Grenishvömmum. Þar sem Staðarfjallsbrekkunum lýkur að vestan, ganga klettarnir lengra niður. Neðan við þann Klettatanga(49) er Djúpihvammur(50), en rákarnar ofan við hann heita Djúpahvammsrákar(51). Ofan við Djúpahvammsrákar, en neðan við Rauðarárbotn(svo, ekki Rauðár-)austan er klettsflös dálítið hallandi, meira að fjallinu, rákalaus, en nokkuð hrjúf, svo menn geta vel komizt hana upp, og heitir hún Þórólfshella(52)(engar sagnir). Áin heitir Rauðá(53), en botninn Rauðarárbotn. Vestan við Djúpahvammsrákar eru Sniðin (54). Austan við Rauðá á aurnum gengur skógargeiri frá fjallinu og heitir Svartatagl(55)(í því var líflítill skógur). Vestan við Svartatagl fellur Rauðá fram aurinn (víða eru rauðleitar bergtegundir kringum hana). Vestan við Rauðá koma Rauðarárfletir(56). Á þeim vestanverðum er nú girðing, þar sem nytjaskógi hefur verið plantað inn um birkið (barrtré). Vestast í þeirri girðingu er Gvöndarhóll(57) (óvíst af hverjum). Vestan við Gvöndarhól við neðsta klettabeltið á aurnum er fjárréttin í Staðarfjalli. Vestan við fjárréttina fellur Hellirsá(58). Vestan við hana gegnt réttinni er Rannveigarhellir (59) undir Helliskletti. Brött torfa gengur úr hellirnum niður að aurnum og heitir Hellisból(60). Meðan fráfærur voru á Breiðabólstaðarbæjum,voru fráfærulömb rekin í Staðarfjall og byrgð í Rannveigarhellir yfir nóttina, en beitt í grennd við hellirinn á daginn. Þarna voru þau setin í þrjá daga. Á fjórða degi voru þau rekin í Hvannadal. Oft var glatt hjá ungum og eldri í þessum hjásetum, og mætti af því segja ýmsar sögur. Tvennar sögur fara af því, af hverju Rannveigarhellir dragi nafn. Ein segir, að þar hafi búið tröllkona, sem Rannveig hafi heitið. Átti hún að hafa meitlað sérrúm í bergvegginn innst í hellinum. Þar er að vísu nú lítill stalli í bergveggnum,en sýnilega af náttúrunnar hendi. Önnur sagan er sú,að þar hafi kona hafzt við um tíma, sem gerði eitthvað fyrir sér og hét Rannveig. Að utan er Rannveigarhellir hér um bil manngengur, en snarlækkar og þrengist frá báðum hliðum, unz opið verður ekki meira en aðeins er fært manni að skríða á fjórum fótum. Þegar innar kemur, hækkar hellirinn aftur, svo að hægt er að ganga þar að hálfu leyti uppréttur. Innan við það, sem kletturinn gengur lengst niður, heitir Baðstofa(61). Hellirinn tók um 150 lömb. Þjóðsaga er um það,að jarðgöng hafi verið úr Rannveigarhellir í Brúsa á Felli, og til sannindamerkis um það átti köttur að hverfa inn í Brúsa, en koma út í Rannveigarhelli. En svo neðarlega átti hann að komast og næst því neðsta, að hann var sviðinn á rófunni.
Norðan við Rannveigarhellir er hellirsskúti, þar sem menn sváfu yfir nótt, sem sátu yfir lömbum, en svo höfðu þeir harða og illa drauma,að þeir hröktust þaðan og byggðu sér kofa á Rauðarárflötum. Síðar kom tjald, sem hjásetumenn sváfu í. Ofan við Rannveigarhellir er Hellirsklettur(62);gengur hann vestur í Höfðana(63). Á þann klett sást lengi letrað nafn Þórbergs Þórðarsonar. Hafði hann grafið það í klöpp á klettinum með vasahníf sínum í einni lambahjásetu. Neðan við Hellirsklettinn vestast eru Hellistorfur(64);þar er stórvaxnasti skógur í Staðarfjalli. Neðan við Hellistorfur fram við aurinn er Fremsthöfði(65);gengur hann vestur að Fellsmýri(66) vestur undir Köldukvísl(67). Kaldakvísl heitir áin, eftir að hún fellur fram úr gljúfrum Klukkugils(68), en áður Dalsá(69).
Undir Fremsthöfða vestast er Innri-Fellsmýri(70), skógarítak, sem Fell átti. Ofan við Fremsthöfða er Miðhöfði(71). Neðan við hann vestast í námunda við op Klukkugils eru Bröttutorfur(72);þar er allstórvaxinn skógur. Eitt sinn var Steinþór þar í fjársmölun með granna sínum, Hans Víum að nafni. Hrasar þá Steinþór og lendir með hnéð á hvassri steinnibbu. Af því orsakaðist stór djúpur skurður, sem blæddi mikið úr. Þarna var fátt til ráða. Hans Víum brúkaði í nefið og geymdi tóbak sitt í snoturri byttu. Tekur hann byttuna úr vasa sínum og dembir úr henni í sárið, batt svo vasaklút sínum, eitthvað tóbakugum, yfir. Steinþór hélt göngunni áfram, skurðurinn hélzt vel við og greri án harmkvæla.
Ofan við Miðhöfða er Fagraskógshnaus(73). Neðan við hann er Fagriskógur(74). Ofan við Fagraskógshnaus eru Járnhnausbotnar(75);ofan við þá rís allhár hnúkur, er Járnhnaus(76) heitir. Ef til vill eru steinar þar með járnlit. Neðan við Járnhnaus eruJárnhnausrákar(77) sunnan í hnausnum. Niður af Járnhnaus austast,en fremst í Klukkugili er svelti,sem Ribbusvelti(78) heitir (ærheiti?). Niður af Járnhnaus innst eru Kolatorfur(79). Þangað var farið og gert til kola, síðast á fyrstu búskaparárum Þórðar, föður Steinþórs. Eitt sinn voru þeir bræður, Þórarinn og Þórður Steinssynir, við kolagerð. Tekur Þórarinn þá þann óskaplega bakverk, að Þórður hugði honum ekki lífs. Gekk þetta nokkurn tíma.Þá kemur hraðboði til Þórarins og tilkynnir honum, að kona hans sé búin að taka léttasótt. Sprettur Þórarinn þá upp, virðist allsgóður og leggur hala á bak sér heim. Var talið, að hann hefði tekið þarna léttasóttina með konu sinni.
Víkur nú sögu til Rauðarárbotns. Norðan á Staðarfjallstindi byrjar Rauðarárbotn og nær vestur að Koltún(gn)atindi(80). Um hann vestar en miðja vega fellur Rauðá, sem á upptök sín upp við fjallsegg, en vex svo í lækjum, sem í hana renna niður á jafnsléttu. Neðan við Koltúnatind eru Koltún(gn)aflár(81), neðan Flárnar Koltungur(82), skógi vaxnar torfur. Neðst í Rauðarárbotni austan er alllangur klettur, sem heitir Svartiklettur (83). Milli Hellirskletts og Koltungna fellur Hellirsá. Vestan við Koltún(gn)atind kemur Sauðdalur(84). Eggin yfir þeim dal heitir Sauðdalsegg(85). Neðan við þá egg er hallalítil slétta, sem heitir Sauðdalspallar(86). Neðan við þá palla koma Sauðdalsstafir(87) og ganga niður í botn dalsins. Á skiptir dalnum í tvennt og heitir Sauðdalsá(88). Vestan við Sauðdal er (Sauðdals Leynidals)egg, vestan við hana Leynidalur (89). Vestan við hann er Leynidalsegg(90), sem liggur af Garðinum(91) og upp að Lambabotnum(92). Yfir Sauðdal að vestan er Sauðdalstindur(93). Gengur Leynidalur upp undir rætur hans og niður að Garðhvammi(94). Við op Sauðdals að framan er Súrmatarhnaus(95). Líkist hann mjög að lögun súrnarhnaus í tunnu, þegar hellt var úr hlaupskjólum í þær án þess að gefa súrninni tíma til að síga. Milli Súrmatarhnauss og Járnhnauss er djúp lægð, sem heitir Þröng(96). Við op hennar innst tekur við Garðhvammur. Fremst í þeim hvammi á sléttri torfu reisti Þórbergur Þórðarson lítinn trékross, þar sem grafið var á nafn hans og ártal, þegar krossinn var settur upp um aldamót. Nú hafa veður svipt krossinum  sundur, en brot hans eru geymd þar undir lítilli hellu, og á hverju hausti, þegar farið er í Hvannadal, er hellunni lyft upp og brotin færð upp úr jarðveginum. Af þessu hefur mátt sjá nokkuð af letrinu á krossinum. Þenna kross setti Þórbergur upp, þegar hann ... fráfærna lömb í Hvannadal. Garðhvammur nær að opi Hvannadals að sunnan. Fremst í þeim dal neðan við götu eru Garðtorfur fremri(97). Ofan við þær Garðtorfur á götunni sjálfri inn dalinn er Garðurinn. Mótar þar fyrir garðshleðslu úr grjóti, sem sagt er, að hlaðinn hafi verið til að verja nautum fram úr Hvannadal. Sjáanlegt er, að þessi frásögn er rétt. Því garður á þessum stað gat ekki gert annað gagn. Neðan við garðinn gín Klukkugil,svart og djúpt. Á það að bera nafn af skessu, sem Klukka hét og hafðist við í gilinu. Fleiri tröllkonur áttu að slást í för með Klukku, sem sennilega voru dætur hennar.
Eitt sinn var bóndinn á Kálfafelli í fjárleit í Staðarfjalli að haustlagi. Þegar hann fór austur úr Koltungum, varð honum litið framá Höfðána(98). Sá þá,hvar fimm skessur voru að dansa á Miðhöfða. Brátt urðu þær mannsins varar og tóku til fótanna, en hann tók árás undan þeim. Alltaf dró þó heldur saman, en ein af annarri skessunni fór að gefast upp. Sú fjórða gafst upp við Steinavötn. En sú fimmta og síðasta við túngarðinn á Kálfafelli. Skildi þar með þeim, að bóndi komst inn yfir garðinn, þegar hún kom að honum utan. Bóndi hélt hlaupunum áfram inn í baðstofu,og leið þar yfir hann. Allt fram á þennan tíma hefur ekki þótt allt hreint í Klukkugili, og uggur hefur verið í mörgum, þegar þeir fóru um garðinn. Eitt sinn um aldamótin, fóru tveir menn af Sunnansandabæjum í göngu í Hvannadal. Annar þeirra hét Stefán Benediktsson, bóndi á Sléttaleiti, síðar bóndi á Skaftafelli í Öræfum, en hinn hét Björn Steinsson, bóndi á Breiðabólstað. Þegar þeir komu á garðinn, ljómaði dagur. Tylltu þeir sér þar niður og ætluðu að bíða eftir betri birtu, áður þeir héldi inn dalinn. Þegar þeir höfðu setið litla stund, heyra þeir sagt dimmri röddu niðri í Klukkugili:„Stebbi, Bjössi“. Þeim leizt ekki á blikuna og héldu ferð sinni áfram. Þessa sögu sagði Stefán Steinþóri. Eitt sinn um vortíma fór Oddný á Gerði ásamt fleirum til grasatekju í Hvannadal. Að venju settist fólkið á garðinn að hvíla sig. Oddný sagðist hafa hallað sér upp að klettinum, þar sem hún sat, og á sig hefði runnið blundur. Sagði hún þá,að sig hefði dreymt, að torfan, sem hún sat á, færi á stað með sig með ógnarhraða og niður í Klukkugil. Við þetta sagðist Oddný hafa hrokkið upp og beðið fólkið um að halda áfram. En ekki taldi Oddný einleikið með þennan draum. Niðri á Garðinum í Klukkugili er gilið þröngt; heitir þar Innra-Myrkur(99). Nokkru framar í gilinu er Fremra-Myrkur(100). Eitt sinn ætlaði Steingrímur eldri á Gerði að komast inn Klukkugil á ís. Þegar hann er kominn inn undir Fremra-Myrkur, verður á vegi hans klettur, þar sem vatn hafði fossað fram af og myndað mikla íshellu. Sjálfur sagðist hann hafa treyst sér upp fossinn, en ekki tíkinni,sem með honum var. Sneri hann því þar aftur. Ekki er vitað, að nokkur hafi, fyrr eða síðar, reynt að komast inn Klukkugil nema Steingrímur.
Innan við Garðinn eru Innri-Garðtorfur(101), en framan við Garðinn FremriGarðskriður(102). Innan og ofan við Innri-Garðtorfur eru Innri-Garðskriður(103). Innan við Garðskriður innri er Grágæsaháls(104). Nær hann inn að svokölluðum Breiðastaf(105), sem gengur frá Dalsá upp að Lambabotnum uppi í egginni. Fyrir framan Breiðastaf og ofan Garðskriður að Sauðdalstindi eru Fremri-Lambabotnar (106), en Innri-Lambabotnar(107) frá Breiðastaf að innan inn undir Nautastíg. Milli Grágæsarháls og Miðfells rennur Dalsá, sem myndast strax við botn dalsins. Sunnan (vestan) megin Dalsár er Miðfell. Öðru megin þess rennur Dalsá, svo sem fyrr segir, en hinu megin Klifá(108). Gengur því Miðfellið í odd fram, þar sem árnar mætast. Við það að falla í Dalsá missir Klifá sitt nafn. Suðvestur af Miðfellinu rennur Klifá í djúpu gili, sem Klifagil(109) nefnist. Klifá er mjög niðurskorin milli Miðfells og Klifatorfa(110) og þaðan inn úr. Meginið af vatni sínu fær hún úr skriðjökulstungu, sem gengur fram vestan við Arahnútu(111)(ókunnugt nafn). Vestan við Miðfellið syðst er Arahnúta. Milli hennar og Miðfells er djúpt gil, en klettalítið. Dálítið skógarkjarr er í Miðfelli, og var farið þangað til kolagerðar af Breiðabólstaðarbæjum. Voru kolin þá borin í pokum á bakinu fram Hvannadal og fram í Staðarfjall, þar sem þau voru tekin á hesta. Enn þá sjást fjalhöggin í Miðfelli þar undir steini, sem viðurinn var kurlaður á. Uppi á Miðfelli er Miðfellsheiði(112). Þangað slæðast kindur á sumrin, en annars mun vera þar lítið um fénað. Innan við Miðfellið er Kálfaflatargil(113), innan við það Kálfafletir(114), sem ná að Stórhól(115).  Stafir(116) heitir sá hluti Hvannadals að norðan, sem er gegnt Kálfaflötum, og ganga þeir upp að Lambabotnum og niður að á. Lengra upp í fjallinu, ofan við Kálfafleti, er Kálfaflatarheiði(117). Stutt innan við Stórhól norðan megin er Nautastígur sunnan frá. Innsti hluti Hvannadals heita Kvosir(118);eru þær í stafni hans. Fremsti hluti þeirra heita Þverstafir(119); yfir þeim gnæfir Svartitindur(120).

Stafrófsskrá örnefna
Arahnúta 111
Baðstofa 61
Borgarsteinn 44
Breiðabólstaðarfjall l, sbr. 2
Breiðistafur 105
Brókarjökull 4
Brunaskriður 11
Bruni 12
Bröttutorfur 72
Dalsá 69
Djúpahvammsrákar 51
Djúpihvammur 50
Dýhvammur 41
Efri-Gjábotn 23
Egg 37
Fagraskógshnaus 73
Fagriskógur 74
Fellsmýri 66
Fellsmýri,Innri- 70
Fiskikelda 27, sbr. 28
Fremra-Myrkur 100
Fremra-Steinbogagi l20
Fremri-Garðskriður 102
Fremri-Garðtorfur 97
Fremri-Grenishvammur 39
Staðarfjall 8
Fremri-Lambabotnar 106
Fremsthöfði 65
Fremstibotn 31
Garðhvammur 94
Garðskriður, Fremri- 102
Garðskriður, Innri- 103
Garðtorfur, Fremri- 97
Garðtorfur, Innri- 101
Garður 91
Gjábotn, Efri- 23
Gjábotn, Neðri- 24
Gjágil 22
Gjáskógur 26
Grágæsaháls 104
Grenishvammshryggur 40
Grenishvammur,Fremri- 39
Grenishvammur,Innri- 38
Gvöndarhóll 57
Hellirsá 58
Hellirsklettur 62
Hellisból 60
Hellisstafur 96a
Hellistorfur 64
Hólmkvarði 10
Hrútahjallarákar 35
Hrútahjalli 32
Hvannadalur 16
Hvítiflötur 43
Höfðar 63
Höfðá 98
Innra-Myrkur 99
Innra-Steinbogagil 19
Innri-Fellsmýri 70
Innri-Garðskriður 103
Innri-Garðtorfur 101
Innri-Grenishvammur 38
Innri-Lambabotnar 107
Járnhnaus 76
Járnhnausbotnar 75
Járnhnausrákar 77
Kaldakvísl 67
Karl 5
Kálfaflatargil 113
Staðarfjall 9
Kálfaflatarheiði 117
Kálfafletir 114
Kelda28, sbr. 27
Kelduklettar25
Kerling6
Klettatangi 49
Klifagil 109
Klifatorfa. 110
Klifá 108
Klukkugil 68
Klukkugilstorfur 72a, sbr.72
Kolatorfur 79
Koltungur 82
Koltún(gn)aflár 81
Koltún(gn)atindur 80
Kvosir 118
Lambabotnar 92
Lambabotnar, Fremri- 106
Lambabotnar, Innri- 107
Lambaskarð 34
Langiklettur 67a
Leynidalsegg 90
Leynidalur 89
Merkiskora 48
Miðbotn 30
Miðbotnsgi l29
Miðfell 8
Miðfellsheiði 112
Miðhöfði 71
Myrkur,Fremra- 100
Myrkur,Innra- 99
Nautastígsgil 14
Nautastígsstafir 13
Nautastígur 15
Neðri-Gjábotn 24
Nes 17
Neslág 18
Papýlisfjall 2, sbr. 1
Rannveigarhellir 59
Rauðarárfletir 56
Rauðá 53
Rauðá(a)rbotn 33
Ribbusvelti 78
Rjúpnahryggur 9
Sauðdalsá 88
Sauðdalsegg 85
Sauðdalspallar 86
Sauðdalsstafir 87
Sauðdalstangi 96b
Sauðdalstindur 93
Sauðdalur 84
Snið 54
Staðarfjallsbrekkur 42
Staðarfjallsmóar 45
Staðarfjallsskora 36
Staðarfjallstindur 47
Stafir 116
Stafur 21
Steinasandur 7
Steinavötn 46
Steinbogagilfremra 2
Steinbogagilinnra l9
Stórhóll 115
Súrmatarhnaus 95
Svartatag l55
Svartiklettur 83
Svartitindur 120
Vatnsdalur 3
Þórólfshella 52
Þröng 96
Þverstafir 119

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ...
Gestir þennan mánuð: ...
Gestir á þessu ári: ...