Skip to main content

Greinagerð yfir starfsemi Þórbergsseturs árið 2020

Árið 2020 hefur verið sérstakt hvað varðar starfsemi Þórbergsseturs ef borið er saman við fyrri ár. Þar ræður mestu um heimsfaraldurinn covid 19 og ýmsar breytingar á starfseminni vegna sóttvarnareglna og lokunar tímabundið. Fækkun erlendra ferðamanna hefur sett svipsinn á árið og hádegishópar eða heimsóknir erlendra ferðahópa stöðvuðust alfarið eftir 20. mars. Margir fastir menningarviðburðir hafa fallið niður, en þess í stað verið unnið að
ýmsum rannsóknar- og fræðaverkefnum.

Forstöðumaður fór í 5 daga námsferð til York á Englandi í lok febrúar með Samtökum um sögutengda ferðaþjónustu og skoðaði söfn og sýningar og fræddist um menningarstarf og ferðaþjónustu á því svæði.

Þórbergssetur var lokað frá og með 20. mars til 1. júní fyrir móttöku gesta og síðan aftur frá 1. nóvember um óákveðinn tíma.

Byrjun ársins var hefðbundin, heldur færri erlendir ferðamenn á róli en töluvert mikið að gera flesta daga. Farið var í endurbætur á húsnæði í janúar, en þörf á viðhaldi á húsnæði og innréttingum var aðkallandi eftir annir undanfarinna ára. Einnig var unnið við uppfærslu á vef Þórbergsseturs og skráningu. Að störfum var fræðimaður, Gísli Sverrir Árnason við söfnun heimilda og bókarskrif m.a. um mannlíf í Austur Skaftafellssýslu á seinni hluta 19. aldar tengt sögu Eymundar Jónssonar og Halldóru Stefánsdóttur í Dilksnesi Þórbergssetur styrkti myndarlega útgáfu á verki Kristjáns Eiríkssonar ,,Lifandi mál, lifandi manna,” þýðingar á skrifum Þórbergs á esperantó og umfjöllun um tungumálið esperantó.  Bókin kom út 12. mars, rétt þegar takmarkanir á covid voru að byrja og því varð að aflýsa öllu samkomuhaldi vegna útgáfunnar.

Bókmenntahátíð og hrossakjötsveisla/ bridgehátíð féllu niður í mars og apríl vegan covid og var frestað til hausts.

Nóg var að gera í apríl og maí við ýmsar endurbætur, skráningu og tiltekt. Ráðist var í að mála og skipta um gólfefni, en húsnæðið var farið að láta veruleg á sjá eftir mikið álag undanfarinna ára.

Í mai hófst vinna við skráningu fornbýla og rústa, samstarfverkefni Þórbergsseturs og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar um skráningar og uppmælingu á búsetuminjum í landslagi og var það viðamikið verkefni sem unnið var markvisst að í tvo mánuði í sumar. Lagði Þórbergssetur tvo starfsmenn (forstöðumann og maka) til að vinna að verkefninu í 2–3 mánuði og einn fornleifafræðinema í einn mánuð. Mjög mikilvægt er að heimamenn sem gerst þekkja landið og sögu þess komi að svona verkefni og fundust töluvert mikið af minjum sem ekki var vitað um áður. Menningarmiðstöðin og Þórbergssetur gerðu með sér
samstarfsamningur til framtíðar um áframhaldandi vinnu á næstu árum þannig að markvisst verði skráð og safnað gögnum um alla gömlu hreppa sýslunnar.

Þórbergssetur stóð fyrir íslenskukennslu fyrir erlenda starfsmenn í 2 ½ mánuð frá miðjum mars til 1. júní. Forstöðumaður sá um kennsluna. Voru það 8 nemendur sem tóku á þessum tíma tvö skipulögð námskeið.

Hlynur Axelsson landslagsarkitekt dvaldi í fræðaíbúð á Sléttaleiti á vordögum. Hann hefur verið að vinna að hugmyndum um gerð mannvirka við jökla, göngustíga og sérstakra mannvirkja er henta jöklalandslagi. Hann hefur boðist til að koma og halda erindi um verkefni sitt í Þórbergssetri þegar covid tímabilinu lýkur.

Þann 1. júní opnaði Þórbergssetur formlega að nýju og nú kom sér vel að starfsmenn höfðu náð grunnfærni í því að taka á móti Íslendingum, því allir gestir í júní og fram undir 15. júlí voru Íslendingar. Það má því segja að það var allt annar bragur á starfsemi Þórbergsseturs þetta sumar. Í júlí og ágúst komu um 19.000 gestir í hús og nú fóru erlendir ferðamenn að birtast líka. Glatt var á hjalla og mikið spjallað og rætt, margir voru að koma í Þórbergssetur í fyrsta sinn og lýstu yfir ánægju sinni með sýninguna og alla aðstöðu og móttöku. Forstöðumaður var eini starfsmaðurinn í sumar, fræðimaður gerði hlé á störfum sínum þar sem mikil óvissa var um rekstrarforsendur setursins, en hóf aftur störf 1. september. Þann 7. júlí voru Flamenco tónleikar í Þórbergssetri. Reynir del Norte flamingo gítarleikari kom við eina kvöldstund á hringferð sinni um landið. Tónleikana sóttu um 30 manns og var það skemmtileg kvöldstund með þessum mikla listamanni.

Það tókst að halda sumartónleika Þórbergsseturs í Kálfafellsstaðarkirkju þann 29. júlí á Ólafsmessu og voru þeir vel sóttir. Það voru mæðgurnar Þórdís Sævarsdóttir og Tara Mobee sem heilluðu kirkjugesti og farið var í skemmtilega heimsókn að völvuleiðinu undir Hellaklettum eftir tónleikana.

Um miðjan ágúst fór að hægja verulega á umferð enda enn á ný komnar takmarkanir vegna Covid 19. Hætta varð við þá menningarviðburði sem frestað var frá vorinu og hætt var við að halda málþing að hausti. Í september komu nokkrir hópar Íslendinga um helgar, en síðan fjaraði út og gestakomur hættu nánast alfarið í lok september.

Fjölnir Torfason fór í dagsferð með Skúla Gunnarssyni frá Skriðuklaustri að leita að fornum götum við Hálsatind í Borgarhöfn, þar sem vermenn úr Fljótsdal fóru yfir jökul til sjóróðra í Suðursveit. Um er að ræða samstarfsverkefni Þórbergsseturs og Skriðuklausturs sem staðið hefur í um það bil tvö ár. Ferðin tókst vel og töldu þeir sig hafa fundið líklega leið og götur á einum stað upp við Hálsatind.

Nokkrir skólahópar komu í heimsókn í Þórbergssetur bæði á vordögum og með haustinu. Forstöðumaður leggur sig fram við að veita þeim fræðslu um Þórberg Þórðarson sem rithöfund, en einnig um umhverfi og staðhætti, hvetja til varðveislu íslenskrar tungu og kynna bókmenntir sem okkar merkasta menningararf. Má þar nefna Víkurskóla sem kom á vordögum og voru nemendur einkar áhugasamir og skemmtilegt að taka á móti þeim. Síðan komu 4. bekkingar í Grunnskóla Hornafjarðar í sína árlegu haustheimsókn. Einnig komu kennarar og starfsmenn Grunnskóla Hornafjarðar í heimsókn á Hala og í Þórbergssetur á haustdögum.

Nokkrir litlir hópar Íslendinga komu um helgar í september í Þórbergssetur, og enn sem fyrr var gaman -að fá landann í heimsókn og ræða um Þórberg og sveitina hans, Suðursveit. Á haustdögum kom út vefútgáfa af Ritinu sem að er tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þar eru þrjár merkar ritgerðir um verk Þórbergs Þórðarsonar og áhrif austurlenskra fræða á skrif hans. Erindin voru flutt á málþingi í Þórbergssetri í október 2018 og eru hluti af rannsóknarverkefni sem Bergljót Soffía Kristjánsdóttir hefur staðið fyrir innan Háskóla Íslands. Eftirtektarvert er að höfundur eins og Þórbergur Þórðarson, sem kvaddi sér hljóðs á öðrum tug tuttugustu aldarinnar skuli enn vera að birtast okkur með svo nútímalegri nálgun, og geti auðveldlega talað til okkar yfir íí tæknivædda veröld nútímans, m.a. um hugrækt og ,,lífslindirnar innra með okkur". Bergljót Soffía Kristjánsdóttir á þakkir skilið fyrir að skyggnast
um í hugarheimi Þórbergs og kalla fram nýja og forvitnilega rannsóknarvídd á verk hans. Allt í einu sjáum við,,,ljósið í austri" skína í gegn og samsömun finnst með steinunum í Suðursveit og lifandi náttúrutrú austrænna fræða.

Samstarf við Heimspekideild Háskóla Íslands, Rithöfundasambandið og fleiri stofnanir í gegnum árin er ómetanlegur bakhjarl fyrir starfsemi Þórbergssetur og sameinar á einstakan hátt starf fræðastofnana og heimamanna til að viðhalda þekkingu og tengingu inn í gjörbreytt samfélag nútímans. Á sama tíma byggir það upp ákveðinn þekkingargrunn fyrir móttöku ferðamanna, - sem byggir á okkar menningararfleifð og ætti að tryggja betri upplýsingagjöf og meiri fagmennsku við að taka á móti ferðamönnum á næstu árum. Alltaf eru að berast gjafir til Þórbergsseturs sem tengjast Þórbergi eða eru úr búi þeirra hjóna. Nú á haustdögum gáfu Jón Hjartarson og Ragnheiður Tryggvadóttir borðstofuborð og stóla úr búi þeirra, Herdís Pálsdóttir frænka Margrétar konu Þórbergs gaf loðkragann hennar Margrétar og fallegar myndir með. Einnig gaf hún ljósakrónuna úr stofu þeirra hjóna, mikið gersemi. Veggteppi saumað af Margréti, mikið listaverk bíður innrammað í Reykjavík eftir að komast upp á vegg á Hringbrautinni, gefið af Petrínu Ásgeirsdóttur frænku Margrétar. Einnig hafa borist bókagjafir frá nokkrum aðilum, fallega innbundnar bækur Þórbergs, og tökum við alltaf við slíku og þökkum þann góða hug er að baki býr. Ljóst er að allir þessir munir hefðu glatast með tímanum og misst tengingar við uppruna sinn. Hér fá þeir sannarlega merkingu til framtíðar og fylla upp í minningar er tengjast þeim hjónum á fjölbreyttan hátt.

Mikið af nýju efni hefur komið inn á Þórbergsvefinn á þessu ári og markvisst er verið að safna þar inn þekkingu er tengist Suðursveit og Austur Skaftafellssýslu. Þar og á Feisbókarsíðu Þórbergssetur má sjá mikið af myndum og fréttum af starfsemi ársins 2020. Í október vann forstöðumaður við skráningar og úrvinnslu eyðibýlaverkefnis. Í nóvember tók forstöðumaður sér,, sumarfrí innanhús” en sinnti jafnframt tilfallandi verkefnum.
Gestakomur í Þórbergssetur á árinu voru 46.520 á móti 134.131 manns á síðasta ári og samdráttur sértekna í svipuðu hlutfalli eða um 65%. Framlag mennta- og
menningarráðuneytis hefur fyrst og fremst farið í laun forstöðumanns og fornleifafræðinema, menningarviðburð og fræðistörf, en sértekjur verið nýttar í almennan rekstrarkostnað og viðhald húsa.

Vonandi rætist fljótlega á næsta ári úr þeim aðstæðum sem heimsfaraldur hefur fært okkur. Þá verður haldið áfram þar sem frá var horfið og menningarstarf og móttaka gesta fer vonandi aftur af stað í sumar. Þangað til hyggjumst við þreyja þorrann og góuna í orðsins fyllstu merkingu og beina sjónum okkar að innra starfi og skráningarverkefnum þeim sem þegar eru komin vel af stað.

Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður Þórbergsseturs

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 129
Gestir þennan mánuð: ... 4648
Gestir á þessu ári: ... 22672