Skip to main content

Í minningu Önnu Þóru Steinþórsdóttur frá Hala

1Anna Þóra Steinþórsdóttir frá Hala í Suðursveit lést 12. mars síðastliðinn á 104, aldursári. Foreldrar hennar voru Steinþór Þórðarson ( 1892 - 1981) bóndi og Steinunn Guðmundsdóttir( 1888 - 1981) húsfreyja á Hala í Suðursveit. Þóra var jarðsungin frá Laugarneskirkju 22. mars. Útförinni var streymt og komu nokkrir ættingjar Þóru saman í Þórbergssetri til að vera viðstaddir útförin. Meðal gesta var Ingibjörg Zophoníasardóttir mágkona hennar á 98. aldursári, gift Torfa Steinþórssyni bróður Þóru, en hann lést árið 2001 þá 86 ára að aldri. Það var hátíðleg stund í Þórbergssetri þennan jarðarfarardag, mynd var varpað á stórt tjald í sýningarsal setursins og hljóðgæði í útsendingu voru góð. Steinþór faðir Þóru og Torfa var bróðir Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar og bjó alla tíð á Hala. Þóra ólst upp á Hala til fullorðinsára, en bjó síðan alla ævi í Reykjavík. Hér er birt minningargrein sem Steinunn Torfadóttir bróðurdóttir Þóru skrifaði um föðursystur sína og lýsir vel sterkum ættartengslum og tengingum Þóru ,,frænku" við ættingjana heima í Suðursveit.. Blessuð sé minning Önnu Þóru Steinþórsdóttur .

Nú er kær föðursystir mín, Anna Þóra Steinþórsdóttir fallin frá eftir rúmlega aldarlangt lífshlaup, en hún hefði orðið 104 ára í lok næsta mánaðar. Þóra frænka, eins og við í fjölskyldunni kölluðum hana ævinlega var fædd á öðrum tug síðustu aldar þegar nútíma þægindi voru óþekkt og véla- og tæknivæðing okkar tíma var langt handan við hornið. Hún var af þeirri kynslóð sem lifði þær stórbrotnustu tækniframfarir og breytingar á lífsstíl og lifnaðarháttum sem átt hafa sér stað meðal flestra jarðarbúa á einni mannsævi.

Þóra ólst upp í hefðbundnu bændasamfélagi þess tíma, hjá ástríkum foreldrum og bróður einum systkina. Það var sérkennilegt að hlusta á þau systkinin, föður minn og hana lýsa lífinu í sveitinni, þar sem ekkert virtist í raun skorta og börnin voru þá sem nú söm við sig. Þar sem kirkjuferðir, sem auðvitað voru farnar á hestum,  gátu orðið viðburðarrík mannamót og kærkominn samfundur fólksins í Suðursveit, vettvangur samskipta þar sem fólk skiptist á fréttum af sér og sínum og fylgdist með ungviðinu vaxa úr grasi, að ekki sé talað um tækifæri unga fólksins til að kynnast og gefa hvert öðru auga. Stundum upphófust jafnvel hnippingar eða slagsmál á milli krakkanna á kirkjulóðinni. Skautaferðir á Lóninu voru hinar dásamlegustu vetraríþróttir barna og unglinga og rómantíkin lá í loftinu á björtum tunglskinskvöldum.

2Þóra hleypti heimdraganum 19 ára gömul, fyrst til náms að Héraðsskólanum á Laugarvatni, en réði sig síðan í vist til Reykjavíkur eins og þá tíðkaðist meðal ungra stúlkna. Síðar lærði hún kjólasaum og varð afar flink við þá iðju, var bæði vandvirk og smekkleg ekki síður en móðir hennar, Steinunn á Hala. Þóra saumaði meðal annars mjög snið- og efnisfallegan fermingarkjól á mig og annan til, sem enn eru varðveittir. Síðari hluta ævinnar vann hún við skrifstofustörf hjá Olíuverslun Íslands. Þóra og eiginmaður hennar Ólafur Guðjónsson, húsgagnasmiður, bjuggu sér smekklegt og hlýlegt heimili í Reykjavík þar sem þau bjuggu alla tíð. Þar átti fólkið frá Hala kærkominn gististað með tilheyrandi dekri.

Við Þóra áttum saman margar ánægjulegar samverustundir eftir að ég flutti til Reykjavíkur. Hún var skemmtileg og gestrisin heim að sækja. Heimilið var ákaflega smekklegt og hlýlegt, án íburðar og glamúrs enda hugnuðust henni hvorki postulínshundar né glerkýr. Þau hjónin voru bókhneigð og kunnu að meta heilbrigðan lífsstíl. Þóra var félagslynd og alla jafna orðheppin og hafði unun af að spjalla. Hún naut þess að skreppa í bíltúra og á kaffihús, hringdi gjarnan í mig og spurði hvort mig langaði ekki að koma og slúðra svolítið. Þetta sagði hún í hálfkæringi og með nokkurs konar vandlætingu, því slúður var ekki hennar stíll.

Þóra hafði unun af því að ferðast og þau Ólafur ferðuðust meðal annars ásamt foreldrum mínum, Torfa og Ingibjörgu og fleira vinafólki til Finnlands, Sovétríkjanna og síðar einnig til Spánar. Mágkonunum var sérstaklega minnisstæður broslegur atburður sem átti sér stað einn heitan og bjartan sólardag þar syðra. Þær nutu sólarinnar á ströndinni, en þegar heim á hótelið kom síðar um daginn sátu herramennirnir þeirra þar úti fyrir með derhúfur á höfði, kappklæddir með rennt upp í háls og þóttust vera að klæða af sér hitann. Þetta var auðvitað fest á filmu hið snarasta, því báðar tóku þær mikið af myndum og settu í albúm. Það var sérlega gaman að fletta myndaalbúmum Þóru því hún skrifaði gjarnan stuttar, hnyttnar setningar við hverja mynd, sem vísuðu til myndefnisins.

3Á efri árum eftir að Ólafur féll frá kom Þóra frænka gjarnan til sumardvalar að Hala á hverju sumri. Þar var oft glatt á hjalla og mikið hlegið. Þóra kunni þá list að láta fleyg orð falla. Hún var skemmtileg en gat verið berorð án þess þó að troða öðrum um tær vísvitandi, og engin oflátungur var hún og lítið fyrir að hreykja sér.  Systkinin voru ekki alltaf sammála. Bæði voru þau minnug og höfðu gaman af að rifja upp viðburði fyrri ára, um fólk og fyrirbæri. Faðir minn var stríðinn og átti það til að espa systur sína upp en allt var það þó í miklu glensi og gamni og aldrei minnist ég þess að upp úr hafi soðið. Á móti var hún lagin við að veiða upp úr honum hin ýmsu leyndarmál sem við systkinin skemmtum okkur yfir.

Þóra var stundum samferða okkur hjónum í sveitina og voru það jafnan hinar skemmtilegustu og fróðlegustu ferðir, því hún var afar minnug á örnefni og bæjarheiti. Mér er þó sérstaklega minnisstæð ferð sem við fórum eitt sinn vestur um land og norður til Akureyrar þar sem Þóra frænka var með í för. Norðurland hafði hún ekki sótt heim í sama mæli og Suður- og Vesturland, en þarna kom glöggt í ljós þekking hennar á landi og þjóð og hversu stálminnug hún var, þó lítið vildi hún gera úr því.  Hún þekkti nöfn nánast allra sveitabæja handan Holtavörðuheiðar og norður úr og sagði gjarnan til um hvaða bær kæmi næstur og hvaða þekktir einstaklingar hefðu fæðst þar eða búið. Hún hafði hvert örnefnið af öðru á takteininum og kunni frásagnir tengdar sögu lands og þjóðar. Það var ekki laust við að maður skammaðist sín fyrir fávísina, þótt langskólagengin eigi að heita.

Einu sinni sem oftar kom Þóra frænka í sveitina með Óskari syni sínum og var hún óvenju lerkuð eftir ferðalagið. Hún kenndi því um að sonur hennar hefði ekið svo hratt að sálin hefði ekki náð að fylgja líkamanum eftir og að trúlega þyrfti hún nokkra daga til að jafna sig. Á Hala var jafnan margt um manninn yfir sumartímann og það tók frænku stundum nokkra daga, einkum hin síðari ár, að ná jarðtengingu eins og hún komst að orði, en það liðu ekki margir dagar þar til hún náði sér á strik og varð virkur þátttakandi í umræðum um menn og málefni og alveg eins og hún átti að sér að vera.

Á Hala var gjarnan skrafað um framhaldslífið og þá dulúð sem fylgir umskiptunum yfir í aðra veröld. Skiptar voru skoðanir og faðir minn átti það til að gera góðlátlegt grín að okkur sem þóttumst vita eitt og annað. Svo var það stuttu eftir að faðir minn féll frá að mig dreymdi sérkennilegan draum. Ég er stödd á stað sem minnir á lítið og að hluta til opið sjúkraskýli, með bedda, borði og eldunaraðstöðu. Faðir minn stendur við beddann og hann er ekki lengur veikburða heldur virðist fullfrískur og hress í bragði og mun yngri en þegar hann fór. Amma mín, móðir hans stendur við eldavélina og mér finnst eins og hún sé þarna til að hjúkra honum. Þetta umhverfi virkaði svolítið framandi, en það sem vakti þó mesta undrun var hversu ung og hraustleg þau sýndust. Faðir minn horfir í augu mín með mjög  sérkennilegu augnaráði sem endurspeglaði bæði undrun og spurn og segir: „Ég vissi ekki að þetta væri svona.“ Ég svaraði engu og lengri varð draumurinn ekki. Þessi draumur var í mínum huga eins konar viðurkenning á því að hann hefði ekki haft á réttu að standa þegar við körpuðum um framhaldslífið. Þegar ég sagði systur hans þennan draum svaraði hún að bragði. „Já, þetta er alveg eins og það sem  guðspekingar halda fram, að fólk og þá einkum mikið veikt fólk fari fyrst í eins konar endurhæfingu þegar það kemur yfir.“  Þetta vissi ég ekki og fyrir mér varð draumurinn eiginlega ennþá táknrænni.

Kæra Þóra frænka. Ég veit að þú hefur fengið góðar móttökur þarna í sælustraffinu hinum megin. Þú valdir þér góðan dag til að kveðja, afmælisdag Þórbergs föðurbróður þíns. Ég sé fyrir mér móttökurnar þar sem Ólafur bíður þín í góðra vina hópi. Þar eru líka foreldrar þínir Steinþór og Steinunn, Torfi bróðir þinn,  Manga með kaffið og pönnukökurnar og svo auðvitað Þórbergur að skenkja Þorláksdropana.

Þakka þér fyrir allar góðu gleðistundirnar okkar, elsku frænka, ég vildi bara að þær hefðu verið miklu fleiri síðustu árin. Það var alltaf svo augljóst hversu ættartengslin voru sterk og þræðirnir áþreifanlegir, sem gerði samveru þína með stórfjölskyldunni svo merkingarbæra og ómissandi. Ég hlakka til endurfundanna, við eigum eftir að slúðra svo miklu, miklu meira.

Innilegar samúðarkveðjur til Óskars, Guðrúnar og fjölskyldna.

Steinunn Torfadóttir

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463