Skip to main content

Jólakveðja frá Þórbergssetri

DSC01663A.jpgÞórbergssetur hefur verið lokað síðan 1. nóvember vegna áhrifa frá Covid 19 faraldrinum. Það má því segja að nú verði mikil friðarins jól á Halabæjunum og fáir á ferli miða við undanfarin ár. Náttúran skartar samt áfram sínu fegursta á milli þess sem hún ögrar okkur mannfólkinu með sínum ógnarkrafti. Í gærkvöldi dönsuðu norðurljósin hér yfir og lýstu upp allan himininn í ótal litbrigðum og meira að segja Öræfajökull glansaði í náttmyrkrinu. ,,Lífið er alltaf að verða öðruvísi og öðruvísi" og ekki um annað að gera en að taka því af æðruleysi,en jafnframt með von um að brátt víki heimsfaraldur fyrir vísindunum og aftur verði iðandi mannlíf í sveit og bæ.
 
Töluverð starfsemi  hefur verið í gangi síðustu mánuði sem aðallega beinist að rannsóknum og fræðistörfum ýmis konar, Þórbergssetur vinnur nú að verkefni um forn býli og skráningu búsetuminja í landslagi í samstarfi við Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Eftirfarandi grein  birtist í Jólablaði Eystrahorns, þar sem vakin er athygli á þessu skemmtilega en jafnframt krefjandi verkefni. Fyrirhugað er að opna sérstakan vef um verkefnið á vordögum og seta upp sýningu og er undirbúningur í fullum gangi. 
 
Óvíst er á þessari stundu hvenær Þórbergssetur opnar fyrir gesti og gangandi á ný, en vonandi þó sem fyrst. Við sendum hugheilar jólakveðjur og þakkir til allra velunnara Þórbergsseturs um allan heim. Framundan eru krefjandi verkefni í framhaldi af ótrúlegum aðstæðum og breyttri heimsmynd, Þá skiptir miklu að við byggjum á okkar arfleifð sem þjóð og hugum að þeim verðmætum sem felast í sögum fortíðar og menningararfleifð. Þannig tókst okkur sem þjóð að lifa af, -  með nægjusemi, samtakamætti og þrautseigju héldum við áfram. Nú höfum við ótal vopn í höndum,, þökk sé tækni og vísindum og ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði strax og tekist hefur að stöðva þá óværu er herjar á heimsbyggðin., Vonandi tekst okkur þá um leið að víkja af braut óhófs og sóunar þannig að jörðin okkar verði áfram byggileg komandi kynslóðum.
 
Bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kveðjum frá Þórbergssetri

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463