Skip to main content

Að loknu ári 2019

Ársskýrsla yfir starfsemi Þórbergsseturs árið 2019

Árið 2019 hefur verið viðburðarríkt í Þórbergssetri. Eins og alltaf er aðalstarf Þórbergsseturs gestamóttaka. Árið 2019 hefur verið  rólegra hvað gestakomur varðar en fyrri ár og helgast það af fækkun ferðamanna, en einnig að móttaka ferðamanna í íshellaferðir og jöklagöngur er ekki lengur í Þórbergssetri.  Létti það mjög á staðnum og gaf meira rými fyrir hina eiginlegu gesti sem voru að koma gagngert á Hala eða í Þórbergssetur. Í lok árs 2019 voru gestakomur á teljara við útidyr um 134.131 manns á móti 155.759  gestakomum  árið 2018. Reyndar var teljari bilaður í desember 2018 þannig að fækkun er meiri milli ára en þar kemur fram.

gestakomurÁ súluriti þessu sjást gestakomur í Þórbergssetur frá því að teljari var settur upp við útidyr í júlí  árið 2014. Einhverjar skekkjur gæti veruð um að ræða en ekki stórvægilegar og sýnir þetta vel heildarmyndina á umferð um staðinn.

Forstöðumaður var einn á launum við móttöku hjá Þórbergssetri árið 2019 þar sem óvissa ríkti um samning við mennta- og menningarmálaráðuneyti. Afgreiðslufólk í veitingasal sá um upplýsingar og móttöku ferðamanna ásamt forstöðumanni og hljóðleiðsögn var nýtt meira en áður til upplýsinga fyrir erlenda ferðamenn, en hún er á 9 tungumálum. Þórbergssetur réð einn mann til fræðastarfa, Gísla Sverri Árnason sagnfræðing. Vann hann  við skráningu sögu Eymundar Jónssonar (1840 – 1927)  og Halldóru Stefánsdóttur ( 1844 – 1935 )frá Dilksnesi við Hornafjörð  og sótti  m.a. um sérstakan styrk til þess verkefnis í Kvískerjasjóð og féek þar 750.000 kr.í verkefnið. Fyrirhugað er að gefa út bók með sögu þeirra hjóna og ljóðum Eymundar á næstu árum. Saga þeirra tengist sterkt mannlífi í Skaftafellssýslum á uppvaxtarárum Þórbergs Þórðarsonar og væri mikill fengur fyrir sögu Skaftfellinga að fá allar þær heimildir saman í eina bók.

Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður Þórbergsseturs kynnti starfsemi Þórbergsseturs hjá Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins á fundi á  vegum Félags kvenna í atvinnulífi  7.  febrúar í Húsi verslunarinnar

Gísli Sigurðsson frá Árnastofnun kom með 13 manna hóp til fundar í Þórbergssetur 13. febrúar en um er að ræða alþjóðlegt verkefni í menningarfræðum og ferðaþjónustu um miðlun menningararfs á tímum þjóðmenningar, og var samkoman einnig í samstarfi við Háskólasetur Hornafjarðar Flutt voru nokkur erindi, kynning á Þórbergssetri og Þórbergi Þórðarsyni og kynning á uppbyggingu í ferðaþjónustu á svæðinu. Soffía Auður Birgisdóttir og Þorvarður Árnason voru með erindi frá Háskólasetrinu.

Lesið í landið var heiti á vinnustofu um skoðun og skráningu menningarminja í samstarfi við Skriðuklaustur, Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Vatnajökulsþjóðgarð  Leiðbeinendur voru Þuríður E. Harðardóttir, minjavörður Austurlands, og Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar. Vinnustofan fór fram við verbúðarminjar í Kambstúni í Suðursveit föstud. 1. mars kl. 13.00. Að lokinni vinnustofu var haldið málþing í Þórbergssetri á Hala þar sem fjallað um CINE-verkefnið og fornar ferðaleiðir milli Fljótsdals og Suðursveitar, þar sem m.a.  Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur fjallaði um fornu ferðaleiðirnar yfir Vatnajökul.

Bókmenntahátíð Þórbergsseturs var haldin 10. mars og bar heitið ,,Framtíð bókmenningar á Íslandi, sögur af forfeðrum og mæðrum.“ Bókmenntahátíðin er alltaf mjög vel sótt en það voru Ragnar Helgi Ólafsson, Soffía Auður Birgisdóttir og Hólmfríður Helga Sigurðardóttir sem mættu á hátíðina að þessu sinni auk þess sem kvennakór Hornafjarðar skemmti hátíðargestum með hressilegum söng í byrjun dagskrár.

Í lok mars var síðan hið árlega bridsmót Þórbergsseturs og hrossakjötsveisla og var met aðsókn eða 64 spilarar víðs vegar af landinu.

Í maí koma alltaf nemendur Leiðsöguskóla Íslands í heimsókn og móttöku í Þórbergssetri og í sumar komu nokkrir gestir færandi hendi með gjafir til Þórbergssetur.  Má þar nefna bækur og frumútgáfur af verkum Þórbergs, kínverskur vasi keyptur í Kínaför Þórbergs, útsaumað veggteppi, handverk Margrétar Jónsdóttur eiginkonu Þórbergs, Eystrahorn héraðs og fréttablað, - 15 fyrstu árgangar innbundið í fallegar bækur, svo eitthvað sé nefnt.

Þann 9. júlí kom síðan Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra í heimsókn með nýjan samning til undirritunar um framlag ráðuneytisins til starfsemi Þórbergssetur alls 11 milljónir á ári í 2 ár eða til loka ársins 2020

Árlegir tónleikar Þórbergsseturs og Kálfafellstaðarkirkju voru að vanda þann 29. júlí á Ólafsmessu. Það var Magga Stína sem að þessu sinni flutti söngdagskrá við mikinn fögnuð áheyrenda.

Fjölnir Torfason hélt áfram að styðja við verkefni Snævarrs Guðmundssonar hjá Náttúrustofu Suðausturlands í leit að vörðum jöklamælingamanna á Breiðamerkursandi og skráningu fornleifa og menningarminja á Breiðabólsstaðarbæjum verkefni Sigríðar Guðnýjar Björgvinsdóttur hjá Menningarmiðstöð Hornafjarðar

Í september komu aðilar frá Grampus Heritage and Training Ltd. ensku fyrirtæki með jarðsjármælingar og var það á vegum Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings í samstarfi við Þórbergssetur,  leituðu þeir að fornminjum í Kambtúni þar sem verbúðir Norðlendinga áttu að hafa verið. Því miður fundust ekki mikil ummerki á staðnum

Í september kom einnig Michael Kienitz, bandarískur ljósmyndari, en hann vinnur að því að koma inn á app textum á gönguleiðum í umhverfinu með myndum, reiknar hann með að ljúka verkefninu næsta vor.  Hann hefur þegar safnað saman miklu myndefni og textarnir eru allir tilbúnir á íslensku , ensku og þýsku.

Undir norðurljósum, kvikmynd um sauðfjárbúskap undir Vatnajökli unnin af Fritz Mueller kanadískum ljósmyndara og fjölskyldu hans og dvöldu þau á Sléttaleiti í fræðaíbúð um mánaðartíma í haust. Fritz tekur myndir af smalamennsku, sveltisferðum og ýmsum ævintýrum tengdum mannlífinu hér, en einnig smölun í Ærfjalli og Breiðamerkurfjalli. Kvikmyndin er í röð mynda sem teknar eru á norðurslóðum og tengist mannlífi og lífsbaráttu fólks og er tengt ákveðnum fjölskyldum. Þegar hefur hann gert slíka heimildarmynd í Norður Noregi er tengist fiskveiðum aðallega. Þórbergssetur styrkir verkefnið  með dvalarkostnaði og aðstoð og  aðstöðu til gerðar myndarinnar

Kristján Eiríksson hefur verið í samstarfi við Þórbergssetur um útgáfu á esperantóþýðingum á skrifum Þórbergs á esperantó. Bókin mun koma út í byrjun ársins 2020 og verður kynnt á bókmenntahátíð í mars næstkomandi. Þórbergssetur styður fjárhagslega við útgáfu bókarinnar.

Ólafur B Schram leiðsögumaður kynnti bók sína Höpp og glöpp, sjálfshól og svaðilfarir í Þórbergssetri 4. nóvember

Málþing Þórbergsseturs var svo haldið 23. nóvember síðastliðinn í Þórbergssetri.  Dagskráin var tengd þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum þar sem mikið af staðbundinni þekkingu heimamanna og rannsóknir í umhverfinu hefur nú verið skráð í tölvutækt form og inn á kort með markvissri vinnu samstarfsstofnana.

Efnisatriði dagskrár voru eftirfarandi og voru erindin hvert öðru betra þar sem mjög mikið af upplýsingum kom fram sem ekki hafa verið skráðar áður í tölvutækt form.

Úr Maríutungum í Kambtúnsbúðir - um ferðir milli Skriðuklausturs og Suðursveitar; Skúli Gunnarsson forstöðumaður Skriðuklaustri
14:15 Gengið í slóð jöklamælingamanna - mælivörður á Breiðamerkursandi; Snævarr Guðmundsson jöklafræðingur
14:45  Í landnámi Hrollaugs Rögnvaldssonar - fornleifaskráning í landi Breiðabólsstaðarbæja; Sigríður Guðný Björgvinsdóttir landfræðingur
15:15 Stuttur upplestur, upprifjun frá liðinni tíð. Þorbjörg Arnórsdóttir
15:45 Kaffiveitingar og umræðu

Myndir og fréttir af viðburðum ársins má finna inn á heimasíðu Þórbergsseturs www.thorbergur .is og feisbókarsíðu Þórbergsseturs https://www.facebook.com/%C3%9E%C3%B3rbergssetur-183727431395/

Þórbergssetur er opið alla daga ársins og hefur mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði sem menningarsetur er varpar ljósi á sögu svæðisins á sama tíma og kynntar eru íslenskar bókmenntir sem merkasti menningararfur þjóðarinnar. Veitingahúsið er fjölsótt og stendur undir öllum aukatekjum Þórbergsseturs sem fær 10% af brúttótekjum veitinga sem leigutekjur.  

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 8873
Gestir á þessu ári: ... 16913