Skip to main content

Eystrahorn, merkilegar heimildir um liðna tíð

Síðastliðið sumar komu þau Ragnhildur Jónsdóttir og Grétar Vilbergsson færandi hendi í Þórbergssetur með fimmtán fyrstu árganga Eystrahorns innbundna í fallegar bækur. Þessi myndarlega gjöf kom úr búi foreldra Ragnhildar, þeirra Sigríðar Helgu Axelsdóttur og Jóns Sveinssonar sem lengst af bjuggu á Fiskhól á Höfn. Það er ólýsanlega fróðlegt og gaman að fletta þessum blöðum, elsti árgangurinn frá árinu 1983, - fyrsta blað útgefið 23. mars það ár og ritstjórinn var Halldór Tjörvi Einarsson. 

Eystrahorn, forsíðaÍ fyrstu blöðunum eru strax mjög eftirtektarverðar greinar og viðtöl. Má þar nefna viðtal sem ber yfirskriftina,, Náttúrusinfonía undir Eystrahorni ", viðtal við Benedikt Stefánsson á Hvalnesi. Þar segir þegar hann lýsir því hvaða áhrif umhverfið getur haft á sálina: ,, Ég get nefnt sem dæmi af því ég hef ánægju af músik, að ég held það sé stórfenglegasta sinfonía sem ég heyri, þegar stormurinn stendur hér upp á tindana og það kveður sér ljóð saman, hvinurinn í tindaskörðunum og brimið við ströndina.
 
"Grein eftir Unni Kristjánsdóttur á Lambleiksstöðum um áfengismál sem ber heitið ,, Mér leiðist handarbaksvinna".  Sagt er frá nýstofnuðu refabúi á Mýrum og minkabúi í Nesjum, gosi í Grímsvötnum , ný flugstöðvarbygging tekin í notkun, elli og hjúkrunarheimili á Höfn vígt svo nokkuð sé nefnt
 
Og mönnum verður tíðrætt um veðrið þá eins og nú því í grein sem ber heitið ,, Sitt lítið af hverju úr Suðursveitinni" segir Torfi Steinþórsson frá mesta snjó vetrarins í Suðursveit. Það var 19. apríl að snjóaði samfellt í 20 klukkustundir. Snjókomunni fylgdi norðaustan stinningskaldi og mikill skafrenningur. Mynduðust ferlegir skaflar allt að tveggja metra djúpir eða jafnvel meira. Var þetta einn mesti snjór í mannaminnum og nemendur Hrollaugsstaðaskóla urðu í fyrsta sinni frá því skólaakstur hófst árið 1973,  veðurtepptir um nætursakir í skólanum,-  þeim til mikils yndisauka.
 
Það er því augljóst að í þessum blöðum eru ómetanlegar heimildir og hugrenningar íbúa Austur Skaftafellssýslu, sem gaman er að rifja upp og eiga aðgang að. Því hefur verið ákveðið að safna saman efni um Suðursveit úr þessum elstu árgöngum Eystrahorns inn á Þórbergsvefinn og þegar eru komnar nokkrar greinar. Eru þær undir liðnum Suðursveit og líkur eru á að smá saman safnist þarna efni um okkar ágætu sveit, sem hægt verður að leita í okkur til fróðleiks og skemmtunar.
 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 244
Gestir þennan mánuð: ... 5793
Gestir á þessu ári: ... 23817