Skip to main content

Ein veisla, tvöföld áhrif

Ein veisla, tvöföld áhrif.

Slæmur inngangur að öðru skárra

Hér kemur síðbúin frétt, frétt, sem þó á erindi til allrar þjóðarinnar, en hefur legið í nærri tvö ár óbirt á skrifborðinu hjá mér. Reyndar birtist frétt þessi á sínum tíma í einu Reykjavíkurblaðinu, blaði, sem því miður er nærri því eins sjaldséð hér eystra og heilagur andi.

Ástæðan fyrir þessu seinlæti mínu og slaklegu fréttastreymi til ykkar, kæru sýslungar, er sú, að ég hef ekki áttað mig til fulls á hvort frétt þessa beri að leggja vinstra eða hægra megin við naflan. En ég hef alltaf verið haldinn þeirri áráttu að vilja vita hlutina á vísum stað. Því hefur frétt þessi orðið æði síðborin til megin þorra Austur-Skaftfellinga. En betra er seint en aldrei. Ég þykist loks hafa komið auga á lausn á þessu vandamáli mínu.

Mér sýnist ekki betur en lesendur Eystrahorns séu fullfærir um að sjá hlutina í réttu ljósi. Því varpa ég eftirfarandi frétt á þeirra vald, geta þá lesendur, ef einhverjir verða íhugað hvort hún muni fremur valda búhnykk á hægri væng eða þeim vinstri.

Á hlaupársdaginn 1984. T.S.

Hrossakjöt vætt með vodka.

Fyrir nokkrum misserum vakti undirritaður máls á því við kunningja sína, að hann vildi efna til nýs félagsskapar, sem gjarnan mætti heita Félag áhugamanna um hrossakjötsát. Slíkur félagsskapur gæti haft margþættan tilgang, m.a. stuðlað að því að afla félagsmönnum sínum o.fl. gnægðar af góðu hrossakjöti að borða. Einnig mætti hafa það bak við eyrað, að nú um sinn er hestamennska mjög í tísku og hrossum fjölgar óðfluga, svo að nærri horfir af þeim sökum til landnauðar í sumum góðsveitum. En varla mun vera æskilegt að gera hrossin að eins konar helgum verum, líkt og Hindúar gera við nautgripi sína. Það hlýtur því að vera áhugamál hrossabænda að eiga tryggan markað fyrir kjötið af drógum sínum, er þær hafa runnið sitt síðasta jarðneska skeið til enda. Eitt augljósasta starf innan væntanlegs félagsskapar yrði að efna til veisluhalda t.d. hafa árshátíðir o.fl. veislur, ef sýnist. Auðvitað yrði hrossakjöt að vera aðalrétturinn. Það verður að segjast alveg eins og er, að tillagan um áðurnefnda félagsstofnun hefur fengið svo góðar undirtektir, hvar sem hana hefur borið á góma, að jafnvel undirritaður hefur orðið hvumsa við, því hann er farinn að óttast, að ef af stofnun slíks félagsskapar yrði, gæti það orðið til þess að leggja allan félagsskap annan í landinu í rúst. Nú, það verður þá bara að hafa það.

Óvæntur sigur.

Skal nú fleiri mála getið, er við sögu koma. Um margra ára skeið hafa bridgespilarar í Suðursveit haft með sér félagsskap og m.a. keppt við bridgefélagið á Höfn tvisvar á vetri í meira en tíu vetur og alltaf með árvissum ósigri hinna fyrrnefndu. En svo stakk undirritaður upp á því, að ef einhvern tíma skeði það ólíklega, að Suðursveitungar ynnu Hafnarmenn við spilaborðið, þá skyldum við halda fagnaðarhátíð og m.a. hafa eina flösku af brennivíni per kjaft og sötra úr henni á þeirri júbilhátíð. Við þessa hvatningu fylltust Suðursveitungar slíkum jötunmóði að skömmu síðar skeði hið óvænta, að Suðursveitungar báru sigurorð af Hafnarmönnum við spilaborðið, ekki stóran sigur að vísu, en sigur þó. Sá eftirminnilegi atburður átti sér stað 9. apríl 1981.

Svo stakk hugmyndaríkur spilafélagi upp á því í vetur að slá saman hrossakjötsveislunni og sigurhátíð bridgemanna. Þeirri uppástungu var tekið með miklum fögnuði allra þeirra, sem hlut áttu að máli. Ein veisla, tvöföld áhrif.

Pottflaska varð að pela

Hátíðarhöldin fóru svo fram síðasta vetrardag 1982. En þá voru nokkur misseri liðin frá því áfengiskaupin höfðu verið ráðgerð, ein flaska per kjaft. Og á þeim tíma hefur veriðbólgan vaxið, en annað minnkað að sama skapi, jafnvel svo mikið, að pottflaskan, sem einu sinni var er nú orðin að einum pela.

Ja, það verður aldrei ofsögum sagt af vonsku verðbólgunnar. En látum kyrrt liggja að sinni.

Undirbúningsnefnd sú, sem skipuð var til að sjá um undirbúning hátíðarinnar, hafði treyst á frjálshyggjuna og þarna lér hún a.m.k. ekki að sér hæða. Hrossakjötið keypt í kaupfélaginu okkar á Hornafirði reyndist alveg frábært. Jafnvel vodkapelinn sýndist óþarfur, enda sparlega með hann farið. En veislugestir skemmtu sér fram á nóttu við stuttar spaklegar tölur, ljóðaflutning bæði frumsaminn og stolinn, söng, dans og sitthvað fleira, sem hold eða anda mátti gleðja. Létu sumir veislugestir þess getið, er þeir bjuggust til heimferðar, að samkvæmi þetta hefði jafnast á við tvö þorrablót. Sem sagt: Ein veisla, tvöföld áhrif.

Fullyrða má, að þetta verður ekki síðasta hrossakjötsveislan í Suðursveit og mætti fleiri eftir breyta.

Gleðilegt sumar.

Samantekið á Hala fyrsta sumardag 1982.

 Torfi Steinþórsson

 

Eystrahorn, fimmtudagur 22. mars 1984

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 6
Gestir þennan mánuð: ... 22
Gestir á þessu ári: ... 104544