Höfðingleg gjöf

gjöf1Heiðurshjónin Jakob Yngvason og Guðrún Kvaran færðu Þórbergssetri veglega gjöf í heimsókn sinni þann 17. júli síðastliðinn.

Gjöf þessi samanstendur af munum úr eigu móðurafa Jakobs Yngvasonar, skáldsins, málfræðingsins og kennarans Jakobs Jóhannessonar Smára. Auk þess færði Guðrún safninu grein sína Söfnun Þórbergs Þórðarsonar úr mæltu máli sem birtist í tímaritinu Íslenskt mál og almenn málfræði árið 2006.

Munirnir úr eigu Jakobs Jóhannessonar Smára eru annars vegar handrit að ljóðabók eftir Þórberg sem ber þann forvitnilega titil Heilir skósólar og hins vegar ljóð Þórbergs sem hann sendi vini sínum á póstkortum í tilefni jóla og áramóta.

gjöf2Handritið var gjöf skáldsins til vinar síns Jakobs en þeir félagar áttu ýmislegt sameiginlegt. Þeir voru nánast samtíða, þeir fæddust með árs millibili, Jakob var fæddur árið 1889 og lést 1972 en Þórbergur Þórðarson var fæddur árið 1888 og lést tveimur árum síðar en Jakob, árið 1974. Þeir áttu ýmislegt annað sameiginlegt en báðir voru þeir skáld og virkir áhugamenn um íslenskt mál, þar að auki voru báðir mjög áhugasamir um spíritisma sem eins og dulspeki ýmiskonar var áberandi í menningarlífi Íslendinga á fyrstu áratugum aldarinnar síðustu.

Ljóðahandritið er greinilega atlaga Þórbergs að Hvítum hröfnum sem kom út árið 1922 en öll ljóðin í handritinu birtust í þeirri bók. Ljóðin eru ort á árunum 1917-1922 og handritið að öllum líkindum ritað sama ár og Hvítir Hrafnar komu út. En yngsta ljóðið Hjónabandið er samkvæmt Eddu Þórbergs mælt af munni fram í London árið 1922 og fínpússað á Stýrmannastíg 9, heimili skáldsins til margra ára, síðar það sama ár. Flest ljóðin í handritinu eru orðrétt eins og þau eru í Hvítum hröfnum en á stöku stað hefur skáldið gert smávægilegar breytingar, hnikað til orði og orði.

 

gjöf3Póstkortin eru frá svipuðum tíma fyrsta er dagsett á Þorláksmessu árið 1922 og það næsta á gamlársdag árið 1923, þriðja kortið er án dagsetningar en framhlið þess ber óskir um gleðilegt nýtt ár. Á hverju þeirra birtist eitt ljóð án titils, þau virðast hvergi hafa verið útgefin enda virðist hér um tækifæriskveðskap að ræða ætluðum Jakobi einum. Auk póstkortana fylgdi stakur miði með einu ljóði. Hann hefur án efa fylgt handritinu þar sem ljóð það birtist einmitt í Hvítum hröfnum.

 

 

 

 

Hér er um að ræða skemmtilega viðbót við safnkost okkar og þessir munir fá að njóta sín á safninu þegar þeim hefur verið fundin viðeigandi staður, áður en til þess kemur verður forvitnilegt að skoða þessa muni nánar. Við viljum þakka þeim Jakobi og Guðrúnu fyrir þessa fallegu gjöf. Það er óeigingjörn og falleg hugsun að leyfa almenningi að njóta slíkra gripa.

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 118
Gestir þennan mánuð: ... 7289
Gestir á þessu ári: ... 18030

Þórbergssetur - Hala, Suðursveit - 781 Höfn í Hornafirði - Sími: 478-1078 - Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Copyright © 2023. All Rights Reserved.

Fara efst