Skip to main content

Ferðalag steinsins

kv038„Kannski er það sona með steininn í skriðunni. Það gæti alveg eins verið. Ég hef aldrei fundið ból eftir hann, og þó er ég áreiðanlega búinn að glápa eftir því hundrað sinnum. O þá veit hann ennþá meira en ég hélt, því steinar, sem standa út af fyrir sig, geta séð það, sem gerist allt í kringum þá. En steinar, sem eru bundnir í klettabelti, sjá aðeins fram fyrir sig. Hann getur samt verið miljón ára gamall, fyrst milljónir ára bandingi í klettabelti, so hundruð eða eða þúsundir ára sjálfstæð vera á kettarák eða bergbrún. Er ekki allt líf sona, fyrst eitthvað í einu lagi, svo eitt sér? So aftu í einu lagi?“ (Í Suðursveit, bls. 158).

 

 

 

st3Þannig lýsir, aðalpersónan í bókinni Steinarnir tala, Bergur litli  því hvernig eilíft líf steinsins þróaðist, samkvæmt hans sýn, gegnum árþúsundin. Allir hlutir sem kallaðir voru „dauðir hlutir“ voru í augum barnsins lifandi og höfðu sál rétt eins og menn og dýr, hvort sem það var eldurinn, viðarhríslurnar eða taðkögglarnir sem „ æjuðu“ undan eldinum. Af öllum „dauðum hlutum“ fannst Bergi þó steinarnir mest lifandi vegna þess að enginn hafði reynt að umskapa þá og því fengu þeir að vera eins og þeir voru skapaðir, auk þess hlytu þeir að muna langt aftur. Steinarnir í fjallshlíðinni vöktu því sérstaka athygli Bergs litla og vann hann, af þeirri vísindalegu nákv­æmni sem honum frekast var möguleg, rannsóknir á þeim sem gátu varpað frekara ljósi á náttúru þeirra og eðli.

 

 

 

 

st2Í ljós þessarar sérstöku náttúrutrúar, sem birtist í Steinarnir tala, þótti það undrun sæta þegar vegfarendur á leið á bókmenntahátið í Þórbergssetri, sem haldin var í mars síðastliðnum, óku fram á stein einn sem hafði tyllt sér á miðlínu vegarins, fyrir neðan bæinn Sléttaleiti rétt austan við Hala. Bókmenntahátíðin var haldin í tilefni af því að hundrað og þrjátíu ár voru þá liðin frá fæðingu Þórbergs Þórðarsonar og nær öll dagskráin fjallaði um þessa bók hans. Dagskrá hátíð­­arinnar fékk því dulmagnaða merkingu eftir að steinn þessi hafði losað sig frá þrældómi fjallsins og gerst sjálfstæður einstaklingur.

 

 

st1Tímasetning steinsins til ferðalagsins hefur nú orðið til þess að ræst   hefur úr örlögum hans. Í stað þess að hírast einn fyrir neðan veginn við Sléttaleiti hefur hann fengið varanlegan bústað fyrir utan Þórbergssetur og tilvera hans og daglegt líf fjölskrúðugra fyrir vikið. Hann getur fylgst með og hlustað á alla þá gesti sem streyma til Hala frá víðri veröld. Auk þess að hafa gott útsýni yfir klettana, bæina, Hrollaugseyjar úti fyrir landi og gjörvallt veraldarhafið.

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 8873
Gestir á þessu ári: ... 16913