Skip to main content

Bókmenntahátíð Þórbergsseturs

Hin árlega bókmenntahátíð Þórbergsseturs verður haldinn sunnudaginn 11. mars næstkomandi og þá minnst 130 ára afmæli Þórbergs Þórðarsonar, en hann var fæddur 12.mars 1888. Spennandi dagskrá þar sem steinarnir sem tala verða umfjöllun fræðimanna og rithöfunda og Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni og lesa upp úr verkum Þórbergs.

Gísli Pálsson mannfræðingur flytur fyrirlestur og les úr bók sinni Fjallið sem yppti öxlum:maður og náttúra. Hér er fjallað á nýstárlegan hátt um ,,jarðsambönd fólks" og nábýli við lifandi náttúruöfl. Bókin á sannarlega erindi við okkur Skaftfellinga, nú þegar Öræfajökull er að rumska,- en reyndar alla daga. Þessi voldugi nágranni okkar, Öræfajökull, -  sem við lítum upp til á hverjum degi,- en er reyndar stærðar eldfjall sem getur haft áhrif á líf okkar og aðstæður eins og hendi veifað. Hann og jöklaveröldin allt um kring eru nú mikið aðdráttarafl og uppspretta tækifæra í ferðamannabransanum. En fljótt skipast stundum veður í lofti sem dæmin sanna, eins og í Vestmannaeyjum 1973. Sambýli manns og náttúru er umfjöllunarefni í bók Gísla, hver stjórnar? Hvað er maðurinn að gera í náttúrinni, erum við á ,,mannöld" að skaða með óafturkræfum áhrifum bólstaði okkar og jörðina sjálfa?

Oddný Eir Ævarsdóttir verður einnig gestur hátíðarinnar.,,Ég steig inn í hefð Þórbergs Þórðarsonar" sagði Oddný í hádegisumræðum bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2015. Það verður forvitnilegt að heyra hana lýsa því hvernig Þórbergur Þórðarson hefur haft áhrif á hana og aðra nútímarithöfunda, -  verk hans virðast ódauðleg og endalaus uppspretta höfunda þrátt fyrir breytta heimsmynd nútímans enda stundum kallaður fyrsti nútímarithöfundur Íslands.  Á bókmenntahátíðnni fjallar hún um samband ofurnæmra vísinda við tilraunaskálskap í tengslum við skáldsögur Þórbergs, Steinarnir tala og Sálminn um blómið og nýjustu skáldsögu hennar , Undirferli.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ætlar að kynna útgáfu Landdómsskjala frá fyrri öldum, en þegar hafa verið gefnar út tvær bækur. Þar er margt forvitnilegt að finna og ætlar hún að fjalla um tillögur presta í Austur- Skaftafellssýslu til viðreisnar landinu árið 1771.

Jónína Aradóttir frá Hofi í Öræfum ætlar að taka sig til og æfa upp nokkur ,,Þórbergslög" og syngja við gítarundirspil  

Daginn á eftir 12.mars á afmælisdegi Þórbergs fer stóra upplestrarkeppnin fram í Þórbergssetri og fer vel á því. Það verður því mikið um að vera á menningarsviðinu þessa daga, en einnig er mikill fjöldi ferðamanna alls staðar að úr heiminum gestkomandi þessar vikurnar. Þórbergssetur er sannarlega alþjóðleg miðstöð þar sem mætast margir ólíkir menningarheimar og fer vel á því, þar sem Þórbergur var mikill alþjóðasinni á sama tíma og Hali í Suðursveit var viðmið hans og umfjöllunarefni alla tíð.

- Tilvalið er að taka sér góðan sunnudagsrúnt í sveit sóla og njóta einstakrar dagskrár.r
Allir velkomnir -

Dagskrá
 
13:30 Setning, 130 ára afmæli Þórbergs Þórðarsonar
13:40 Fæðing Þórbergs; upplestur;  Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona
13:55 Söngur;Jónína Aradóttir frá Hofi í Öræfum syngur Þórbergslög við gítarundirspil
14:00 ,,Steinarnir tala," loksins: Þórbergur á mannöld ; Gísli Pálsson mannfræðingur
14:30 Steinarnir tala, Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona
14:45 Um ofurnæma steina, lífræna hugarheima, skringilegar skáldsögur ; Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur
14:20 Söngur; Jónína Aradóttir frá Hofi í Öræfum syngur Þórbergslög við gítarundirspil
15;25 Kirkjuferð og ýmsar sérkennilegar skynjanir  Ragnheiður Steindórsdóttir upplestur
15:40  Prestar í Austur-Skaftafellssýslu fjalla um leiðir til viðreisnar landinu árið 1771;  Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, sagnfræðingur
16:10 Vatnadagurinn mikli; Ragnheiður Steindórsdóttir upplestur  
16:10 Kaffiveitingar, spjall og  söngur, Jónína Aradóttir frá Hofi í Öræfum syngur við gítarundirspil
           Allir velkomnir

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 4381
Gestir á þessu ári: ... 22404