Skip to main content

Bókmenntahátíð í Þórbergssetri

13022016 bmhHin árlega bókmenntahátíð verður í Þórbergssetri sunnudaginn 13. mars næstkomandi kl 14:00.  Dagskráin er að mótast, en ljóst er að þetta verður kvennahátíð þar sem  konur í rithöfunda- og fræðimannastétt verða gestir hátíðarinnar að þessu sinni, auk Kvennakórs Hornafjarðar  

Iðunn Steinsdóttir, sem í föðurlegginn er ættuð frá Kálfafelli í Suðursveit kemur og les úr nýútkominni bók sinni,  Hrólfs sögu. Þar rekur Iðunn sögu langafa síns í móðurætt sem háði harða lífsbaráttu sem sveitarómagi og  síðar vinnumaður í lok 19. aldar.

Halldóra K. Thoroddsen fékk á dögunum fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir bókina Tvöfalt gler. Hún ætlar að heimsækja okkur Skaftfellinga þennan dag og kynna bókina, en bókin hefur vakið mikla athygli.

Í umsögn um bókina sem skrifuð er  um konu á áttræðis aldri segir svo,, Tvöfalt gler er þétt, skrifuð af einstöku næmi og hún er „stór“ þótt hún sé stutt. Höfundur dregur upp eftirminnilega mynd af lífsþorsta og ástarþrá manneskju sem dafnar og vex þegar dauðinn er allt í kringum hana. Í föruneyti Halldóru verður Guðrún Pétursdóttir vinkona hennar, en þær stöllur dvöldu á Hala hluta úr sumri á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá varð uppi fótur og fit í Suðursveit sérstaklega hjá ungum og ógiftum piltum og mikið fjör á Halabæjunum. Ef til vill rifja þær stöllur upp eitthvað frá dvöl sinni í Suðursveit fyrir hart nær hálfri öld.

Í þriðja lagi kynnir Soffía Auður Birgisdóttir bók sína um Þórberg ,, Ég skapa, þess vegna er ég,". Soffía hlaut menningarverðlaun Hornafjarðar fyrir þetta einstaka bókmenntaverk og einnig hefur bókin verið tilnefnd til verðlauna Hagþenkis. Bókin er fræðileg umfjöllun um verk Þórbergs Þórðarsonar, að baki liggur geysimikil rannsóknarvinna, sem varpar ljósi á hversu víðlesinn og hámenntaður Þórbergur var. Soffía rekur tengingar Þórbergs við heimsbókmenntir og þekktar bókmenntastefnur, og sýnir á óyggjandi hátt fram á hvernig hann með skrifum sínum og skáldskap skapaði meðvitað nýtt bókmenntagervi í íslenskum bókmenntum, skáldævisöguna.

Kvennakór Hornafjarðar kemur á staðinn og byrjar dagskrána með því að syngja fáein lög.

Í lok dagskrár eru kaffiveitingar. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Bókmenntahátíð hefur oft verið fjölmenn og því vonum við sannarlega að Hornfirðingar og Skaftfellingar sjái sér fært að koma í heimsókn í Þórbergssetur þennan dag og njóta þeirrar menningarsdagskrár sem í boði er.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 27
Gestir þennan mánuð: ... 8899
Gestir á þessu ári: ... 16939