Skip to main content

Að loknu ári 2014

Árið 2014 er nú liðið í aldanna skaut. Hvað varðar starfsemi Þórbergsseturs má segja um þetta ár að það hafi verið með eindæmum gjöfult ár. Mikill ferðamannastraumur, aukin umferð í Þórbergssetri m.a. vegna fjölgunar gistirýma á Hala og einstaklega gott veðurfar einkenndu árið 2014.

Margt kemur á óvart og hefði ekki með nokkru móti verið hægt að segja fyrir um þá þróun þegar starfsemin hófst árið 2006, jafnvel ekki fyrirséð fyrir aðeins þremur árum síðan. Í fyrsta lagi þá er ferðamannastraumur nú jafn allt árið um kring, greina má þó tvo hátinda, þ.e. frá 15. febrúar til loka marsmánaðar og síðan yfir hásumarið frá því í byrjun júlí til loka ágúst. Það er sá tími sem Íslendingar koma í heimsókn í Þórbergssetur, en þeir sjást vart þar fyrir utan. Á jaðartímum þ.e. haust og vor er einnig veruleg aukning ferðamanna. Í öðru lagi kemur það mjög á óvart hversu mjög aðsókn útlendinga hefur aukist og er þar áberandi aukning ferðamanna frá Asíu og Bandaríkjunum, en Evrópubúar láta meira sjá sig yfir sumarið á hinum hefðbundna ferðamannatíma. Hlutfall erlendra ferðamanna sem koma í Þórbergssetur hefur aukist verulega.

Flestir sem koma í Þórbergssetur eru að leita eftir veitingum, eða annarri þjónustu. Heildartekjur Þórbergsseturs hafa því aukist mikið á milli ára sem stafar af auknum leigutekjum vegna veitingareksturs. Á sama tíma hafa tekjur af aðgangseyri dregist saman frá fyrra ári. Ástæðan fyrir því er að stjórnin tók þá ákvörðun að hafa frítt í safnið yfir vetrarmánuðina og einnig fá allir gestir Gistiheimilisins á Hala frítt á safnið en á móti koma mjög háar leigutekjur af þjónustu við þá eða 10% af öllum brúttósölutekjum af veitingum og minjagripum. Þetta þýðir að mun fleiri gestir sem eru á ferðinni, fara inn á safnið og njóta allrar þeirra þekkingar og fræðslu sem þar er að hafa. Þeir fá hins vegar ekki leiðsögn um safnið nema gegn greiðslu og gildir það allt árið. Ævinlega gera gestir góðan róm af því að heimsækja safnið og það er óvænt og skemmtileg viðbót við dvöl þeirra hér á svæðinu, þar kynnast þeir sögu héraðsins betur og skynja sterkt þann sess sem bókmenntir eiga í menningu og andlegu lífi íslensku þjóðarinnar allt frá upphafi Íslandsbyggðar.

Á teljara sem er nú í anddyri Þórbergssetur kemur fram að árið 2014 voru 121.733 gestakomur í Þórbergssetur árið 2014, þ.e. þeir sem gengu um þessar dyr ½ inn og ½ út. Í þessari tölu eru líka starfsmenn og heimamenn og eðlilegt er draga frá þessari tölu um 20%. Engu að síður sést hversu gífurlegur fjöldi gesta stígur inn í Þórbergssetur dag hvern til að nýta sér þá þjónustu sem þar er rekin. Mestur fjöldi á dag eru um 900 gestakomur og mest aðsókn var í júlímánuði eða 18.508 gestakomur.

Helstu viðburðir og verkefni á árinu 2014 eru eftirfarandi:

  • Nýja árið heilsaði með hlýju veðri og dumbungi allan janúarmánuð. Alls dvöldu níu mismunandi ljósmyndahópar á Hala og voru 4896 gestakomur í Þórbergssetur
  • Þann 1. febrúar var opnuð nýja gistiálman á Hala með pompi og pragt, alls 14 ný herbergi með baði. Opnun hennar eykur umsvif í Þórbergssetri til muna þar sem nú gista fleiri ferðamenn á Hala en áður og voru því alls 7552 gestakomur í Þórbergssetur í febrúar.
  • Soffía Auður Birgisdóttir og Þóra Sigríður Ingólfsdóttir dvöldu í fræðaíbúð í Gula húsinu 29. janúar – 4, febrúar. Soffía vinnur að doktorsritgerð um Þórberg Þórðarson og Þóra Sigríður sinnir eigin námi og starfi í Hljóðbókasafni Íslands
  • Í febrúar dvöldu 23 mismunandi hópar, flest ljósmyndarar á Hala og nutu þjónustu í Þórbergssetri.
  • Unnið var mikið verk í janúar, febrúar og mars að endurnýjun heimasíðu fyrir Þórbergssetur og allt efnið fært inn á nýja síðu thorbergur.is/ thorbergssetur.is. Austurnet á Egilsstöðum sá um endurnýjun á síðunni og fylgist með uppfærslum á henni framvegis. Nýja síðan var formlega opnuð 23. mars á bókmenntahátíð Þórbergsseturs
  • Í marsmánuði voru gestakomur 10.345 í Þórbergssetri, sem að var metaðsókn yfir veturinn, fjölmargir hópar og alltaf mikið að gera.
  • Bókmenntahátíð Þórbergssetur var haldin 23. mars. Var hún fjölsótt eða um 90 manns sem mættu þennan dag og nutu skemmtunar og fróðleiks. Samkór Hornafjarðar flutti söngdagskrá, Jón Gnarr borgarstjóri heiðraði samkvæmið með frábæru erindi undir heitinu,, Þórbergur og ég“ og las upp úr verkum sínum. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur flutti erindi sem bar heitið,, Ég er eins og menn verða eftir næstu aldamót“ og Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður las upp úr handriti séra Sváfnis Sveinbjarnarsonar um mannlíf í Suðursveit.
  • Gjafir bárust Þórbergssetri í marsmánuði, bókaskápar Þórbergs og Margrétar frá Hringbraut 45 sem voru áður í eigu Gríms Helgasonar handritafræðings og Hólmfríðar Sigurðardóttur kennara. Voru tveir þeirra staðsettir inn á sýningunni í þjóðsögustofunni á Hringbrautinni og sóma sér þar vel með bókasafni Þórbergs. Hinir tveir eru uppi á lofti í eystri sýningarsal og bíða þess að bækur úr bókasafni Þórbergs sem enn eru í kössum verði raðað í þá. Hólmfríði var boðið á bókmenntahátíðina, en sá hún sér ekki fært að mæta.
  • Stórgjöf barst en það voru allar frumútgáfur af verkum Þórbergs bundnar í skinn. Keypti Þórbergssetur bækurnar, en í gjöfinni fólst söfnun verkanna, bókband og öll vinna við það framkvæmd af Jóhanni Guðmundssyni. Í lok ársins 2014 barst svo viðbótargjöf við þetta safn frá Jóhanni, innbundnar Mulleræfingar, Kynlegar ástríður, eftir Edgar Allan Po þýddar af Þórbergi og tvær greinar úr Alþýðublaðinu, Eldvígslan og Skáldið úr Suðursveit. Bækurnar voru sýndar á bókmenntahátíðinni 23. mars og mætti Jóhann Guðmundsson á staðinn ásamt eiginkonu sinni og afhenti þær formlega
  • Í aprílmánuði fór forstöðumaður Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason á Hala á fund með Ragnheiði Þórarinsdóttur í mennta- og menningarráðuneytinu, en hún er tengiliður ráðuneytis við Þórbergssetur. Þar var farið yfir starfsemi Þórbergsseturs, ný heimasíða kynnt og ýmsar gagnlegar ábendingar og umræður um samstarf við fræðastofnanir á Hornafirði. Stefnt var að næsta fundi í byrjun árs 2015 þar sem rætt yrði um nýjan rekstrarsamning við ráðuneytið, en núverandi samningur rennur úr gildi árið 2016
  • Hin árlega bridgehátíð og hrossakjötsveisla var haldin í Þórbergssetri 4. – 6 apríl. Var hún að vanda vel sótt alls mættu 46 bridgespilarar víðs vegar af landinu
  • Í lok apríl dvöldu í fræðaíbúð fornleifafræðingarnir Birna Lárusdóttir og Elín Ósk Hreiðarsdóttir. Þær ætla að mæta í Þórbergssetur með erindi á málþingi síðar en vegna veikinda gátu þær ekki mætt á haustþingið eins og ráðgert hafði verið.
  • Gestakomur í apríl voru 9213 og 9224 í maí.
  • Í maí komu nokkrir sérhópar í heimsókn þ.a.m. biskupinn í Færeyjum ásamt fylgdarliði, leikskóli Hornarfjarðar í útskriftarferð, Leiðsöguskóli Íslands í sinni árlegu útskriftarferð, ljósmyndahópar og svo hádegishópar í mat.
  • Í lok maí var farið í breytingar á eystri sýningarsal, gluggar settir á salinn, salnum breytt í veitingasal og uppsetningu sýninga breytt. Var þar með verið að mæta auknum umsvifum og skapa meira rými fyrir veitingar ásamt því að samþætta þessa tvo meginþætti í starfsemi Þórbergsseturs veitingar og sýningarhald. Segja má að vel hafi tekist til og er salurinn mun meira aðlaðandi, keyptir voru tveir stórir flatskjáir fyrir sýningar og settar upp nýjar sýningar með fallegum landslags og norðurljósamyndum eftir Stefan Vetter franskan ljósmyndara sem kemur oft í Þórbergssetur. Einnig voru smíðaðir skemmtilegir sýningarstandar sem munu gagnast áfram til sýningarhalds næstu árin
  • Endurbætur voru gerðar á hitakerfi Þórbergsseturs, sett upp varmadæla og mælar og mun Þórbergssetur framvegis greiða fyrir heita vatnið samkvæmt þeim mæli.
  • Í lok maí var sett upp sýning sumarsins í eystri sal en hún bar nafnið Land/ brot og voru bókverk unnin af listahópi kvenna sem ber nafnið Arkir. Sýningin var uppi í allt sumar til loka september og var mjög nýstárleg en vakti engu að síður mikla eftirtekt gesta innlendra sem erlendra.
  • Í júní tók hin hefðbundna ferðamannaumferð við með fjölda hádegishópa og heimsóknum innlendra sem erlendra gesta.
  • Gefin var út að nýju sýningarskrá Þórbergsseturs á þremur tungumálum.
  • Á miðju ferðamannasumri eða nánar tiltekið 27. júlí voru hinir árlegu tónleikar á Ólafsmessu. Að þessu sinni var um skaftfellskan menningarviðburð að ræða, en það var Óskar Guðnason tónlistarmaður sem flutti lög sín við ljóð Kristínar á Hlíð og með honum voru Ingólfur Steinsson ættaður frá Kálfafelli í Suðursveit og Þórdís Sævarsdóttir söngkona frá Rauðabergi á Mýrum. Tónleikarnir voru í framhaldi af helgistund í Kálfafellsstaðarkirkju og í lokin heimsóttu kirkjugestir völvuleiðið undir Hellraklettum
  • Fimmtudagskvöldið 31. júlí fékk Þórbergssetur góða gesti í heimsókn með tónleika og heimspekispjall. Listamennirnir voru Erica Roozendaal harmonikka, Tessa de Zeeuw heimspekispjall og Hafdís Bjarnadóttir rafmagnsgítar
  • Þórbergssetri bárust merkar gjafir í október. Var það saumavél Auðbjargar Benediktsdóttur á Hala meira en aldargömul og svo hnífapör hennar og vasahnífar Steinþórs á Hala. Auðbjörg var móðursystir Þórbergs, var vinnukona og bjó alla tíð á Hala. Gjöfina færði Ingibjörg Zophoníasardóttir setrinu en hún hafð varðveitt þessa gripi. Einnig færði hún setrinu að gjöf rúmfatnað gamlan , sængur og kodda heimasaumað og fyllt með gæsadún.
  • Í sófann í þjóðsögustofunni voru settir púðar sem Guðbjörg Gísladóttir á Símstöðinni á Höfn hafði fært Þórbergssetri árið 2007. Púðarnir voru handverk Guðbjargar en settir upp á listrænan hátt af Margréti konu Þórbergs
  • Í byrjun október var haldið svokallað fermingarbarnamót árganganna sem fæddir voru 1949 og 1950 í Bjarnanesprestakalli í Hornafirði. Var þetta mikil hátíð með léttum veitingum, sérstöku hátíðarhlaðborði og sérsniðinni móttöku og leiðsögn um safnið og staðinn. Brottfluttir Skaftfellingar voru þarna í hópnum ásamt heimamönnum og höfðu þeir sterkar tengingar við þann menningarlega og sagnfræðilega bakgrunn sem Þórbergssetur byggir á.
  • Málþing Þórbergsseturs var haldið laugardaginn 11 október. Dagskráin bar heitið ,,Stolt okkar er viskan“og var eftirfarandi:

10:30  Gildi fornleifa og fornleifaskráninga; Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur og Elín Ósk

         Hreiðarsdóttir fornleifafræðingur

11:00  Veðurfar og veðurmælingar; Kristín Hermannsdóttir veðurfræðingur og forstöðumaður

           Náttúrustofu Suðausturlands

11:30  Rannsókn og miðlun á menningararfi Hornafjarðar- Uppbygging og framtíðarsýn

           Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur og forstöðumaður Hornafjarðarsafna

12:00 Hádegisverður að hætti hússins og útivera

13:00 Breiðamerkurjökull og Breiðamerkursandur; breytingar frá lokum 19 aldar.

           Snævarr Guðmundsson, náttúrulandfræðingur og starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands

13:30 Ljósmynda- og norðurljósaferðamennska; Þorvarður Árnason forstöðumaður Háskólaseturs

         Hornafjarðar

14:00 Þórbergur og nútíminn; Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður Þórbergsseturs

14:30 Erindi frá Vatnajökulsþjóðgarði

15:00 Kaffi

15:30 Framtíðarsýn og samstarf stofnana í Austur Skaftafellssýslu; Þórgunnur Torfadóttir skólastjóri og

         formaður stjórnar Þórbergsseturs

16:00 Pallborðsumræður 

Því miður gátu fornleifafræðingarnir Birna og Elín ekki mætt vegna veikinda og þeirra dagskrárliður féll niður. Málþingið var vel sótt og reyndist gagnlegt hvað varðar miðlun þekkingar svæðinu en ekki síður til að hvetja menn til dáða með nánara samstarfi á næstu árum.

  • Í október nóvember og desember voru áfram fjölmargir ljósmyndahópar sem nutu veitinga og þjónustu í Þórbergssetri í október 8107 gestakomur í nóvember 6456 og í desember 6669
  • Mjög gestkvæmt var í Þórbergssetri yfir jól og áramót. Flestir ferðalangar koma frá Asíulöndum og mikill áhugi var á íshellaskoðun og norðurljósum. Jólahlaðborð var á annan, þriðja og fjórða í jólum. Enginn vafi er á að það alþjóðlega umhverfi sem nú er á Hala jafnt sumar sem vetur er mjög í anda alþjóðasinnans Þórbergs Þórðarsonar sem hlýtur að fylgjast með okkur með andakt uppi á astralplaninu.
  • Fyrir jólin 2014 kom út bókin Of Icelandic Nobles & Idiot Savants. An Anthology of the Writings of Novelist, Essayist and Humorist Thórbergur Thórdarson translated by Hallberg Hallmundsson and Julian Dárcy. Mikill fengur er af þessari bók en þarna eru þýðingar Hallbergs m.a. kaflar úr Bréfi til Láru, Ofvitanum, Eddu Þórbergsog Viðfjarðarskottu sem voru í tölvu hans er hann andaðist. Síðast ósk hans fyrir andlátið var að þessar þýðingar yrðu gefnar út og var það Árni Blandon frændi hans sem stóð fyrir útgáfunni. Auk þess er í bókinni þýðingar Julian Meldon D‘arcy úr Íslenskum aðli, Ofvitanum, Sálminum um blómið , og Steinarnir tala ásamt nokkrum bréfum og greinum öðrum. Er mikill fengur af þessu verki og lét Þórbergssetur prenta sérstaklega fyrir sig 100 eintök í byrjun.

Af þessu má sjá að starfsemi Þórbergsseturs var mjög lífleg árið 2014. Erlendir ferðamenn eru nú í miklum meiri hluta gesta, en gjarnan koma þó enn við íslenskir hópar sem eiga leið um. Meginþungi í starfsemi Þórbergsseturs snýr nú að móttöku erlendra ferðamanna og þjónustu við þá en einnig hefur tekist að halda gangandi lifandi menningarstarfi. Sérstaða Þórbergsseturs er mikil og felst fyrst og fremst í því að taka á móti erlendum sem innlendum gestum og leggja megináhersla á íslenska menningararfleifð bæði hvað varðar veitingar og tengingar við fortíð, sögu og bókmenntir

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 86
Gestir þennan mánuð: ... 4605
Gestir á þessu ári: ... 22629