Skip to main content

Glatt á hjalla í Þórbergssetri

IMG 5718Það var glatt á hjalla í Þórbergssetri á bókmenntahátíð síðastliðinn sunnudag. Um 90 manns sóttu hátíðina, sól skein í heiði og dagskráin stóð í um þrjá klukkutima. Borgarstjóri Reykjavíkur fór á kostum og lýsti því hvernig hann hefði orðið uppnuminn af Ofvitanum í Borgarleikhúsinu 14 ára gamall. Það var rétt eins og hann hefði endurfæðst og  fann fyrir mikilli samkennd með Þórbergi Þórðarsyni og þarna hefði hann uppgötvað að hann gæti alveg orðið maður með mönnum þó að hann væri rauðhærður drengstauli sem hefði gaman af að gera grín og fíflast. Hann væri þá eftir allt saman kannski bara ofviti eins og Þórbergur og það hefði í alvöru hvarflað að honum að hann væri ef til vill laungetinn sonur Þórbergs.

Samkór Hornafjarðar flutti skemmtilega söngdagskrá um afa og ömmu, og Soffía Auður Birgisdóttir dró fram hversu mikil áhrif Þórbergur hefði haft á nútíma rithöfunda. Skyggnst var til baka og lesið upp úr handriti séra Sváfnis Sveinbjarnarsonar prests á Kálfafellsstað um eftirminnilegar persónur í Suðursveit. Að lokum afhenti Jóhann Guðmundsson að gjöf allar frumútgáfur af verkum Þórbergs bundnar í skinn með hans eigin hendi, og gaf hann alla vinnu sína. Alls eru í safninu 71 bók og þar á meðal bækur sem ekki voru til í Þórbergssetri svo sem Íslenskur aðall á norsku og dönsku og frumútgáfur af Gráskinnu frá 1926. Einnig voru til sýnis bókaskápar Þórbergs sem Hólmfríður Sigurðardóttir gaf Þórbergssetri, en áður hafði Margrét einkona Þórbergs gefið þá manni hennar Grími Helgasyni handritasérfræðingi sem er látinn fyrir allmörgum árum. Stjórn Þórbergsseturs þakkar af einlægni þann góða hug sem býr að baki svo myndarlegum gjöfum til stofnunarinnar. 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 4520
Gestir á þessu ári: ... 22543