Skip to main content

,,Fararefnið var andlegur arfur liðinna feðra og mæðra”

Þórbergssetur á Hala í Suðursveit tók formlega til starfa 1. júlí 2006. Undirbúningur að starfsemi þess hafði þá staðið allt frá árinu 2000. Það vakti mikla furðu, ekki síst í minni heimabyggð, þegar fyrstu hugmyndir um uppbyggingu menningarseturs til heiðurs Þórbergi Þórðarsyni litu dagsins ljós og fáir skildu hvað að baki lá. Í huga okkar sem störfuðum að uppbyggingunni er Þórbergssetur hins vegar eðlilegt framhald þess menningarstarfs sem einkennt hefur sveitasamfélög á Íslandi og líf fólks í Suðursveit. Þeir bræður Þórbergur Þórðarson og Steinþór Þórðarson á Hala í Suðursveit lögðu rækt við merkilegan menningararf og skiluðu honum til okkar í formi sígildra bókmennta og einstakra sagna frá liðinni tíð. Engin önnur sveit á Íslandi á sambærilegan menningararf. Tengingar við liðinn tíma birtast skýrt í verkum þeirra bræðra og þar má finna sterkt ákall um að menningarstarf til sveita megi blómgast áfram með tengslum við alþýðufróðleik frá liðnum tíma.

Það felst mikil auðlegð í menningu og sögu sveitasamfélaga á Íslandi. Hver kynslóð þarf að vera meðvituð um að tengja saman fortíð, samtíð og framtíð til þess að sérkenni menningarlífs hvers staðar og landshluta fái að lifa áfram í vitund okkar sem þjóðar. Alþýðumenningin er hámenning sveitanna, bókmenntir og sagnahefð áttu sér ríkan sess í þjóðarsálinni, og með þá arfleifð lögðum við af stað við uppbyggingu Þórbergsseturs. Bókaveggurinn sem nú blasir við vegfarendum sem leið eiga um Suðursveit er tákn um þann menningararf sem við eigum dýrastan, tákn um bókmenntir okkar og sagnahefð, þessar meginstoðir alþýðumenntunar og alþýðumenningar á Íslandi.

Bækur og frásagnir þeirra bræðra frá Hala, Þórbergs Þórðarsonar og Steinþórs Þórðarsonar, eru skýrar heimildir um menningarsögu Íslendinga á 20. öldinni. Þar má auðveldlega sjá hvernig óslökkvandi fróðleiksfýsn og framfarahugur knúði fólkið áfram, í bland við forneskju og hindurvitni og frjótt ímyndunarafl – þrátt fyrir afar kröpp kjör. Í þessum skrifum er hins vegar ekki alltaf auðvelt að greina hvað var afleiðing strauma eða fregna er bárust alþýðunni af alþjóðlegum menntunarstefnum utan úr heimi, eða hvað var frumkvæði og afleiðing óbilandi þekkingarþrár, skarprar greindar, einstaks atgervis, nákvæmni og glöggskyggni við að komast af í sambýli við óblíð náttúruöfl. Þjóðtrúin var sterk og lifði lengi í myrkri veröld hversdagsins. Skessurnar og álfarnir, draugarnir og ýmis hræðileg kvikindi svo sem sjóskrímsli og álar sem klipptu útlimi af fólki voru sem lifandi veruleiki sem auðguðu sagnaheiminn og daglegar upplifanir fólksins en viku þó hægt og sígandi fyrir aukinni þekkingu og betra aðbúnaði. Í heimi barnsins Þórbergs Þórðarsonar, sem fæddist fyrir 120 árum, var lífsbarátta foreldra hans og afkomenda þeirra samfelld ögrun upp á líf og dauða. Það var ekki heiglum hent að bjarga sér í þessari veröld – þú áttir ekki mörg líf ef þig bar af leið við fiskveiðar frá hafnlausri strönd þar sem óbrotin úthafsaldan réð ríkjum, við seladráp í Hrollaugseyjum sem bar við hafsbrún af hlaðinu á Hala, við að fanga kind á klettasnös með fljúgandi hengiflug á báða bóga, við að vaða jökulár eða klöngrast yfir jökulsprungur með sauðskinnskó á fótum. Ytri aðbúnaður fólksins til að sinna grunnþörfum var frumstæður, fólkið bjó upp á pallinum í fjósinu, baðstofa þótti of virðulegt nafn um húsakynnin, kýrnar og mannfólkið hjálpuðust að í baráttunni við vetrarkuldann og voru íbúar í sama húsi, ljóstýran frá kolunni og síðar olíulampinn voru einu ljósfærin, trékoppar voru undir rúmum en einnig deildi heimilisfólkið afnotum af flórnum með kúnum á köldum vetrardögum þegar kamarinn var langt undan. Eldhúsið var við hliðina á fjósbaðstofunni og konurnar þurftu að fara út til að elda á hlóðunum, börnin fæddust og gamla fólkið dó í rúmunum uppi á fjóspallinum. Drottinn Guð var þeirra eina skjól og vörn fyrir sjúkdómum og dauða – og víst er að ekki var áköfum áköllum fólksins til hans um hjálp og hlíf alltaf svarað með jákvæðum hætti.

Við þessar ytri aðstæður mótaðist menningarstig íslensku þjóðarinnar og fólksins í Suðursveit fram á 20. öldina. Það er þessi veröld sem mótaði rithöfundinn Þórberg Þórðarson og fylgdi honum alla tíð í lífi hans og verkum. Og við eigum honum það að þakka að það fólk sem hann ólst upp með er sem ljóslifandi og á meðal okkar enn í dag. Þórður og Anna, foreldrar hans, Benedikt afi og Guðný amma, Auðbjörg móðursystir, Þórarinn föðurbróðir og Guðleif móðursystir á Gerði, Steinn afi á Breiðabólsstað og Oddný á Gerði.

Í Þórbergssetri er lítið til af áþreifanlegum minjum sem minna á þessa veröld sem var. Þó eru þar geymdar nokkrar gamlar bækur sem hafa varðveist frá liðinni tíð. Þær eru flestar illa útlítandi en texti og titilsíður eru þó vel læsilegar. Flestar eru þær merktar eigendum sínum. Þessar bækur tala til okkar frá fortíðinni á áþreifanlegan hátt. Í Árnastofnun eru til margir klukkutímar, sennilega sólarhringar af efni sem Hallfreður Örn Eiríksson bjargaði frá glötun, sögur, þulur og frásagnir Steinþórs á Hala. Þar gætir áhrifa frá sagnasnilld Oddnýjar á Gerði langt aftur úr forneskju. Á handritadeild Landsbókasafns er mikill fjöldi handrita, dagbóka og minnispunkta Þórbergs. Þar er m.a. að finna nákvæmar veðurfarslýsingar og búháttarlýsingar frá árunum 1860 – 1880 haft eftir Katli Oddnýjarsyni frá Gerði. Á Hala er enn mikil þekking á umhverfi, staðháttum, örnefnum og fornum atvinnuháttum. Allt þetta styður við þann mikla fróðleik sem er í bókum Þórbergs um mannlíf og menningu á uppvaxtarárum hans í Suðursveit.

Þórbergur fer alfarinn að heiman og kveður Suðursveit árið 1906 átján ára að aldri. Erfitt er að finna í heimildum eitthvað um hvernig stóð á þessari brottför hans. Flest bendir til að þar hafi ráðið miklu menntunarþrá og að foreldrar hans hafi gert sér vonir um að hann gæti notið skólagöngu í höfuðborginni. Um brottförina segir Steinþór bróðir hans í bókinni Nú-Nú, bókin sem aldrei var skrifuð:

Eldra fólkið í Suðursveit, það virti Þórberg mjög. Það fann áreiðanlega, þó það hefði ekki mörg orð um það, hvað í drengnum bjó. Og þó að Þórbergur hafi ekki farið með mikil fararefni úr Suðursveit, þá fór hann samt með það, sem hann hefur mulið úr og mun lengst mylja úr, og það er sá andlegi arfur, sem hann fór með frá liðnum feðrum og mæðrum sínum.[1]

Það má miklum undrum sæta hversu hátt menntunarstig þjóðarinnar var í raun á Íslandi í lok 19. aldar ef það er sett í samhengi við þau bágu lífskjör sem þjóðin hafði búið við í aldaraðir. Í Skaftafellssýslum bjó fólk við meiri einangrun en víðast hvar á landinu. Þar réð hafnleysi miklu og erfiðar samgöngur þar sem yfir ótal jökulár var að fara, og jökullinn að baki sem ókleifur múr. Hins vegar mörkuðu þessar náttúrulegu aðstæður samfélag sem einkenndist af félagsbyggð, þar sem bændurnir og fjölskyldur þeirra bjuggu saman í litlum þorpum, á landspildum sem jökulárnar og jökulflóðin höfðu hlíft við ágangi og rofi. Í Suðursveit eru greinileg fjögur slík byggðarhverfi sem bera öll sérstök nöfn. Án nokkurs vafa hefur þetta byggðamynstur ýtt undir samhjálp og þjálfað samskiptagreind fólks, en jafnframt verið góður jarðvegur og undirstaða menningarlífs. Ljóst er að þar var fyrst og fremst byggt á ævafornum menningararfi sem hafði varðveist vel í munnlegri geymd og glöggri þekkingu á staðbundnum aðstæðum, sem erfðist á milli kynslóða m.a. vegna einangrunar. Þegar andi 19. aldar heldur síðan innreið sína í þetta samfélag með örvun frá upplýsingarstefnu, framfarahugsun og aukinni bókaútgáfu var jarðvegurinn til staðar. Rithöfundar á borð við Þórberg Þórðarson og Halldór Laxness spruttu ekki fram í íslensku þjóðlífi af engu, færni þeirra og þekking byggði á aldagömlum arfi íslensku þjóðarinnar sem þeir höfðu með sér frá liðnum feðrum og mæðrum svo ég noti hér aftur orðalag Steinþórs á Hala. Ég er því ekki sammála Steinþóri þegar hann segir að Oddnýjarsynir, synir þeirrar miklu fróðleikskonu Oddnýjar á Gerði, hafi komið með menninguna í Suðursveit. [2] en þeir voru sigldir menn og fóru m.a. til náms í Danmörku. Þeir blésu þó án nokkurs vafa í glæður þess elds er lifði innra með fólkinu og einkenndist af næmri greind, óseðjandi fróðleiksfýsn og þekkingarþrá í bland við frjótt ímyndunarafl og leit eftir fyllra og gleðiríkara lífi.

Þórður, faðir Þórbergs, og Anna, móðir hans, giftu sig á vordögum 1887. Þá var haldin mikil brúðkaupsveisla á Breiðabólsstað hjá Steini afa. Um leið giftu sig Þórarinn föðurbróðir Þórbergs og Guðleif móðursystir hans og Ragnhildur föðursystir Þórbergs og Ketill á Gerði sonur fyrrnefndrar Oddnýjar. Sem sagt þrefalt systkinabrúðkaup og systrabrúðkaup að auki. Það var enginn fátæktarbragur á þessari veislu. Þar réð Steinn afi gangi mála, án efa hefur hann einnig átt sinn þátt í að ákveða hver brúðhjónin voru. Dætur Benedikts og Guðnýjar á Hala voru góðir kvenkostir og það var hagkvæmni í að unga fólkið festi ráð sitt og tæki við búum á Sunnansandabæjunum. Þórður eldri sonurinn var orðinn 33 ára gamall, Anna 9 árum yngri, hún var elsta systirin á Hala, lagleg og gjafvaxta, ung mær. Ragnhildur dóttir Steins orðin 30 ára, sannarlega komin á giftingaraldur. Öll höfðu hjónaefnin alið aldur saman í bæjarþorpinu á Breiðabólsstaðarbæjum.

Það var reisn og höfðingjabragur á Gamla Steini á brúðkaupsdegi barna hans og hann söng hátt og með ringjum í kirkjunni með sinni háu og ólagvissu röddu og bauð bændum sveitarinnar að súpa á víni undir kirkjuveggnum. Hann hafði þó á undanförnum 20 árum horft á eftir fyrri konu sinni og tveimur dætrum af fyrra hjónabandi í gröfina, en náð sér í unga stúlku í næsta byggðarlag ári síðar og giftist henni. Á árunum 1876-1885 misstu þau Steinn og Þórunn, seinni kona hans, 4 dætur, síðast Guðrúnu Steinsdóttur 7 ára gamla í október 1885. Aldrei minnast þeir sonarsynir Gamla Steins einu orði á þær miklu raunir sem afi þeirra hafði hafði mátt þola í sínu persónulega lífi. Um slíkt var sennilega ekki talað. Frásagan af brúðkaupinu í upphafi bókarinnar Steinarnir tala er ein og sér leiftrandi listaverk með stórkostlegum mannlýsingum og þjóðháttarlýsingum og því merk heimild um mannfagnaði og mannlíf eins og það var í Suðursveit á 19. öld. Þann dag réð gleðin sannarlega ríkjum, fólkið hlakkaði til, rétt eins í dag þegar mikið stendur til. Og allt umhverfið lifnaði: „Súrmatarhnaus horfði glaðlega mót veislufólkinu. Það var eins og hann væri að segja: ,,Nú er gaman! Nú er gaman!“ ... En Járnhnaus var þungbúinn, eins og hann væri að hugsa: „Gamanið er stutt.““[3]

Réttu ári síðar byrjuðu börnin að fæðast, sem bendir til þess að ekki hafi unga fólkið haft mjög náin samskipti fyrir brúðkaupið, enda ekki tilhlýðilegt á þeim árum. Fyrst fæðist Þórbergur 12. mars 1888, rúmlega níu mánuðum eftir brúðkaupið, síðan Ragnar Þórarinsson 21. maí 1888, en 29. maí sama ár rættist feigðarboði svölunnar á bæjarburstinni á Breiðabólsstað frá því á brúðkaupsnóttinni ári áður. Ragnhildur Steinsdóttir, brúðurin frá Breiðabólsstað, fæddi andvana stúlkubarn og fékk síðan sjálf krampakast og dó. Þar með lést eina dóttir Gamla Steins sem komst til fullorðinsára, aðeins þrír synir af 11 börnum Steins afa voru nú á lífi. Öllum má ljóst vera hversu mikill harmur hefur verið kveðinn að fólkinu á Sunnansandabæjunum rétt ári eftir brúðkaupsveisluna miklu á Breiðabólsstað; gamanið var stutt og alvara lífsins aldrei langt undan.

Þórður á Hala var skynsamur maður, segir Þórbergur um föður sinn. Hann var sílesandi hvenær sem honum slapp verk úr hendi, en þó stirðlæs og frekar stirt um mál. Hann var vel skrifandi en hafði sig lítið frammi með það eins og annað. Þórður var athugull og fylgdist vel með veðri. Þórbergur segir að hann hafi haft skemmtun af að skoða náttúruna, litbrigði og hreyfingar lofts og lagar. Hann braut heilann um margt og gerði sér far um að vita sannleikann í því sem hann leiddi hugann að. Hann var sérlega gefinn fyrir að fræðast og spurði mikið ef gestir komu í heimsókn. Hugleiknustu fréttaefni voru þá búskaparhættir, bjargræðisvegir, landslagslýsingar, frásagnir af fólki, ættfræði, söguleg efni og landafræði. Þegar Steinþór var spurður að því hver hefði sagt honum sögur frá fyrri tíð þá talaði hann um föður sinn og Oddnýju á Gerði. Þórður miðlaði ýmsum fróðleik frá fyrri tíð en hafði einnig gaman af að segja sögur úr Íslendingasögunum, einnig raulaði hann stundum vísur við þá strákana í rökkursetunum, eins og „Kalt er úti í karlinum“, „Fljúga hvítu fiðrildin“ og „Hver er að hóa hér um móa“. Einnig fór hann með þulur eins og „Sat ég undir fiskihlaða föður míns“, „Gekk ég upp á hólinn, horfði ofan í dalinn“ og fleiri.

Hann kvað aldrei rímur en las þær mikið með sjálfum sér og hafði gaman af þeim. Þórarinn bróðir hans kvað aftur á móti rímur. Þórarinn las einnig allar þær bækur sem hann náði til. Þeir bræður stofnuðu lestrarfélag ásamt Oddnýjarsonum og fleiri bændum og eignuðust saman fjölda bóka. Á Hala var nokkuð til af bókum, þar á meðal Íslendingasögur, Fornaldarsögur Norðurlanda, Sögu af Gizuri jarli, riddarasögur, Jón biskup Arason, Brynjólf biskup og Eldingu eftir Torfhildi Hólm, Alþýðubók Þórarins Böðvarssonar, Landafræði Gröndals, ótal rímnabækur eins og Úlfarsrímur, Rímur af Finnboga ramma, húslestrabækur, sálmabækur, Guðbrandsbiblíu, Þjóðsögur Jóns Þorkelssonar og margar fleiri.[4]

Þessar gömlu bækur sem enn eru til á Hala eru vitnisburður um þá bókmenningu er einkenndi menningarlíf fólksins á Hala í uppvexti Þórbergs. Þarna má sjá sambland af bókum trúarlegs eðlis, skemmtisögur og skáldsögur, þjóðsögur og rímur, en einnig fræðibækur. Þessar bækur voru lesnar aftur og aftur, endursagðar og talað um þær fram og til baka. Fólk lærði utan að og þuldi rímur, þulur og ljóð og heilu ljóðabálkana með ótal erindum, oftar en ekki á mjög tyrfnu skáldamáli. Í Fjórðu bók lýsir hann hvernig hann sat á rúmi Auðbjargar, reri fram í gráðið og fór með rímur: ,,Hljómurinn í rímunum og margar lýsingar þeirra höfðu svo þægileg og örvandi áhrif á mig, að ég fór að yrkja rímur. Ég skrifaði ekki einn staf af þeim og festi ekki í minni eina einustu vísu. Ég orti þetta aðallega, þegar ég var á gangi við fé og kvað þær um leið og ég orti. Þetta var áreiðanlega lélegur skáldskapur og mun hafa staðið illa í stuðlum.“[5]

Anna, móðir Þórbergs, var hneigð til bóka og las oft þegar hún hafði tíma til, að sögn Þórbergs. Hún las svo vel að unun var á að hlýða. Hún las alltaf húslestrana á Hala. Faðir þeirra hlóð upp fyrir hana altari, sem kallað var svo, til að láta bókina hvíla á svo að hún gæti prjónað á meðan hún las. Þórbergur varð snemma læs og tók við hlutverki móður sinnar að lesa á vökunni. Hann lærði að lesa gotneskt letur af sálmabókinni og las það reiprennandi. Anna skrifaði sæmilega hönd og keypti sér á hverju ári pappír og penna úr kaupstaðnum og var ágætur stílisti á ritað mál, segir Steinþór. Hún átti lækningabók Jónassens og bæklinga um garðrækt. Hún hafði lært dönsku hjá Oddnýjarsonum. Þeir bræður tala af mikilli virðingu um gáfur og menntun móður sinnar og eftir að þeir komust til vits og ára voru þeir að reyna að hagræða ýmsu fyrir hana til að létta henni bústörfin.

Auðbjörg móðursystir var ekki eins greind og Anna segir Þórbergur. Hún var yngst þeirra Halasystra og giftist aldrei. Hún virtist ganga inn í vinnukonuhlutverk á heimilinu. Engin var hún bókamanneskja, átti þó eina bók, svokallað Hallgrímskver með sálmum og kvæðum eftir Hallgrím Pétursson.

Benedikt afi og Guðný amma virðast ekki hafa haft djúptæk áhrif á uppeldi strákanna á Hala, þó að þau hafi búið með foreldrum þeirra til dauðadags. Benedikt var talinn af samtímamönnum greindur karl, en um hann hefur verið sagt að hann hafi verið eins og utan við heiminn, algerlega tilfinningalaus og ekki kunnað að hræðast. Þegar honum var sagt andlát merkrar konu í Suðursveit lét hann sér fátt um finnast og sagði: „Ja, hún hefur nú nógu lengi fíflast í heiminum.“ Hann var enginn lestrarmaður, leit varla í bók nema sálmabókina. Ekki var hægt að sjá að hann hefði neina skemmtun af lestri Íslendingasagna eða annarra veraldlegra bóka á kvöldvökunni, eftir því sem dóttursynir hans sögðu. Hann virtist ekki skipta sér mikið af þeim. Steinþór vitnar sjaldan í Benedikt afa sinn, en undraðist þó hvað hann var kjarkaður að fara ofan í draugahlöðuna á Hala í myrkri án þess að vera nokkuð brugðið.[6]

Eftir ummælum Þórbergs að dæma hefur Guðný amma verið skapmikil og stolt húsmóðir sem ól dætur sínar upp í góðum siðum og kenndi þeim vel til verka. Amma hennar var Þórdísi Eiríksdóttir, systir Jóns Eiríkssonar konferensráðs, mikil gáfukona eins og öll þau systkini. Guðný var því m.a. náskyld Einari Benediktssyni og Þorbjörgu Sveindóttur. Hún sagði þeim strákunum oft sögur frá því þegar hún var í vist hjá prestinum á Stafafelli og fór með vísur sem hún lærði þar. Hún hefur án efa hvatt þær dætur sínar til að vera sjálfstæðar og læra bæði til bókar og handa til jafns við karlmenn enda er um hana sagt að hún hafi haft góða stjórn á búi og ráðið mestu um búskapinn á Hala á meðan hennar naut við. Í grein Þórbergs, „Lifandi kristindómur og ég“, má sjá að þær Guðný og Anna hafa borið hitann og þungann af trúaruppeldi barna sinna þar sem þau voru skyld að læra utan að fjölda sálma, bæna og ritningagreina.[7] Þórður var einnig strangur á trúarsiðunum og fylgdist með að öllum reglum um helgihald og bænalestur á heimilinu væri fylgt eftir í hvívetna. Hann las Biblíuna frá orði til orðs, ekki af trúaráhuga heldur fróðleiksfýsn, að sögn Þórbergs. Sungnir voru sálmar á undan og eftir öllum húslestrum og þá tók Benedikt afi sálmabókina og söng með, þó svo að lífiið væri oftast allt fyrir utan eins og Steinþór dóttursonur hans segir frá. Guðný amma lést í rúmi sínu í fjósbaðstofunni á Hala árið 1901, þegar Þórbergur er þrettán ára og lýsir hann andláti hennar og helgisiðum í kringum það á eftirminnilegan hátt í Fjórðu bók.[8]

Í bréfi rituðu 8. apríl 1916 færir Steinþór Þórbergi bróður sínum fregnir af dauða Benedikts afa þeirra. Þar segir svo:

10 nóvember í vetur andaðist Benedikt afi okkar. Hann var búinn að vera lasinn frá því í sumar, en alltaf með fullu ráði og leit út fyrir að lífið væri honum alltaf jafn léttbært og ánægjuríkt. Aldrei heyrðist hann æðrast um veikindi sín, heldur var von hans óbilandi um bata. Hann sofnaði út af hægt og rólega eins og barn við brjóst móðurinnar. Honum var vitjað meðala og læknis en allt til einskis. Þótt afi heitinn væri ekki neinn sérstakur atorkumaður var hann afbragðsprúðmenni bæði í lund og framgöngu. Þú manst víst vel eftir afa.[9]

Steinn, föðurafi Þórbergs, fæddist 1829 og virðist hafa verið meiri áhrifavaldur í lífi bræðranna á Hala en Benedikt afi. Hann var mikill höfðingi og ákafamaður eins og fyrr getur, gildur bóndi sem bar höfuðið hátt þrátt fyrir mótlæti. Hann var ekki talinn greindur en hafði mikið búvit og verkvit. Hann hafði mikla skemmtun af að heyra lesnar sögur og kveðnar rímur, hlýða á fólk segja frá og segja frá sjálfur. Hann las sjálfur á meðan hann hafði sjón, en varð snemma blindur. Eftir það lét hann lesa fyrir sig og var alveg friðlaus ef hann frétti af sögubók í nágrenninu, vildi ná um hana strax til lestrar. Hann hafði mesta skemmtun af frásögum af vígaferlum og stórorustum þar sem garparnir óðu fram í bardögum blóðugir upp að öxlum, að sögn Þórbergs.[10] Göngu-Hrólfur var hans uppáhalds sögupersóna, hann hafði gaman af Íslendingasögum, en fornaldarsögur Norðurlanda voru þó í meira uppáhaldi, svo og Noregskonungasögur, Úlfarsrímur og Andrarímur. Hann tók fagnandi öllu nýju lesefni og þegar Þúsund og ein nótt barst á bæina með öllum sínum glæstu ævintýrum á hann að hafa sagt: „Þæ-þær er nógu góðar þessar arabiskupasögur.“[11]

Steinn söng mikið, hann kunni alla söngtexta og sönglög sem þá tíðkuðust þar eystra og raulaði oft fyrir munni sér, en var þó ekki lagviss. Steinn varð blindur mjög snögglega sextíu ára gamall. Hann hélt þó fullri virðingu og gekk til verka eftir það og stjórnaði búskapnum á Breiðabólsstað löngu eftir að hann varð blindur. Hann lét leiða sig í fjárhúsin til þess að þukla holdafar fjárins og saga er til um það er hann var leiddur niður í fjöru að segja til um sjóveður. Þeir sonarsynir hans frá Hala vitna oft í Stein afa og án efa hefur hann spurt þá í þaula þegar þeir komu í heimsókn. Frásagnir Þórbergs benda til þess að þeir hafi leitt blindan afa sinn um grundir og lýst fyrir honum því sem fyrir augu bar. Víða í frásögum Steinþórs á Hala má sjá að hann vitnar í afa sinn og sögur sem hann sagði frá gamalli tíð. Steinn andaðist 94 ára gamall 14. desember 1923. „Nú segir hann ekki lengur sögur um sjóferðir,“ segir Steinþór í bréfinu til Þórbergs þar sem hann greinir Þórbergi frá andláti afa þeirra.[12]

Steinunn Þórðardóttir systir Steins bjó á næsta bæ á Reynivöllum og stóð þar lengi fyrir búi með börnum sínum eftir að maður hennar dó. Steinunn Guðmundsdóttir, kona Steinþórs á Hala, ólst upp hjá ömmu sinni á Reynivöllum. Hún vitnaði oft í ömmu sína og sagði að hún hafi kennt sér þulur og ljóð. Steinunn yngri var mjög lagviss og söngvin og til eru upptökur með henni þar sem hún syngur gömlu Passíusálmalögin sem hún lærði í uppvextinum á Reynivöllum. Sagðist hún hafa verið byrjuð að syngja þau sex ára gömul og ekki hafi hún heyrt hin nýrri lög fyrr en á fullorðinsárum.

Oddný Sveinsdóttir á Gerði er þó sú persóna sem hæst ber í frásögum þeirra bræðra þegar þeir fjalla um eldra fólkið á Breiðabólsstaðarbæjunum sem uppi var á þeirra tíð. Oddný var fædd 1821 í Borgarhöfn og lést 1917, þá nær 96 ára gömul. Móðir hennar var af Steinsætt en að henni stóðu máttugir stólpar kvenskörunga í Suðursveit eins og Rannveig á Felli sem miklar sögur fara af. Ummæli þeirra bræðra um þessa merkiskonu eru öll á einn veg. Hún var ákaflega fróð á frásagnir af fólki og ættum, þjóðsagnir og dularfulla atburði, kunni mikið af kvæðum, vísum og þulum, langt fram yfir það sem aðrir samtíðarmenn hennar kunnu. Hún hafði nákvæmt söngeyra og raulaði gjarnan kvæði sem hún fór með. Hún var skáld gott og vel að sér í Eddukenningum – „kunni kenningar Snorra Eddu utan að,“ eins og haft er eftir Steinþóri á Hala.[13] Hún las mikið á fyrri árum, var vel lesin, og sagði börnunum meginþáttinn úr goðafræðinni, að því er Steinþór segir á öðrum stað.[14]

Oddný þótti dýrlegur gestur á bæjum, var ófeimin við að segja frá og frásagnir hennar urðu gjarnan sögulegri en efni stóðu til, en þó fór hún alltaf með satt mál. „Ein af mínum skemmtilegustu minningum var þegar við strákar fórum niður að Gerði og sátum við rúmstokk Oddnýjar á rökkursetunum og hlustuðum á hana fara með fróðleik sem hún flutti bæði í ljóðum og þulum,“ segir Steinþór Þórðarson.[15] Um Oddnýju eina væri hægt að skrifa heila bók, svo merkileg er saga þessarar alþýðukonu sem bjó í Suðursveit um miðja 19. öldina. Hún átti miklu barnaláni að fagna kom níu sonum og einni dóttur til manns auk fósturdóttur og stóð ein fyrir búi með börnum sínum eftir að hún missti mann sinn. Synir hennar sigldu meðal annars til Danmerkur að leita sér menntunar, sem þekktist vart í Skaftafellssýslum á þessum tíma. Þeir voru fyrstu kennarar í Suðursveit og stóðu að ýmsum framfaramálum á menningarsviði á árabilinu 1880-1890, en fluttu síðan allir úr sveitinni.

Oddný var alin upp á Hofi í Öræfum hjá móður sinni, föður og síðar stjúpföður. Þær voru fimm systurnar á Hofi Sveinsdætur og ortu allar undir dýrum bragarháttum. Má það undrum sæta hvernig alþýðukonur á Íslandi öðluðust svo mikinn áhuga á skáldskap og skáldskaparfræðum og hefur varðveist kveðskapur eftir þær allar[OU1]. Í byggðahverfinu á Hofi bjuggu í upphafi 19. aldar mörg alþýðuskáld sem kveðskapur hefur varðveist eftir. Elstur þeirra var Mála-Davíð, sonur Jóns lærða Jónssonar, norðlenskur maður fæddur í Kelduhverfi 1766. Kona Davíðs var frá Hofi og þar bjó hann í 11 ár. Hann átti stærra safn handskrifaðra bóka en flestir Íslendingar um hans daga. Ebenezer Henderson sem ferðaðist um Ísland á árunum 1814 - 1815 undraðist mjög bókaeign og fróðleik þessa búandkarls í afskekktri sveit á Íslandi.,, Hann á yfir hundrað sögur og flestar þeirra kann hann utanbókar.”[16] Þó að Mála-Davíð hafi búið á Hofi fyrir tíð Oddnýjar er ekki ósennilegt að gætt hafi mikilla áhrifa af veru hans þar, ekki síst vegna þess að þar bjuggu áfram skáld sem höfðu áhuga á bókmenntum og voru samtíða fjölskyldu Oddnýjar. Líklegt er að Oddný hafi lært Eddukenningar af bók, svo flóknar sem þær kenningar eru, en e.t.v. hefur munnleg geymd stutt við þá þekkingu frá þekktum rímum og ljóðum. Leiða má líkur að því að handrit af Snorra Eddu hafi verið til á Hofi en Snorra Edda var fyrst gefin út af Rasmusi Rask árið 1818 og prentuð í Stokkhólmi. Handskrifuð handrit af fornbókmenntum Íslendinga fóru hins vegar á milli alþýðu manna og fjöldi fólks lagði sig niður við að skrifa upp heilu bækurnar til að hafa að þeim aðgang. „Með dauða Oddnýjar slokknaði skærasta ljós Suðursveitar sem þar logaði á minni tíð,“ segir Þórbergur í umfjöllun sinni um Oddnýju.[17]

Af því sem að framan er ritað er ljóst að það var enginn kotbragur á hugsun eða andlegu atgervi þess fólks er hér hefur verið fjallað um og bjó í nánu sambýli á Breiðabólsstaðarbæjunum á árunum frá 1860-1920. Á sviði bókmennta og sagnamenntar efast ég stórlega um að finna megi slíka þekkingu á fornbókmenntun okkar á Íslandi í dag nema hjá okkar fremstu háskólaprófessorum í íslensku, sagnfræði og heimspeki. Hversu mikið má alhæfa út frá þessum lýsingum veit ég ekki en ljóst er að að sú saga sem hér hefur verið sögð er ekki einsdæmi og víða má finna skýr dæmi um hámenntaða sjálfmenntaða einstaklinga af báðum kynjum í sveitum þessa lands á 20. öld. Frumstæð umgjörð daglegs lífs, erfiðisvinna og sambýli við erfið náttúruöfl drógu ekki úr andlegum þrótti eða áhuga fólks á sagnamennt og bókmenntum nema síður væri. Þegar könnuð er bókaeign á Hala sem varðveist hefur til okkar daga kemur berlega í ljós að landfræðileg einangrun fólksins átti sér ekki hliðstæðu á andlega sviðinu. Áhugi fólks beindist að öllu milli himins og jarðar og jafnóðum og bókaútgáfa og aukin framfara- og menntunarhugsun barst inn í byggðina var aldagamall arfur til staðar í munnlegri geymd til að byggja frekari framfarir og menntun á. Saga fólksins á Breiðabólsstaðarbæjunum er saga lifandi alþýðumenningar á Íslandi frá hefðbundinni menningu hins talaða orðs til ritmenningar. Á Hala lifði arfur hinnar munnlegu geymdar allt til ársins 1981 er Steinþór féll frá og áhrifa frá þjóðtrúnni gætti enn á þeim tíma. Hann sagði sögur og fór með þulur og ljóð sem rekja má m.a til Oddnýjar á Gerði alveg fram í andlátið. Börnin sem ólust upp á Breiðabólsstaðarbæjunum frá 1960-1980 fengu þennan alþýðufróðleik beint í æð, lærðu örnefni og sögur tengdar þeim, hlustuðu á sögur af skessum, útburðum og draugum, og reru sér og sungu vísur og ljóð með afa sínum og langafa nánast hvern einasta dag og Steinunn amma raulaði með. Lesa má greinilega þróun alþýðumenntunarinnar í gegnum líf kynslóðanna á Breiðabólsstaðarbæjunum, frá sagnageymd og aðgengi að fáeinum uppskrifuðum bókum, aðallega trúarlegs eðlis, yfir í rímur, eldri fornbókmenntir, síðan aukna lestrar og skriftarkunnáttu, betri aðgang að prentuðum bókum og fræðiritum, lestur skáldsagna, tímarita og ættjarðarljóða, auknar bréfaskriftir, útgáfa handskrifaðara blaða, stofnun lestrarfélaga og félagasamtaka yfir í formlega skólagöngu skipulagða af yfirvöldum hvers tíma. Sú spurning verður áleitin hvort við höfum metið að verðleikum mikilvægi þessara menningarlegu þátta fyrir þjóðfélagsþróunina í heild og hvort að okkur beri af leið nú þegar komið er fram á 21. öldina. Þar má einnig spyrja hvort menntunarkröfur nútímans séu tengdar þeim menningararfi sem við eigum dýrastan, sem eru án nokkurs vafa bókmenntir og sagnahefð.?

Í skrifum Þórbergs og Steinþórs má víða og mjög snemma greina áhyggjur þeirra af því að gömlu sögurnar og fróðleikur í munnlegri geymd glatist ef ekkert verði að gert. Framsýni þeirra í þessum efnum er grunnurinn að þeirri þekkingu sem uppbygging og starfsemi Þórbergsseturs er byggð á í dag. Í bréfi til Þórbergs frá Steinþóri, bróður hans, dagsettu 8. apríl 1916, kemur fram að þá situr Þórbergur við að semja skýringar við Snorra-Eddu og skáldskaparmál hennar. Ekki er erfitt að geta sér til um hvaðan sá áhugi hefur komið. Í bréfinu má merkja mikla eftirvæntingu hjá Steinþóri að fá að lesa bók Þórbergs, en skýringarnar komu reyndar aldrei út.[18] Í bréfinu stendur orðrétt:

Mikið hefðum við gaman af ef þú kæmir austur til okkar í sumar. Ég gæti vel trúað að þú gætir grafið hér upp gamlar sagnir sem eru að falla í gleymsku, því hér í Austur-Skaftafellssýslu eru mjög litlar sagnir á prent komnar eftir því sem er víða annars staðar og trúi ég vart að það sé af því að hér hafi ekki gerst sögulegir viðburðir heldur af hinu að þeim hefur eigi á loft verið haldið annað hvort af því að sögufróðir menn hafa ekki verið hér í sýslu sem ekki er trúlegt eða þá að hingað hafa eigi komið þeir fræðimenn sem lagt hafa sig í framkróka að grafa þær upp. Ég er viss um að fróðir menn sem vel kunna að spyrja gætu máski fengið hér upp einhvern gamlan fróðleik. Ég held að þú gerðir réttast í því ef ástæður þínar leyfðu að heimsækja okkur í sumar.[19]

En Þórbergur kom ekki að Hala sumarið 1916 og í Bréfi til Láru harmar hann það mikið að Oddný fór með allan sinn fróðleik í gröfina: „Mér er óhætt að segja, að hún hafi kunnað bæði í stóru og smáu alla sögu Austur-Skaftafellssýslu frá því um aldamótin 1800 og fram til þess er hún andaðist.“[20]Þórbergur segir að hann hafi ekki fengið undirtektir hjá fræðimönnum við að skrifa upp eftir henni: „Það morar af sögnum víða um land, en flest grotnar niður í matarhyggju og hirðuleysi,“ segir hann í sama kafla.[21]

Þegar Hallfreður Örn Eiríksson þjóðfræðingur spyr Steinþór á Hala á sjöunda áratug síðustu aldar, þá aldraðan bónda, hvort honum finnist þær sögur sem hann er að segja unga fólkinu í dag hafa einhverju hlutverki að gegna svarar hann með þessum orðum:

Ég veit það nú ekki, þetta er nú meira sagt til að halda við og sýna alþýðufróðleik eins og hann var. Það er nú svona með okkur gömlu mennina að við teljum það hafa mikið gildi að alþýðufróðleikurinn fái að lifa áfram með þjóð okkar og ef að engar sögur eru sem binda þátíð og nútíð saman, þá er alltaf hætta á ferðum með okkar þjóðmenningu og að eitthvað glatist.[22]

.

Heimildaskrá:

Ebenezer Henderson Ferðabók , Snæbjörn Jónsson & co HF Reykjavík 1907

Einar Bragi; Skáldin á Hofi, Skaftfellingur 4. árgangur bls 145 – 157. Sýslnefnd Austur Skaftafellssýslu 1984

Ingi Sigurðsson og Loftur Guttormsson; Alþýðumenning á Íslandi 1830 – 1930 Ritað mál, menntun og félagshreyfingar, Háskólaútgáfan 2003

Stefán Jónsson: Nú-Nú, bókin sem aldrei var skrifuð, Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar 1970

Steinþór Þórðarson, Bréf til Þórbergs Þórðarsonar 8. apríl 1916

Steinþór Þórðarson; Bréf til Þórbergs 1924

Þórbergur Þórðarson: Bréf til Láru. Reykjavík: 1924,

Þórbergur Þórðarson: „Lifandi kristindómur og ég“, Iðunn 13:1929

Þórbergur Þórðarson: Í Suðursveit, Reykjavík: Mál og menning 1975,

Upptökur Hallfreðar Arnar Eiríkssonar, Viðtöl við Steinþór Þórðarson bónda á Hala

varðveittar í Árnastofnun

Kirkjubækur Kálfafellstaðarkirkju

 


[1] Stefán Jónsson: Nú-Nú, bókin sem aldrei var skrifuð, Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar 1970, s. 137.

[2] Stefán Jónsson: Nú-Nú, bókin sem aldrei var skrifuð, Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar 1970, s. 95

[3] Þórbergur Þórðarson: Í Suðursveit, Reykjavík: Mál og menning 1975, s. 13.

[4] Ítarlegri upptalningu á bókakostinum á Hala er að finna í „Fjórðu bók“. Sjá Þórbergur Þórðarson: Í Suðursveit, s. 408.

[5] Þórbergur Þórðarson: Í Suðursveit, Reykjavík: Mál og menning 1975, s. 410.

[6] Upptökur Hallfreðar Arnar Eiríkssonar varðveittar á Árnastofnun

[7]Þórbergur Þórðarson: „Lifandi kristindómur og ég“, Iðunn 13:1929, s. 162-177 og 242-277, hér s. 263-264.

[8]Þórbergur Þórðarson: Í Suðursveit, Reykjavík: Mál og menning 1975,s. 445-446.

[9] Steinþór Þórðarson: Bréf til Þórbergs 8. apríl 1916

[10] Þórbergur Þórðarson: Í Suðursveit, Reykjavík: Mál og menning 1975, s 451

[11] Þórbergur Þórðarson: Í Suðursveit, Reykjavík: Mál og menning 1975, s 451

[12] Steinþór Þórðarson; Bréf til Þórbergs 1924

[13] Upptökur Hallfreðar Arnar Eiríkssonar, varðveittar í Árnastofnun

[14] Upptökur Hallfreðar Arnar Eiríkssonar, varðveittar í Árnastofnun

[15] Upptökur Hallfreðar Arnar Eiríkssonar, varðveittar í Árnastofnun

[16] Ebenezer Henderson Ferðabók , Snæbjörn Jónsson & co HF Reykjavík 1907 s 150

[17] Þórbergur Þórðarson: Í Suðursveit, Reykjavík: Mál og menning 1975,s 475

[18] Skýringar eru varðveittar á Lbs. í heillegu handriti. ??

[19] Steinþór Þórðarson, Bréf til Þórbergs Þórðarsonar 8. apríl 1916

[20] Þórbergur Þórðarson: Bréf til Láru. Reykjavík: [útgefanda vantar] 1924, s. 143.

[21] Sama.

[22] Upptökur Hallfreðs Arnar Eiríkssonar varðveittar í Árnastofnun


 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 8411
Gestir á þessu ári: ... 86474