Menningarviðburður á miðju sumri

mynd fyrir holaHinir árlegu tónleikar Þórbergsseturs og Kálfafellstaðarkirkju verða sunnudaginn 28. júlí í Kálfafellsstaðarkirkju. Athöfnin hefst  kl 14:00 með  guðþjónustu, Sigurður Kr Sigurðsson sóknarprestur predikar.  Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari sjá um tónlistarflutning í messunniAð lokinni guðþjónustu hefjast síðan tónleikar. Það eru þau Guðný Guðmundsdóttir 1. konsertmeistari Sinfoníuhljómsveitar Íslands og eiginmaður hennar Gunnar Kvaran sellóleikari sem ætla að heiðra okkur með  heimsókn Í Suðursveit  í tilefni af  Ólafsmessu á sumri, en kirkjan á Kálfafellsstað var helguð Ólafi helga Noregskonungi í kaþólskum sið. Í upphafi tónleikanna verður rifjuð upp gömul þjóðsaga um Völvuna á Kálfafellsstað systur Ólafs helga og í lok tónleikanna verður farið í gönguferð að Völvuleiðinu undir Hellaklettum.

Efnisskrá tónleikanna er eftirfarandi:


Haydn: Dúett fyrir fiðlu og selló í D-dúr  (1732-1809) Poco Adagio -  Tempo di menuetto -  Allegro

J.S.Bach:    Þættir úr einleiksverkum (1685-1750) 

Þýsk þjóðvísa:  Blátt lítið blóm eitt er.

Atli Heimir Sveinsson: Intermezzo úr Dimmalimm (1938-)

Pablo Casals: Söngur fuglanna (1876-1973)

Herbert H. Ágústsson: Umritun á íslenskum þjóðlögum (1926-) - Fuglinn í fjörunni - Sofðu unga ástin mín - Góð börn og vond

 

Það er mikill heiður fyrir okkur Skaftfellinga að fá þessa miklu listamenn til að spila í kirkjunni á Kálfafellsstað en kirkjan er  frábært tónlistarhús með góðan hljómburð.

 

Guðný Guðmundsdóttir var ráðin 1.konsertmeistari við Sinfóníuhljómsveit Íslands  haustið 1974. Hún hefur leitt hljómsveitina undir stjórn margra heimsþekktra hljómsveitarstjóra og leikið með mörgum frægustu einleikurum og einsöngvurum heims. Má þar t.d.nefna tenórana þrjá, Pavarotti, Domingo og Carreras,einleikarana  Emil Gilels, Claudio Arrau,  Rudolf Serkin, Itzak Perlman, Mstislav Rostropovich, og háðfuglinn fræga Victor Borge.

Auk starfa sinna í hljómsveitinni hefur hún verið farsæll kennari  og kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík í áratugi. Hún hefur nú umsjón með fiðludeild Listaháskóla Íslands. Margir nemendur hennar eru í fremstu röð íslenskra fiðluleikara.  Á undanförnum árum  hefur Guðný, auk viðamikils tónleikahalds heima fyrir,gert víðreist á erlendri grund og komið fram sem einleikari með hljómsveitum m.a. í  Bandaríkjunum,  Mexíkó, Hong Kong og Puerto Rico. Hún hefur einnig haldið tónleika í Ísrael, Japan og Kína og í mörgum Evrópulöndum og á Norðurlöndum. Hún hefur verið gestakennari og haldið tónleika víða í  erlendum háskólum og  má þar nefna Tónlistarháskólann í Bejing í Kína, háskólana í Houston í Texas, Phoenix  í  Arisona og Urbana í Illinois ,   auk þess að koma fram á fjölda sumarhátíða sem kennari, einleikari og í kammertónlist.

 Guðný  hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir tónlistarstörf, s.s. Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu árið 1989 og Menningarverðlaun DV árið 1990.

Guðný  er meðlimur í Tríói Reykjavíkur ásamt Peter Máté píanóleikara  og Gunnari Kvaran sellóleikara. Hún hefur leikið inn á nokkrar geislaplötur bæði einleik og kammertónlist.

 

Gunnar Kvaran er fæddur í Reykjavík árið 1944. Hann hóf tónlistarnám í Barnamúsíkskólanum þar sem kennari hans var Dr. Heinz Edelstein. Síðar stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Einari Vigfússyni og við Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn þar sem kennari hans var prófessor Erling Blöndal-Bengtsson. Framhaldsnám stundaði hann hjá prófessor Reine Flachot í Basel. 

Gunnar Kvaran hefur kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík í þrjátíu ár og var ráðinn  prófessor við  tónlistardeild Listaháskóla Íslands haustið 2005 . Hann stundar auk fastra starfa umfangsmikið tónleikahald bæði heima og erlendis. Hann hefur haldið einleiks og kammertónleika í mörgum Evrópulöndum, auk Bandaríkjanna og Kanada og m.a. komið fram í Wigmore Hall í London, Carnegie Hall í New York, í Beethoven Haus í Bonn og Mendelsohn Haus í Leipzig. Hann er meðlimur í kammerópnum Tríó Reykjavíkur. Gunnar hefur margsinnis leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, komið fram í útvarpi og sjónvarpi og allmargar hljómplötur og hljómdiskar hafa verið gefnir út með leik hans. Hann hlaut verðlaun úr sjóði Dr.Gunnars Thoroddsens árið 1990 fyrir tónlistarstörf og var valinn bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 1996. Mörg undanfarin sumur hefur hann verið gestur á hinum ýmsu tónlistarhátíðum í Bandaríkjunum. Sumurin 1999 og 2000 var honum einnig boðið að kenna og leika á tónlistarhátíð í Grikklandi.  Í desember 2001 var honum boðið að koma fram ásamt Hauki Guðlaugssyni organista á sérstökum hátíðartónleikun í Vendrell á Spáni, fæðingarbæ Pablo Casals. Þann dag voru 125 ár liðin frá fæðingu meistarans. Gunnar var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu í júní 2006

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 65
Gestir þennan mánuð: ... 10384
Gestir á þessu ári: ... 40647

Þórbergssetur - Hala, Suðursveit - 781 Höfn í Hornafirði - Sími: 478-1078 - Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Copyright © 2023. All Rights Reserved.

Fara efst