Skip to main content

Merkar gjafir til Þórbergsseturs

handritFyrir nokkru síðan bárust Þórbergssetri merkar gjafir frá Jóni Sigurðssyni fyrrverandi ráðherra. Þar er um að ræða tvö handrit, annað af kvæðinu Nótt og hitt frumhandrit af Eddu Þórbergs. Bæði eru handritin handskrifuð af rithöfundinum sjálfum, en þannig skilaði hann af sér verkum sínum til prentunar. Handritið af kvæðinu Nótt er reyndar einkagjöf til ömmu Jóns Sigurðssonar og um það segir Jón. 

Kvæðið Nótt færði Þórbergi ungum viðurkenningu þegar það birtist í tímariti. Amma mín, Guðrún Jóhannsdóttir frá Stökkum á Rauðasandi, var bekkjarsystir Þórbergs í Kennaraskólanum í Reykjavík og gaf hann henni þetta handrit sitt á námstíma þeirra þar. Hún átti það síðan og gaf mér einhvern tíma á 7. áratugnum. Krot neðan við lok kvæðisins kann ég ekki að skýra, en veit að handritið hafði um tíma legið í skúffu sem ýmsir nemendur ömmu gátu komist í. Einhvern tíma setti ég litla límborða á handritið þar sem það var illa rifið. – Kvæðið er einnig í prentsmiðjuhandriti Eddu Þórbergs ."

Um hitt handritið þ.e. handritið af Eddu Þórbergs  lét Jón fylgja með eftirfarandi texta.

,, Handritið að Eddu Þórbergs tók ég á stigagangi í Prentsmiðjunni Hólum við Þingholtsstræti í Reykjavík árið 1969. Þá var verið að bera mikla hauga af alls konar úrgangi og drasli úr prentsmiðjunni og út í sorpbíl. Ég var á þessum tíma í vinnu hjá útgáfufélaginu Máli og menningu/Heimskringlu. Af tilviljun sá ég þetta handrit og benti nærstöddum á, en hann svaraði að öllu ætti að fleyja. Þá hirti ég þetta og ákvað að koma því einhvern tíma í betri vörslur. Á hverju blaði er stungið lítið gat. Þetta skýrist af því að venja var að setjari stakk handritsblaði á sérstakan tein við setjaravélina að lokinni setningu hvers blaðs. Ég hef ekki athugað hvort þetta er allt handritið eða eitthvað skert. – Og hér er kvæðið Nótt á sínum stað í prentsmiðjuhandritinu."

 Stjórn Þórbergssetur þakkar af alhug þessar höfðinglegu gjafir til stofnuninnar en systir Jóns,  Guðrún Sigurðardóttir afhenti þær í Þórbergssetri á dagskrá sem þar var haldin 17. mars síðastliðinn.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 85
Gestir þennan mánuð: ... 8622
Gestir á þessu ári: ... 16662