Skip to main content

Óþrotlegur auður

graeni jakiLjósmyndasýningin ,,Óþrotlegur auður“ er metnaðarfull og nýstárleg sýning þar sem markmiðið er að  tengja bókmenntatexta úr verkum Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar við ljósmyndir og standa þannig fyrir kynningu á stórbrotnu landslagi Skaftafellssýslna með nýstárlegri framsetningu. Sýningunni er ætlað að auka þekkingu ferðamanna á fjölbreytilegri náttúru í Skaftafellssýslum, en um leið að kalla fram hughrif, upplifun og áhuga á að heimsækja aftur og aftur þetta einstaka landsvæði til að njóta náttúrunnar―bæði að sumri til og vetri.

Í verkum Þórbergs Þórðarsonar má víða finna einstakar lýsingar á náttúru og umhverfi. Hann segir á einum stað að hann hafi snemma tekið eftir því stóra í hinu smáa og á öðrum stað segir hann að það hafi aldrei hvarflað annað að honum en að allt í náttúrunni væri með lífi―enda tala steinar, náttúran andar og stynur og veraldarhafið syngur margraddaðar óperur í suðrinu. Textarnir sem birtir eru með ljósmyndunum eru úr eftirtöldum verkum Þórbergs Þórðarsonar: Steinarnir tala, Um Lönd og lýði, Bréfi til Láru og Ofvitanum.

Þorvarður Árnason umhverfisfræðingur er búsettur á Höfn í Hornafirði og því í einstakri aðstöðu til að fanga hin fjölmörgu litbrigði og undur er birtast í náttúrurfari í Skaftafellssýslum, allt árið um kring.Hann er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði og hefur sem slíkur unnið náið með ferðaþjónustuaðilum í Ríki Vatnajökuls og með Vatnajökulsþjóðgarði. Ljósmyndun og kvikmyndagerð skipa stóran sess í lífi Þorvarðar og nýtir hann allar frístundir sem gefast til að sinna þeim―og njóta um leið stórbrotinnar og síbreytilegrar náttúru Suðausturlands. Ljósmyndir Þorvarðar á sýningunni eru ellefu talsins, teknar jafnt á nóttu sem degi á fjölmögum ljósmyndaferðum hans um Ríki Vatnajökuls á undanförnum árum.

Tony Prower ljósmyndari er Englendingur sem býr og starfar á Íslandi um þessar mundir og rekur fyrirtækið IcelandAurora, ljósmyndaferðaþjónustu á Íslandi. Tony er ástríðufullur áhugamaður um landslagsljósmyndun og íslenska náttúru. Hann dáist sérstaklega að stórbrotinni náttúru Suðausturlands og hefur komið með fjölmarga gesti í heimsókn á Hala til að njóta töfra staðarins.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 8873
Gestir á þessu ári: ... 16913