Skip to main content

Gönguferðir í Suðursveit

Halaferðir er félagsskapur sem bíður upp á persónulega leiðsögn um fjalllendi Suðursveitar sumarið 2012  Um er að ræða leiðsögn heimaaðila á þremur leiðum sem höfða til fjölbreytts hóps göngufólks.  Leiðirnar sem í boði eru:  Nautastígur, Garðhvammur – Miðfell - og Ævintýri Innri Veðurárdals.  Leiðirnar eru misjafnlega krefjandi en bjóða allar upp á ógleymanlega upplifun af náttúru svæðisins, sögu þess og menningu þar sem sögur eru sagðar af bændum sem ræktað hafa landið, heimilisfólki, kennileitum, álfum og tröllum.  Einnig er lesið upp úr ritum sem heimamenn á Hala hafa ritað í gegnum tíðina.  Má þar nefna Þórberg Þórðarson, Steinþór Þórðarson,  Torfa Steinþórsson og Fjölni frá Hala.


Hjónin Haukur Ingi Einarsson og Berglind Steinþórsdóttir taka að sér leiðsögn eftirfarandi helgar  sumarið 2012.

Júní, 9, 10, 30               

Júlí, 7,8, 21,         

Ágúst, 11, 12

 

Lýsing á leiðunum:

Nautastígur:

Ferðin er í meðallagi krefjandi og tekur á bilinu 6 – 8 klst fyrir flesta gönguhópa.
Lagt er af stað frá Þórbergssetri milli 8:00 – 9:00, keyra þarf inn Kálfafellsdal til að komast að Nautastíg. Akstursferðin inn Kálfafellsdal er út af fyrir sig einstök þar sem Birnudalstindur, Kaldárgil og Brókarjökull setja svip sinn á dalinn.Lagt er af stað Nautastíginn og komið niður í Hvannadal sem er afskekktur dalur og fáfarinn af ferðamönnum. Í Hvannadal er mikið um fallega fossa og sérstakt landslag, einstaka kindur eru á stangli og oft er hægt að sjá rjúpur og hreindýr í Hvannadal. Gengið er  fram Hvannadal meðfram Dalsánni  að Kálfaflötum og Miðfelli þar sem stoppað er og sest við ævafornt fjalhögg. Gott er að borða nesti í Miðfelli og safna kröftum fyrir næsta áfanga leiðarinnar. Frá Miðfelli liggur leiðin í átt að Garðinum þar sem hlaðinn var garður fyrir nautin sem dvöldu í Hvannadal sumarlangt fyrr á öldum. Við Garðinn og í Garðhvammi  getur þú virt Klukkugil fyrir þér og kíkt niður í Myrkrin.  Klukkugil er  340 metra djúpt þar sem það er dýpst og mjög hrikalegt.  Þaðan liggur leiðin síðan niður merkta gönguleið að Skógræktargirðingunni þar sem gönguferðinni líkur, en ævintýri kvöldsins taka við. Hægt er að dvelja á Hala, Gerði eða Hrollaugsstöðum og njóta veitinga á Þórbergssetri sem býður upp á fjölbreytt hlaðborð, beint frá býli.

Nauðsynlegur búnaður:Góðir gönguskór, góður útivistarfatnaður og góður bakpoki fyrir nestið ( yfirleitt nóg fyrir pör/hjón að vera með einn bakpoka) myndavél. Gott aðgengi er að vatni á leiðinni. Hámarksfjöldi er 20 eða eftir nánari samkomulagi. Verð á mann 8.000

Garðhvammur – Miðfell:

Ferðin er í minna en meðallagi krefjandi og tekur á bilinu 6 – 8 klst fyrir flesta gönguhópa.
Lagt er af stað frá Þórbergssetri milli 8:00 – 9:00, keyra þarf inn Steinadalinn og að Skógræktargirðingunni þar sem gengið er af stað eftir merktri gönguleið upp í Garðhvamm. Leiðin er vörðuð með upplýsingaskiltum þar sem gaman er að staldra við, lesa  á skiltin og njóta náttúrunnar , horfa inn í Sauðdal og upp í Leynidal  en ganga síðan niður í Þröngina og inn í Garðhvamm þar sem krossinn hans Þórbergs er.. Frá Garðhvammi er gengið eftir götu í brattri skriðu  inn á Garð. Þar tekur Hvannadalur við, ,, hljóður og einmana dalur, langt frá mannabyggðum" með einstöku landslagi, Dalsáin liðast áfram og fellur í Klukkugilið. Gengið er meðfram Dalsánni og í átt að Miðfelli. Í Hvannadal er mikið um fallega fossa og sérstakt landslag, ef tími gefst til er hægt að ganga inn í Klifagil. Til að komast inn að Miðfelli þarf að þvera Dalsána og því gott að vera með vaðskó með sér til að vera tilbúin að ganga berfætt/ur yfir Dalsána. Í einstaka tilfellum er hægt að stikla á steinum yfir ána. Einstaka kindur eru á stangli í Hvannadal og oft er hægt að sjá rjúpur og hreindýr þar.Gott er að borða nesti í Miðfelli og safna kröftum fyrir heimferðina en gengið er til baka frá Miðfelli/Klifagili og aftur sömu leið heim á leið. Frá Miðfelli/Klifagili liggur leiðin niður merkta gönguleið að Skógræktargirðingunni þar sem gönguferðinni líkur en ævintýri kvöldsins taka við. Hægt er að dvelja á Hala, Gerði eða Hrollaugsstöðum og njóta veitinga á Þórbergssetri sem býður upp á fjölbreytt hlaðborð, beint frá býli.

Nauðsynlegur búnaður:Góðir gönguskór, góður útivistarfatnaður og góður bakpoki fyrir nestið ( yfirleitt nóg fyrir pör/hjón að vera með einn bakpoka) myndavél. Gott aðgengi er að vatni á leiðinni. Hámarksfjöldi er 20 eða eftir nánari samkomulagi. Verð á mann 8.000

Innri Veðurárdalur:

Ferðin er krefjandi og tekur á bilinu 8 – 10 klst fyrir flesta gönguhópa.
Lagt er af stað frá Þórbergssetri kl 8:00, keyrt er inn í Þröng. Leiðin er fær flestum jepplingum.Gengið er á jökli stutta stund og þaðan upp einstigi í Hellrafjalli.. Frá Hellrafjalli er einstakt útsýni yfir Breiðamerkurjökul og yfir í Breiðamerkurfjall. Þaðan liggur leiðin inn Verðurárdalinn, þar sem ganga þarf ofan við nokkur falleg gil. Til að komast yfir í Innri Veðurárdalinn, þarf að fara yfir eggjar Veðurárdalsins. Þrautagangan er sannarlega útsýnisins virði. Þegar komið er yfir eggina blasir Innri Veðurárdalur við. Landslagið er hrikalegt og andstæður miklar, annars vegar  blasir  Mávatorfan við beint í norðri þar sem hún  hangir utan í snarbrattri fjallshlíðinni þakin gróskumiklum gróðri og svo er jökullónið sem fyllir dalinn með marandi ísjökum sem gefa frá sér ógnþrungin hljóð með reglulegu millibili.  Gott er að dveljast nokkra stund í Innri Veðurárdal, borða nestið sitt, virða fyrir sér náttúruna og njóta kyrrðarinnar. Eftir góða stund í Innri Veðurárdalnum er haldið af stað heim á leið og farin önnur leið  til baka, niður jökulinn og að bílunum þar sem gönguferðinni líkur en ævintýri kvöldsins taka við. Hægt er að dvelja á Hala, Gerði eða Hrollaugsstöðum og njóta veitinga á Þórbergssetri sem býður upp á fjölbreytt hlaðborð, beint frá býli.

Nauðsynlegur búnaður:Góðir gönguskór, góður útivistarfatnaður og góður bakpoki fyrir nestið ( yfirleitt nóg fyrir pör/hjón að vera með einn bakpoka) myndavél. Ágætt aðgengi er að vatni á leiðinni. Kostur er að vera með ísöxi við hönd í þessari ferð. Að öllu jöfnu þarf ekki að vera með brodda vegna þess að jökullinn er yfirleitt greiðfær um þetta leyti þar sem sólin hefur sprengt hann upp og gefur góða spyrnu fyrir hefðbundna gönguskó. Hámarksfjöldi er 16 eða eftir nánari samkomulagi. Verð á mann 12.000

 

Hjónin Haukur Ingi Einarsson og Berglind Steinþórsdóttir taka að sér leiðsögn eftirfarandi helgar vorið og sumarið 2012.

Júní, 9, 10, 30

Júlí, 7,8, 21,

Ágúst, 11, 12

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ...
Gestir þennan mánuð: ...
Gestir á þessu ári: ...