Skip to main content

Vorið komið

2012-0508Mjög gestkvæmt hefur verið í Þórbergssetri í allan vetur og vor. Eru það erlendir ferðamenn sem dvelja á Hala í 1 - 4 nætur og ferðast um svæðið í kring og heimsækja Jökulsárlón og Skaftafell. Aðaláhugamálið hefur verið að sjá norðurljós, en hægt var að sjá þau flestar nætur sem heiðskírt var er líða tók á vetur. Loksins er nú búið að gefa út eina af bókum Þórbergs á þýsku. Það er Íslenskur aðall og nú er loksins hægt að kynna þetta verk Þórbergs fyrir þýskumælandi ferðamönnum, en þeir hafa sýnt sýningunni mikinn áhuga. Steinarnir tala koma út á ensku í vor, enskir textar eru komnir á sýningarspjöldin og í sumar verður sett upp nýstárleg ljósmyndasýning í Þórbergssetri, þar sem textar Þórbergs kallast á við náttúrumyndir úr umhverfinu.
Allt þetta þýðir vonandi að erlendir ferðamenn geti betur tileinkað sér anda sýningarinnar og notið þess betur að staldra við um stund í Þórbergssetri. Í sumar hefur verið ráðinn bókmenntafræðingur sem mun annast leiðsögn um safnið á erlendum tungumálum en vitaskuld eru Íslendingar alltaf velkomnir líka að skoða sýningarnar og alltaf er eitthvað nýtt að sjá. 

Í maí eru  fjallgöngugarpar á ferli um Suðursveit. Vinsælast er að klífa Þverártindsegg sem er í um 1550 metra hæð. Helgina 5.- 6. maí dvöldu um 50 manns á Halabæjunum, fóru þeir á Þverártindsegg á laugardeginum í blíðskaparveðri og héldu síðan upp á daginn með veisluhöldum í Þórbergssetri um kvöldið. Þennan dag var sett met á Þverártindsegginni því alls munu hafa farið þar upp um 80 manns. Næstu helgar er von á fleiri hópum og því mikið um að vera.

Í maímánuði er Þórbergssetur opið alla daga frá klukkan 9 á morgnana til klukkan  8 á kvöldin. Tekið er á móti sérpöntunum og fyrirspurnum á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 478 1078 . Hægt er fá leiðsögn um safnið.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ...
Gestir þennan mánuð: ...
Gestir á þessu ári: ...