Skip to main content

Merkilegt málþing í Þórbergssetri 17. júní

Boðið verður til málþings í Þórbergssetrinu í Suðursveit þjóðhátíðardaginn 17. júní. Málþingið hefst kl 13:00 en að því loknu verður farið inn í Papbýli og skoðaðar fornar rústir sem þar hafa fundist. Málþingið er haldið  með erlendum fræðimönnum og sæfarendum, sem siglt hafa um papaslóðir á N-Atlantshafi á írsku skútunni ,,Ár Seachrán", Ferðalangi. Hún lagði úr höfn frá bænum Ventrý í Kerrý héraði á  degi heilags Breandans, sæfara, 16 maí sl.  Írski sagnfræðingurinn og sægarpurinn Paddy Barrý stýrir skútunni, en hann þekkir vel til siglinga á norðurhöfum og heimsskautasvæðum. Hann mun lýsa för Ferðalangs, en líka fjalla um fyrri tíma rannsóknarferðir á norðurslóðum. Dr. Jonathan Wooding, sem er kennari við Háskólann í Wales í keltneskri kristni og sagnfræði, mun fjalla um Papa og lýsa stöðum í úthafinu þar sem þeir munu hafa komið sér fyrir til helgihalds á fyrri tíð og gera grein fyrir þeim trúarhugmyndum, er mótuðu hátterni þeirra. Þekktur írskur tónlistarmaður er með í för og mun leika ,,keltneska" tónlist. Málþingið er opið öllum sem hug hafa á efni þess.
Dagskrá

 

Sæfarendur og fræðimenn frá Írlandi koma í heimsókn .
13:00 Ferð skútunnar Ferðalangs í máli og myndum og fyrri rannsóknarferðir í norðurhöfum
          Paddy Barry skipstjóri
13:50 Papar, trúarhugmyndir þeirra  og viðkomustaðir þeirra í norðurhöfum
          Dr Jonathan Wooding prófessor í keltneskri kristni og sagnfræð
15:00 Ferð í Papbýli og skoðaðar fornar rústir
Írskur tónlistarmaður er með í för og skemmtir með írskri tónlist

Fyrsti viðkomustaður skútunnar„Ferðalangs" var klettaeyjan „Sceilg Mhichíl/Skellig Michael", sem er skammt undan Kerrýströndum. Eyjan er klettadrangur en var þó byggð munkum á fyrri tíð, svo sem býkúpulaga steinabyrgi, er enn standa, vitna um og voru vistarverur þeirra og helgidómur.

Þaðan lá leiðin á papaslóðir við vesturströnd Írlands og á Suðureyjum. Ein þeirra er „Iona", þar sem heilagur Kolum Killi kom upp klaustri á öndverðri 6. öld, er varð móðurklaustur fjölda annarra klaustra enda barst trúin þaðan með sínum vestrænu/keltnesku einkennum vítt um lönd og höf.  Í ævisögu Kolum Killa, sem Adómnán, 9. ábóti klaustursins, skráði á sjöundu öld, er sagt frá tilraunum til að sigla frá Iona á úthafið í leit að griðarstöðum.

Frá Iona var siglt til eyja norður af Skotlandi, Orkneyja og Shetlands þar sem finnast fjöldi papastaða og ummerkja, en ekki tókst þó að koma þar við á öllum þeim stöðum sem áætlað var vegna veðurofsa og ólaga er fylgdu í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum.

Hingað til lands kemur Ferðlangur frá Færeyjum, en þar er bæði að finna örnefni sem vísa til keltneskra sagna og fornar leifar. Brendansvík er t.d. í Kirkjubæ og á Leirvík á Austurey eru ummerki um bænhús vestrænnar gerðar. Á leiðinni til Íslands verður siglt að Mikinesi þar sem finnast fornar rústir af kirkju, er borið hefur írsk auðkenni.

Ferðlangur er væntanlegur frá Færeyjum 15. júní til Djúpavogs eftir að hafa siglt að Papey. 18. júní siglir hann til Vestmannaeyja og kemur þangað samkvæmt áætlun á kvennadaginn 19. júní. Leiðangursmenn hyggjast gæta þar að hugsanlegum ummerkjum um vestræna menn á fyrri tíð. Þeir ætla sér að vera þar á lengsta degi ársins, sumarsólstöðum 21. júní, en þær höfðu mikla þýðingu í hugarheimi Kelta bæði fyrir og eftir að þeir urðu kristnir. Sólin var þeim táknmynd um elsku Guðs, er skapaði heiminn og opinberaðist í mannmynd sinni Jesú Kristi, sem væri ljós heimsins og úthellti geislum sínum yfir líf og heim. Eftir að hafa kynnt sér manngerðu hellanna við Seljaland, sem eru með krossum og trúartáknum á veggjum og  hafa verið grafnir út töluvert fyrir ,,viðurkennt" landnám Íslands, svo sem nýlegar rannsóknir Vestur- Íslendingsins dr. Kristjáns Ahronsonar sýna fram á, sigla þeir á Jónsmessu til baka á skútu sinni Ferðalangi til Írlandsstranda.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ...
Gestir þennan mánuð: ...
Gestir á þessu ári: ...