Skip to main content

Merkur áfangi í uppbyggingu Þórbergsseturs

Miðvikudaginn 5. maí kom Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í heimsókn í Þórbergsetur ásamt aðstoðarmanni. Tilefnið var undirritun rekstrarsamnings ráðuneytisins við Þórbergssetur um fast framlag  af fjárlögum Alþingis til reksturs Þórbergsseturs, 10 milljónir króna á ári á árunum 2010 til 2012.  Þar með er Þórbergssetur búið að fá sama sess og rithöfundasetrin Skriðuklaustur og Gljúfrasteinn, þó að reyndar sé um mismunandi há rekstrarframlög að ræða til hverrar stofnunar fyrir sig.

           Það var notaleg stund í Þórbergssetri þegar samningurinn var undirritaður. Stjórn Þórbergsseturs og ýmsir velunnarar setursins voru á staðnum. Í upphafi flutti menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir ávarp.

Hún hafði ekið í gegnum gossvæðið undir Eyjafjöllum fyrr um daginn, komið við á safninu á Skógum hjá Þórði Tómassyni og heyrt drunurnar frá gosinu. Sú reynsla var henni greinilega ofarlega í huga. Katrín sagði að samningur þessi miðaði að því að Þórbergssetur fái veglegan sess sem eitt af þremur rithöfundasetrum Íslands.   Þórgunnur Torfadóttir stjórnarformaður flutti skemmtilegt ávarp og bar saman þær breytingar sem orðið hafa á samfélagsgerð og lífi fólksins í Suðursveit síðan hún var barn að alast þar upp. Þá áttu börnin þessa veröld nánast ein sem vettvang leikja og gönguferða, jafnvel var hægt að spóka sig um á þjóðveginum án nokkurra truflana af umferð. Taldi hún að samningur sá sem væri verið að undirrita skipti sköpum um áframhaldandi starfsemi Þórbergsseturs og bæri vott um öfluga byggðastefnu, þar sem hugmyndir og uppbygging sprytti upp frá grasrótinni með menningarumhverfi sveitasamfélagsins sem bakgrunn. Reynir Arnarson forseti bæjarstjórnar flutti ávarp og þakkað Katrínu fyrir að ganga svo myndarlega fram fyrir skjöldu og tryggja rekstur þessarar menningarstofnunar í Sveitarfélaginu Hornafirði. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur sagði frá samstarfi Þórbergsseturs og Háskólasetursins á Höfn. Þar er um að ræða samstarf í útgáfumálum, haldin sameiginleg málþing og þessar stofnanir hafa byggt upp sameiginlegan starfsvettvang á mörgum sviðum. Soffía las upp ú bréfi frá Guðmundi Böðvarssyni skáldi á Kirkjubóli til Þórbergs frá árinu 1959, þar sem hann spáir því að austur á Hala, verði reist musteri, veglegt í tign og einfaldleik, sem hæfði minningu Þórbergs um aldir, meðan vötn tímans héldu áfram að hrynja niður í hafsauga eilífðarinnar.  Að lokum söng Steinþór Þórðarson á Hala barnagælur fyrir viðstadda af segulbandi, og þannig birtist gestum frá fortíðinni örstutt áminning um hversu auðug  alþýðumenning liðinna alda var af skemmtan, fróðleik og glöðum og góðum hug.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 129
Gestir þennan mánuð: ... 4648
Gestir á þessu ári: ... 22672