Skip to main content

Að loknu sumri 2009

Mikið hefur verið um að vera í Þórbergssetri í allt sumar. Fjölmargir ferðamenn innlendir sem erlendir hafa heimsótt setrið og skoðað sýningar eða notið veitinga, Ljóst er að Þórbergssetur hefur sannað gildi sitt sem menningarsetur í sveit, en á sama tíma  viðkomustaður ferðamanna á Suðausturlandi. Í Þórbergssetri er tekið á móti gestum að sveitasið, boðið upp á heimatilbúnar veitingar og mat beint frá býli, en einnig spjallað við gesti og gangandi og fjallað um umhverfi og atvinnulíf.  Menning er í hugum okkar í Þórbergssetri umfjöllun um líf fólksins í landinu fyrr og nú, því er gaman að fá tækifæri til að ræða við erlenda ferðamenn um aðstæður og búsetu áður fyrr, en einnig búskapinn í dag, efnahagsmálin og hvernig íslensk þjóð hefur komist af í þessu landi þrátt fyrir misjafnt árferði. 
      Þórbergssetur stóð fyrir tónleikum í Kálfafellsstaðarkirkju á Ólafsmessu 29. júlí ásamt sóknarpresti Séra Einari G . Jónssyni og voru þeir vel sóttir. Að þessu sinni voru það þau Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson sem voru með frábæra ljóðatónleika. Um 90 manns sóttu tónleikana en þeir voru styrktir af Menningarráði Austurlands. Í lok dagskrár var farið í heimsókn að völvuleiði í landi Kálfafellsstaðar og gömul saga um Völvuna á Kálfafellsstað og mátt hennar rifjuð upp.
      Ætla má að í sumar hafi komið í heimsókn í Þórbergssetur allt að  20.000 manns og um 7000 manns hafa sótt sýningarnar. Segja má að aðsóknin hafi farið langt fram úr björtustu vonum, en þetta er fjórða sumarið sem tekið er á móti ferðamönnum í Þórbergssetri. Geta má þess að í Þórbergssetur komu ferðamenn af 29 þjóðernum frá því 20. desember 2008 til loka maí 2009. Alþjóðavæðingin hefur því einnig sett mark sitt á lífið í Suðursveit, og spá Þórbergs um gestakomur þar sem ,,útlenda fólkið mun koma að hlusta á sögurnar sem gerðurst í henni Glompu" hefur sannarlega ræst.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 163
Gestir þennan mánuð: ... 9036
Gestir á þessu ári: ... 17076