Skip to main content

Á nýju ári

Það var gestkvæmt á Hala og í Þórbergssetri  yfir jól og áramót. Alls voru skráðar um 50 gistinætur á gistiheimilinu á Hala og í Þórbergssetur komu gestir af 12 þjóðernum. Þeir sem lengst áttu að voru fjórir ferðalangar frá Taivan, sem gistu á aðfangadagskvöld., en einnig voru gestir frá Kanada, Bandaríkjum og Evrópulöndum, flestir frá Þýskalandi. Veður var fremur gott, hlýtt og oft bjartir dagar, en eftir áramót hefur rignt mikið og verið dimmt yfir. Í góðu veðri í skammdeginu gægist sólin rétt upp fyrir hafflötinn í suðri og varpar gullinni slikju á umhverfið. Það er því vel þess virði að heimsækja Suðursveitina á þessum tíma þó dagarnir sé stuttir. Selirnir við Jökulsárlón leika listir sínar fyrir gesti, hafið leikur óperur með miklum tilbrigðum, og ekkert jafnast á við tunglskinsbjarta vetrarnótt eða stjörnubjartan himin.
Tveir fræðimenn, þær Soffía Auður Birgisdóttir og Þóra Ingólfsdóttir hafa dvalið á Hala við fræðastörf síðustu daga. Soffía var að undirbúa fyrirlestur sinn um Þórberg sem hún flutti í Reykjarvíkurakademíunni miðvikudaginn 14. janúar. Fyrirlestur hennar bar nafnið ,,Hugsum öðruvísi með Þórbergi. Um bókmenntagervi, veruleika og sannleika."
Á sunnudaginn tóku þær stöllur sér frí frá fræðastörfum og fóru að skoða 14 metra langan búrhval sem rak á Borgarhafnarfjöru 29. desember. Ekið var austur í Hálsa og rifjaðar upp gamlar sagnir af verbúðarlífi Norðlendinga og sjóróðrum þeirra frá Hálsahöfn og sjósókn Suðursveitunga frá Bjarnahraunssandi.
Allt bendir til að starfsemi Þórbergsseturs verði blómleg á nýju ári. Nokkrir hópar hafa þegar bókað heimsóknir í setrið, og einnig er verið að undirbúa nýjar sýningar sem á að opna í vor.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 139
Gestir þennan mánuð: ... 4520
Gestir á þessu ári: ... 22543