Skip to main content

Þakkarorð á afmælisráðstefnu SAF 6. nóvember 2008

Ágæta samkoma. kæru samstarfsmenn, tl hamingju með daginn.
Við erum  afar þakklát og raunar hrærð að vera með ykkur hér í dag og taka á móti nýsköpunarverðlaunum Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir hönd Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit. Það verður gaman að koma heim í Suðursveitina og Hornafjörðinn í kvöld, ég lít á þessi verðlaun sem mikinn heiður fyrir héraðið okkar  og örvun til frekari átaka og fagmennsku í uppbyggingu í ferðaþjónustu á einu vinsælasta ferðamannasvæði landsins,-- sem við markaðsetjum nú undir heitinu Í ríki Vatnajökuls. 
Íslensk þjóð á mikinn auð í stórbrotinni,  hrikalegri og víða lítt snortinni náttúru sem dregur  nú æ fleiri erlenda ferðamenn til landsins. En við megum heldurekki gleyma því að það felst mikil auðlegð í menningu okkar og sögu. Saga sveitasamfélaga á Íslandi er þar engin undantekning, þar felst auðurinn fyrst og fremst í sögunni af lífsbaráttu fólksins er gekk sömu göturnar í  1100 ár,  arfur kynslóðanna sem við ein þjóða höfum varðveitt að hluta í rituðum heimildum frá upphafi Íslandsbyggðar.  Paparnir og Hrollaugur landnámsmaður voru rétt nýfarnir af hlaðinu hjá Steini afa Þórbergs sem bjó á jörðinni þeirra, - Breiðabólsstað -  1000 árum síðar,  - svo rík var sagnahefðin,  svo lifandi var sagan og upphaf okkar sem þjóðar, svo römm var sú taug.  

Markmið með uppbyggingu Þórbergsseturs er varðveita þennan menningararf,  fjalla um alþýðumenninguna eins og hún var, viðhalda staðbundinni þekkingu á umhverfi, örnefnum, sögu og náttúrufari en einnig að halda áfram að segja sögur í Suðursveit. Halda áfram  að  skynja nálægð lifandi náttúru, hlusta á steinana tala, náttúruna anda og veraldarhafið stynja svo ég styðjist við orð Þórbergs sjálfs og hans einstöku og næmu náttúrulýsingar.  

Þórbergssetur er byggt til heiðurs horfnum kynslóðum er byggðu Suðursveit. Það var skylda okkar  að halda verkinu áfram. Og efniviðurinn var nægur, þar bera hæst bókmenntaverk Þórbergs sem þjóðin þekkir,  en  sögur,  þulur,  og ljóð Steinþórs á Hala bróður Þórbergs varða líka leiðina, einnig gömlu passíusálmalögin sem  Steinunn amma raulaði fram í andlátið svo og  dularfull þjóðtrú, trölla- og álasögur,  ættaðar frá Oddnýju á Gerði merkum sagnaþul og alþýðuskáldi á 20 öld en hún var fædd 1821 látin 1917,  saga alþýðumenningar og lífsbaráttu fólksins í landinu, þar sem hver dagur var ögrun og átök við umhverfi og óblíð náttúruöfl. 

Við eigum að vera stolt af sögu okkar sem þjóðar, við eigum að halda  sögunni betur á lofti í íslenskri  ferðaþjónustu en við höfum gert.  Þar vegur þyngst bókmenntaarfurinn allt frá elstu handritum  til okkar daga og tenging hans við alþýðumenninguna. Þegar ég leiði erlenda gesti um sýningar Þórbergsseturs segi ég þeim að bókaveggurinn stóri sem blasir við af þjóðvegi 1 sé tákn um okkar menningararf.  Þegar við setjumst síðan niður í fjósbaðstofunni á Hala,  leyfi ég ferðamönnum gjarnan að handleika gömlu bækurnar sem þar voru lesnar og hafa varðveist,  sumar jafnvel handskrifaðar  - og segi frá því að þrátt fyrir myrkrið, kuldann, eldiviðarleysi og matarskort,  voru allir læsir  og undu við sögur og rímnakveðskap, þulur og  ljóð og lestur Íslendingasagna, voru í raun hámenntaðir í fornbókmenntum eins og virtustu háskólaprófessorar í dag.

Viðbrögð erlendra gesta hafa fært mér sanninn um hversu rík þessi sérstaða okkar er sem þjóðar. Auðlegð okkar felst í þessari sögu, í mætti orðsins og tungunnar, alþýðumenningin var hámenning sveitanna  krýnd af krafti tungumálsins þar sem stokkar og steinar áttu nöfn eins og mannfólkið, kýrnar í fjósinu fengu sálfræðilega greiningu og  skylda bóndans var að leggja síg í lífshættu við að bjarga fé sínu úr svelti. Hvannstóð og Gapi, Glompa og Auðnuhvammur, Virðingarbali og  Kvennaskáli , Flár og Konsakambur ,, allt nöfn í umhverfinu sem sögðu sögur úr náttúrunni og sálarlífi fólksins.” Ég bíð ykkur hér með í Suðursveitina til að kynna ykkur fyrir þessari veröld, hún er þarna enn. 

Við þökkum af heilum hug þá miklu viðurkenningu sem Þórbergssetur hefur fengið með þessum verðlaunum og heitum því að halda áfram að byggja upp það menningarsetur sem við viljum að þar muni starfa næstu áratugina. 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 93
Gestir þennan mánuð: ... 4613
Gestir á þessu ári: ... 22636