Skip to main content

Þórbergssetur hlaut nýsköpunarverðlaun SAF 2008

Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar voru afhent  í fimmta sinn við athöfn á Hilton Reykjavík Nordica  fimmtudaginn 6. nóvember. Menningarsetrið Þórbergssetur, Hala í Suðursveit hlaut verðlaunin að þessu sinni fyrir öfluga uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu.Í rökstuðningi dómnefndar segir að eftirfarandi hafi einkum legið til grundvallar ákvörðun dómnefndar:
Rökstuðningur
Er það álit dómnefndar að Þórbergssetur
sé einstaklega vandað framtak fólks úr héraði við uppbygginu menningartengdrar ferðaþjónustu. Setrið er ekki aðeins safn tileinkað einum af merkari rithöfundum þjóðarinnar. Það er einnig lifandi sögusýning á atvinnuháttum og menningu Suðursveitunga gegnum aldirnar og hvernig þeir hafa hagað sinni búsetu í nábýli við óblíða náttúru. Með því að tvinna saman líf og störf rithöfundarins við menningarsögu sveitarinnar, veitist gestum ný sýn á ritverk hans, en einnig ný sýn á líf og störf Íslendinga um aldir gegnum þau sömu ritverk.

Setrið er einnig ákaflega vel úr garði gert, hönnun þess frumleg og vel vandað til allrar umgjörðar. Gestir fá góðar móttökur og er öll grunnþjónusta fyrir hendi á staðnum.

Þannig er ljóst að Þórbergssetur hefur frá því að vera góð hugmynd, náð því að verða virkt og skapandi afl í Suðursveit sem eflir orðstír og framleiðni ferðaþjónustu og er þannig vel að nýsköpunarverðlaunum komið.

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar. Stjórn sjóðsins skipa: Árni Gunnarsson, formaður SAF, sem er formaður dómnefndar en honum til ráðgjafar voru dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Hörður Erlingsson hjá Erlingsson - Naturreisen.

Í stefnumótun SAF kemur m.a. fram að stefnt skuli að því að nýsköpun og fagmennska innan greinarinnar tryggi arðsemi allt árið enda byggi ferðaþjónustan á ímynd, gæðum, þekkingu og traustum innviðum.  Auk þess segir að landið allt verði kynnt til eflingar ferðaþjónustu og að náttúra, mannlíf og menning landsins gegni lykilhlutverki.  Hvatt er til aukinnar samvinnu innan greinarinnar til að styrkja enn frekar innviði og efla markaðssetningu landsins sem heildar.  Stjórn sjóðsins tekur tillit til þessara þátta við val sitt.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 106
Gestir þennan mánuð: ... 4625
Gestir á þessu ári: ... 22649