Skip to main content

Höfðinglegar bókagjafir

Þann 12. mars síðastliðinn barst Þórbergssetri höfðingleg gjöf frá Landsbókasafni- Háskólabókasafni. Það voru 34 bókakassar úr dánarbúi Þórbergs Þórðarsonar sem Margrét Jónsdóttir eiginkona hans gafði gefið safninu árið 1975. Kennir þar margra grasa, margir kassar af erlendum ritum og bókum m.a. á esperantó, tímarit og blöð.

Það er gaman að fletta þessum gömlu bókum, áberandi eru íslenskar bækur með  þjóðlegum fróðleik, en einnig margar áritaðar bækur sem hafa verið gjafir til Þórbergs frá höfundum þeirra. Þar má nefna t.d. bókina Íslenska menningu eftir Sigurð Norðdal. Á henni er eftirfarandi áritun:
,,Til Þórbergs Þórðarsonar með þakklæti fyrir skemmtilega samferð um auðnir og grasbletti íslenskrar menningar síðasta aldarfjórðunginn.  Sigurður Norðdal

Tvær bækur frá Jóhannesi Kjarval komu upp úr kössunum, bókin Grjót, gefin út árið 1930.og Enn grjót, gefin út 1938.  Önnur þeirra  er árituð af meistara Kjarval á þennan hátt:,,Til herra stórskáldsins vinar míns Þórbergur Þórðarson frá Höfundinum Jóhannesi Sveinssyni Kjarval"
Þórbergur gefur Margréti eiginkonu sinni bókina Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddssen 3. desember 1948. Hún er árituð með þessum orðum. ,, Til minnar einu og sönnu Margrétar Jónsdóttur 3/12 1948   Þ.Þ."
Aðeins er  búið að skoða lítinn hluta þessarar miklu bókagjafar og það verður forvitnilegt að fara höndum um innihald allra þessarra kassa sem fylltu heilt bretti í flutningabíl.

Atli Gíslason alþingismaður sendi  einnig kærar kveðjur til Þórbergsseturs og gaf tvær fallega innbundnar bækur sem hann hafði í fórum sínum. Önnur er Bylting og íhald úr Bréfi til Láru, gefin út 1924  af  Bókmenntafélagi Jafnaðarmanna, frumútgáfa. Hin er bók Stefáns Einarssonar um Þórberg sem var gefin út á fimmtugsafmæli hans þar sem m.a. er fjallað um endurfæðingar Þórbergs.

Aðstandendur Þórbergsseturs þakka kærlega fyrir þessar höfðinglegu gjafir.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 97
Gestir þennan mánuð: ... 5419
Gestir á þessu ári: ... 23443