Afmælisþing í Þórbergssetri -

Þann 12. mars síðastliðinn var afmælisveisla í Þórbergssetri.  Tilefnið var afmælisdagur Þórbergs Þórðarsonar en nú eru liðin 120 ár frá fæðingu hans.Það mun verða árviss viðburður í Þórbergssetri að gera sér dagamun á þessum merkisdegi (eða þar um kring) en þetta er í annað sinn sem haldið er upp á daginn frá því Þórbergssetur var vígt í júlí 2006.Að þessu sinni samanstóð dagskráin af fyrirlestrum, upplestri, gönguferðum, hátíðamat og söng að ógleymdu „góðu strandi".
Kristján Jóhann Jónsson, íslenskufræðingur og dósent við K.H.Í. var fyrstur mælenda með fyrirlestur um „Viðhorf Þórbergs til vísinda, stjórnmála og annarra náttúrulegra og yfirnáttúrulegra efna". Þá talaði Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, bókmenntafræðingur og forstöðumaður Blindrabókasafns Íslands en í umfjöllun hennar kom fram sú skemmtilega kenning að Þórbergur og Margrét birtist sem „afturgöngur" í þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar; Gangvirkið, Seiður og hélog og Drekar og smáfuglar, þar sem nokkrar persónur þar væru byggðar á persónueinkennum þeirra hjóna.Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar fjallaði um Suðursveitarkróníkuna í fyrirlestrinum „Sveitadrengurinn snýr aftur", Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur, aðjúnkt við H.Í. og verkefnastjóri við Háskólasetur á Hornafirði talaði um Þórberg í hlutverki Sobbeggi afa í Sálminum um blómið og Þorbjörg Arnórsdóttir, Framkvæmdastjóri Þórbergsseturs ræddi um Þórberg og alþýðumenninguna.Á þessari upptalningu má glöggt sjá hvernig hægt er að nálgast Þórberg og verk hans  frá ólíkum sjónarhornum enda heimur Þórbergs margslunginn og blæbrigðaríkur. Dagskráin var brotin upp með ýmsum hressandi uppátækjum eins og Mullersæfingum og stuttum gönguferðum.  Á milli fyrirlestra las Ragnheiður Steindórsdóttir, leikkona af mikilli innlifun úr verkum og bréfum Þórbergs og er skemmst frá því að segja að góður upplestur eins og þarna átti sér stað hefur þau áhrif að menn upplifa textann á allt annan og skemmtilegri hátt en við eigin lestur í hljóði.

Fjölnir á Hala annaðist veislustjórn af miklum skörungsskap með ýmiskonar fróðleiksmolum þar sem óspart var vitnað í Grágás sem undirstöðurits hins íslenska bókmenntarfs.  Einnig setti Fjölnir fram þá skemmtilegu kenningu að höfundur Njálu hafi verið kona og var því ákaft fagnað af kvenkyns veislugestum.Gengið var um sýninguna að dagskrá lokinni þar sem áð var á strandstað og málin rædd.Dagskrá lauk síðan með hátíðarkvöldverði, upplestri, sósusöng og síðast en ekki síst fjöldasöng undir stjórn Baldurs Sigurðssonar, íslenkufræðings og dósent við KHÍ sem kenndi veislugestum hinn ágæta skáldskap Þórbergs „Í Möðrudal á Fjöllum" lag og texti Þ.Þ.
Í tilefni dagsins barst Þórbergssetri höfðingleg afmælisgjöf frá Háskólabókasafni. Þar var um að ræða 34 kassa með bókum úr safni Þórbergs og Margrétar sem Margrét gaf Háskólabókasafni að Þórbergi látnum.
Kærar þakkir fyrir okkur
starfsmenn Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 65
Gestir þennan mánuð: ... 10384
Gestir á þessu ári: ... 40647

Þórbergssetur - Hala, Suðursveit - 781 Höfn í Hornafirði - Sími: 478-1078 - Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Copyright © 2023. All Rights Reserved.

Fara efst