Skip to main content

Ferðalag um lendur Vatnajökulsþjóðgarðs

Í vetur er fyrirhugað að vera með menningardagskrá í Þórbergssetri, fyrirlestraröð þar sem sýslubúum verður boðið í ferðalag um lendur hins víðfeðma og tilvonandi Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrsti fundurinn af fimm verður í Þórbergssetri fimmtudaginn 7. febrúar kl 20:00 Til hagræðis fyrir þá sem ætla að koma langt að verður hægt að fá léttan kvöldverð í Þórbergssetri áður en dagskráin byrjar. Áhugafólk um útivist, náttúrufræði og sögu ætti alls  ekki að láta þessa fræðslufundi fram hjá sér fara.

Auk þess er þetta kjörið tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila í Ríki Vatnajökuls að koma saman, fræðast og efla félagsandann fyrir komandi vertíð. Dagskráin stendur í einn og hálfan klukkutíma hverju sinni, kaffiveitingar eru í fundarhléi og opið inn á sýningar í Þórbergssetri. Ferðalagið hefst í Ásbyrgi undir fyrirsögninni:  SÖGN ER AÐ EITT SINN........

Um er að ræða afar áhugaverða dagskrá í máli og myndum sem Kári Kristjánsson starfsmaður Skaftafellsþjóðgarðs hefur tekið saman og flytur ásamt upplesurum. Tilgangurinn er að veita innsýn í landslag og einstaka furðuheima ofanjarðar sem neðan, skoða landslag og lífríki, allt frá Ásbyrgi við Öxarfjörð í norðri, suður um Hljóðakletta og upp á hásléttuna um vatnasvið Jökulsár á Fjöllum, Herðubreiðarlindir og Öskju í Ódáðahrauni. Þar var Fjalla Bensi við smalamennsku og þar bjó Eyvindur Jónsson frá Hlíð í Hrunamannahreppi, þar voru endalok og upphaf ástar Inu von Grumbkopf. - Og þar gerast líka magnaðar draugasögur!
Skoðað verður yfirborð orkumesta háhitasvæðis landsins upp á Kverkfjöllum, farið í Vonarskarð, um Trölladyngju og Urðarháls. Hvar er fossinn Gjallandi ? Einnig verður litast um í Hvannalindum þar sem neistinn kviknaði að einni fallegustu dýrasögu sem til er, og skoðaður bústaður útilegumanna. Hvar er Hveragil? og hvað er merkilegt við það?, hvers vegna eru nöfn tveggja Skaftfellinga örnefni á einum afskekktasta stað landsins norðan Vatnajökuls? Litast verður um við Hafrahvamma, Eyjabakka, Lónsöræfi og Grímsvötn, og jöklabúskapur og landmótun jökla kannað sérstaklega. Ferðalaginu um nýja þjóðgarðinn lýkur í Skaftárhreppi við Lakagíga og Langasjó.
Efnið er byggt á litskyggnum, sögum og ljóðum fólksins sem lifði og dafnaði í listaverkinu, landslaginu, sem jökullinn skóp. Í bland verður þetta fróðleikur um náttúrufræði samofið við gamlar sagnir og bókmenntir.

Allir eru  velkomnir ,,Það er ekki svo langt að Hala þegar maður er lagður af stað"

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 93
Gestir þennan mánuð: ... 5415
Gestir á þessu ári: ... 23439