Bókamessa í Þórbergssetri, - Ný bók um Þórberg Þórðarson

Sunnudaginn 2. desember, hinn fyrsta í aðventu verður bókamessa í Þórbergssetri á Hala í Suðursveit. Bókamessan hefst klukkan 14:00. Lesið verður upp úr nýjum bókum og fjallað um efni þeirra. Jólahlaðborð fyrir alla fjölskylduna verður að Smyrlabjörgum síðdegis eða frá kl. 16:30 - 20:00 Á bókamessunni mun Pétur Gunnarsson rithöfundur ríða á vaðið og lesa úr bók sinni ÞÞ - Í fátæktarlandinu, Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar, sem kom út á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Í ummælum útgefanda um bókina segir:,,Í bókinni leitast Pétur Gunnarsson við að endurskapa þroskasögu Þórbergs og leitar víða fanga, ekki aðeins í útkomnum verkum heldur ríkulegu óbirtu efni; sendibréfum, dagbókum og óútgefnu ævisöguhandriti. Dregin er upp mynd sem á eftir að koma nýjum aðdáendum Þórbergs á óvart." Í bókinni er einnig fjallað um uppvaxtarár Þórbergs í Suðursveit.

 

Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur mun fjalla um bók fjallavistfræðingsins Dr. Jack D. Ives, Skaftafell í Öræfum - Íslands þúsund ár. Þar er fjallað um náttúru og mannlíf í Öræfum frá landnámsöld fram á okkar daga; aðdragandann að stofnun Skaftafellsþjóðgarðs; leiðangra ensku stúdentanna 1952-1954 og ævintýri þeirra. Árið 1953 týndust tveir leiðangursmanna á leið frá tjaldbúðunum á jöklinum á Hvannadalshnúk og er ekki vitað um afdrif þeirra né hvað gerðist. Sumarið 2006 fundust leifar af búnaði þeirra á Skaftafellsjökli. Í bókinni er áhrifamikil frásögn af þessum atburðum. Fjöldi mynda og korta eru í bókinni sem sýna þau býli sem þraukað hafa í meira en þúsund ár, ásamt mörgum þeirra bæja og kirkna sem jöklagangur og eldvirkni hafa þurrkað út. Einnig sýna kortin jökulsporða, farvegi jökuláa og helstu nytjalönd.

Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur fjallar síðan um gróskuna í ljóðagerð íslenskra kvenna og mun kynna nokkrar nýútkomnar ljóðabækur. Meðal höfunda sem hafa gefið út ljóðabækur að undanförnu eru  Steinunn Sigurðardóttir, Gerður Kristný, Sigurbjörg Þrastardóttir, Kristín Svava Tómasdóttir og  Ólína Þorvarðardóttir.  

Á milli þátta verður tónlistarflutningur. Kaffiveitingar og heitt súkkulaði verður í boði og opið verður inn á sýningarnar í Þórbergssetri. Bækur Torfhildar Þorsteinsdóttur Hólm eru til sýnis síðan á málþinginu í haust og mynd af líkneski Ólafs helga, verndardýrlings Kálfafellsstaðarkirkju minnir á þá merku styttu sem trónaði á altarinu í Kálfafellsstaðarkirkju í nær tvær aldir til verndar staðnum,  en er nú til sýnis á meðal kirkjugripa á Þjóðminjasafni Íslands.

Fjölskyldujólahlaðborð verður á Smyrlabjörgum frá kl 4:30 - 8:00 þennan sama dag og von á óvæntum jólaglaðningi frá jólasveinunum.

Það er  kjörið tækifæri að bregða sér bæjarleið og njóta aðventustemningar og veitinga í Suðursveit á fyrsta sunnudegi í aðventu. Það er ekki svo langt að skreppa í sveitina og Skaftfellingar og aðrir gestir eru hjartanlega velkomnir í Þórbergssetur og að Smyrlabjörgum þennan dag.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 65
Gestir þennan mánuð: ... 10384
Gestir á þessu ári: ... 40647

Þórbergssetur - Hala, Suðursveit - 781 Höfn í Hornafirði - Sími: 478-1078 - Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Copyright © 2023. All Rights Reserved.

Fara efst