Skip to main content

Gestakomur í Þórbergssetur

Helgina 20 - 22 apríl síðastliðinn kom 50 manna hópur,  félagar í  bókmenntahópi Félagsmiðstöðvarinnar Hæðargarðs 31 og bókamenntaklúbburinn Hana-nú í Kópavogi í heimsókn í Þórbergssetur á Hala, fararstjóri var Ásdís Skúladóttir. Hér er um að ræða áhugafólk um bókmenntir sem æfir upplestur á verkum íslenskra rithöfunda og skálda og ferðast síðan á þær slóðir þar sem viðkomandi listamaður á uppruna sinn . Það er skemmst frá að segja að það var mikið ánægjuefni að fá þennan stóra hóp í heimsókn. Á föstudagskvöldið var hátíðarkvöldverður í Þórbergssetri og stutt dagskrá þar sem komið var við á strandi. Á laugardagsmorgni var farið í gönguferð upp að Steinum og upp á Helghól og lesið úr verkum Þórbergs úti í náttúrunni. Eftir hádegi var farið í ökuferð um Suðursveit , meðal annars staldrað við í fjörunni við Jökulsárlón, en einnig ekið um alla sveit og  skyggnst um í sögunni undir leiðsögn Fjölnis Torfasonar á Hala. Hápunktur helgarinnar var

síðan einstaklega skemmtileg bókmenntadagskrá á laugardagskvöldið þar sem gestirnir lásu úr verkum Þórbergs m.a. um fræga heimsókn anda Gamla Steins til Reykjavíkur þar sem hann ræðir við Þórberg um landsins gagn og nauðsynjar og þótti ,,skítt að vera dauður" þar sem nú væru allir að græða svo mikla peninga. Það er ljóst að persónan Þórbergur og verk hans lifa enn með þjóðinni og tengingarnar við Hala, umhverfi og náttúru eru afar skemmtileg og nýstárleg nálgun við verk hans.

Laugardaginn 5. maí er síðan von á 25 manna hópi frá færeyska Landsbókasafninu í heimsókn í Þórbergssetur. Það verður gaman að taka á móti frændum okkar Færeyingum og kynna þeim lífið í Suðursveit, ljóst er að tengingar við verkefni Þórbergsseturs liggja víða og áhugi á að tengja saman ferðalög , bókmenntir og menningu er til staðar..

Framundan er sumarið og þegar eru ferðamenn af ótal þjóðernum farnir að koma við í Þórbergssetri og spyrjast fyrir um hvaða starfsemi þessi bygging með bókakjölunum hýsi. Þar með gefst tækifæri á að kynna Þórberg og verk hans en um leið þá merku sögu sem hann skráði um líf og störf fólksins sem bjó í Suðursveit um aldamótin 1900. Það setur marga hljóða þegar þeir koma inn í fjósbaðstofuna á Hala og skýrt er frá því að það er ekki fyrr en á árunum 1960 - 1974  að Suðursveit kemst í alfaraleið. Fyrir þann tíma voru sveitirnar vestan Fljóta ,,veröld út af fyrir sig" og gestakomur fátíðar. Það þarf að vera eðlilegur hluti af ferðaþjónustu á Íslandi að miðla af sögu okkar og menningu þannig að ljóst sé hvernig við höfum verið til sem þjóð í þessu landi. Merkasti menningararfur Íslendinga allt frá upphafi byggðar er sagnahefðin og bókmenntirnar. Nú gefst gestum Þórbergsseturs kostur á að fara höndum um tvær gamlar bækur sem lesnar voru í fjósbaðstofunni á Hala, sú eldri rímur með gotnesku letri frá 1847, en hin Hrafnkelssaga prentuð 1893. Á baðstofuloftinu verður síðar í sumar einnig hægt að hlusta á sögur og þulur fluttar af Steinþóri Þórðarsyni á Hala. 

Bókahilla Þórbergsseturs á norðurhlið Þórbergsseturs er því ekki bara minnisvarði um Þórberg Þórðarson og verk hans, hún getur einnig verið tákn um merkasta menningararf  íslensku þjóðarinnar, bókmenntir og sagnahefð.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 106
Gestir þennan mánuð: ... 4625
Gestir á þessu ári: ... 22649