Skip to main content

Fréttir af lífinu í Suðursveit

Helgh030Íslenskunemar úr Háskóla Íslands dvöldu á Hala í lok mars í tvær nætur og fræddust um Þórberg en einnig umhverfi, náttúru og mannlíf í Suðpursveit. Það var mjög skemmtilegt að taka á móti þeim og finna þann áhuga sem virðist vera hjá ungu fólki í dag að kynna sér bókmenntaverk Þórbergs og leita þekkingar í horfnum menningarheimi fyrri kynslóða. Farið var í ratleik og hlustað á sögur um steina, þúfur og læki en einnig drauga og undarlega hluti frá liðinni tíð svo sem útburði, eitthvað sem er fjarlægt nútímamanninum en engu að síður hluti af menningararfi íslensku þjóðarinnar. Gengið var inn á Helghól, Helgaleiði skoðað, einnig Hjörleifsgræfur og staldrað við og talað við Kvennaskálasteininn. Gönguferðin endaði við Háaleitislækinn og þar var fræðst um brunnklukkur og lesin sagan af ferðalagi  Oddnýjar á Gerði og Steinþórs á Hala inn að Reynivöllum laust eftir aldamótin 1900.

Soffía Auður Birgisdóttir kom síðan í heimsókn um kvöldið og hélt fyrirlestur um Þórberg og las úr verkum hans við mikinn fögnuð áheyranda.

Fjöldi fólks dvaldi á Hala yfir páskana og margt var í gistingu bæði útlendingar og Íslendingar. Einnig voru gestakomur í Þórbergssetur tíðar og á skírdag komu um 40 manns í heimsókn en einnig var töluvert um ferðafólk hina dagana. Fólk af fjölmörgum þjóðernum hefur heimsótt Hala að undanförnu, sem dæmi má nefna frá Þýskalandi, Englandi, Frakklandi, Spáni, Lettlandi, Ástralíu, Brasilíu, Costa Riga, Ungverjalandi; Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Sviss og Tyrklandi. Hver hefði nú trúað þessu fyrir ekki svo löngu síðan að í Suðursveit væri á ferðalagi fólk af svo mörgum þjóðernum og það yfir vetrartímann, eitthvað er að gerast og alþjóðavæðingin er að hafa mikil áhrif jafnvel í sveit á Íslandi. Þórbergur var sannspár þegar hann sagði á einum stað í Sálminum um blómið að það eigi margt eftir að breytast í framtíðinni, þá kæmi útlenda fólkið og íslenska fólkið í heimsókn á Hala að heyra sögurnar sem gerðust í henni Glompu og til að fræðast um löngu liðna tíð. 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 244
Gestir þennan mánuð: ... 5793
Gestir á þessu ári: ... 23817