Skip to main content

Menningarverðlaun Hornafjarðar 2006

thorbergÞórbergssetur ásamt Hornfirska skemmtifélaginu fengu menningarverðlaun Hornafjarðar fyrir árið 2006. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Nýheimum á Höfn, föstudaginn 9. febrúar kl. 17:00. Þorbjörg Arnórsdóttir, Fjölnir Torfason, Sveinn Ívarsson, arkitekt og Jón Þórisson, leikmyndahönnuður veittu verðlaununum viðtöku. Einnig var Ingibjörg Zophoníasdóttir húsfreyja á Hala kölluð upp, en hún hafði upphaflega átt hugmynd af minngarstofu um þá bræður frá Hala. Umsögn menningarmálanefndar  við afhendingu verðlaunanna var eftirfarandi: Þórbergssetur á vart sinn líka á Íslandi. Setrið er glæsilegur minnisvarði en um leið miðstöð mikillar menningarstarfsemi þar sem bókmenntir, rannsóknir og ferðamál blandast á áhrifaríkan hátt. Þórbergssetur er vitnisburður um frumherjakraft, faglega nálgun og metnaðarfulla framsetningu. Útkoman er glæsileg og til sóma fyrir þá sem að hafa komið.


 

afhending1Ræða flutt við afhendingu menningarverðlauna Hornafjarðar 9. febrúar  2006

Ágætu Skaftfellingar
Það er okkur aðstandendum Þórbergsseturs mikill heiður að vera með ykkur hér í dag og taka á móti menningarverðlaunum Hornafjarðar fyrir hönd Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit. Eins og flestum er kunnugt er Þórbergssetur nú risið eftir margra ára samstarf fjölmargra aðila sem lagt hafa hönd á plóginn. Það starf hefur einkennst af markvissri áætlanagerð og skipulagðri vinnu undanfarin 6 ár, en að baki hefur legið sterkur hugsjónaandi og  mikill velvilji og hvatning víða að úr samfélaginu bæði úr nærumhverfi okkar hér í Sveitarfélaginu Hornafirði, en einnig  hvert sem leitað hefur verið eftir aðstoð og stuðningi bæði faglegum, fræðilegum og fjárhagslegum.

Neistinn sem kveikti það hugsjónabál er knúði okkur til verka við uppbyggingu Þórbergsseturs lifir í verkum, forfeðra okkar,  sem hér bjuggu við mikla einangrun er markaðist af kolmórauðum jökulfljótum, af  risavöxnum fjallgörðum og víðáttumiklum jökulbreiðum að baki,  en úti fyrir svarrandi briminu þar sem veraldarhafið ræður ríkjum í öllu sínu veldi Við Skaftfellingar eigum merkilega sögu og arfleifð, skráða með meitluðu orðalagi skaftfellsku aldamótakynslóðarinnar, þeirrar kynslóðar sem hlaut bókmenntauppeldi í myrkvum húsakynnum torfbæjanna, arfleifð sem hefur sem betur fer varðveist og  birtist okkur meðal annars í sígildum bókmenntaverkum Þórbergs Þórðarsonar, sagnasnilld Steinþórs á Hala og margra fleiri Skaftfellinga. Við getum verið þakklát fyrir vitund og framsýni þessara manna og annarra Skaftfellinga  að skrá, varðveita, og lýsa lífi og starfi þess fólks er hér bjó , þannig að í dag eigum við kost á tengingu við þá alþýðumenningu sem samfélag okkar er sprottið af.  Á stundum sem þessum finnst mér við alltaf fyrst og fremst vera að heiðra þá kynslóð sem bar uppi skaftfellska alþýðumenningu í gegnum aldirnar. Forfeðrum okkar sem auðnaðist að rækta með okkur virðingu fyrir menningarverðmætum, þannig að við erum knúin til að halda verkinu áfram með öflugu menningarstarfi þar sem byggt er á fortíð en horft til framtíðar, með uppbyggingu Þórbergsseturs, með kröftugu starfi Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar,  með uppbyggingu Jöklaseturs. Allt eru þetta sprotar á sama meiði.

Þeir fjölmörgu aðilar er komið hafa að uppbyggingu Þórbergsseturs og staðið hafa saman að því verki eiga allir miklar þakkir skilið. Stjórn sjálfseignastofnunar Þórbergsseturs sem hefur unnið óeigingjarnt starf, Fjölnir Torfason, Steinþór Torfason, Bergljót Kristjánsdóttir, Pétur Gunnarsson, Gísli Sverrir Árnason og síðar Björg Erlingsdóttir, Sveinn Ívarsson arkitekt dóttursonur Þórbergs sem gaf alla sína vinnu við verkefnið, Jón Þórisson leikmyndahönnuður  sem á hugmynd að útliti hússins og setti upp sýningu innan dyra og síðan þær 10 mennta og menningarstofnanir sem við erum í samstarfi við samkvæmt sérstökum samstarfssamningi. Þær eru Heimspekideild Háskóla Íslands, Íslenska esperantósambandið, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orðabók Háskólans, Rithöfundasamband Íslands, Stofnun Árna Magnússonar, Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands og Örnefnastofnun Íslands. Stuðningur Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Háskólaseturs, Sveitarfélagins Hornafjarðar og Menningarráðs Austurlands er þó sá stuðningur er skipti sköpum við uppbyggingu verkefnisins og var hvati þess að ríkisstjórn Íslands undir forystu Halldórs Ásgrímssonar undirritaði samning til fjögurra ára um stofnframlög sem gerðu okkur kleift að koma byggingunni upp á síðasta ári. Framlag heimamanna á Hala til verksins, samstaða og vilji fólksins á Hala til að láta þetta verða að veruleika,  framlög og ómæld vinna, samstillt átak allra þessara aðila er búið að skila okkur þangað sem við erum, Þórbergssetur er risið, framundan eru spennandi tímar við uppbyggingu lifandi menningarstarfs í sveit, sem byggir á sérstöðu og menningararfleifð liðinni kynslóða. Þar er af mörgu að taka en mest krefjandi er þó á þessari stundu það starf sem hafið er við markaðssókn til erlendra ferðamanna og þýðinga á verkum Þórbergs á þýsku og ensku..

Það hefur verið stórkostleg lífsreynsla að standa allt í einu í ,,gulu" hlöðunni á Hala og taka á móti fjölda fólks af mismunandi þjóðernum og í margvíslegum erindagjörðum. Þar er af mörgu að taka allt frá því að hafa átt þess kost að hlusta á fræðileg erindi  færustu íslensku- og bókmenntafræðinga þjóðarinnar, gera Möllersæfingar undir stjórn Valdimars Örnólfssonar,  hýsa námskeið ferðaþjónustuaðila á svæðinu til að styrkja samstöðuna og blása til sóknar,  taka á móti yfir 100 Skaftfellingum og hlýða á söng Skaftfellingakórsins, leiða útlendinga um sýninguna og segja þeim sögu héraðsins o.s.frv. Mér er minnisstætt að til mín kom í sumar miðaldra kona frá Ísafirði, sem talaði um umhverfið á Hala eins og heimamaður, þekkti tindana þrjá, Gerðistind, Fosstorfutind og Kvennaskálatind,  Þetta vakti undrun mína og ekki síst þegar hún spurði mig og benti austur eftir túninu á Hala,, Segðu mér eitt, er þetta ekki annars Gerðislágin????. Gerðislágin  er lægð vestan við gamla bæinn á Gerði, þar átti hann Grái tudd,i afturgangan frá Reynivöllum að hafa sést á undan gestum frá Reynivöllum..Þá gat ég ekki orða bundist og spurði konuna hvort að hún hefði einhvern tíma dvalið hér í Suðursveit. Nei hún hafði aldrei komið áður að Hala, en hún hafði  lesið Suðusveitarbækur Þórbergs. ,, Ég hef lesið Þórberg", sagði hún.

Tengingar verkefnis um Þórbergssetur eru miklu víðtækari en mig hafði órað fyrir og það sem hefur komið mér mest á óvart er að ungt fólk hefur sýnt verkefninu mikinn áhuga og er að lesa bækur Þórbergs. Sem dæmi um það má nefna tölvubréf sem mér barst eftir gestakomu í Þórbergssetur á haustdögum, þar sem ung kona lýsir reynslu sinni af samskiptum við afa sinn og föður sinn sem kenndu henni esperantó og lásu fyrir hana bækur Þórbergs frá fimm ára aldri. Hún lýsti því skemmtilega hvernig hún hafði haldið sem barn að Sobeggi afi væri alvöruafi hennar, og hversu oft hann var til umræðu á heimilinu, Oft hefði hún hugsað með sér,, Hvernig ætli Sobeggi afi hefði nú orðað þetta."

Kæru Skaftfellingar, ég ítreka þakklæti fyrir þann mikla heiður sem felst í því að Þórbergssetur fái menningarverðlaun Hornafjarðar árið 2007 og bið ykkur samtímis að hugsa til þess öfluga samstarfs sem að baki liggur.
,, Gula hlaðan" á Hala hefur fengið nýtt hlutverk sem bókhlaða er hýsir starfsemi Þórbergsseturs og er tímanna tákn um breytta atvinnuhætti til sveita. En Þórbergssetur er ekki bara rithöfundasetur til minningar um einn mann,  verk Þórbergs kalla á miklu víðari skírskotun. Allt héraðið er sögusvið bóka hans og honum tókst betur en nokkrum öðrum að kalla fram sérkenni íslenskrar alþýðumenningar með verkum sínum. Áskorun Þórbergsseturs er að svara ákallinu í verkum hans og halda  áfram að draga fram sérkenni heimabyggðar, að bjarga menningarverðmætum frá glötun, að færa þekkingu fortíðar inn í framtíðina, að lifa með landinu og reyna,, að hægja á ferðinni um stund og siðla um göturnar undir Steinafjalli, og  hlusta á veðrið og blómin og heyra steinana tala á ný"
                                Þorbjörg Arnórsdóttir Hala

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 129
Gestir þennan mánuð: ... 4648
Gestir á þessu ári: ... 22672