Skip to main content

Jarðhiti á Hala

Borarar012Loksins tókst að mæla hitann í borholunni við Helghól sem lokið var við að bora í janúar 2006. Það er úr þessari holu sem nú er verið að dæla 63 gráðu heitu vatni til upphitunar í Þórbergssetri. Borholan er 633 metra djúp og á því dýpi mældist botnhiti 93,1 gráða. Þetta kom reyndar ekki á óvart þar sem efnahiti holunnar benti til að þarna væri að finna um 100 gráðu heitt vatn. Til samanburðar má geta þess að Gerðistindur fyrir ofan Hala er samkvæmt landakorti Landmælinga Íslands árið 1975  um 729 metra hár. og gefur það vísbendingu um hversu langt ofan í jörðina holan nær.

Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur sem hefur haft umsjón með jarðhitaleit á Hala segir að þarna sé heitasta hola sem boruð hefur verið á Austurlandi eða jafnvel á þeim svæðum sem skilgreind hafa verið sem köld svæði. Ljóst er að ekki er þó búið að hitta á aðalvatnsæðina því aðeins eru að koma um 3 sekúndulítrar úr þessari holu. Allt bendir til að þarna sé um töluvert magn af  vatni að ræða þar sem vísbendingar um heita vatnið höfðu áður fundist á stóru svæði.

Það er mikill áfangi að hafa náð upp svo heitu vatni og fá þar með staðfest að öll sú vinna og fjármunir er farið hafa í rannsóknir á svæðinu muni skila árangri. Vatnið úr þessari holu dugir fyrir alla bæi á Breiðabólsstaðartorfunni, en ef að yrði farið í frekari lagnir um sveitina yrði að bora aðra vinnsluholu. Hátt hitastig vatnsins gefur möguleika á að leiða vatnið í næstu byggðalög og til frekari nýtingar jarðhitans við atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Það veltur þó fyrst og fremst á áhuga og atorku íbúanna. Suðursveit er nú að verða eitt af fjölsóttustu ferðamannasvæðum á landinu með  Jökulsárlón og ferðir á Vatnajökul sem aðalaðdráttaraflið, en einnig  fjölbreytta gistimöguleika og afþreyingu eins og Þórbergssetur og merktar gönguleiðir um stórbrotna náttúru, þar sem sagan bíður við hvert fótmál. Mikilvægt er að nýta jarðhitann til frekari styrkingar atvinnulífs og eflingu byggðar og freista þess að byggja upp störf sem styrkt gætu heilsársbúsetu á svæðinu. 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 27
Gestir þennan mánuð: ... 5139
Gestir á þessu ári: ... 23163