Skip to main content

Opnunarhátíð Þórbergsseturs 30. júní

Föstudaginn 30. júní 2006, verður Þórbergssetur á Hala í Suðursveit opnað við hátíðlega athöfn. Fjölmörgum er boðið að taka þátt í opnunardagskránni, þar á meðal ráðherrum, þingmönnum kjördæmisins, samstarfsaðilum og fjölmörgum velunnurum verkefnisins. Meðal annars mætir hópur nemenda Háskóla Íslands sem sat málstofu um Þórberg síðastliðinn vetur ásamt Bergljótu S. Kristjánsdóttur lektor við Háskóla Íslands sem stjórnaði málstofunni . Einnig er fjölmörgum Skaftfellingum boðið til dagskrár þar á meðal öllum ferðaþjónustuaðilum á svæðinu. Dagskráin verður með hefðbundnu sniði, ávörp gesta og heimamanna, karlakórinn Jökull syngur lög við ljóð Þórbergs, Jón Hjartarson og Ragnheiður Steindórsdóttir leikarar lesa úr verkum skáldsins og síðan verða opnaðar tvær sýningar í sýningarsölum setursins. Óhætt er að fullyrða að ýmislegt óvænt mun mæta gestum við opnun sýningar í vestri sal en það hefur verið haldið mikilli leynd yfir þeirri sýningu allt til opnunardags.
Laugardaginn 1. júlí verður Þórbergsetur síðan opnað almenningi og verður eftir það opið allt árið um kring sem viðkomustaður ferðalanga sem eiga leið framhjá.
Sunnudaginn 2. júlí er öllum Austur Skaftfellingum boðið að koma í heimsókn og njóta þess að skoða setrið og sýningarnar þar endurgjaldslaust.
Það er von þeirra sem staðið hafa að uppbyggingu Þórbergsseturs að það megi auðga atvinnulíf og menningarlíf í Austur Skaftafellssýslu og auka á fjölbreytni í afþreyingu fyrir ferðafólk á svæðinu. Framundan eru spennandi tímar í mótun starfsemi setursins og  að þróa samstarf við rithöfundasetrin á Gljúfrasteini og Skriðuklaustri.

Stjórn Þórbergsseturs vonar að sem flestir Skaftfellingar leggi leið sína að Hala í Suðursveit um helgina og njóti opnunarhelgarinnar með okkur jafnframt því að skemmta sér konunglega á humarhátíð á Höfn.
Gleðilega hátíð.
 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 163
Gestir þennan mánuð: ... 9036
Gestir á þessu ári: ... 17076