Skip to main content

Loksins kom vetur

Það hefur verið rysjótt tíðarfar í Suðursveit síðan um áramót.Ýmist rigningarhraglandi eða útsynningsél, stöku sinnum snjókoma í stutta stund og mikill snjór og klaki voru á jörðu þannig að göngufæri hefur verið afleitt. En föstudaginn 20. janúar rétt í þann mund er þorri heilsaði bændum í Suðursveit, hlýnaði og hlánaði og á einum sólarhring hvarf snjór og klaki að mestu, enda sunnan átt og 7 - 8 stiga hiti ásamt verulegri úrkomu. Hafnarmenn blótuðu þorra þessa helgi og síðan verður hvert þorrablótið á fætur öðru í sveitarfélaginu með tilheyrandi hákarli og hrútspungum, glensi og gamni. Ferðamenn hafa sést á róli og um helgina gistu Svisslendingar og Ameríkani á Hala Létu þau hálkuna ekki aftra sér að keyra hingað austur til að sjá Jökulsárlón og vonuðust einnig eftir að vera svo heppin að sjá norðurljósin dansa um himinhvolfið. Því miður rigndi allan tímann sem þau voru, en þau höfðu áður ferðast til Lapplands og Norður Noregs í sömu erindagjörðum, en höfðu ekki heppnina með sér þar heldur.Gaman hefði verið að geta boðið þeim í göngutúr á ísilögðu Breiðabólsstaðarlóni, en því miður var ísinn ekki nægilega tryggur. Þau glöddust mjög yfir að sjá heita vatnið renna í fiskikarið sem heimamenn baða sig í annað slagið, en ekki leist þeim nú á að dýfa sér ofan í. Hitinn á vatninu upp úr holunni er nú 56 - 57 gráður í lítilli dælingu þannig að blanda þarf vatnið í fiskikarið til að hafast við ofan í því. Næsta vetur verða komnir heitir pottar við gistiheimilið á Hala og okkur dreymir því um betri tíð og alvöruvetur þar sem hægt verður að renna sér á skautum á ísilögðu Breiðabólsstaðarlóni, baða sig síðan í heitum potti og njóta endurvarps tunglsljóss frá Öræfajökli og norðurljósanna á himninum. Þá hlýtur að takast að endurvekja stemningar og hljóma rökkuróperunnar í Suðursveit á ný. 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 129
Gestir þennan mánuð: ... 4648
Gestir á þessu ári: ... 22672